Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 29. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 1. nóv. 2022

698/2013

Reglugerð um framkvæmd laga um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi fjallar um rétt til niðurgreiðslna húshitunarkostnaðar og framkvæmd við úthlutun fjár sem ákveðið er í fjárlögum til:

  1. Niðurgreiðslu kostnaðar við hitun íbúðarhúsnæðis hjá þeim sem ekki eiga kost á fullri hitun með jarðvarma.
  2. Greiðslu styrkja vegna stofnunar nýrra hitaveitna og yfirtöku starfandi einkaleyfishitaveitna á einkahitaveitum.
  3. Greiðslu styrkja vegna umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða aðgerða sem leiða til bættrar orkunýtingar við húshitun.

2. gr. Stjórnsýsla.

Ráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari. Orkustofnun hefur umsjón með framkvæmd niðurgreiðslna.

3. gr. Skilgreiningar.

Íbúð samkvæmt reglugerð þessari er húsnæði þar sem einhver hefur fasta búsetu og hefur sjálfstætt skráningarauðkenni í fasteignaskrá. Dvalarheimili aldraðra, sambýli og slíkt þar sem fólk hefur fasta búsetu telst íbúðarhúsnæði samkvæmt reglugerð þessari. Þurfi umsækjandi að halda fleiri en eitt heimili vegna starfa, eigin náms eða náms fjölskyldu er heimilt að greiða niður húshitunarkostnað óháð því hvar lögheimili er skráð. Niðurgreiðsla er háð því að dvöl vegna náms eða starfa sé samfelld a.m.k. 2-3 mánuði á ári. Umsækjandi þarf að staðfesta þörf sína til þess að halda fleiri en eitt heimili með opinberu vottorði eða öðrum gögnum sem Orkustofnun metur nægileg í hverju tilviki, s.s. vottorði vinnuveitanda eða skólastjórnenda ef um nám er að ræða og staðfestingu um póstburð í viðkomandi íbúð.

Veitusvæði hitaveitu er það svæði þar sem hitaveita hefur einkaleyfi til dreifingar á heitu vatni.

Kynt hitaveita er samkvæmt reglugerð þessari veita sem notar rafmagn eða eldsneyti til að hita vatn til sölu um dreifikerfi veitunnar.

Rafhitun telst bein hitun með raforku hvort sem um er að ræða þilofna, hitastrengi eða vatnshitakerfi þar sem rafmagn er notað til að hita vatnið. Raforkunotkun varmadælu er í þessari reglugerð flokkuð með rafhitun.

Með umhverfisvænni orkuöflun er í reglugerð þessari átt við hagkvæma nýtingu endurnýjanlegra orkulinda til húshitunar.

II. KAFLI Niðurgreiðsla á orku til hitunar.

4. gr. Skilyrði niðurgreiðslna.

Ef ákveðið er í fjárlögum að ráðstafa fé til niðurgreiðslna á orku til hitunar íbúðarhúsnæðis skal það gert í eftirfarandi tilvikum:

  1. Þegar íbúð sem ekki er á veitusvæði hitaveitu er hituð með raforku.
  2. Þegar íbúð á veitusvæði hitaveitu er hituð með raforku enda sé kostnaður við tengingu við hitaveituna og áætluð orkukaup meiri en við niðurgreidda rafhitun samanlagt fyrstu tíu árin eftir tengingu.
  3. Þegar íbúð sem hvorki er á veitusvæði hitaveitu né tengist raforkukerfi er hituð með eldsneyti. Einnig íbúð hituð með eldsneyti sem tengist einangruðu raforkukerfi þar sem meiri hluti raforkuvinnslunnar er með eldsneyti.
  4. Þegar íbúð er hituð með vatni frá kyntri hitaveitu og raforkunotkun veitunnar til hitunar vatns er meira en 10% af heildarorkuöflun veitunnar.
  5. Þegar íbúð er hituð með vatni frá kyntri hitaveitu sem notar grisjunarvið eða annað umhverfisvænt eldsneyti.

Kostnaður við hitun kirkna, bænahúsa trúfélaga, safna, félagsheimila og húsnæðis björgunarsveita skal greiddur niður á sama hátt og hitun íbúða, enda skal raforkunotkun til hitunar sérmæld.

Ekki skal greiða niður raforkukostnað vegna dælingar á heitu vatni.

Heimilt er að greiða niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar eignar afturvirkt um allt að 12 mánuði gegn því að framvísað sé gögnum sem staðfesta að öll skilyrði niðurgreiðslna á viðkomandi tímabili séu uppfyllt.

5. gr. Umsókn um niðurgreiðslur.

Eigandi, orkukaupandi eða umráðamaður eignar getur sótt um niðurgreiðslu til Orkustofnunar á þar til gerðu umsóknareyðublaði. Í umsókn skal tilgreina:

  1. Nafn, kennitölu og heimilisfang umsækjanda auk upplýsinga um staðsetningu og skráningarmerki þeirrar eignar sem sótt er um niðurgreiðslu fyrir.
  2. Ef sótt er um niðurgreiðslur fyrir íbúð þar sem ekki er föst búseta og umsækjandi eða annar einstaklingur hyggst búa í íbúðinni án lögheimilisskráningar, skal leggja fram gögn um þörf til að halda fleiri en eitt heimili skv. 1. mgr. 3. gr.

Stjórn húsfélags getur sótt um niðurgreiðslur fyrir hönd allra íbúðareigenda í fjöleignarhúsi ef hitanotkun hverrar íbúðar er ekki sérmæld.

Standi húsnæði autt hluta úr ári, sbr. 2. mgr. 4. gr., þarf eigandi þess að sækja um niðurgreiðslur til Orkustofnunar þegar föst búseta fellur niður. Sækja þarf um slíkar niðurgreiðslur á tólf mánaða fresti.

Ekki þarf að sækja á ný um niðurgreiðslu meðan íbúð er notuð til fastrar búsetu. Breytist aðstæður að þessu leyti ber eiganda, orkukaupanda eða umráðamanni að tilkynna Orkustofnun það.

Orkustofnun metur á grundvelli umsóknar hvort skilyrði laga þessara fyrir niðurgreiðslum séu uppfyllt.

6. gr. Upphæð niðurgreiðslna.

Í samræmi við fjárhæð niðurgreiðslna sem samþykkt er í fjárlögum viðkomandi árs skal ráðherra ár hvert ákveða upphæð niðurgreiðslna á raforku í kr./kWst, á vatni frá kyntum hitaveitum í kr./kWst eða kr./m³ og á eldsneyti í kr./l fyrir hverja dreifiveitu rafmagns, hitaveitu eða virkjun. Miða skal upphæð niðurgreiðslna á eldsneyti við að kostnaður notenda verði svipaður við eldsneytishitun og þar sem hann er dýrastur með rafhitun. Ákvörðun ráðherra skal birt með auglýsingu í Stjórnartíðindum.

Hámarksfjöldi niðurgreiddra kWst á hverja íbúð á ári er 40.000. Hámarksfjöldi lítra af eldsneyti sem niðurgreiða skal fyrir hverja íbúð er 4.480 m.v. 90% nýtingu eldsneytisketils. Ef kynt hitaveita nýtir að hluta jarðvarma skal niðurgreiðslan ákvörðuð út frá því hve stór hluti orkuöflunarinnar er með raforku og eldsneyti.

Hámarksniðurgreiðsla á hverja íbúð á ári þar sem um kynta hitaveitu er að ræða skal miðast við 40.000 kWst eða 888 m³.

7. gr. Ákvörðun notkunar við rafhitun.

Orkunotkun við rafhitun íbúðarhúsnæðis skal ákvörðuð á eftirfarandi hátt:

  1. Ef rafhitun íbúðar er sérmæld skal sú mæling gilda við ákvörðun niðurgreiðslu.
  2. Ef rafhitun er ekki sérmæld skal orkumagn sem greitt er niður ákveðið sem hlutfall af heildarnotkun.

Hlutfall niðurgreiðslu af heildarnotkun skal ákveðið á eftirfarandi hátt:

  1. Íbúðarhúsnæði: 85% heildarraforkunotkunar íbúðarhúsnæðis sem hitað er með raforku samkvæmt upplýsingum frá dreifiveitum skal niðurgreidd.
  2. Blönduð notkun atvinnu- og íbúðarhúsnæðis: Sérmæling er skilyrði niðurgreiðslna ef um blandaða notkun atvinnu- og íbúðarhúsnæðis er að ræða. Niðurgreiðsla íbúðarhluta húsnæðisins skal vera skv. 1. tölul. þessarar málsgreinar.
  3. Kirkjur, bænahús trúfélaga, söfn, félagsheimili og húsnæði björgunarsveita sem hituð eru með raforku njóta niðurgreiðslna á sama hátt og hitun íbúða skv. 1. tölul. þessarar málsgreinar, enda skal raforkunotkun til hitunar sérmæld.

Ef ástæða er til að ætla að lægra eða hærra hlutfall fari til húshitunar hjá einstökum notanda en skilgreining á viðkomandi flokki segir til um getur Orkustofnun áætlað sérstakt hlutfall fyrir þann notanda og skal miðað við þá áætlun við útreikning á niðurgreiðslu.

Ef notandi sættir sig ekki við hlutfall niðurgreiðslu skv. 2. eða 3. mgr. getur hann farið fram á að notkunin sé sérmæld og skal miða við þá mælingu við ákvörðun niðurgreiðslu. Notandinn greiðir allan kostnað við sérmælinguna.

8. gr. Ákvörðun notkunar við eldsneytishitun.

Orkustofnun áætlar ársnotkun íbúðar á eldsneyti til hitunar út frá notkun húsnæðisins og skráðri stærð þess í fasteignaskrá. Orkustofnun getur farið fram á að fá upplýsingar frá íbúðareiganda um olíukaup til húshitunar og annað sem snýr að notkun húsnæðisins og nauðsynlegt er vegna framkvæmdar reglugerðar þessarar.

Við útreikninga á niðurgreiðslu vegna eldsneytishitunar skal bera saman hitunarkostnað með niðurgreiddri raforku annars vegar og eldsneytishitun hins vegar. Gengið skal út frá viðmiðunarhúsi sem er 430 m³ að stærð og þarf 75 kWst á ári til upphitunar á hvern rúmmetra, eða alls 32.250 kWst á ári. Út frá meðalverði raforku og eldsneytis til húshitunar á hverjum ársfjórðungi skal fundinn hitunarkostnaður fyrir viðmiðunarhús með þessum tveimur hitunaraðferðum. Miða skal upphæð niðurgreiðslna á eldsneyti við að kostnaður notenda verði svipaður og þar sem hann er dýrastur með rafhitun.

9. gr. Framkvæmd niðurgreiðslna á raforku og heitu vatni frá kyntum hitaveitum.

Dreifiveitur raforku og kyntar hitaveitur skulu draga upphæð niðurgreiðslu frá gjaldi notanda fyrir þjónustu veitunnar og skal notandinn fá upplýsingar um upphæð niðurgreiðslu. Ef niðurgreiðslan er hærri en nemur fjárhæð reiknings skal veitan greiða notandanum mismuninn.

10. gr. Framkvæmd niðurgreiðslu á eldsneyti.

Orkustofnun ákveður niðurgreiðslur á eldsneyti til einstakra notenda á grundvelli þeirra viðmiða, sem tilgreind eru í 8. gr., og sér til þess að greiðsla fari fram ársfjórðungslega.

III. KAFLI Stofnun nýrra hitaveitna, yfirtaka starfandi hitaveitna, umhverfisvæn orkuöflun og bætt orkunýting.

11. gr. Skilyrði styrkja vegna stofnunar nýrra hitaveitna, yfirtöku starfandi hitaveitna, umhverfisvænnar orkuöflunar og bættrar orkunýtingar.

Ef ákveðið er í fjárlögum að veita styrki til stofnunar nýrra hitaveitna eða til stækkunar eldri veitna, sem og til umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun, skal þeim fjármunum varið til eftirfarandi þátta:

  1. Til nýrra hitaveitna sem hófu rekstur árið 1998 eða síðar.
  2. Til hitaveitna sem hafa aukið við dreifikerfi sitt á árinu 1998 eða síðar til að geta tengt íbúðarhúsnæði sem notið hefur niðurgreiðslna á rafhitun.
  3. Til starfandi hitaveitna sem hafa einkaleyfi til dreifingar á heitu vatni og stækka veitusvæði sitt með yfirtöku á hitaveitum sem ekki hafa slíkt einkaleyfi, dreifa heitu vatni um dreifikerfi sitt til a.m.k. 5 aðgreindra húsveitna og standa frammi fyrir kostnaðarsömum aðgerðum vegna endurnýjunar dreifikerfis.
  4. Til kyntra hitaveitna sem tengjast íbúðarhúsnæði sem notið hefur niðurgreiðslu á rafhitun eða eldsneyti.
  5. Til íbúðareigenda sem fjárfesta í og tengja tækjabúnað sem leiðir til umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun.
  6. Til hitaveitu sem byggir á dreifikerfi kyntrar hitaveitu sem starfrækt hefur verið á viðkomandi dreifiveitusvæði.

12. gr. Fjárhæð styrkja.

Styrkur til hverrar hitaveitu getur numið allt að tólf ára áætluðum niðurgreiðslum á rafmagni eða olíu til húshitunar á orkuveitusvæði viðkomandi hitaveitu miðað við meðalnotkun til húshitunar næstu fimm ár á undan.

  1. Styrkur á grundvelli 3. tölul. 11. gr., skal miðaður við 20.000 kWst ársnotkun á hverja íbúð sem tengd er veitunni.
  2. Styrkur á grundvelli 4. tölul. 11. gr. getur numið allt að tólf ára áætluðum mismun á niðurgreiðslum á beinni rafhitun eða eldsneyti og niðurgreiðslum kyntrar hitaveitu.
  3. Styrkir á grundvelli 5. tölul. 11. gr. skulu jafngilda helmingi kostnaðar við kaup á tækjabúnaði sem leiðir til umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun, að hámarki 1,3 milljón kr. án virðisaukaskatts. Þessi fjárhæð uppfærist 1. janúar ár hvert í hlutfalli við vísitölu neysluverðs, miðað við grunnvísitöluna 1. júlí 2022. Styrkirnir skulu vera samningsbundnir til 15 ára á viðkomandi húseign.
  4. Styrkur til hitaveitu á grundvelli 6. tölul. 11. gr. getur numið allt að 65% af tólf ára áætluðum niðurgreiðslum á rafmagni eða olíu til húshitunar á orkuveitusvæði viðkomandi hitaveitu miðað við meðalnotkun til húshitunar næstu fimm ár á undan.

Af fjárveitingu hvers árs til niðurgreiðslu á orku til húshitunar og stofnstyrkja hitaveitna skal styrkveiting til nýrra hitaveitna þó aldrei vera meiri en 20% heildarfjárveitingar. Árlega getur hver einstök hitaveita að hámarki fengið styrk er nemur 15% árlegrar heildarfjárveitingar til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði og nýrra hitaveitna.

13. gr. Umsóknir um styrki vegna stofnunar nýrra hitaveitna.

Hitaveitur geta sótt um styrk á grundvelli 1. og 2. tölul. 1. mgr. 11. gr. á þar til gerðu umsóknareyðublaði. Umsókn skulu m.a. fylgja upplýsingar um hitaveituna, fyrirhugaðar framkvæmdir, hvernig fyrirhugað er að ráðstafa styrknum og önnur atriði sem máli skipta varðandi afgreiðslu styrkumsóknar.

Eftirfarandi upplýsingar skulu fylgja umsókn:

  1. Nafn og kennitala eiganda viðkomandi eignar sem skal tengjast.
  2. Afrit af yfirlýsingu (umsókn) eiganda um tengingu við hitaveitu.
  3. Fastanúmer eignar sem skal tengja.
  4. Áætlun um skiptingu eingreiðslna milli notanda og hitaveitu.
  5. Áætlun um tengingu.
  6. Upplýsingar um afslætti og kjör nýrra notenda.
  7. Tæmandi upplýsingar um verðskrá hitaveitunnar.

Umsókn frá hitaveitu sem ekki hefur einkaleyfi á viðkomandi veitusvæði skulu auk þess fylgja eftirfarandi upplýsingar:

  1. Fjöldi virkjaðra borhola, vatnsmagn l/sek og meðalhitastig.
  2. Lengd safn- og aðveituæða.
  3. Hönnunargögn, s.s. teikning (mynd) af dreifikerfi og tengingar við notendur.
  4. Afrit af leyfisgögnum, s.s. virkjunar- og nýtingarleyfi.

14. gr. Umsóknir um styrk vegna yfirtöku starfandi einkahitaveitna.

Hitaveitur sem starfa á grundvelli sérleyfis geta sótt um styrk á grundvelli 3. tölul. 1. mgr. 11. gr. á þar til gerðu umsóknareyðublaði vegna yfirtöku starfandi einkahitaveitna. Umsókn skulu m.a. fylgja upplýsingar um hitaveituna og viljayfirlýsing viðkomandi hitaveitna um samruna þeirra.

Umsóknum skulu fylgja eftirfarandi gögn:

  1. Upplýsingar um notendur einkahitaveitu.
  2. Upplýsingar um endurnýjun dreifikerfis og kostnað vegna framkvæmda.
  3. Ársreikningur eða aðrar upplýsingar um fjárhag einkahitaveitu.

15. gr. Umsóknir um styrki til umhverfisvænnar orkuöflunar og bættrar orkunýtingar.

Eftirfarandi upplýsingar skulu fylgja umsókn frá notanda sem óskar eftir styrk vegna umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða aðgerða sem leiða til bættrar orkunýtingar við húshitun:

  1. Nafn og kennitala eiganda viðkomandi eignar.
  2. Fastanúmer eignar.
  3. Tæknilegar upplýsingar um þann búnað sem notandi ætlar að nýta til bættrar orkunýtingar við húshitun.
  4. Kostnaðaráætlun framkvæmdar (efniskostnaður). Sé framkvæmdum lokið skal skila sundurliðuðu heildaryfirliti og afritum af reikningum fyrir kostnaði við kaup á tækja- og fylgibúnaði, sbr. 6. mgr. 3. gr.
  5. Annað sem umsækjandi telur að skipti máli við afgreiðslu umsóknarinnar.

Ef sótt er um styrk af hálfu lögaðila, svo sem sveitarfélags eða húsfélags, fyrir hönd hóps notenda skulu, auk upplýsinga skv. 1. mgr. fylgja:

  1. Umboð fyrir hvern notanda og upplýsingar um skiptingu styrks milli notanda og lögaðila.
  2. Áætlun um tengingu (ef ólokið).

15. gr. a. Afgreiðsla umsóknar.

Orkustofnun fer yfir umsóknir skv. 13.-15. gr. og leggur mat á hvort fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir til að unnt sé að taka umsókn til formlegrar afgreiðslu. Skuldbinding til greiðslu styrks, skv. 13.-15. gr., er ekki komin á fyrr en afgreiðslu Orkustofnunar er lokið með bréfi til umsækjanda þar sem fram koma upplýsingar um áætlaða fjárhæð styrks, hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að fá greiðslu og hvenær styrkur geti komið til greiðslu.

16. gr. Úthlutun og ráðstöfun styrkja.

Greiðsla stofnstyrks skal miðuð við tímamarkið þegar hitaveita eða kynt hitaveita tekur til starfa eða stækkun er tekin í notkun. Ef tengingum íbúðarhúsa er skipt í áfanga eða hluti íbúðarhúsa á orkuveitusvæði er ekki tengdur þegar hitaveita eða kynt hitaveita tekur til starfa er heimilt að ákveða að hluti styrksins skuli greiddur út og niðurgreiðslum vegna rafhitunar tiltekinna íbúðarhúsa haldið áfram þrátt fyrir 15. gr. Endanlegt uppgjör á fjárhæð styrksins fer í þeim tilvikum fram þegar stjórn viðkomandi hitaveitu óskar, þó eigi síðar en níu mánuðum eftir að fyrsti hluti styrksins er greiddur út. Við greiðslu á þeirri fjárhæð sem haldið var eftir skal draga frá heildarfjárhæð niðurgreiðslna á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis á viðkomandi orkuveitusvæði á aðlögunartímanum.

Hitaveita eða kynt hitaveita skal nýta styrkinn að hluta til að greiða niður stofnkostnað veitunnar og að hluta til að styrkja eigendur íbúðarhúsa þar sem kostnaður við tengingu við starfandi eða nýjar veitur er umtalsverður, svo sem vegna kostnaðarsamra breytinga á hitakerfi. Stjórn veitunnar skal ákvarða hlutföllin en hvor hluti styrksins má nema allt að 65% af heildarfjárhæðinni.

Greiðsla styrkja vegna yfirtöku starfandi einkahitaveitna skal miðast við það tímamark þegar samruni einkaleyfishitaveitu og einkahitaveitu á sér stað enda dugi fjárveiting á því ári til greiðslu styrks.

Styrkir skulu renna óskertir til einkaleyfishitaveitu. Beinn eða óbeinn fjárhagslegur stuðningur ríkisins, stofnana þess eða sjóða til viðkomandi einkahitaveitu skulu ekki dregnir frá styrkfjárhæðinni.

Ef ákveðið er í fjárlögum að veita styrki til yfirtöku starfandi einkahitaveitna skal þeim fjármunum varið til starfandi hitaveitna sem hafa einkaleyfi til dreifingar á heitu vatni og stækka veitusvæði sitt með yfirtöku á hitaveitum sem ekki hafa slíkt einkaleyfi, dreifa heitu vatni um dreifikerfi sitt til a.m.k. 5 aðgreindra húsveitna og standa frammi fyrir kostnaðarsömum aðgerðum vegna endurnýjunar dreifikerfis.

Til að hljóta greiðslu styrkja ber einkahitaveitu sem yfirtaka á, að sýna fram á, með óyggjandi hætti, að hún standi frammi fyrir endurnýjun dreifikerfis og eigi í rekstrarlegum örðugleikum af þeim sökum.

Styrkir á grundvelli 5. tölul. 11. gr. greiðast íbúðareiganda samkvæmt samningi milli Orkustofnunar og íbúðareiganda. Skilyrði fyrir útgáfu samnings er að notandi hafi skilað inn til Orkustofnunar sundurliðuðu heildaryfirliti og afritum af reikningum fyrir kostnaði við kaup á tækja- og fylgibúnaði, myndum af uppsettum búnaði og álestri af rafmagnsmæli við verklok.

Um úthlutun styrkja til hitaveitu sem byggir á dreifikerfi kyntrar hitaveitu vísast til 4. tölul. 1. mgr. 12. gr. Styrkinn skal nota til að greiða niður stofnkostnað hitaveitu, þ.e. orkuöflun, aðveitu, stækkun dreifikerfis og, ef við á, endurnýjun þess dreifikerfis sem fyrir er.

17. gr. Niðurfelling niðurgreiðslna.

Ef stofnuð er ný hitaveita eða eldri veita stækkuð skal fella niður niðurgreiðslu á kostnaði til hitunar íbúðarhúsnæðis á starfssvæði hitaveitunnar, nema ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. eigi við.

Orkustofnun skal tilkynna íbúðareiganda eða umráðamanni íbúðarhúsnæðis skriflega um niðurfellinguna og upplýsa um heimild skv. 3. mgr. þessarar greinar. Skal honum gefast a.m.k. 30 daga frestur frá dagsetningu tilkynningar til að koma á framfæri andmælum áður en ákvörðun um brottfall niðurgreiðslna kemur til framkvæmda.

Ef kostnaður við tengingu viðkomandi íbúðarhúsnæðis við hitaveituna og áætluð orkukaup er meiri en við niðurgreidda rafhitun samanlagt fyrstu tíu árin eftir tengingu er heimilt að halda niðurgreiðslum áfram, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 4. gr., komi fram beiðni þar um.

Við samruna einkaleyfishitaveitu og einkahitaveitu fellur niður réttur til niðurgreiðslu á kostnaði til hitunar íbúðarhúsnæðis á starfssvæði einkahitaveitunnar, nema ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. eigi við.

Hitaveitur sem hljóta styrk samkvæmt 1. og 2. tölul. 11. gr. er gert skylt að senda Orkustofnun upplýsingar um dagsetningar tengingar notanda við hitaveitu og hvenær notandinn byrjar viðskipti við hitaveituna.

IV. KAFLI Ýmis ákvæði.

18. gr. Um ákvarðanir Orkustofnunar.

Ef Orkustofnun verður þess áskynja að eigandi, orkukaupandi eða umráðamaður eignar tilkynnir ekki um breyttar aðstæður, sem hefðu átt að leiða til brottfalls niðurgreiðslu, skal stofnunin fella niðurgreiðslurnar niður að undangenginni tilkynningu þar um. Hefur eigandi, orkukaupandi eða umráðamaður eignar 30 daga frá dagsetningu tilkynningar til að koma á framfæri andmælum áður en ákvörðun um brottfall niðurgreiðslna kemur til framkvæmda.

Í tilkynningu um brottfall niðurgreiðslna skal upplýst um heimild til að skjóta ákvörðun Orkustofnunar til ráðuneytis.

18. gr. a. Uppsetning varmadælna o.fl.

Orkustofnun skal staðfesta að þeir aðilar sem annast uppsetningu lítilla katla eða ofna sem nota lífmassa sem orkugjafa, sólarraforku- og sólarvarmaorkukerfa, jarðvarmakerfa nálægt yfirborði og varmadælna uppfylli þau skilyrði sem fram koma í IV. viðauka tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/28/EB, frá 23. apríl 2009, um að auka notkun orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum og niðurfellingu á tilskipunum 2001/77/EB og 2003/30/EB, eins og hún var tekin upp í samninginn um evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 162/2011 þann 19. desember 2011 og birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 15/56 þann 15. mars 2012.

18. gr. b. Sérákvæði um umhverfisvæna orkuöflun og aðgerðir sem leiða til bættrar orkunýtingar við húshitun.

Ef fasteign með samning um skerðingu á niðurgreiðslu til 20 ára verður eign lánastofnunar að undangengnu uppboði á samningstímanum getur viðkomandi lánastofnun keypt sér rétt til fullrar niðurgreiðslu með því að greiða upp samninginn eins og upphæðin er samkvæmt honum.

Ef fasteign með samning um skerðingu á niðurgreiðslu til 20 ára er seld á samningstímabilinu og upp kemur ágreiningur milli kaupanda og seljanda um samninginn getur seljandi keypt upp samninginn og eignin farið að nýju inn á fulla niðurgreiðslu.

Ef styrkþegi hefur hlotið greiðslu hluta styrks og uppfyllir ekki skyldur skv. samningi sem Orkustofnun gerir við hann, skal stofnunin lækka niðurgreiðsluhlutfall umræddrar eignar í samræmi við fjárhæð þess styrks sem þegar hefur verið greiddur.

19. gr. Gildistaka og reglugerðarheimild.

Reglugerð þessi, sem sett er á grundvelli heimildar í 21. gr. laga um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar nr. 78/2002, öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð nr. 660/2009, um niðurgreiðslur húshitunar, með síðari breytingum.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.