Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

681/1998

Reglugerð um rannsóknarnefnd umferðarslysa. - Brottfallin

1. gr.

Nafn og aðsetur.

           Nefndin heitir rannsóknarnefnd umferðarslysa og hefur hún aðsetur á skrifstofu Umferðarráðs í Reykjavík.

2. gr.

Hlutverk og markmið.

            Hlutverk nefndarinnar er að rannsaka umferðarslys og starfar hún sjálfstætt og óháð öðrum stjórnvöldum og rannsóknaraðilum. Rannsóknir hennar skulu miða að því einu að koma í veg fyrir að sams konar umferðarslys verði aftur og stuðla að því að umferðaröryggi megi aukast. Nefndin skal gera tillögur til úrbóta um umferðaröryggi til viðeigandi stjórnvalda, eftir því sem rannsóknir á orsökum umferðarslysa gefa tilefni til.

3. gr.

Nefndarmenn og starfsmenn.

            Nefndarmenn skulu vera þrír. Dómsmálaráðherra skipar nefndarmenn og varamenn þeirra til fjögurra ára í senn. Hann skipar einnig formann og varaformann nefndarinnar. Um þóknun vegna starfa nefndarmanna fer eftir ákvörðun dómsmálaráðuneytisins.

            Nefndarmenn skulu hafa sérfræðiþekkingu, svo sem varðandi umferðarlöggjöf, löggæslu, slysalækningar, umferðarskipulag, bifreiðatækni eða vátryggingar.

Nefndin ræður sér starfsmenn að höfðu samráði við dómsmálaráðuneytið og getur hún einnig leitað aðstoðar sérfróðra einstaklinga eða rannsóknarstofnana ef þörf krefur.

            Um sérstakt hæfi nefndarmanna og starfsmanna rannsóknarnefndar umferðarslysa fer eftir stjórnsýslulögum.

4. gr.

Rannsóknarverkefni og starfshættir.

            Rannsóknarnefnd umferðarslysa ákveður hvenær efni eru til rannsóknar umferðarslyss í samræmi við hlutverk og markmið nefndarinnar. Tilkynna skal lögreglu um hvaða flokka slysa nefndin hefur til rannsóknar á hverjum tíma.

            Nú verður umferðarslys í flokki sem nefndin hefur ákveðið að rannsaka og skal lögreglan þá tafarlaust tilkynna Neyðarlínunni um slysið, sem kemur boðum til nefndarinnar.

            Eftir atvikum skulu einn eða fleiri nefndarmenn eða starfsmenn nefndar fara í rannsóknarskyni á vettvang. Lögreglunni skal tilkynnt svo fljótt sem unnt er hvort fulltrúi nefndarinnar muni fara á vettvang.

            Þegar umferðarslys verður í flokki sem nefndin hefur ákveðið að rannsaka skal lögreglan vernda verksummerki slyss, eins og kostur er, fram að þeim tíma er nefndin kemur á slysstað, þótt lögreglan hafi áður lokið vettvangsrannsókn sinni.

5. gr.

Heimildir í starfi.

            Dómsmálaráðuneytið lætur nefndarmönnum og starfsmönnum nefndarinnar í té skilríki til sönnunar um störf þeirra.

            Rannsóknarnefnd umferðarslysa skal hafa aðgang að slysstað í samráði við lögreglu.

            Lögreglunni ber að veita nefndinni aðstoð við rannsóknarstörf á slysstað eftir því sem hún hefur tök á.

            Nefndinni er heimilt að leita eftir upplýsingum varðandi ökutækið, ökumann, farþega, vitni og annað er kann að skipta máli varðandi rannsóknina. Þá er nefndinni heimilt að leita eftir upplýsingum um atvik frá ökumanni, farþegum og hverjum öðrum sem ætla má að kunni að geta veitt vitneskju er stuðli að því að leiða í ljós orsök slyssins.

            Nefndin getur óskað eftir því við lögregluna að hún taki í sínar vörslur ökutæki eða hluta þess, sem rannsóknin beinist að.

            Nefndarmönnum og starfsmönnum hennar ber að gæta fyllstu þagmælsku og hindra að óviðkomandi fái upplýsingar um þau atvik er þeir komast að í starfi sínu í nefndinni.

6. gr.

Lok rannsóknar.

            Rannsókn umferðarslyss telst lokið þegar fram hafa komið allar þær upplýsingar sem nefndin telur nauðsynlegar um viðkomandi umferðarslys.

            Rannsóknarnefnd umferðarslysa getur, af sjálfsdáðum eða samkvæmt tilmælum ráðherra, endurupptekið áður rannsakað mál ef fram koma ný gögn sem haft geta verulega þýðingu fyrir rannsóknina.

7. gr.

Kostnaður.

            Kostnaður vegna starfa rannsóknarnefndar umferðarslysa greiðist af framlögum sem nefndinni hefur verið veitt til starfseminnar.

8. gr.

Starfsreglur.

            Rannsóknarnefnd umferðarslysa setur sér starfsreglur sem dómsmálaráðherra staðfestir.

9. gr.

Kynning.

            Rannsóknarnefnd umferðarslysa skal gefa út yfirlitsskýrslu um störf sín í byrjun hvers árs. Í skýrslunni skal gera tillögur um úrbætur í umferðaröryggismálum og þar skal vera yfirlit um hvernig fyrri tillögum hefur verið framfylgt.

10. gr.

Gildistaka.

            Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 4. mgr. 114. gr. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987, sbr. lög nr. 138 18. desember 1996, öðlast þegar gildi.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 23. nóvember 1998.

Þorsteinn Pálsson.

Benedikt Bogason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica