Sjávarútvegsráðuneyti

721/2005

Reglugerð um sérstaka úthlutun skv. 9. gr. a í lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. - Brottfallin

1. gr.

Úthluta skal á hverju fiskveiðiári 3.000 lestum af þorski, miðað við óslægðan fisk, til báta sem höfðu aflahlutdeild 1. desember 1998 og voru þann dag minni en 200 brúttótonn, enda hafi þeir landað þorskafla á fiskveiðiárinu 1996/1997 eða 1997/1998. Auk þess er heimilt að úthluta allt að 60 lestum samtals af þorski til báta, sem komu í stað annarra báta á tímabilinu 1. september 1997 til 17. mars 1999, enda sé að öðru leyti fullnægt skilyrðum settum í 9. gr. a liðar í lögum nr. 38/1990.


2. gr.

Úthluta skal í upphafi hvers fiskveiðiárs til einstakra báta hlutfallslega miðað við heildaraflamark þeirra í þorskígildum talið.

Við útreikning á úthlutun skv. 1. mgr. skal miða við aflahlutdeildarstöðu báta eins og hún var 1. desember 1998, úthlutað heildaraflamark fiskveiðiársins 1998/1999 og verðmætastuðla á því fiskveiðiári, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 448/1998, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 1998/1999.


3. gr.

Við úthlutun samkvæmt reglugerð þessari skal þorskaflamark einstakra báta ekki aukast um meira en 100%, miðað við úthlutað aflamark í upphafi viðkomandi fiskveiðiárs og enginn bátur hljóta hærri úthlutun en 10 lestir miðað við óslægðan fisk. Úthlutun þessi skal aldrei leiða til þess að heildaraflaheimildir einstakra skipa í upphafi viðkomandi fiskveiðiárs verði meiri en 450 þorskígildislestir samtals.


4. gr.

Verði breytingar á skipakosti útgerðar er henni heimilt að flytja rétt til úthlutunar yfir á annan bát í hennar eigu. Umsóknir um slíkan flutning, ásamt fullnægjandi gögnum, skulu hafa borist Fiskistofu eigi síðar en 31. júlí, eigi flutningurinn að hafa áhrif á úthlutun aflamarks á fiskveiðiári því sem hefst 1. september næst á eftir.


5. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða með, síðari breytingum, til þess að öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. september 2005.


Sjávarútvegsráðuneytinu, 4. ágúst 2005.


Árni M. Mathiesen.
Jón B. Jónasson.Þetta vefsvæði byggir á Eplica