Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

785/2007

Reglugerð um heilbrigðisumdæmi. - Brottfallin

I. KAFLI

Almennt.

1. gr.

Markmið og tilgangur.

Tilgangur með skiptingu landsins í heilbrigðisumdæmi er að leggja grunn að skipulagi almennrar heilbrigðisþjónustu í því skyni að efla og bæta þjónustuna og tryggja lands­mönnum jafnan aðgang að henni.

2. gr.

Heilbrigðisstofnanir í heilbrigðisumdæmum.

Í hverju heilbrigðisumdæmi eins og þau eru afmörkuð í reglugerð þessari skal starfrækt heilbrigðistofnun eða heilbrigðisstofnanir sem veita almenna heilbrigðisþjónustu í umdæminu. Með almennri heilbrigðisþjónustu er átt við heilsugæslu, þjónustu og hjúkrun á hjúkrunarheimilum og hjúkrunarrýmum stofnana og almenna sjúkrahúsþjónustu.

3. gr.

Samráðsnefndir heilbrigðisumdæma.

Í heilbrigðisumdæmum þar sem starfræktar eru tvær eða fleiri heilbrigðisstofnanir, sem veita almenna heilbrigðisþjónustu skal starfa samráðsnefnd um skipulag heilbrigðis­þjónustunnar í umdæminu.

Aðild að samráðsnefnd eiga forstjórar heilbrigðisstofnana sem veita almenna heilbrigðis­þjónustu í umdæmi og reknar eru af ríkinu, sveitarfélagi eða samkvæmt samningi við ríkið. Forstjóri stærstu heilbrigðisstofnunar umdæmis kallar til fyrsta fundar samráðs­nefndarinnar forstjóra heilbrigðisstofnana og skulu þeir kjósa formann úr sínum hópi. Samráðs­nefnd getur kallað til faglega yfirstjórnendur eftir þörfum. Samráðsnefnd skal kalla til fulltrúa hjúkrunarheimila þegar fjallað er um málefni þeirra.

Innan samráðsnefnda skal m.a. hafa samráð um:

 1. skipulag heilsugæslu í umdæminu með það að markmiði að tryggja öllum íbúum aðgengi að heilsugæslu í heimabyggð og að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga;
 2. skipulag hjúkrunarþjónustu í heimahúsum, hjúkrunarrýmum stofnana og á hjúkrunar­heimilum með það að markmiði að allir íbúar í umdæminu eigi kost á fullnægj­andi hjúkrunarþjónustu í samræmi við þarfir sínar;
 3. skipulag almennrar sjúkrahúsþjónustu í umdæminu.

Samráðsnefndir heilbrigðisumdæma skulu fyrir lok mars ár hvert gefa ráðherra skýrslu um skipulag almennrar heilbrigðisþjónustu í umdæminu og störf nefndarinnar á liðnu ári.

Komi upp ágreiningur milli heilbrigðisstofnana um skipulag almennrar heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisumdæmi sker ráðherra úr.

Ráðherra setur samráðsnefndum heilbrigðisumdæma starfsreglur.

4. gr.

Aðgengi.

Þrátt fyrir skiptingu landsins í heilbrigðisumdæmi skulu sjúklingar jafnan eiga rétt á að leita til þeirrar heilbrigðisstofnunar sem þeir eiga auðveldast með að ná til hverju sinni.

5. gr.

Heilbrigðisumdæmi.

Landinu skal skipt í eftirfarandi heilbrigðisumdæmi:

 1. Heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins.
 2. Heilbrigðisumdæmi Vesturlands.
 3. Heilbrigðisumdæmi Vestfjarða.
 4. Heilbrigðisumdæmi Norðurlands.
 5. Heilbrigðisumdæmi Austurlands.
 6. Heilbrigðisumdæmi Suðurlands.
 7. Heilbrigðisumdæmi Suðurnesja.

II. KAFLI

Heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins.

6. gr.

Umdæmismörk.

Heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins nær yfir sveitarfélögin Hafnarfjarðarkaupstað, Garðabæ, Kópavogsbæ, Sveitarfélagið Álftanes, Reykjavíkurborg, Seltjarnarnes­kaupstað, Mosfellsbæ, Kjósarhrepp og fyrrum sveitarfélagið Þingvallasveit.

7. gr.

Heilbrigðisstofnanir í umdæmi.

Í heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins skulu eftirfarandi heilbrigðisstofnanir sem ríkið rekur veita almenna heilbrigðisþjónustu, þ.e. heilsugæslu, almenna sjúkrahús­þjónustu og hjúkrunarþjónustu, eftir því sem við á og að því marki sem sveitar­félögum eða öðrum aðilum hefur ekki verið falið að veita þjónustuna samkvæmt lögum eða með samningum við ríkið, sbr. ákvæði VII. kafla laga um heilbrigðisþjónustu:

 1. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins.
 2. Landspítalinn.
 3. St. Jósefsspítali - Sólvangur.

III. KAFLI

Heilbrigðisumdæmi Vesturlands.

8. gr.

Umdæmismörk.

Heilbrigðisumdæmi Vesturlands nær yfir sveitarfélögin Akraneskaupstað, Hvalfjarðar­sveit, Skorradalshrepp, Borgarbyggð, Eyja- og Miklaholtshrepp, Snæfellsbæ, Grundar­fjarðar­bæ, Helgafellssveit, Stykkishólmsbæ, Dalabyggð, Reykhólahrepp, Bæjarhrepp, Strandabyggð, Kaldrananeshrepp, Árnesbyggð og Húnaþing vestra.

9. gr.

Heilbrigðisstofnanir í umdæmi.

Í heilbrigðisumdæmi Vesturlands skulu eftirfarandi heilbrigðisstofnanir sem ríkið rekur veita almenna heilbrigðisþjónustu, þ.e. heilsugæslu, almenna sjúkrahúsþjónustu og hjúkrunarþjónustu, eftir því sem við á og að því marki sem sveitarfélögum eða öðrum aðilum hefur ekki verið falið að veita þjónustuna samkvæmt lögum eða með samningum við ríkið, sbr. ákvæði VII. kafla laga um heilbrigðisþjónustu:

 1. Heilbrigðisstofnunin Akranesi.
 2. St. Franciskusspítali Stykkishólmi.
 3. Heilsugæslustöðin Búðardal.
 4. Heilsugæslustöðin Borgarnesi.
 5. Heilsugæslustöðin Grundarfirði.
 6. Heilsugæslustöðin Ólafsvík.
 7. Heilbrigðisstofnunin Hólmavík.
 8. Heilbrigðisstofnunin Hvammstanga.

IV. KAFLI

Heilbrigðisumdæmi Vestfjarða.

10. gr.

Umdæmismörk.

Heilbrigðisumdæmi Vestfjarða nær yfir sveitarfélögin, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhrepp, Ísafjarðarbæ, Bolungarvíkurkaupstað og Súðavíkurhrepp.

11. gr.

Heilbrigðisstofnanir.

Í heilbrigðisumdæmi Vestfjarða skulu eftirfarandi heilbrigðisstofnanir sem ríkið rekur veita almenna heilbrigðisþjónustu, þ.e. heilsugæslu, almenna sjúkrahúsþjónustu og hjúkrunarþjónustu, eftir því sem við á og að því marki sem sveitarfélögum eða öðrum aðilum hefur ekki verið falið að veita þjónustuna samkvæmt lögum eða með samningum við ríkið, sbr. ákvæði VII. kafla laga um heilbrigðisþjónustu:

 1. Heilbrigðisstofnunin Ísafjarðarbæ.
 2. Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði.
 3. Heilbrigðisstofnunin Bolungarvík.

V. KAFLI

Heilbrigðisumdæmi Norðurlands.

12. gr.

Umdæmismörk.

Heilbrigðisumdæmi Norðurlands eystra nær yfir sveitarfélögin Húnavatnshrepp, Blönduósbæ, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagaströnd, Sveitarfélagið Skagafjörð, Akrahrepp, Fjallabyggð, Grímseyjarhrepp, Dalvíkurbyggð, Arnarneshrepp, Hörgárbyggð, Eyjafjarðarsveit, Akureyrarkaupstað, Svalbarðsstrandarhrepp, Grýtubakkahrepp, Þingeyjarsveit, Aðaldælahrepp, Norðurþing, Tjörneshrepp, Skútustaðahrepp, Svalbarðs­hrepp og Langanesbyggð að frátöldum fyrrum Skeggjastaðahreppi.

13. gr.

Heilbrigðisstofnanir í umdæmi.

Í heilbrigðisumdæmi Norðurlands eystra skulu eftirfarandi heilbrigðisstofnanir sem ríkið rekur veita almenna heilbrigðisþjónustu, þ.e. heilsugæslu, almenna sjúkrahúsþjónustu og hjúkrunarþjónustu, eftir því sem við á og að því marki sem sveitarfélögum eða öðrum aðilum hefur ekki verið falið að veita þjónustuna samkvæmt lögum eða með samningum við ríkið, sbr. ákvæði VII. kafla laga um heilbrigðisþjónustu:

 1. Heilbrigðisstofnunin Blönduósi.
 2. Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki.
 3. Sjúkrahúsið á Akureyri.
 4. Heilsugæslustöðin á Akureyri.
 5. Heilbrigðisstofnun Þingeyinga.
 6. Heilbrigðisstofnunin Siglufirði.
 7. Heilsugæslustöðin Dalvík.
 8. Heilsugæslustöðin Ólafsfirði.

VI. KAFLI

Heilbrigðisumdæmi Austurlands.

14. gr.

Umdæmismörk.

Heilbrigðisumdæmi Austurlands nær yfir sveitarfélögin Vopnafjarðarhrepp, Fljótsdals­hérað, Fljótsdalshrepp, Borgarfjarðarhrepp, Seyðisfjarðarkaupstað, Fjarða­byggð, Breiðdalshrepp, Djúpavogshrepp og fyrrum Skeggjastaðahrepp.

15. gr.

Heilbrigðisstofnanir í umdæmi.

Heilbrigðisstofnun Austurlands veitir almenna heilbrigðisþjónustu, þ.e. heilsugæslu, almenna sjúkrahúsþjónustu og hjúkrunarþjónustu, í heilbrigðisumdæmi Austurlands að því marki sem sveitarfélögum eða öðrum aðilum hefur ekki verið falið að veita þjónust­una samkvæmt lögum eða með samningum við ríkið, sbr. ákvæði VII. kafla laga um heilbrigðisþjónustu.

VII. KAFLI

Heilbrigðisumdæmi Suðurlands.

16. gr.

Umdæmismörk.

Heilbrigðisumdæmi Suðurlands nær yfir Sveitarfélagið Ölfus, Hveragerðisbæ, Grímsnes- og Grafningshrepp, Bláskógabyggð að frátöldu fyrrum sveitarfélaginu Þingvallasveit, Hruna­manna­hrepp, Sveitarfélagið Árborg, Flóahrepp, Ásahrepp, Skeiða- og Gnúpverja­hrepp, Rangárþing ytra, Rangárþing eystra, Mýrdalshrepp, Skaftárhrepp, Sveitar­félagið Hornafjörð og Vestmannaeyjabæ.

17. gr.

Heilbrigðisstofnanir í umdæmi.

Í heilbrigðisumdæmi Suðurlands skulu eftirfarandi heilbrigðisstofnanir sem ríkið rekur veita almenna heilbrigðisþjónustu, þ.e. heilsugæslu, almenna sjúkrahúsþjónustu og hjúkrunarþjónustu, eftir því sem við á og að því marki sem sveitarfélögum eða öðrum aðilum hefur ekki verið falið að veita þjónustuna samkvæmt lögum eða með samningum við ríkið, sbr. ákvæði VII. kafla laga um heilbrigðisþjónustu:

 1. Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
 2. Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja.
 3. Heilbrigðisstofnun Suðausturlands.

VIII. KAFLI

Heilbrigðisumdæmi Suðurnesja.

18. gr.

Umdæmismörk.

Heilbrigðisumdæmi Suðurnesja nær yfir sveitarfélögin Sandgerðisbæ, Sveitarfélagið Garð, Reykjanesbæ, Grindavíkurbæ og Sveitarfélagið Voga.

19. gr.

Heilbrigðisstofnanir í umdæmi.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja veitir almenna heilbrigðisþjónustu, þ.e. heilsugæslu, almenna sjúkrahúsþjónustu og hjúkrunarþjónustu, í heilbrigðisumdæmi Suðurnesja að því marki sem sveitarfélögum eða öðrum aðilum hefur ekki verið falið að veita þjónust­una samkvæmt lögum eða með samningum við ríkið, sbr. ákvæði VII. kafla laga um heilbrigðisþjónustu.

IX. KAFLI

Gildistaka.

20. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 5. og 6. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, og öðlast þegar gildi.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 30. ágúst 2007.

Guðlaugur Þór Þórðarson.

Davíð Á. Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica