Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

762/2010

Reglugerð um námsorlof kennara og stjórnenda framhaldsskóla.

1. gr. Gildissvið og tilgangur.

Reglugerð þessi tekur til námsorlofs kennara, skólameistara og annarra faglegra stjórnenda framhaldsskóla sem starfað hafa í a.m.k. fimm ár við kennslu- eða stjórnunarstörf í framhaldsskóla.

Tilgangur námsorlofs er að veita þeim sem um það sækja tækifæri til að efla þekkingu sína og kennarahæfni.

Skólameistarar geta sótt um orlof í nafni skóla fyrir einstaka kennara til þekkingaröflunar eða þjálfunar sem skólinn leggur sérstaka áherslu á.

2. gr. Fyrirkomulag og nýting námsorlofs.

Námsorlof getur annars vegar falist í fullu leyfi frá störfum í allt að eitt ár eða lækkun á vinnuskyldu innan þeirra marka, og hins vegar í greiðslu mánaðarlauna í allt að eitt ár eða greiðslu hlutfalls þeirra sem svarar til lækkunar vinnuskyldu, ef um slíkt er að ræða. Um mánaðarlaun skólameistara fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs um mánaðarlaun án eininga.

Ef heimild er veitt til þess að nýta námsorlof til þess að stunda fjarnám við viðurkennda menntastofnun eða þjálfun, t.d. vegna tækniþróunar, án leyfis frá starfi eða lækkunar vinnuskyldu, er heimilt að veita styrk til slíks náms til að mæta útlögðum kostnaði, s.s. vegna skólagjalda og tiltekins ferðakostnaðar.

3. gr. Auglýsing og umsóknir.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið auglýsir eftir umsóknum um námsorlof eigi síðar en 1. september ár hvert og skulu umsóknir berast ráðuneytinu með rafrænum hætti eigi síðar en 1. október. Í umsókn skal m.a. taka fram eftirfarandi:

  1. hvernig umsækjandi hyggst verja námsorlofinu og hvernig ætlað er að það muni nýtast í starfi,
  2. upplýsingar um menntastofnun þar sem ráðgert er að stunda nám á orlofstíma. Sé ekki um reglulegt nám að ræða, heldur styttri námskeið, þjálfun eða annars konar námsdvöl, skal gera ítarlega grein fyrir tilhögun námsins,
  3. hvort umsækjandi hefur áður fengið námsorlof kennara,
  4. rökstuðningur skólameistara fyrir umsókn um leyfi til endurmenntunar einstakra kennara sem sótt er um orlof fyrir í nafni skóla, sbr. 3. mgr. 1. gr.,
  5. aðrar upplýsingar sem umsækjandi telur skipta máli.

Umsækjandi um námsorlof skal upplýsa skólameistara um umsókn sína.

Afgreiðsla umsókna vegna næsta skólaárs skal fara fram fyrir 15. desember ár hvert.

4. gr. Styrkir.

Heimilt er að veita þeim styrk sem hafa fengið námsorlof af fé því er veitt er til námsorlofa á fjárlögum hverju sinni. Styrkirnir eru ætlaðir til að standa straum af sérstökum kostnaði við að sækja og stunda námið, svo sem vegna ferðalaga, skólagjalda, húsnæðiskostnaðar og fleira.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið kynnir orlofsþegum styrkmöguleika og skulu umsóknir hafa borist ráðuneytinu fyrir 1. september vegna haustannar og fyrir 1. janúar vegna vorannar. Ljúka skal afgreiðslu styrkumsókna fyrir 1. október og 1. febrúar ár hvert.

5. gr. Meðferð umsókna og námsorlofsnefnd.

Mennta- og menningarmálaráðherra skipar þriggja manna námsorlofsnefnd sem gerir tillögur um úthlutun námsorlofa og styrkja skv. 2. og 4. gr. til ráðherra. Við meðferð umsókna skal nefndin leita umsagnar skólameistara og m.a. taka tillit til eftirfarandi:

  1. hvers konar nám umsækjandi hyggst stunda og hvernig það muni nýtast viðkomandi stofnun eða skólakerfinu í heild. Orlof skal fyrst og fremst veitt til náms sem tengist starfssviði umsækjanda,
  2. starfsaldurs umsækjenda sem sækja um í eigin nafni,
  3. eðlilegrar dreifingar milli skólastofnana, námsgreina, skólasvæða og kynja,
  4. rökstuðnings skólameistara fyrir umsókn um orlof fyrir einstaka kennara í nafni skóla, sbr. 3. mgr. 1. gr.

Námsorlofsnefnd skal þannig skipuð: Einn skal skipaður af mennta- og menningarmálaráðherra án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar, tveir skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Kennarasambands Íslands. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Skipunartímabil nefndarinnar er fjögur ár.

6. gr. Upplýsingar orlofsþega um nýtingu námsorlofs.

Innan sex mánaða frá því að námsorlofi lýkur skal orlofsþegi senda mennta- og menningarmálaráðuneytinu skýrslu um störf sín og nám á orlofstímanum. Skýrslan skal miðuð við að unnt sé að birta hana.

7. gr. Skýrsla um veitingu námsorlofa.

Að loknu hverju námsorlofsári skal námsorlofsnefnd taka saman skýrslu um veitingu námsorlofa. Í skýrslunni skulu m.a. koma fram upplýsingar um fjárveitingar til námsorlofa, styrkja og fjölda umsækjenda. Þá skal tilgreina nöfn þeirra er hlutu orlof, viðfangsefni þeirra á orlofstímanum, sérsvið þeirra eða kennslugrein, starfsreynslu og vinnustað. Skýrslan skal birt á vef ráðuneytis.

8. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 11. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 331/1997 um námsorlof framhaldsskólakennara.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 21. september 2010.

Katrín Jakobsdóttir.

Ásta Magnúsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.