Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

736/2009

Reglugerð um úthlutun aflaheimilda í þorski vegna tilrauna við föngun fisks til áframeldis og framkvæmd þess. - Brottfallin

1. gr.

Aflaheimildir.

Fiskiveiðiárin 2009/2010 til og með 2014/2015 hefur sjávarútvegs- og landbúnaðar­ráðherra til sérstakrar ráðstöfunar aflaheimildir sem nema árlega 500 lestum af óslægðum þorski, sem ráðstafað skal til tilrauna með áframeldi á þorski.

2. gr.

Tilgangur.

Aflaheimildum samkvæmt 1. gr. skal úthlutað til fyrirtækja til tilrauna með áframeldi á þorski í samráði við Hafrannsóknastofnunina sem fylgist með tilraununum og birtir niður­stöður um gang þeirra.

3. gr.

Auglýsing um úthlutun og mat á umsóknum.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið auglýsir eftir umsóknum um aflaheimildir til föngunar og áframeldis á þorski einu sinni á ári og skal umsóknarfrestur vera til 31. mars ár hvert.

Fyrirtæki sem úthlutað er aflaheimildum til föngunar og áframeldis á þorski skulu hafa rekstrarleyfi til fiskeldis, sbr. 7. gr. laga nr. 71/2008, um fiskeldi.

Einnig skulu fiskiskip sem eldisfyrirtæki nota til að fanga fisk hafa leyfi til fiskveiða í atvinnuskyni, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Við mat á umsóknum þorskeldisfyrirtækja skal höfð til viðmiðunar frammistaða fyrir­tækisins á síðasta fiskveiðiári, ef um er að ræða fyrirtæki sem einnig hafa fengið úthlutað aflaheimildum á því fiskveiðiári, m.a. með hliðsjón af greinargerð, framleiðslu (lífþunga­aukningu í eldinu) og frammistöðu í rannsókna- og þróunarstarfi o.fl. Við útreikninga á framleiðslu skal reiknað út frá aflaheimildum sem ráðherra hefur úthlutað viðkomandi fyrirtæki og það hefur nýtt til áframeldis og eigin aflaheimildum fiskiskipa fyrirtækis sem það hefur nýtt til eldisins. Sömu atriði skulu höfð til viðmiðunar eftir því sem við á um umsóknir fyrirtækja sem ekki hafa fengið úthlutað aflaheimildum á síðasta fiskveiðiári. Nánari leiðbeiningar skulu gefnar út í handbók um skýrslugerð aðila sem fá úthlutað aflaheimildum til áframeldis sem gefin skal út af sjávarútvegs- og land­búnaðar­ráðuneytinu, Hafrannsóknastofnuninni og Fiskistofu. Einnig getur ráðherra óskað upp­lýsinga um aðrar aflaheimildir sem umsækjandi hefur til ráðstöfunar vegna áfram­eldisins og tekið tillit til þeirra við úthlutunina, þegar hann leggur mat á hæfni umsækjenda til að takast á við viðfangsefnið. Í þeim tilvikum sem þorskeldisfyrirtæki stunda tilraunir sem leiða af sér mikil afföll á fiski skal eftir því sem unnt er láta það hafa sem minnst áhrif á útreikning aflamarks til úthlutunar næsta fiskveiðiár.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarherra leggur mat á umsóknir en skal leita umsagnar Hafrannsóknastofnunarinnar.

Þá getur ráðherra við mat á umsóknum leitað umsagna annarra aðila eftir því sem tilefni er til.

4. gr.

Framkvæmd úthlutunar og föngun fisks.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úthlutar aflaheimildum til fyrirtækja í upphafi hvers fiskveiðiárs og gildir úthlutun til eins fiskveiðiárs í senn.

Úthlutun til einstakra fyrirtækja skal vera að hámarki 125 lestir og að lágmarki 10 lestir.

Fiskistofa annast framkvæmd úthlutunar aflaheimilda til þorskeldisfyrirtækja í samræmi við ákvarðanir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Aflaheimildir sem úthlutað er til áframeldis miðast við vigtaðan lifandi þorsk sem fer í eldiskví.

5. gr.

Tilkynningaskylda.

Fyrirtæki sem fá úthlutað aflaheimildum samkvæmt þessari reglugerð skulu tilkynna til Fiskistofu áður en veiðar hefjast hvaða skip á þeirra vegum muni verða notuð til að fanga fisk á grundvelli aflaheimildanna. Fiskistofa annast flutning aflaheimilda til einstakra skipa þeirra þorskeldisfyrirtækja sem fá úthlutað samkvæmt reglugerð þessari.

6. gr.

Eftirlit.

Um eftirlit með veiðum og framkvæmd áframeldis samkvæmt ákvæðum þessarar reglu­gerðar fer samkvæmt ákvæðum laga og stjórnvaldsreglna sem um það gilda á hverjum tíma.

7. gr.

Framsal.

Framsal aflaheimilda, sem úthlutað er samkvæmt reglugerð þessari, er óheimilt.

8. gr.

Innköllun og endurúthlutun aflaheimilda.

Handhöfum aflaheimilda, sem úthlutað er samkvæmt reglugerð þessari, er heimilt að flytja þær einu sinni á milli fiskveiðiára en eldri heimildir skulu innkallaðar af ráðuneytinu og þeim endurúthlutað í samræmi við ákvæði 3. mgr. þessarar greinar.

Hafi skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda ekki verið uppfyllt fyrir lok næsta fiskveiðiárs á eftir úthlutun, skal sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið innkalla aflaheimildir sem ekki er heimilt að flytja á milli ára samkvæmt 1. mgr. Jafnframt fellur úr gildi úthlutun sömu aflaheimilda til þeirra fyrirtækja sem fengu þeim úthlutað samkvæmt eldri ákvörðunum ráðuneytisins um það efni.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra endurúthlutar aflaheimildum til fyrirtækja sam­kvæmt þessari grein en Fiskistofa annast framkvæmd úthlutunarinnar í samræmi við ákvarðanir ráðherra. Endurúthlutun aflaheimilda skal framkvæma á þann veg að þau fyrirtæki sem hafa lokið að fullu að fanga upp í aflaheimildir sínar, fái samkvæmt umsókn þar um, viðbótarheimildir sem nema að hámarki 10 lestum. Heimilt skal að úthluta fyrir­tækjum oftar en einu sinni slíkum viðbótarheimildum innan hvers fiskveiðiárs. Við endur­úthlutun skulu að öðru leyti gilda sömu skilyrði og giltu um upphaflega úthlutun afla­heimildanna, sbr. 3. gr. Þá er heimilt að endurúthluta allt að 10 lestum af þeim afla­heimildum sem hafa verið innkallaðar til aðila sem áforma að hefja áframeldi á þorski en ekki hafa fengið úthlutað aflaheimildum fyrir viðkomandi fiskveiðiár.

Aflaheimildir sem endurúthlutað hefur verið og ekki hafa verið veiddar við lok fisk­veiði­árs falla niður. Skal þeim endurúthlutað við endurúthlutun á næsta fiskveiðiári.

9. gr.

Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum þessarar reglugerðar varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum og ákvæðum laga nr. 71/2008, um fiskeldi.

10. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum, og lögum nr. 71/2008, um fiskeldi, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi frá sama tíma reglugerð nr. 282/2007, um úthlutun aflaheimilda í þorski vegna tilrauna við föngun fisks til áframeldis og framkvæmd þess.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir ákvæði 1. og 4. mgr. 3. gr. skal umsóknarfrestur um úthlutun aflaheimilda fyrir fiskveiðiárið 2009/2010 vera til 15. september 2009 og við útreikning aflaheimilda til þorskeldisfyrirtækja fyrir það fiskveiðiár miðað við úthlutun síðustu tveggja fiskveiðiára. Aflaheimildum fyrir fiskveiðiárið 2009/2010 skal úthlutað eigi síðar en 30. september 2009.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 28. ágúst 2009.

F. h. r.
Sigurgeir Þorgeirsson.

Sigríður Norðmann.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica