Samgönguráðuneyti

702/2005

Reglugerð um rannsóknarnefnd umferðarslysa. - Brottfallin

Felld brott með:

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til starfsemi rannsóknarnefndar umferðarslysa.


Lögsaga rannsóknarnefndar umferðarslysa tekur til íslensks yfirráðasvæðis.


Rannsóknarnefnd umferðarslysa skal láta til sín taka umferðarslys, sem skilgreind eru í A - C lið.


A. Til umferðarslysa samkvæmt lögum um rannsóknarnefnd umferðarslysa skulu teljast öll banaslys í umferðinni, auk slysa sem hafa í för með sér alvarleg meiðsl á fólki.


Með banaslysum er átt við þau umferðarslys þegar einstaklingur lætur lífið innan 30 daga frá þeim degi er slysið varð, enda verði banamein hans að nokkru eða öllu leyti rakið til slyssins.


Með slysum sem hafa í för með sér alvarleg meiðsl á fólki er átt við meiðsl sem einstaklingur hefur hlotið í umferðarslysi og valda beinbroti, heilahristingi, sköddun á innri líffærum, skurðsárum sem af leiðir alvarlegar blæðingar eða skemmdir á taugum, vöðvum eða sinum, og sérhver önnur alvarleg meiðsl sem leiða til sjúkrahúsvistar sem varir lengur en 6 klukkustundir og hefst innan 7 daga frá því að einstaklingurinn slasaðist.


B. Til umferðarslysa samkvæmt lögum um rannsóknarnefnd umferðarslysa skulu einnig teljast slys í umferðinni, sem falla utan skilgreininga samkvæmt A lið, þ.e. slys þar sem lítil meiðsl hafa orðið og/eða eingöngu eignatjón, en sem falla undir sama flokk eða teljast af sama tagi, svo sem;


i) þegar mörg slík slys hafa orðið við tilteknar aðstæður á afmörkuðum tíma, s.s. á tilteknum vegarkafla eða gatnamótum,
ii) þegar mörg slík slys hafa orðið við notkun tiltekinna tegunda ökutækja á afmörkuðum tíma,
iii) þegar mörg slík slys virðist mega rekja til tiltekins hóps ökumanna á afmörkuðum tíma,
iv) önnur slík slys sem teljast af sömu rót runnin eða virðist mega rekja að öðru leyti til sambærilegra atvika.


Rannsóknarnefnd umferðarslysa ákveður hvenær fjöldi slysa skv. B lið gefur tilefni til að taka slík slys til sérstakrar rannsóknar.


C. Rannsóknarnefnd umferðarslysa getur ákveðið að taka til rannsóknar einstök slys sem ekki falla undir A eða B lið, ef talið er að þýðingu hafi fyrir almennt umferðaröryggi.


Rannsóknarnefnd umferðarslysa ákveður sjálf hvort og hvernig háttað skuli rannsókn einstakra umferðarslysa eða tegunda umferðarslysa, sem skilgreind eru í A - C lið, að teknu tilliti til fjárveitinga til nefndarinnar.


2. gr.

Útbúnaður, tæki og þjálfun.

Forstöðumaður rannsóknarnefndarinnar skal afla þess búnaðar, tækja og þjálfunar sem nauðsynleg er rannsakendum til vettvangsrannsókna.


Forstöðumaður rannsóknarnefndarinnar, nefndarmenn og annað starfslið nefndarinnar skulu, eftir því sem fjárveitingar leyfa, sækja námskeið er lúta að rannsóknartækni umferðarslysa, til viðhalds kunnáttu sinni og færni.


3. gr.

Persónuskilríki nefndarmanna, forstöðumanns (rannsóknarstjóra) o.fl.

Samgönguráðherra skal láta forstöðumanni í té persónuskilríki til sönnunar um réttarstöðu hans og heimildir í störfum. Rannsóknarnefndin getur óskað þess að tilteknir nefndarmenn fái samskonar skilríki til notkunar við vettvangsrannsóknir.


Forstöðumaður getur látið öðrum nefndarmönnum, starfsmönnum nefndarinnar og sérfræðingum á hennar vegum í té sérstök skilríki til staðfestingar á heimildum þeirra vegna starfa fyrir nefndina, eftir því sem þörf krefur.

4. gr.

Nefndarfundir o.fl.

Formaður nefndarinnar boðar fundi og stjórnar þeim. Hann getur þó falið forstöðumanni nefndarinnar að annast fundarboðun.


Ákvarðanir nefndarinnar skulu teknar á fundum. Ákvarðanir um niðurstöðu mála og aðrar mikilvægar ákvarðanir skulu ekki teknar nema að öllum nefndarmönnum hafi gefist kostur á að sækja fund.


Nefndin heldur fundi eftir þörfum.


Ef nefndarmaður forfallast um stundarsakir tekur varamaður hans sæti í nefndinni.


Nefndin heldur fundargerðabók.


5. gr.

Ábyrgð á skýrslum nefndarinnar.

Forstöðumaður er ritstjóri ársskýrslu nefndarinnar.


Forstöðumaður skal rita undir skýrslur nefndarinnar, þ.m.t. ársskýrslur, f.h. nefndarinnar.


6. gr.

Birting skýrslna hjá nefndinni.

Ársskýrslur rannsóknarnefndar umferðarslysa og skýrslur nefndarinnar um rannsóknir einstakra mála skulu teljast réttilega birtar um leið og þær eru gerðar aðgengilegar almenningi á heimasíðu nefndarinnar og á skrifstofu nefndarinnar.


Þegar ársskýrslur nefndarinnar eða skýrslur nefndarinnar um rannsóknir einstakra mála hafa að geyma ákveðnar tillögur um úrbætur í umferðaröryggismálum er nefndinni rétt að vekja sérstaka athygli viðeigandi aðila á innihaldi þeirra.


7. gr.

Varsla málsgagna.

Rannsóknarnefndin skal varðveita í öruggum geymslum gögn sem þýðingu hafa við rannsókn máls.


Meðferð og vinnsla nefndarinnar á persónuupplýsingum skal vera í samræmi við lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga með síðari breytingum. Skal nefndin setja sér sérstakar reglur í því skyni.

8. gr.

Sérstakar skyldur forstöðumanns.

Forstöðumaður ber ábyrgð á og stjórnar daglegum rekstri nefndarinnar. Hann sér til þess, að rannsóknaraðferðir nefndarinnar séu byggðar á vísindalegum grunni og að rannsóknargögn séu varðveitt á ábyrgan hátt.


Forstöðumaður ber ábyrgð á fjármálum og bókhaldi nefndarinnar, þ. á m. að starfsemi nefndarinnar sé í samræmi við það sem fjárveitingar nefndarinnar leyfa. Hann skal gera fjárhagsáætlun fyrir starfsemi nefndarinnar hvert ár í samráði við formann nefndarinnar. Fjárhagsáætlun skal kynnt nefndinni áður en hún er send til samgönguráðuneytisins. Forstöðumaður ber ábyrgð á gerð ársreiknings nefndarinnar.


9. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 16. gr. laga nr. 24/2005 um rannsóknarnefnd umferðarslysa.


Reglugerðin tekur gildi 1. september 2005 og jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 681/1998, um rannsóknarnefnd umferðarslysa.


Samgönguráðuneytinu, 20. júlí 2005.


Sturla Böðvarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica