Leita
Hreinsa Um leit

Samgönguráðuneyti

780/2006

Reglugerð um fis.

1. gr.

Orðskýringar.

Fis (microlight) er loftfar sem hefur ekki fleiri en tvö sæti og hefur ofrishraða í lendingar­ham (VSO) að hámarki 35 hnúta (65 km/klst.) sýndan hraða leiðréttan (CAS) og hámarksflugtaksmassa sem er ekki hærri en:

300 kg fyrir landfis (landplane) með einu sæti, eða
450 kg fyrir landfis með tveimur sætum, eða
330 kg fyrir láðs og lagar fis (amphibian) eða fis á flotum (floatplane) með einu sæti,
eða
495 kg fyrir láðs og lagarfis eða fis á flotum með tveimur sætum að því tilskyldu að hægt sé að nota fisið bæði sem fis á flotum og sem landfis þannig að það sé innan marka beggja flokka hvað varðar hámarksflugtaksmassa, eins og við á.

Hreyfillaust loftfar sem er léttara en 70 kg telst til fisa án hreyfils. Hreyfilknúið loftfar sem er léttara en 70 kg og flugtak er af fæti telst til fisa án hreyfils. Fallhlífar (parachutes) teljast ekki til fisa.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi skal gilda um allt fisflug á Íslandi innan íslenskrar lofthelgi.

3. gr.

Starfræksla.

Til þess að starfrækja íslenskt fis innan íslenskrar lofthelgi skal stjórnandi hreyfilknúins fiss vera félagsmaður í fisfélagi sem hlotið hefur viðurkenningu Flugmálastjórnar Íslands og hreyfilknúið fis skráð í fisskrá slíks félags.

Þó skal Flugmálastjórn Íslands vera heimilt að gefa út tímabundið leyfi, að hámarki til 90 daga, til erlends aðila, enda hafi hann hlotið sambærilega þjálfun, að mati Flugmála­stjórnar, og íslenskur fisflugmaður.

Flug erlendra hreyfilknúinna fisa innan íslenskrar lofthelgi skal einungis heimilt samkvæmt fyrirfram leyfi Flugmálastjórnar Íslands. Slíkt leyfi er einungis veitt ef fis uppfyllir skilyrði 7., 8., 9. og 11. gr. reglugerðar þessarar og lögbundnar vátryggingar eru fyrir hendi.

4. gr.

Viðurkennd fisfélög.

Fisfélög skulu ekki rekin í hagnaðarskyni. Aðild að fisfélagi skal opin einstaklingum sem vilja eiga eða starfrækja fis og uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í samþykktum félags­ins eða samtakanna.

Sækja skal um viðurkenningu fisfélags til Flugmálastjórnar Íslands. Í umsókn skal greina nákvæmar upplýsingar um eftirgreind atriði:

 1. Nafn umsækjanda, heimilisfang, kennitala og símanúmer.
 2. Þjóðerni umsækjanda, félagaform og nöfn stjórnenda. Sé um hlutafélag að ræða skal greina hluti og nöfn stjórnarmanna. Sé eignaraðild að hluta erlend skal sérstök grein gerð fyrir henni. Einnig skal gerð grein fyrir hverskonar atvinnurekstri sem umsækjandi kann að hafa með hendi.
 3. Skipulag fyrirhugaðrar fisflugskennslu, skráningu fisa og innra eftirlit og gerð skal grein fyrir hæfni tilnefnds þjálfunar- og tæknistjóra, flugkennara, og skoðunarmanna til að taka þessi störf að sér.
 4. Stofnreglur félagsins og/eða félagssamþykktir.
 5. Gera skal grein fyrir þeim fisum sem nota skal við kennslu og eigna- eða umráðarétti þeirra.

Með umsókn skulu ennfremur eftirfarandi gögn fylgja:

 1. Handbók flugkennslu- og þjálfunar sem ennfremur skal háð samþykki Flugmálastjórnar. Flugkennslu- og þjálfunarhandbók skal lýsa eftirfarandi:
  1. skipulagi við skráningu hreyfilknúins fiss og útgáfu flughæfnisskírteinis og skoðanir og eftirlit;
  2. skipulagi kennslu og þjálfunar;
  3. starfsreglum við samþykkt kennara og prófdómenda;
  4. starfsreglum við samþykkt skoðunarmanna;
  5. öðrum starfsreglum sem fylgja skulu.
 2. Staðfesting á lögbundnum vátryggingum.
 3. Tilnefning þjálfunar- og tæknistjóra sem ábyrgð ber á kennslu, prófum, skráningu, eftirliti og skoðunum fisa. Tilnefning er háð samþykki Flugmálastjórnar Íslands og telst þjálfunar- og tæknistjóri sérstakur trúnaðarmaður stofnunarinnar til starfrækslu viðurkennds fisfélags.

5. gr.

Viðurkenning.

Þegar umsókn ásamt öllum þeim gögnum sem krafist er að fylgi berast Flugmálastjórn fer stofnunin yfir hana og gerir úttekt á væntanlegri starfsemi. Viðurkenningu Flugmála­stjórnar má binda þeim takmörkunum sem Flugmálastjórn telur nauðsynleg hverju sinni. Telji Flugmálastjórn að forsendur bresti til viðurkenningar á trúnaðarmanni og/eða starfsemi félagsins að einhverju leyti er Flugmálastjórn heimilt að afturkalla viðurkenningu sína til bráðabirgða eða að öllu leyti telji það grundvöll starfrækslu félags eða samtaka brostinn að verulegu leyti.

6. gr.

Skráning fisa.

Öll hreyfilknúin fis sem starfrækt eru innan íslenskrar lofthelgi skulu skráð í fisskrá viður­kennds fisfélags. Skrásetja skal hreyfilknúin fis samkvæmt skriflegri umsókn eiganda þess. Umsókn skal geyma skýrslur sem nauðsynlegar eru til skrásetningar og henni skulu fylgja skilríki fyrir því að umsækjandi sé eigandi fissins, hvernær og af hverjum það er smíðað, ásamt gögnum um flughæfni fiss og yfirlýsingu um lögbundnar vátryggingar. III. kafli laga um loftferðir nr. 60 10. júní 1998 um skráningu loftfara skal eiga við um skráningu fisa eins og við á.

Hreyfilknúið fis skal bera skrásetningarmerki fisfélagsins sem skráði það. Skrásetningar­merki fisfélaga er úthlutað af Flugmálstjórn Íslands. Fylgja skal reglum um þjóðernis- og skrásetningarmerki íslenskra loftfara, sbr. auglýsingu nr. 176/1983, við skrásetningu og merkingu fisa eins og við á.

7. gr.

Flughæfni fisa.

Aðeins má starfrækja hreyfilknúið fis sem hlotið hefur gilt flughæfniskírteini frá fisfélagi sem hlotið hafa viðurkenningu Flugmálastjórnar. Gildistími flughæfnisskírteinis skal að hámarki vera 1 ár.

Við umsókn flughæfnisskírteinis skulu eftirfarandi upplýsingar fylgja:

 1. Skýrsla skoðunarmanns fisfélags á fisinu. Greinargóð lýsing á fisinu.

Flughæfnisskírteini fellur úr gildi þegar:

 1. Eigendaskipti verða á fisinu.
 2. Fisið skemmist eða bilar verulega.
 3. Fisinu er breytt eða eiginleikum þess breytt.
 4. Ef Flugmálstjórn Íslands eða viðurkennt fisfélag kveður á um að fisið sé ekki lengur öruggt til starfrækslu.
 5. Ef lögbundnar vátryggingar falla úr gildi.
 6. Ef fisið hefur ekki verið skoðað af skoðunarmönnum viðurkenndra fisfélaga í samræmi við flugkennslu- og þjálfunarhandbók þess.

Flughæfnisskírteini sem fellur úr gildi skal lagt inn til fisfélags innan mánaðar frá því að það féll úr gildi. Ógilding helst uns bætt hefur verið úr ágöllum þeim sem um er að ræða.

Fisfélagi skal heimilt að setja sérstök skilyrði um starfrækslu fiss í flughæfnisskírteini fissins.

8. gr.

Lágmarksbúnaður fisa.

Hreyfilknúin fis skulu hafa lágmarksbúnað framleiðanda samkvæmt handbók fiss, tilmælum framleiðanda eða öðrum gögnum. Hreyfilknúin fis skulu sérstaklega merkt á áberandi stað með eftirfarandi texta: ÞETTA LOFTFAR UPPFYLLIR EKKI SKILYRÐI LOFTHÆFIS. Skilti þetta skal staðsett á áberandi stað fyrir stjórnanda fiss og farþega.

9. gr.

Viðhald fisa.

Eigandi eða umráðamaður fiss er ábyrgur fyrir viðhaldi fiss og flughæfni þess samkvæmt reglugerð þessari og nánari fyrirmælum viðurkennds fisfélags sem hann er aðili að.

Viðurkennt fisfélag hefur eftirlit með því að skráð hreyfilknúin fis séu flughæf og sér um eftirlit og skoðun eftir því sem þörf krefur. Flugmálastjórn Íslands skal ætíð heimill aðgangur að fisi, viðhaldsaðstöðu eða stöð þess og viðurkenndu fisfélagi eða samtökum til að rannsaka fis og skjöl er það varða.

Hver sá sem á eða notar fis skal sanna að fisið uppfylli kröfur þessarar reglugerðar, sé þess krafist.

10. gr.

Upplýsingagjöf og kæruréttur.

Upplýsingar um allar ákvarðanir viðurkennds fisfélags varðandi skráningu fisa, flughæfni fisa, niðurstöður í lok þjálfunar og prófa til fisflugmannsskírteinis, kennararéttinda, próf­dómenda og skoðunarmanna, viðhald og niðurstöður skoðana, skulu afhentar Flugmála­stjórn Íslands svo fljótt sem auðið er.

Allar ákvarðanir viðurkennds fisfélags samkvæmt 1. mgr. er heimilt að leggja til úrskurðar Flugmálastjórnar Íslands skv. ákvæðum stjórnsýslulaga.

11. gr.

Takmarkanir á fisflugi.

Fis skal einungis ætlað eða notað til skemmtunar eða íþrótta. Óheimilt er að fljúga fisi í atvinnuskyni, til flutninga- og verkflugs, né til annarra starfa nema kennslu og þjálfunar og próftöku. Óheimilt er að fljúga fisi með hættulegan varning.

12. gr.

Refsing.

Brot á reglugerð þessari varða refsingu samkvæmt 140. gr. laga nr. 60 10. júní 1998 um loftferðir ásamt síðari breytingum.

13. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með vísan til 145. gr., laga nr. 60 10. júní 1998 um loftferðir með síðari breytingum, kemur í stað reglugerðar 580/2001 um fis. Reglugerðin tekur strax gildi.

Samgönguráðuneytinu, 25. júlí 2006.

Sturla Böðvarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Reglugerð sem fellur brott:
Þetta vefsvæði byggir á Eplica