Menntamálaráðuneyti

709/1996

Reglugerð um námsmat nemenda sem víkja svo frá almennum þroska að þeim henta ekki samræmd próf. - Brottfallin

1. gr.

  Reglugerð þessi gildir um nemendur á skyldunámsaldri í sérskólum og aðra þá nemendur sem af viðurkenndum greiningaraðilum eru taldir víkja svo frá almennum þroska að þeim henta ekki samræmd próf samkvæmt 46. gr. laga um grunnskóla.

 

2. gr.

                Hver sérskóli/sérdeild skal setja sér starfsreglur samkvæmt 38. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla.

                Í starfsreglunum skal m.a. kveðið á um frávik frá kennslu samkvæmt lögum og aðalnámskrá grunnskóla og hvernig staðið skuli að gerð námsáætlana fyrir einstaklinga eða nemendahópa. Í námsáætlunum skulu koma fram námsmarkmið.

                Í slíkum námsáætlunum sérskóla/sérdeilda og í námsáætlunum fyrir aðra nemendur samkv. 1. grein skulu koma fram námsmarkmið og lýsing á námsmati.

 

3. gr.

                Tilgangur námsmats sem byggt er á starfsreglum og námsáætlunum sbr. 2. gr. er að:

*              athuga hvort markmiðum námsáætlana fyrir einstaklinga eða nemendahópa hafi verið náð

*              vera leiðbeinandi um áherslur í kennslu einstakra nemenda

*              veita nemendum og foreldrum/forráðamönnum þeirra upplýsingar um námsárangur og námsstöðu nemenda

*              vera leiðbeining um inntöku nemenda í framhaldsskóla.

 

4. gr.

                Nemendur þeir sem reglugerð þessi á við um, skulu við lok skyldunáms fá skírteini sem vottar að þeir hafi lokið skyldunámi. Í skírteinið skal skrá vitnisburð í þeim námsgreinum sem nemandinn lagði stund á síðasta ár grunnskólanámsins. Vitnisburði skal fylgja skýring á því hvernig námsmati var háttað. Námsmat þetta kemur í stað samræmdra lokaprófa, sbr. 46. gr. laga um grunnskóla.

 

5. gr.

                Reglugerð þessi er sett samkvæmt 48. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla og öðlast þegar gildi.

 

Menntamálaráðuneytinu, 23. desember 1996.

 

Björn Bjarnason.

Guðríður Sigurðardóttir.

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica