Leita
Hreinsa Um leit

Utanríkisráðuneyti

736/2008

Reglugerð um skipulags- og mannvirkjamál á öryggis- og varnarsvæðum.

1. gr.
Yfirstjórn.

Utanríkisráðherra fer með yfirstjórn skipulags- og mannvirkjamála á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga, um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl., nr. 76/2008. Utanríkisráðherra fer með yfirstjórn varnarsvæða, sbr. 15. tl. 5. gr. varnarmálalaga, nr. 34/2008.

2. gr.
Orðskýringar.

Í samræmi við 5. og 18. tl. 5. gr. varnarmálalaga hafa eftirfarandi orð, í reglugerð þessari, þá merkingu sem hér greinir:

a. Öryggissvæði: Landsvæði sem íslensk stjórnvöld leggja til varnarþarfa, þ.m.t. varnaræfinga, m.a. á vegum Bandaríkjanna eða annarra ríkja Atlants­hafs­banda­lagsins, og lýst hafa verið öryggissvæði á grundvelli varnarmálalaga.
b. Varnarsvæði: Landsvæði sem íslensk stjórnvöld hafa lagt til varna landsins og lýst hafa verið samningssvæði samkvæmt ákvæðum varnarsamningsins, sbr. lög nr. 110/1951, og lúta yfirstjórn utanríkisráðherra.

3. gr.
Verkefni Varnarmálastofnunar.

Varnarmálastofnun annast í umboði utanríkisráðherra, á grundvelli 15. tl. 7. gr. varnar­mála­laga, framkvæmd skipulags- og mannvirkjamála á öryggis- og varnarsvæðum. Varnarmálastofnun er heimilt að gera þjónustusamning um framkvæmd slíkra verkefna. Afrit slíks þjónustusamnings skal sent utanríkisráðuneytinu til upplýsingar.

Varnarmálastofnun skal, við framkvæmd þessarar reglugerðar, fylgja ákvæðum laga og reglugerða um skipulags- og mannvirkjamál eftir því sem við á. Varnarmálastofnun er þó, í samræmi við 14. gr. og 1. mgr. 15. gr. varnarmálalaga, rétt að taka tillit til staðla Bandaríkjahers og Atlantshafsbandalagsins (NATO) um byggingar og mannvirkjagerð sé slíkt nauðsynlegt vegna öryggis- og varnarhagsmuna ríkisins.

4. gr.
Samráðsskylda.

Áður en Varnarmálastofnun afgreiðir mál skal hún, ef um er að ræða mál, sem varða skipulagsskyld svæði er liggja að öryggissvæði eða varnarsvæði, hafa samráð við skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar eða nærliggjandi sveitarfélög.

Varnarmálastofnun er heimilt, samkvæmt 4. mgr. 8. gr. laga nr. 76/2008, vegna öryggissvæðis að taka þátt í gerð svæðisskipulags ásamt skipulagsnefnd Kefla­víkur­flug­vallar og nærliggjandi sveitarfélögum í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

5. gr.
Upplýsingaskylda.

Varnarmálastofnun skal bera undir utanríkisráðuneytið allar meiriháttar framkvæmdir, á sviði skipulags- og mannvirkjamála, sem hún fyrirhugar.

Varnarmálastofnun sendir utanríkisráðuneytinu, til upplýsingar, afrit ákvarðana sinna um framkvæmd skipulags- og mannvirkjamála.

6. gr.
Ágreiningsmál.

Utanríkisráðherra hefur endanlegt úrskurðarvald um ágreiningsmál sem upp kunna að rísa varðandi framkvæmd þessarar reglugerðar.

Kærufrestur vegna stjórnvaldsákvarðana Varnarmálastofnunar er 30 dagar frá dagsetningu ákvörðunar, sbr. ákvæði 26. gr. varnarmálalaga. Um meðferð kærumáls fer samkvæmt stjórnsýslulögum og ákvæðum varnarmálalaga eftir því sem við getur átt.

7. gr.
Lagaheimild, gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 1. mgr. 27. gr. varnarmálalaga nr. 34/2008 og 4. mgr. 8. gr. laga, um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl., nr. 76/2008, öðlast gildi 31. júlí 2008. Fellur þá jafnframt úr gildi reglugerð, um skipulags-, bygginga- og umhverfismál á varnarsvæðum, nr. 471/1999.

Ákvæði til bráðabirgða.

Mál, á grundvelli reglugerðar nr. 471/1999, sem skipulags-, byggingar- og umhverfisnefnd varnarsvæða á ólokið, við gildistöku reglugerðar þessarar, skulu afgreidd sem hér segir:

a. Skipulagsnefnd Keflavíkurflugvalla afgreiðir mál sem varða skipulag flugvallarsvæðis Kefla­víkur­flug­vallar,
b. Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar afgreiðir mannvirkjamál sem varða flug­vallar­svæði Kefla­víkur­flug­vallar,
c. Varnarmálastofnun afgreiðir skipulags- og mannvirkjamál sem varða öryggis­svæðið á Keflavíkurflugvelli.

Utanríkisráðuneytinu, 27. júní 2008.

F. h. r.
Grétar Már Sigurðsson.

Þórir Ibsen.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica