Iðnaðarráðuneyti

754/2002

Reglugerð fyrir Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar.

1. gr.

Orkuveita Reykjavíkur og ríkissjóður eiga og reka saman fyrirtæki, sem nefnist Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar, skammstafað HAB, hér eftir nefnt hitaveitan.

Hitaveitan er stofnuð með samningi 23. mars 1979. Gerður var nýr samningur 8. desember 1995.

Hitaveitan er sjálfstæður réttaraðili og hefur sjálfstæðan fjárhag og reikningshald. Heimili hitaveitunnar og varnarþing er í Reykjavík.


2. gr.

Stjórnarfundir fara með æðsta vald í málefnum félagsins. Stjórn hitaveitunnar skal skipuð 3 mönnum sem tilnefndir eru af eigendum þess á aðalfundi. Stjórnin skiptir með sér verkum. Hún stýrir öllum málefnum hitaveitunnar milli aðalfunda, veitir prókúruumboð og gerir samninga fyrir hennar hönd. Stjórnin tekur ákvarðanir um breytingar á gjaldskrá sem samþykkt skal af iðnaðarráðherra hverju sinni. Skoðunarmenn hitaveitunnar og endurskoðandi skulu kjörnir á aðalfundi.


3. gr.

Verkefni hitaveitunnar er að virkja jarðhita svo og aðra orkugjafa og rekstur hitaveitu sem selur heitt vatn í heildsölu og í smásölu eftir því sem ákveðið kann að verða og hagkvæmt þykir. Í þessu skyni skal hitaveitan leita eftir samningum um borunar- og virkjunarrétt, bora eftir heitu vatni og virkja þegar hagkvæmt þykir, leggja veitukerfi og annast sölu á heitu vatni eða varma til notenda. Hitaveitunni er heimilt að reka og þjónusta hitaveitur fyrir aðra aðila svo sem Orkuveitu Reykjavíkur og skulu gjaldskrár þeirra veitna auglýstar á sama hátt og HAB.


4. gr.

Hitaveitunni er heimilt að setja í tengiskilmála ákvæði um lagningu heimæða og tengingu þeirra við húsveitur húseigenda. Húsveita sem tengist veitukerfi hitaveitunnar skal fullnægja kröfum sem settar eru í reglugerðum og tengiskilmálum.

Heimæðar ásamt tengigrind eru eign hitaveitunnar ef ekki er sérstaklega um annað samið og þótt tengigjald hafi verið greitt.

Nú eru sérstakir erfiðleikar á tengingu húss og getur hitaveitan þá ákveðið að húsið skuli tengt dreifikerfi þess með takmörkunum. Fullnægi húsveita ekki þeim skilyrðum sem sett eru í orkulögum, skipulagslögum, byggingarlögum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim, þá getur hitaveitan ákveðið að tengja hús með takmörkunum eða að hús sé ekki tengt.

Umsókn um heimæð eða breytingu á henni skal undirrituð af húseiganda er skuldbindur sig jafnframt til þess með undirskrift sinni að greiða tengigjald það sem kveðið er á um í gjaldskrá hitaveitunnar. Húseigandi ber kostnað við þær breytingar á heimæðum sem framkvæmdar eru að hans ósk. Þegar heimæð hefur verið tengd er tengigjald gjaldkræft.

Viðskiptavinur skal gæta þess að ekki sé hætta á að vatn frjósi í tengigrind eða inntaki og viðskiptavinur skal tryggja nægjanlegt rennsli til þess. Sé þess ekki kostur ber honum að tilkynna það hitaveitunni eins fljótt og auðið er, svo unnt sé að aftengja húsið. Kostnaður við það skal greiddur af viðskiptavini samkvæmt gjaldskrá.

Hitaveitan getur krafist breytinga á húsveitum eða sett skilyrði fyrir tengingu þeirra ef af þeim er bein slysahætta og ef tækjabúnaður eða virkni húsveitna hafa óæskileg áhrif á rekstur veitukerfa hitaveitunnar eða á nærliggjandi viðskiptavini. Sinni viðskiptavinur ekki kröfum hitaveitunnar um úrbætur er heimilt að stöðva orkuafhendingu.

Ef viðskiptavinur óskar eftir því að aftengjast dreifikerfinu um tíma, er heimilt að taka aukagjald samkvæmt gjaldskrá.


5. gr.

Komi til skömmtunar á heitu vatni í lengri eða skemmri tíma, skal þess gætt að heitt vatn til húshitunar njóti forgangs.

Hitaveitunni er ekki skylt að veita afslátt af sölu heits vatns vegna lágs hitastigs þess á afhendingarstað enda geri hitaveitan þær ráðstafanir sem má ætlast til af henni til að halda hitastiginu í eðlilegu horfi.

Hitaveitunni er heimilt að nota bakrennslisvatn sem runnið hefur í gegnum húsveitur.


6. gr.

Stöðvun á rekstri veitunnar, eða hluta hennar, vegna viðgerða og tenginga skal tilkynna fyrirfram ef unnt er, og koma skal á eðlilegum rekstri aftur svo fljótt sem unnt er.

Réttur viðskiptavinar til afnota af hitaveituvatni skuldbindur ekki hitaveituna til þess að tryggja að þrýstingur í dreifiæðum sé ávallt nægilegur, enda geri hitaveitan þær ráðstafanir sem ætlast má til af henni til að halda þrýstingnum í eðlilegu horfi.

Hitaveitan undanþiggur sig bótaábyrgð á tjóni, jafnt beinu sem óbeinu, sem rekja má til frosts, bilana eða takmarkana á orkuvinnslunni, spennubreytinga rafmagns, þrýstibreytinga heits vatns, stöðvunar orkuafhendingar eða annarra óviðráðanlegra atvika. Sama gildir ef rennsli í hitaveituæð er stöðvað eða vegna annarra nauðsynlegra aðgerða hitaveitunnar. Viðskiptavinir eiga ekki bótakröfu á hendur hitaveitunni, þótt rennsli hafi verið stöðvað fyrirvaralaust.

Hitaveitan ber ekki ábyrgð á óbeinu eða afleiddu tjóni orkukaupanda eða húseiganda. Hitaveitan tekur ekki ábyrgð á veitu viðskiptavinar með úttekt eða tengingum.

Ábyrgðartakmörkun samkvæmt þessari grein er bundin því að beint tjón orkukaupanda/ húseiganda verði ekki rakið til mistaka starfsmanna hitaveitunnar.


7. gr.

Hitaveitan lætur setja upp nauðsynlegan mælibúnað vegna sölu og ákveður fjölda, tegund og staðsetningu. Mælibúnaðinn má ekki flytja til án samþykkis hitaveitunnar en hitaveitan getur krafist flutnings hans, ef staðsetningin er óhentug. Starfsmenn og umboðsmenn hitaveitunnar skulu ætíð hafa aðgang að mælibúnaði og þeir einir mega rjúfa innsigli hans.

Verði mælitæki fyrir óvenjulegu hnjaski eða skemmdum er heimilt að skylda þann orkukaupanda sem ábyrgur er fyrir notkun um mælitækið til að greiða kostnað við viðhald eða endurnýjun þess.

Mælitæki telst sýna rétt ef mesta skekkja þess er innan 5% marka. Hafi mælitækið sýnt meira en sem nemur mestri leyfilegri skekkju þess, ber hitaveitunni að leiðrétta reikninga viðkomandi orkukaupanda. Hafi mælitækið sýnt minna en sem nemur mestri leyfilegri skekkju þess er hitaveitunni heimilt að leiðrétta reikninga viðkomandi viðskiptavinar, enda sé um veruleg frávik frá hámarksskekkju að ræða.

Við leiðréttingu á reikningum skal miða við mælt frávik mælisins að teknu tilliti til fyrri notkunar viðkomandi orkukaupanda og annarra aðstæðna sem gefið gætu vísbendingar um það hvenær mælitækið bilaði. Ekki skal miða leiðréttingu reikninga við lengra tímabil en eitt ár enda hafi orkukaupanda ekki verið ljóst eða mátt vera það ljóst, að um bilun mælitækis væri að ræða.


8. gr.

Hitaveitan selur heitt vatn í samræmi við reglugerð þessa, tengiskilmála og gjaldskrá sem staðfest skal af ráðherra.

Hitaveitunni er heimilt að gera sérsamninga um sölu á þjónustu og heitu vatni.


9. gr.

Gjöld fyrir heitt vatn verða krafin mánaðarlega samkvæmt nánari ákvæðum gjaldskrár, en heimilt er að láta lengri tíma líða milli gjalddaga. Við verðbreytingar á breytilegum og fastagjöldum skal reikningsfæra notkun í beinu hlutfalli við gildistíma hverrar gjaldskrár á því tímabili sem reikningurinn tekur til. Hitaveitan ákveður gjalddaga reikninga.

Hitaveitan má byggja reikninga á áætlun um notkun viðskiptavinar og innheimta reglulega skv. slíkri áætlun. Reikningar sem eru byggðir á notkun nefnast "uppgjörsreikningar", en reikningar sem eru byggðir á áætlaðri notkun nefnast "áætlunarreikningar".

Notkun skal sannreyna u.þ.b. árlega. Þegar notkun hefur verið sannreynd skal hún reikningsfærð og gerð upp fyrir tímabilið milli álestra og koma þá áætlunarreikningar til frádráttar.

Leiði aukin notkun af galla á búnaði orkukaupanda, er hitaveitunni ekki skylt að lækka reikning vegna þess.

Viðskiptavinur getur jafnan, gegn greiðslu aukagjalds, krafist aukaálestrar og uppgjörs miðað við mælda notkun. Enn fremur getur hann óskað eftir breytingu á áætlun um notkun vegna nýrra forsendna.

Heimilt er að skipta reikningi vegna notkunar um einn mæli. Sé það gert bera orkukaupendur um þann mæli hver um sig ábyrgð in solidum á greiðslu hvers reiknings. Við vanskil á einum eða fleiri reikningum er heimilt að stöðva orkuafhendingu um hinn sameiginlega mæli. Bera viðkomandi viðskiptavinir allan aukakostnað sem hinni auknu þjónustu er samfara.

Reikninga skal að jafnaði senda á heimili viðskiptavina.

Heimilt er að beita rafrænni greiðslumiðlun til greiðslu á reikningum að ósk viðskiptavinar. Í þeim tilfellum skal senda viðkomandi viðskiptavini yfirlit um skuldfærslur og notkun árlega. Notkun greiðslumæla er heimil með samþykki hitaveitunnar og viðskiptavinar.

Viðskiptavinum er skylt að hlíta ákvæðum gildandi gjaldskrár og breytingum sem þar kunna að verða á.

Verði greiðslufall á reikningi, hvort sem um er að ræða áætlunar- eða uppgjörsreikning, má hitaveitan áskilja sér og innheimta dráttarvexti frá og með gjalddaga reiknings til greiðsludags, auk kostnaðar sem af innheimtu kröfunnar hlýst.


10. gr.

Hitaveitan hefur rétt til að loka fyrir rennsli heits vatns að húsi eða íbúð viðskiptavinar, sem vanrækir að greiða orkureikninga eða vanrækir skyldur sínar skv. reglugerð þessari. Til slíkra aðgerða má þó fyrst grípa eftir gjalddaga og að undangenginni skriflegri aðvörun, sem send er viðskiptavini með hæfilegum fyrirvara, sem eigi skal vera skemmri en þrír dagar. Hitaveitan ber ekki ábyrgð á hugsanlegum afleiðingum slíkrar lokunar.

Heimild þessi er til staðar hvort sem um er að ræða uppgjörsreikning eða áætlunarreikning.

Beri viðskiptavinur ábyrgð á orkukaupum um fleiri en einn mæli má stöðva orkuafhendingu um hvern þeirra sem er eða alla, vegna vanskila eða vanefnda í sambandi við einn þeirra.

Stöðvun orkuafhendingar hefur engin áhrif á greiðsluskyldu orkukaupenda á skuldum við hitaveituna.

Skuldari greiðir allan kostnað af lokun og opnun á ný samkvæmt gjaldskrá hverju sinni.

Sé lokað vegna vanskila getur hitaveitan ákveðið að opna ekki aftur, nema ekki sé lengur um vanskil eða aðrar vanefndir að ræða og/eða trygging sé sett fyrir skilvísri greiðslu.

Öll gjöld samkvæmt gjaldskrá má taka fjárnámi á kostnað gjaldanda.


11. gr.

Skráður orkukaupandi ber ábyrgð á notkun um þau mælitæki húsveitunnar sem hann er skráður fyrir, þar til hann lætur af notkun hennar og hefur sagt upp notkun eða tilkynnt flutning. Uppsögn eða flutning skal tilkynna hitaveitunni með eðlilegum fyrirvara, sem annast lokaálestur.

Hitaveitan getur átt kröfu á hendur öðrum en skráðum notanda, færi hitaveitan sönnur á að um málamyndagerning sé að ræða.

Hafi eigi annar viðskiptavinur sótt um að fá mælitæki skráð á sitt nafn, skal loka því, og eigi skal hefja orkusölu á ný um tækið, fyrr en tilkynnt hefur verið um nýjan kaupanda.

Tilkynningu um breytingu á notkun, þ.e. að hún geti fallið undir annan gjaldskrárlið, skal senda hitaveitunni með mánaðar fyrirvara.

Ef húseigandi eða trúnaðarmaður hans verður þess var, að orkukaupendaskipti hafi orðið, án þess að þau hafi verið tilkynnt hitaveitunni, ber honum að gera hitaveitunni aðvart um það án tafar. Vanræki húseigandi þessa tilkynningarskyldu sína ber hann einfalda ábyrgð vegna ógreiddrar orkunotkunar þess aðila.


12. gr.

Verði uppvíst að heitt vatn hafi verið notað með öðrum hætti en um er samið, raskað hafi verið mælitækjum eða breytt tengingum þannig, að ekki komi fram öll notkun, skal hitaveitan áætla það magn sem notað hefur verið í óleyfi og gera reikning fyrir það magn í samræmi við gjaldskrá og skal notandi greiða fyrir það gjald eftir gjaldskrá þann tíma sem liðinn er frá síðasta aflestri. Ef ekki liggja fyrir sérstakar upplýsingar um sennilega notkun má miða við undangengna hámarksnotkun. Við endurtekningu skal rjúfa tengingar viðkomandi við veitukerfið.


13. gr.

Brot á reglugerð þessari eða skilmálum hitaveitunnar varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt lögum. Með mál út af slíkum brotum skal fara að hætti opinberra mála. Sektir renna í ríkissjóð.

Brot á reglugerð þessari getur og varðað bótaskyldu samkvæmt almennum reglum.

Vanræki viðskiptavinur að gera úrbætur sem hitaveitan hefur mælt fyrir um, í samræmi við reglugerð þessa, getur hitaveitan látið framkvæma það sem þörf krefur, á kostnað viðskiptavinar.


14. gr.

Reglugerð þessi sem samþykkt er af stjórn hitaveitunnar er hér með staðfest samkvæmt orkulögum nr. 58 29. apríl 1967 og öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 664 frá 22. desember 1995.


Iðnaðarráðuneytinu, 17. október 2002.

Valgerður Sverrisdóttir.
Þorgeir Örlygsson.

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica