Umhverfisráðuneyti

747/1997

Reglugerð um störf prófnefndar mannvirkjahönnuða.

I. kafli

Prófnefnd.

1. gr.

Umhverfisráðherra skipar nefnd, prófnefnd mannvirkjahönnuða til fjögurra ára í senn. Í nefndinni eiga sæti þrír menn og jafn margir varamenn, allir sérfróðir um byggingarmálefni. Nefndin skiptir með sér verkum, ennfremur getur hún ráðið sér starfsmann.

Kostnaður vegna nefndarinnar skal borinn af staðfestingar-, kennslu- og prófgjöldum.

2. gr.

Hlutverk prófnefndar er að hafa umsjón með og ákveða tilhögun námskeiða fyrir væntanlega mannvirkjahönnuði, þ.m.t. að ákveða námsgreinar og prófkröfur, semja kennsluskrá, útbúa kennsluefni og ráða leiðbeinendur. Nefndin getur falið öðrum aðila námskeiðahaldið.

3. gr.

Prófnefnd heldur gerðabók. Í hana skal færa ákvarðanir nefndarinnar og niðurstöður prófa.

II. kafli

Námskeið og próf.

4. gr.

Eftirfarandi mannvirkjahönnuðir geta sótt námskeið og gengist undir próf samkvæmt reglugerð þessari:

Arkitektar, byggingarfræðingar, tæknifræðingar, verkfræðingar, rafiðnfræðingar, innanhúshönnuðir og landslagshönnuðir sem hlotið hafa heimild iðnaðarráðherra til starfsheita í tækni- og hönnunargreinum.

5. gr.

Námskeið skal að jafnaði halda ár hvert. Skal það auglýst rækilega s.s. í dagblöðum. Prófnefnd ákveður það efni sem prófað er úr og hvernig því efni er skipt á milli námshluta. Til grundavallar ákvörðun sinni hefur prófnefnd til hliðsjónar að væntanlegir mannvirkjahönnuðir skuli búa yfir þekkingu í eftirfarandi greinum:

Tilteknum atriðum í skipulags- og byggingarlögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, tilteknum stöðlum og notkun þeirra og skráningu fasteigna samkvæmt lögum um fasteignamat.

Heimilt er prófnefnd að færa námsgreinar á milli hluta svo og að bæta greinum við námshluta eða fækka þeim.

6. gr.

Prófnefnd er heimilt að veita þátttakanda, sem um það sækir, undanþágu frá því að þreyta tiltekinn hluta prófs. Skilyrði slíkrar undanþágu er að þátttakandi framvísi vottorði frá viðurkenndri menntastofnun um að hann hafi staðist sambærilegar námskröfur og gerðar eru til þátttakenda á námskeiðinu, að mati prófnefndar.

7. gr.

Próf skulu haldin innan mánaðar eftir að námskeiði er lokið. Skal próftími vera 4 klukkustundir og vægi einstakra þátta námsefnisins tilkynnt a.m.k. 7 virkum dögum fyrir próf. Til að standast próf skal þátttakandi hljóta einkunnina 5,0 úr hverjum þætti námsefnisins og að lágmarki 6,0 í samanlagðri meðaleinkunn. Gefa skal einkunnir með einum aukastaf.

8. gr.

Prófnefnd er skylt að gangast fyrir sjúkraprófi hafi þátttakandi ekki getað sótt próf vegna veikinda. Skal hann framvísa læknisvottorði vegna veikindanna.

Prófnefnd er heimilt að halda sérstakt upptökupróf fyrir þá þátttakendur sem ekki ná tilskilinni lágmarkseinkunn. Ef slíkt próf er ekki haldið er þeim heimilt að þreyta próf úr viðkomandi þáttum námsefnisins, næst þegar próf eru haldin.

III. kafli

Námskeiðagjöld o. fl.

9. gr.

Umhverfisráðherra ákveður að fenginni tillögu prófnefndar námskeiðagjöld. Þau skiptast í staðfestingargjald, kennslugjald og prófgjald.

Staðfestingargjald greiðir þátttakandi er hann skráir sig á námskeiðið og er það óafturkræft þótt hann hætti við þátttöku.

Kennslugjald greiðir þátttakandi eigi síðar en 7 virkum dögum eftir að kennsla hefst. Kennslugjald endurgreiðist vegna brottfalls úr námskeiði ef sérstakar ástæður mæla með.

Prófgjald greiðir þátttakandi eigi síðar en 7 virkum dögum fyrir próf. Skal þátttaka óheimil í prófi nema hann hafi staðið skil á prófgjaldi.

Er það óafturkræft þótt þátttakandi þreyti ekki prófið.

Þeir er fengið hafa undanþágu frá prófi í einstökum þáttum námsefnisins skulu greiða hlutfallslegt prófgjald.

Við ákvörðun námskeiðagjalda skal miða við að nemendur greiði allan kostnað af námskeiði og prófi.

10. gr.

Prófnefnd skal fjalla um umsókn mannvirkjahönnuðar um löggildingu áður en hún er veitt.

11. gr.

Ákvæði reglugerðar þessarar hrófla ekki við eldri rétti hönnuða til þess að leggja teikningar fyrir bygginganefnd.

Þeir aðilar sem taldir eru upp í 4. gr. og við gildistöku reglugerðarinnar hafa lokið hluta reynslutíma sem nauðsynlegur er samkvæt byggingarlögum nr. 54/1978, með síðari breytingum, til að öðlast löggildingu skulu eiga kost á að ljúka honum eftir eldri reglum.

12. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 48. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með breytingu nr. 135/1997 og öðlast gildi 1. janúar 1998.

Umhverfisráðuneytinu, 29. desember 1997.

Guðmundur Bjarnason.

Ingimar Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica