Sjávarútvegsráðuneyti

717/2000

Reglugerð um veiðar á gulllaxi. - Brottfallin

1. gr.

Allar togveiðar á gulllaxi í fiskveiðilandhelgi Íslands eru óheimilar nema að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu.

Leyfi til gulllaxveiða skulu gefin út fyrir hvert fiskveiðiár en ráðherra er heimilt að fela Fiskistofu að fella úr gildi öll leyfi til gulllaxveiða sé talin ástæða til að takmarka veiðarnar eða endurskipuleggja stjórnun þeirra.

2. gr.

Gulllaxveiðar eru aðeins heimilar á svæði undan Vestur- og Suðurlandi vestan 19°30'00 V og sunnan 66°00'00 N á dýpra vatni en 220 föðmum. Á svæði austan 19°30'00 V austur um að 64°30'00 N eru veiðar heimilar utan línu sem dregin er um eftirgreinda punkta:

 

1.  63°19'00 N - 19°30'00 V    10.  63°28'00 N - 15°41'00 V

2.  63°20'00 N - 19°20'00 V    11.  63°29'00 N - 15°30'00 V

3.  63°15'00 N - 19°00'00 V    12.  63°34'00 N - 15°00'00 V

4.  63°11'00 N - 18°10'00 V    13.  63°35'00 N - 14°42'00 V

5.  63°11'00 N - 17°53'00 V    14.  63°45'00 N - 14°12'00 V

6.  63°16'00 N - 17°10'00 V    15.  63°58'00 N - 13°33'00 V

7.  63°20'00 N - 16°35'00 V    16.  64°01'00 N - 13°10'00 V

8.  63°22'00 N - 16°29'00 V    17.  64°30'00 N - 12°00'00 V

9.  63°24'00 N - 16°00'00 V

 

Ofangreind heimild veitir skipinu aðeins rétt til að stunda veiðar á þeim svæðum sem því er heimilt að stunda veiðar með botn- og flotvörpu, samkvæmt 5. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með þeim takmörkunum sem slíkum veiðum eru settar í sérstökum reglugerðum og skyndilokunum.

 

3. gr.

Við færslu afladagbókar skal tilgreind dagsetning, nákvæm staðsetning veiðisvæðis, afli og dýpi í hverju togi. Enn fremur skal allur aukaafli skráður nákvæmlega.

 

4. gr.

Gulllaxsýni skulu tekin úr afla, a.m.k. eitt í hverri veiðiferð. Í hverju sýni skulu vera 100-200 stk. af gulllaxi, sem valin eru af handahófi. Gæta skal þess að sýni sé tekið í öllum tilkynningaskyldureitum þar sem skipið stundar veiðar. Sýnin skulu fryst um borð, rækilega merkt (staður, dagsetning og dýpi) og send Hafrannsóknastofnuninni í Reykjavík, þegar að lokinni veiðiferð.

 

5. gr.

Lágmarksstærð möskva í þeirri vörpu sem notuð er til gulllaxveiða skal vera 80 mm miðað við mælingu með hnútum (heilmöskvi), en 40 mm í poka.

 

6. gr.

Fiskistofu er heimilt að svipta skip leyfi til gulllaxveiða vegna brota á ákvæðum reglugerðar þessarar, ákvæðum leyfisbréfa til gulllaxveiða og ákvæðum laga og reglugerða, sem lúta að stjórn veiða og nýtingu nytjastofna. Missi skip leyfi til veiða í atvinnuskyni fellur jafnframt úr gildi leyfi til gulllaxveiða.

 

7. gr.

Með mál sem kunna að rísa út af brotum á ákvæðum reglugerðar þessarar og ákvæðum leyfisbréfa gefnum út samkvæmt henni skal farið að hætti opinberra mála. Brot varða viðurlögum samkvæmt 17. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

 

8. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands til þess að öðlast gildi 16. október 2000 og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 307, 27. maí 1998, um veiðar á gulllaxi, með síðari breytingum.

 

Sjávarútvegsráðuneytinu, 6. október 2000.

 

F. h. r.Þorsteinn Geirsson.

Jón B. Jónasson.

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica