Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

706/2008

Reglugerð um safnskráningu og varðveislu fjármálagerninga á safnreikningi.

I. KAFLI Gildissvið og orðskýringar.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um safnskráningu og varðveislu fjármálagerninga á safnreikningi samkvæmt lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti.

2. gr. Orðskýringar.

Í reglugerð þessari merkir:

  1. Safnskráning: Skráning fjármálagerninga í eigendaskrá á vegum vörsluaðila, þar sem fram kemur að vörsluaðili er ekki eigandi fjármálagerninganna.
  2. Safnreikningur: Eigin reikningur vörsluaðila þar sem fjármálagerningar viðskiptavina eru skráðir.
  3. Vörsluaðili: Fjármálafyrirtæki sem heimilt er að varðveita fjármálagerninga í eigu viðskiptavina sinna.
  4. Viðskiptavinur: Sá aðili sem nýtur efnahagslegs ávinnings og ber fjárhagslega áhættu af fjármálagerningi og veitir vörsluaðila heimild til að koma fram í eigin nafni og vera skráður fyrir fjármálagerningum.

II. KAFLI Leyfi til skráningar á safnreikning.

3. gr. Umsókn.

Fjármálafyrirtæki sem heimilt er að varðveita fjármálagerninga í eigu viðskiptavina sinna getur sótt um heimild Fjármálaeftirlitsins til að mega varðveita þá á safnreikningi og taka við greiðslum fyrir hönd viðskiptavina sinna frá einstökum útgefendum fjármálagerninga.

4. gr. Skilyrði leyfis.

Starfsemi sem kveðið er á um í reglugerð þessari er einungis heimil fjármálafyrirtæki sem ábyrgist að eftirfarandi skilyrðum sé fullnægt við útgáfu leyfis:

  1. Að reglum um upplýsingagjöf til Fjármálaeftirlitsins verði fullnægt og
  2. að vörsluaðili nýti ekki atkvæðisrétt þeirra fjármálagerninga sem hvíla á safnreikningi.

5. gr. Skilyrði leyfis fyrir erlent fjármálafyrirtæki.

Umsókn erlends fjármálafyrirtækis um að vera vörsluaðili skal, auk þeirra upplýsinga sem í 4. gr. greinir, fylgja:

  1. Yfirlýsing lögbærs yfirvalds í heimaríki fjármálafyrirtækis sem staðfestir að umsækjandi hafi leyfi til að starfa sem fjármálafyrirtæki og sé undir eftirliti viðkomandi stjórnvalds,
  2. yfirlýsing lögbærs yfirvalds eða sjálfstætt starfandi lögmanns í viðkomandi lögsögu sem staðfestir að samkvæmt lögum heimaríkis umsækjanda sé ekkert sem komi í veg fyrir að hann afli þeirra upplýsinga sem krafist er samkvæmt þessari reglugerð.

Umsækjendur frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins skulu, auk upplýsinga skv. 1. mgr., afla skriflegrar yfirlýsingar frá þar til bærum aðila sem staðfestir að í heimaríki þeirra sé í gildi löggjöf um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er samsvarar þeirri löggjöf sem gildir á Evrópska efnahagssvæðinu á þessu sviði.

Yfirlýsingar samkvæmt þessari grein skulu lagðar fram á íslensku eða ensku. Að öðrum kosti skal fylgja þýðing löggilts skjalaþýðanda á yfirlýsingunni.

III. KAFLI Safnreikningur.

6. gr. Samþykki eiganda.

Fjármálagerningur viðskiptavinar verður ekki skráður á safnreikning nema að fengnu samþykki hans. Vörsluaðili skal gera viðskiptavini grein fyrir réttaráhrifum þess að fjármálagerningur er skráður á safnreikning.

7. gr. Upplýsingar um viðskiptavini.

Vörsluaðila er skylt að hafa tiltækar upplýsingar um viðskiptavini sem óska safnskráningar á fjármálagerningum. Vörsluaðila ber að gera viðskiptavini grein fyrir að skylt sé að veita Fjármálaeftirlitinu upplýsingar samkvæmt þessari reglugerð.

Vörsluaðili skal geyma upplýsingar um safnskráningar og viðskiptavini, þar á meðal breytingar á safnreikningum, í fimm ár frá því að viðskiptasambandi lýkur.

8. gr. Skrá um viðskiptavini og fjármálagerninga.

Vörsluaðila sem varðveitir fjármálagerninga á safnreikningi ber að halda skrá yfir hlut hvers viðskiptavinar fyrir sig. Skráin skal ávallt bera með sér nöfn og fjölda viðskiptavina sem tengjast þeim fjármálagerningum sem eru skráðir á safnreikning og fjölda þeirra fjármálagerninga sem falla undir hvern og einn samning um safnskráningu. Skal skrá þessi þannig úr garði gerð að ekki leiki vafi á því hverjum fjármálagerningur tilheyrir. Fjármálaeftirlitið getur sett nánari reglur um skrána.

9. gr. Auðkenning safnskráðra fjármálagerninga.

Útgefandi fjármálagerninga skal auðkenna safnskráða fjármálagerninga sérstaklega í skrám sínum, þar á meðal hlutaskrám hlutafélaga, þannig að ekki leiki vafi á því hvaða fjármálagerningar falli undir safnreikning, t.d. með orðunum SAFN, NOM eða annarri þess háttar merkingu.

10. gr. Gjaldþrot vörsluaðila.

Ef bú vörsluaðila er tekið til gjaldþrotaskipta eða greiðslustöðvun samþykkt, vörsluaðila slitið eða sambærilegar ráðstafanir gerðar getur viðskiptavinur á grundvelli skrár skv. 8. gr. tekið fjármálagerninga sína út af safnreikningi, enda sé ekki ágreiningur um eignarhald.

IV. KAFLI Réttindi samkvæmt fjármálagerningum.

11. gr. Réttindi samkvæmt fjármálagerningi.

Safnreikningi fylgja ekki önnur réttindi samkvæmt fjármálagerningi en þau sem um getur í 12. gr. Safnreikningi fylgir ekki atkvæðisréttur á hluthafafundum.

12. gr. Heimild til að taka við greiðslum o.fl.

Vörsluaðila er heimilt að taka við greiðslum fyrir hönd viðskiptavina sinna frá einstökum útgefendum fjármálagerninga, þar með talið réttur til arðs eða annarrar greiðslu og réttur til nýrra hluta við hækkun hlutafjár. Skal vörsluaðili halda þessum greiðslum aðgreindum frá eignum sínum.

13. gr. Flöggun.

Atkvæðisréttur sem fylgir fjármálagerningum á safnreikningi skal talinn með þegar metið er hvort viðskiptamaður er flöggunarskyldur samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti, enda þótt safnreikningi fylgi ekki atkvæðisréttur.

V. KAFLI Eftirlit og upplýsingagjöf.

14. gr. Upplýsingar um viðskipti.

Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að vörsluaðili upplýsi um hvaða viðskiptavinir eru skráðir fyrir fjármálagerningum á safnreikningi á tilteknu tímamarki.

Vörsluaðila er skylt að senda Fjármálaeftirlitinu upplýsingar skv. 1. mgr. á því formi og innan þeirra tímamarka sem Fjármálaeftirlitið telur hæfileg.

15. gr. Afturköllun leyfis.

Fjármálaeftirlitið getur afturkallað leyfi til skráningar á safnreikning:

  1. Hafi vörsluaðili verið sviptur starfsleyfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki,
  2. brjóti vörsluaðili gegn ákvæðum reglugerðar þessarar um upplýsingagjöf til Fjármálaeftirlitsins,
  3. brjóti vörsluaðili að öðru leyti alvarlega eða ítrekað gegn lögum sem um starfsemi hans gilda, reglugerð þessari eða reglum sem Fjármálaeftirlitið kann að setja á grundvelli reglugerðar þessarar.

Áður en til afturköllunar kemur skv. 1. mgr. skal vörsluaðila veittur hæfilegur frestur til úrbóta, ef unnt er að koma úrbótum við að mati Fjármálaeftirlitsins.

Afturköllun á leyfi vörsluaðila til skráningar á safnreikning skal tilkynnt stjórn hans og rökstudd skriflega.

VI. KAFLI Gildistaka.

16. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 8. tölul. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, öðlast þegar gildi.

Viðskiptaráðuneytinu, 2. júlí 2008.

Björgvin G. Sigurðsson.

Áslaug Árnadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.