Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

781/2001

Reglugerð um útleigu loftfara.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til útleigu skráðra loftfara í atvinnuskyni án flugliða. Hún tekur þó ekki til starfsemi kaupleigu- og fjármögnunarfyrirtækja né leigusamninga handhafa rekstrarleyfa til flutningaflugs og verkflugs, enda gilda sérreglur þar um.

2. gr. Umsókn.

Hver sá sem reka vill útleigu á loftförum án flugmanns, þarf til þess leyfi Flugmálastjórnar Íslands og skal beina umsókn um slíkt leyfi til stofnunarinnar, með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara. Í umsókn skulu a.m.k. eftirfarandi upplýsingar koma fram:

  1. Nafn, kennitala, heimilisfang og símanúmer umsækjanda. Gera skal jafnframt grein fyrir starfsstöð umsækjanda með sama hætti.
  2. Ef um félag er að ræða skal tilgreina félagsform og skiptingu eignaraðildar. Ef eignaraðild er erlend skal sérstök grein gerð fyrir því. Hlutafé skal greina sé um slíkt félag að ræða og hver hluti þess sé innborgaður svo og nöfn stjórnarmanna. Einnig skal koma fram hvort umsækjandi hefur annan atvinnurekstur með höndum og þá hvaða.
  3. Lýsing á fyrirhuguðum rekstri, stjórn og fyrirkomulagi á viðhaldi loftfara.
  4. Nafn tilnefnds ábyrgðarmanns, rekstrarstjóra og tæknistjóra, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar þessarar.
  5. Hversu mikið fjármagn er handbært til reksturs loftfaraleigu, ásamt gagngerum upplýsingum og útreikningum um rekstrargrundvöll næstu tvö ár bæði með starfsáætlunum og fjárhagsáætlunum svo sem kveðið er á um í 4. mgr. 3. gr. reglugerðar þessarar.
  6. Gera skal grein fyrir þeim loftförum sem umsækjandi hyggst leigja út og færa sönnur á umráðarétt yfir þeim ef umsækjandi er ekki skráður eigandi þeirra.

3. gr. Skilyrði leyfis.

Hjá umsækjanda skulu starfa einstaklingar sem Flugmálastjórn hefur viðurkennt sem:

  1. ábyrgðarmann fyrir rekstri,
  2. rekstrarstjóra og
  3. tæknistjóra.

Sé umfang rekstrar takmarkað má sami einstaklingur gegna öllum þessum trúnaðarstöðum gagnvart stofnuninni. Um hæfni, starfssvið og ábyrgð fer skv. almennum reglum um flutningaflug, að teknu tilliti til umfangs. Rekstrarstjóra og tæknistjóra er óheimilt að hefja störf fyrr en viðurkenning Flugmálastjórnar er fengin. Sama gildir um staðgengla þeirra. Flugmálastjórn Íslands skal heimilt að áskilja að ofangreindir aðilar undirgangist sérstakt próf hjá stofnuninni til að sanna hæfni sína.

Loftförum skal viðhaldið skv. sömu reglum og gilda um viðhald kennsluloftfara og er leigusali ábyrgur fyrir lofthæfi þeirra.

Fjárhagur umsækjanda skal vera í samræmi við almennar reglur um flugkennsluleyfi.

Leigusala skal skylt að kaupa og halda í gildi vátryggingum þeim sem mælt er fyrir um í loftferðalögum og reglugerð um skylduvátryggingu vegna loftferða.

4. gr. Starfsaðstaða.

Leigusali skal hafa flugumsjónarþjónustu sem Flugmálastjórn hefur viðurkennt. Flugumsjónarþjónusta skal hafa aðstöðu til handa leigutökum til að afla veðurupplýsinga og til gerðar leiðarflugáætlana að öllu leyti. Nauðsynlegar handbækur s.s. flugmálahandbók (allar deildir, þ.m.t. AIP) og upplýsingabréf um flugmál (AIC) skulu vera þar til staðar. Þar skulu og tiltækar upplýsingar um eldsneytisáfyllingu og eldsneytiseyðslu leiguloftfara. Um borð í loftförum skulu auk skráningarbóka, handbóka og gátlista sem þeim tilheyra, vera framangreindar eldsneytisupplýsingar og handbók með kortum til sjónflugs.

5. gr. Sérstakar skyldur leigusala.

Leigusala ber að ganga úr skugga um að loftfarið sé í lofthæfu ástandi við útleigu.

Leigusali skal halda eftir skriflegri staðfestingu leigutaka þess efnis að hann þekki og virði flugreglur og hann þekki að- og fráflugsleiðir þeirra flugvalla sem nota þarf.

Leigusamningur skal gerður skriflega á fyrirfram tölusett eyðublöð, a.m.k. í tvíriti og er leigusala skylt að varðveita annað eintakið í tölusettri röð og framvísa við Flugmálastjórn fari stofnunin fram á það. Í leigusamningi skal skrásetningarmerki og númer hins leigða loftfars koma fram og að framleiga þess sé bönnuð sem og að fela öðrum stjórn þess, en þeim sem skráður er flugmaður skv. leigusamningi. Í leigusamningi skal jafnframt koma fram upphaf og lok leigutíma miðað við dag og klukkustund. Sérstaklega skal tekið fram í leigusamningi það sem máli skiptir um vátryggingu loftfarsins gagnvart leigutaka og þriðja manni. Leigusali skal varðveita leigusamning í að minnsta kosti tvö ár frá undirritun hans.

Leigusala ber að sjá til þess að fartímar og ferðir séu réttilega skráðar í bækur loftfarsins. Leigusamningur skal ávallt vera í loftfarinu meðan á leigutíma stendur.

Loks skulu skyldur leigutaka koma fram í leigusamningi bresti lofthæfi loftfarsins á leigutímanum.

6. gr. Leigutaki.

Þeim einum sem hefur tilskilin réttindi til að stjórna loftfari því sem leigt er skal heimilt að taka það á leigu. Leigusala skal þó heimilt að gera leigusamning við einstakling sem ekki hefur tilskilin réttindi til að stjórna loftfarinu, enda tilnefni hann flugmann í leigusamningi sem hefur tilskilin réttindi. Sama gildir sé leigutaki félag eða annar lögaðili. Númer og gildistími skírteinis auk áritana flugmanns skal koma fram í leigusamningi. Skírteini skal útgefið eða viðurkennt af Flugmálastjórn Íslands fyrir hlutaðeigandi loftfar.

Leigutaki skal á meðan á leigutíma stendur sjá til þess að loftfar hafi ferðbundið lofthæfi og flug undirbúið og framkvæmt samkvæmt gildandi reglum.

Leigutaka er óheimilt að nota loftfarið til flutnings farþega gegn greiðslu, lána það eða framleigja.

7. gr. Gildistími leyfis o.fl.

Fyrsta leyfi til þessarar starfsemi skal ekki gefið út til lengri tíma en eins árs, en eftir það er heimilt að gefa það út til allt að fimm ára. Óski leyfishafi endurnýjunar skal hann leggja inn umsókn a.m.k. mánuði áður en fyrra leyfi rennur út.

Bresti forsendur leyfisveitingar, vegna athafna eða athafnaleysis af hálfu leigusala, skal Flugmálastjórn stöðva starfsemi hans þar til úrbætur hafa verið ráðnar. Er stofnuninni heimilt að fella leyfi tímabundið úr gildi til bráðabirgða, þar til í ljós er leitt hvort stofnun telur efni til að fella leyfi endanlega úr gildi.

8. gr. Refsiákvæði.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt ákvæðum 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998.

9. gr. Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi sem sett er með heimild í 145. gr. sbr. IX. kafla laga um loftferðir nr. 60/1998, öðlast þegar gildi. Þeir aðilar sem annast útleigu loftfara í atvinnuskyni við gildistöku reglugerðar þessarar á grundvelli útgefinna flugkennsluleyfa skulu uppfylla ákvæði reglugerðar þessarar og afla sér starfsleyfis fyrir 1. desember 2001.

Samgönguráðuneytinu, 16. október 2001.

Sturla Böðvarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.