Fara beint í efnið

Prentað þann 28. apríl 2024

Stofnreglugerð

700/2023

Reglugerð um rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla.

1. gr. Gildissvið.

Ákvæði reglugerðarinnar gilda um einkarekna fjölmiðla sem afla og miðla fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni og uppfylla skilyrði í 62. gr. g í lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 með síðari breytingum og 3. gr. reglugerðar þessarar.

Reglugerðin gildir ekki um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, sbr. lög nr. 23/2013.

2. gr. Umsókn og umsóknargögn.

Úthlutunarnefnd tekur ákvörðun um úthlutun rekstrarstuðnings.

Ef fjölmiðlaveita starfrækir beint eða óbeint fleiri en einn fjölmiðil sem uppfyllir skilyrði 62. gr. g laga um fjölmiðla og 3. gr. reglugerðarinnar skal umsókn vera sameiginleg vegna þeirra beggja eða allra.

Í umsókn skulu koma fram sundurliðuð gögn um stuðningshæfan rekstrarkostnað, sbr. 62. gr. h, 62. gr. f laga um fjölmiðla og eftirfarandi:

  1. Meðalfjöldi stöðugilda.
  2. Fjöldi verktaka.
  3. Heildarfjárhæð greiðslna til verktaka vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni fyrir árið á undan.
  4. Beinn launakostnaður blaða- og fréttamanna, ritstjóra og aðstoðarritstjóra, myndatökumanna, ljósmyndara, umbrotsmanna og prófarkalesara sem fellur til við að afla og miðla fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni.

Upplýsingar skv. 3. mgr. skulu vera staðfestar af löggiltum endurskoðanda.

Berist umsókn um rekstrarstuðning vegna næstliðins árs eftir 1. september skal vísa henni frá. Heimilt er þó að taka umsókn til meðferðar hafi hún borist að þessum fresti liðnum ef gildar ástæður eru fyrir töfinni.

Stjórn eða framkvæmdastjóri fjölmiðils skal staðfesta að upplýsingar og gögn vegna umsóknar séu í samræmi við ákvæði fjölmiðlalaga nr. 38/2011 og reglugerðar þessarar.

Allar umsóknir skulu afgreiddar í einu lagi, sbr. þó ákvæði 5. mgr.

Umsækjanda ber að sýna fram á að launa- og verktakagreiðslur hafi verið greiddar óski úthlutunarnefnd eftir gögnum til að sannreyna stuðningshæfan rekstrarkostnað, til að mynda virðisaukaskattskýrslum og bókhaldi.

Umsækjandi getur ekki fengið rekstrarstuðning oftar en einu sinni vegna vinnu sama starfsmanns, t.d. vegna blaðamanns sem þiggur laun frá umsækjanda sem starfrækir fleiri en einn fjölmiðil og ritar fréttir bæði í prent- og netmiðil eða ljósmyndara í sömu stöðu sem tekur ljósmyndir sem birtar eru í prent- og netútgáfu viðkomandi fjölmiðils.

Umsækjandi skal leggja fram gögn um útgáfutíðni, sbr. 4. tölulið 62. gr. g laga um fjölmiðla.

Umsækjandi skal leggja fram gögn er staðfesta greiðslustöðu fyrirtækisins gagnvart ríkissjóði.

Umsækjandi skal leggja fram gögn er staðfesta að umsækjandi var ekki í fjárhagserfiðleikum í lok ársins á undan, í skilningi reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 651/2014, 1. gr. 4 c og 18. tölulið 2. gr.

3. gr. Skilyrði fyrir rekstrarstuðningi.

Skilyrði fyrir rekstrarstuðningi til einkarekins fjölmiðils eru auk þeirra sem kveðið er á um í 62. gr. g laga um fjölmiðla nr. 38/2011:

Í fjölmiðli skulu vera fréttir, fréttatengd efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni. Hér er átt við reglubundna miðlun fjölbreyttra frétta, fréttatengds efnis og umfjöllun um samfélagsleg málefni.

Með fréttum er átt við reglubundna miðlun frásagna af atburðum eða fyrirbærum af öllu tagi sem varðar almenning að mati fjölmiðils. Með fréttatengdu efni er átt við fréttaskýringar, frásagnir og umræður um efni í víðum skilningi frá mismunandi sviðum þjóðfélagsins sem er ofarlega á baugi hér á landi eða erlendis hverju sinni. Umfjöllun um samfélagsleg málefni nær til allra hliða samfélagsins sem eiga erindi við almenning en þurfa ekki að tengjast fréttum líðandi stundar.

4. gr. Endurákvörðun um veitingu rekstrarstuðnings.

Komi í ljós að rekstrarstuðningur við umsækjanda hafi verið of hár er úthlutunarnefnd heimilt að hlutast til um að fyrri ákvörðun verði tekin upp. Við meðferð slíkra mála skal úthlutunarnefnd afla nauðsynlegra gagna og gefa aðilum kost á andmælum áður en ákvörðun er tekin.

Gefa skal styrkþega að minnsta kosti fjögurra vikna frest til að skila inn gögnum og koma á framfæri andmælum við hugsanlega endurákvörðun um veitingu rekstrarstuðnings.

5. gr. Umsjón og umsýsla.

Úthlutunarnefnd og fjölmiðlanefnd skulu gera með sér samkomulag um umsýslu umsókna, sérfræðiaðstoð og annað sem aðilar koma sér saman um. Samkomulagið skal bera undir menningar- og viðskiptaráðherra til staðfestingar.

Í samningi framangreindra aðila skuli koma fram áætlun um vinnuframlag fjölmiðlanefndar og hvað er lagt til grundvallar við ákvörðun greiðslu fyrir unnar stundir.

Kostnað við umsýslu og annað skv. samningi, sbr. 1. mgr., skal greiða af fjárveitingum til málaflokksins.

Um þóknun fyrir störf úthlutunarnefndar fer samkvæmt ákvörðun menningar- og viðskiptaráðuneytis.

6. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett á grundvelli 62. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Reglugerðin fellur úr gildi 31. desember 2024.

Menningar- og viðskiptaráðuneytinu, 28. júní 2023.

Lilja D. Alfreðsdóttir.

Sigrún Brynja Einarsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.