Leita
Hreinsa Um leit

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

748/2008

Reglugerð um erfðaefnisskrá lögreglu.

1. gr.
Kennslaskrá og sporaskrá. Umsjón skrárinnar.

Ríkislögreglustjóri færir rafræna skrá með upplýsingum um erfðaefni einstaklinga; erfðaefnisskrá. Skráin greinist í kennslaskrá og sporaskrá.

Í kennslaskrá eru færðar upplýsingar um erfðagerð (DNA-snið) einstaklinga sem um getur í 3. gr.

Í sporaskrá eru færðar upplýsingar um erfðaefni sem fundist hafa á brotavettvangi eða á mönnum eða munum sem ætlað er að tengist broti, án þess að vitað sé frá hverjum þau stafa.

Upplýsingar um erfðagerð einstaklings skulu táknaðar með talnaröð.

2. gr.
Færslur í kennslaskrá.

Í kennslaskrá má skrá upplýsingar um erfðagerð þeirra sem:

a. hlotið hafa refsidóm fyrir brot á ákvæðum X. kafla, XI. kafla, 108. gr., 164.-166. gr., 170.-171. gr., 194.-196. gr., 1. og 2. mgr. 200. gr., 201.-202. gr., 211. gr., 2. mgr. 218. gr., 1. mgr. 220. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga. Sama gildir um dóm fyrir tilraun og hlutdeild í þeim brotum;
b. sýknaðir hafa verið af ákæru um brot gegn þeim lagaákvæðum sem getið er í a-lið, þar með talin tilraunar- og hlutdeildarbrot, vegna skorts á sakhæfi, eða dæmdir hafa verið til að sæta öryggisráðstöfunum skv. VII. kafla almennra hegningarlaga fyrir sömu brot;
c. tilgreindir eru í a- og b-lið og afplána refsidóm uppkveðinn fyrir gildistöku laga nr. 88/2001, sæta öryggisráðstöfunum eða hefur verið veitt reynslulausn og reynslutími er ekki liðinn.


Ekki má færa í kennslaskrá upplýsingar um önnur tilvik en greinir í 1. mgr. nema brýnar ástæður beri til og það hafi sérstaka þýðingu fyrir notagildi skrárinnar. Það á einkum við ef um er að ræða brot sem eru alvarlegs eðlis og þung refsing liggur við. Við mat á því skal tekið tillit til almennra persónuverndarsjónarmiða sem á reynir við meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga.

Skráning skal fara fram eftir uppkvaðningu endanlegs dóms Hæstaréttar eða þegar frestur til áfrýjunar héraðsdóms er liðinn.

3. gr.
Færslur í sporaskrá.

Í sporaskrá má færa upplýsingar um erfðaefni sem fundist hafa á brotavettvangi, eða á mönnum eða munum sem ætlað er að tengist broti, án þess að vitað sé frá hverjum þau stafa, ef grunur er um að upplýsingarnar tengist óupplýstu sakamáli.

Ríkislögreglustjóri ákveður hvenær skrá skal upplýsingar í sporaskrá og skráir slíkar upplýsingar þegar eftir að greining á erfðaefni hefur farið fram.

4. gr.
Leit í erfðaefnisskrá.

Bera má erfðaefni sem finnst á brotavettvangi saman við upplýsingar í kennsla- og sporaskrá.

Við skráningu upplýsinga um erfðaefni í kennsla- eða sporaskrá skal skoðað hvort upplýsingar um sama erfðaefni séu þegar skráðar í sporaskrá.

Upplýsingar um erfðagerð óskráðs manns, sem kunnugt er hver er, má ekki bera saman við upplýsingar í sporaskrá. Nú liggur fyrir rökstuddur grunur um að viðkomandi hafi framið refsivert brot skv. 3. gr. og má þá bera upplýsingar um erfðagerð hans saman við upplýsingar í sporaskrá, sem taldar eru tengjast því broti. Þá er samanburður heimill ef samþykki viðkomandi liggur fyrir.

5. gr.
Hlutverk og ábyrgð.

Ríkislögreglustjóri annast skráningu í erfðaefnisskrá og ber ábyrgð á skránni.

Ríkislögreglustjóri lætur lögreglu í té fræðsluefni og búnað til töku sýna, auk þess sem hann ákveður verklag og framkvæmd við töku sýna.

Ríkislögreglustjóri framkvæmir leit og samanburð á DNA-sniðum í erfðaefnisskrá, auk þess sem hann óskar eftir sérfræðiáliti á samanburði.

Lögregla safnar eða lætur safna saman lífsýnum frá þeim sem um getur í 3. gr. og af brotavettvangi; ber ábyrgð á að allar nauðsynlegar upplýsingar fylgi sýnum og að varsla þeirra, umbúnaður og sending sé í samræmi við reglur.

Dómsmálaráðuneytið getur gert þjónustusamning við rannsóknarstofu um að annast greiningu erfðaefnis.

6. gr.
Upplýsinga- og kæruréttur.

Þegar upplýsingar um einstakling hafa verið skráðar í kennslaskrá ber ríkislögreglustjóra að tilkynna honum skriflega um skráninguna og tilgang hennar. Hver og einn getur krafist upplýsinga um hvort erfðaefni úr honum sé skráð í kennslaskrá og hvaða aðrar upplýsingar um hann eru tengdar erfðaefnisupplýsingunum.

Sá sem ekki vill una ákvörðun ríkislögreglustjóra um skráningu, eða telur skrána geyma rangar eða misvísandi upplýsingar um sig, getur kært ákvörðunina til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins samkvæmt almennum reglum stjórnsýslulaga.

7. gr.
Aðgangur að erfðaefnisskrá og miðlun upplýsinga.

Erfðaefnisskráin skal lokuð öðrum en þeim, sem ríkislögreglustjóri hefur veitt sérstakt aðgangsleyfi að fengnu samþykki dómsmálaráðuneytisins.

Veita má lögreglustjórum, ríkissaksóknara, dómsmálaráðuneytinu, erlendum dómstólum, erlendum dómsmálayfirvöldum, og rannsóknarstofu sem annast greiningu erfðaefnis samkvæmt þjónustusamningi við dómsmálaráðuneytið, upplýsingar úr skránni samkvæmt beiðni til ríkislögreglustjóra, til notkunar við rannsókn og meðferð sakamáls eða meðferð kærumála sem af færslu í skrána hljótast.

8. gr.
Afmáning upplýsinga úr erfðaefnisskrá.

Upplýsingar um erfðaefni í kennslaskrá skal afmá eigi síðar en tveimur árum eftir að ríkislögreglustjóra er kunnugt um andlát hins skráða. Nú er skráður einstaklingur sýknaður eftir endurupptöku máls og skal þá svo fljótt sem verða má afmá úr skránni upplýsingar sem færðar voru í þágu þess máls og eigi síðar en innan sex mánaða. Þá skal afmá upplýsingar þegar ljóst er að þær eru rangar eða hafa verið skráðar án tilskilinna heimilda. Upplýsingar um erfðaefni í sporaskrá skal afmá þegar kennsl hafa verið borin á þann sem upplýsingarnar stafa frá eða við fyrningu brots sem um er að ræða.

9. gr.
Varsla og eyðing lífsýna.

Rannsóknarstofa sem annast greiningu erfðaefnis samkvæmt þjónustusamningi við dómsmálaráðuneytið varðveitir lífsýni. Lífsýni, sem erfðaupplýsingar hafa verið unnar úr, skal eytt þegar endanleg niðurstaða greiningar liggur fyrir. Sporsýni, sem talið er tengjast óupplýstu broti, má geyma svo lengi sem nauðsynlegt þykir vegna rannsóknar máls.

Ríkislögreglustjóri setur reglur um töku, vörslu og meðferð lífsýna.

10. gr.
Eftirlit.

Ríkislögreglustjóri annast innra eftirlit með skránni. Hann hefur m.a. eftirlit með því að upplýsingum sé eytt úr skránni í samræmi við ákvæði 8. gr.

Ríkislögreglustjóri skal árlega senda Persónuvernd upplýsingar um þær aðgerðir sem hann hefur viðhaft til að tryggja að meðferð persónuupplýsinga í skránni sé í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar, laga um erfðaefnisskrá lögreglu og persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

11. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 10. gr. laga nr. 88 31. maí 2001 um erfðaefnisskrá lögreglu öðlast þegar gildi.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 7. júlí 2008.

Björn Bjarnason.

Dís Sigurgeirsdóttir.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica