Umhverfisráðuneyti

671/2000

Reglugerð um mat á umhverfisáhrifum. - Brottfallin

I. KAFLI

Markmið, gildissvið o.fl.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er:

a.    að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar,

b.    að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða vegna framkvæmdar sem áhrif hefur á umhverfið,

c.    að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmdar sem kann að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og mótvægisaðgerðir vegna þeirra og að almenningur komi að athugasemdum og upplýsingum áður en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar er kveðinn upp.

 

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um allar framkvæmdir, sbr. 1. og 2. viðauka, sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif hvort heldur er á landi, í landhelgi, lofthelgi eða í mengunarlögsögu Íslands.

 

3. gr.

Skilgreiningar.

a.    Athugun Skipulagsstofnunar: Formleg kynning matsskýrslu, umfjöllun stofnunarinnar og álitsumleitan. Athugun lýkur með úrskurði Skipulagsstofnunar.

b.    Framkvæmdaraðili: Ríki, sveitarfélag, stofnun og aðrir lögaðilar eða einstaklingar sem fyrir eigin reikning hyggjast hefja eða láta hefja framkvæmdir sem reglugerð þessi tekur til.

c.    Framkvæmd: Hvers konar fyrirhuguð nýframkvæmd eða breyting á eldri framkvæmd, sbr. 1. og 2. viðauka, og starfsemi sem henni fylgir.

d.    Leyfi til framkvæmda: Leyfi sem þurfa að liggja fyrir til að framkvæmdir og starfsemi, sem þeim fylgir, geti hafist, t.d. byggingarleyfi og framkvæmdaleyfi skv. skipulags- og byggingarlögum, starfsleyfi skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og virkjanaleyfi skv. lögum um raforkuver.

e.    Leyfisveitandi: Lögbært yfirvald sem veitir leyfi til framkvæmda og starfsemi sem þeim fylgir, t.d. sveitarstjórnir, heilbrigðisnefndir, Hollustuvernd ríkisins og iðnaðarráðherra.

f.     Matsáætlun: Áætlun um á hvaða þætti framkvæmdarinnar og umhverfis leggja skuli áherslu í matsskýrslu og um kynningu og samráð við gerð matsskýrslu. Matsáætlun samanstendur af tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun og samþykki Skipulagsstofnunar á tillögunni með eða án athugasemda.

g.    Matsskyld framkvæmd: Framkvæmd sem háð er ákvæðum reglugerðar þessarar ásamt þeirri starfsemi sem henni fylgir.

h.    Matsskýrsla: Skýrsla framkvæmdaraðila um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgir.

i.     Mengunarlögsaga: Efnahagslögsaga og landgrunn Íslands.

j.     Mótvægisaðgerðir: Aðgerðir til að koma í veg fyrir, draga úr eða ráða bót á neikvæðum umhverfisáhrifum.

k.    Umhverfi: Samheiti fyrir menn, samfélag, heilbrigði, menningu, menningarminjar, atvinnu og efnisleg verðmæti; dýr, plöntur og annað í lífríkinu; jarðveg, sjó, vatn, loft og veðurfar og jarðmyndanir og landslag.

l.     Umhverfisáhrif: Áhrif framkvæmdar og starfsemi, sem henni fylgir, á umhverfið, þ.e. bein og óbein áhrif, jákvæð og neikvæð áhrif, sammögnuð áhrif, varanleg og tímabundin áhrif (skammtíma- og langtímaáhrif), afturkræf og óafturkræf áhrif.

m.   Umsagnaraðilar:  Stofnanir og stjórnvöld sem sinna lögbundnum verkefnum er varða matsskyldar framkvæmdir eða umhverfisáhrif þeirra.

n.    Umtalsverð umhverfisáhrif: Veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.

 

II. KAFLI

Yfirumsjón, framkvæmdaraðili o.fl.

4. gr.

Yfirstjórn.

Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem reglugerð þessi tekur til. Á varnarsvæðum fer utanríkisráðherra með lögsögu samkvæmt lögum nr. 106/1954 um yfirstjórn mála á varnarsvæðum o.fl.

Ráðherra úrskurðar um kærur vegna mats á umhverfisáhrifum, sbr. 27. gr.

Ráðherra getur heimilað í sérstökum undantekningartilvikum, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og leyfisveitenda, að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar, eða hluta hennar, samkvæmt 1. eða 2. viðauka, fari fram með öðrum hætti en kveðið er á um í reglugerð þessari, sbr. 31. gr.

 

5. gr.

Hlutverk Skipulagsstofnunar.

Hlutverk Skipulagsstofnunar samkvæmt reglugerð þessari er:

a.    að annast framkvæmd reglugerðar þessarar,

b.    að veita og gefa út leiðbeiningar um mat á umhverfisáhrifum, m.a. lista yfir helstu umsagnaraðila og starfssvið þeirra,

c.    að hafa samráð við framkvæmdaraðila um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 8. gr.,

d.    að stuðla að því að almenningur hafi aðgang að upplýsingum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda,

e.    að kynna og afla umsagna um tillögur að matsáætlunum og um matsskýrslur,

f.     að taka ákvörðun um tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun,

g.    að úrskurða um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og starfsemi sem þeim fylgir,

h.    að taka ákvörðun um matsskyldu framkvæmda sem tilgreindar eru í 2. viðauka við reglugerð þessa.

 

6. gr.

Hlutverk framkvæmdaraðila.

Framkvæmdaraðili ber ábyrgð á mati á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar. Framkvæmdaraðili ber kostnað af vinnu Skipulagsstofnunar við umfjöllun hennar um viðkomandi framkvæmd sem og af auglýsingum og kynningu.

Framkvæmdaraðila ber að tilkynna til Skipulagsstofnunar framkvæmdir sem tilgreindar eru í 2. viðauka.

Framkvæmdaraðila ber að gera tillögu að matsáætlun og kynna hana umsagnaraðilum og almenningi og einnig að hafa samráð við Skipulagsstofnun við gerð matsáætlunar. Framkvæmdaraðili skal gera skýrslu um mat á umhverfisáhrifum hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar í samræmi við matsáætlun og kynna hana opinberlega í samráði við Skipulagsstofnun eftir að stofnunin hefur auglýst skýrsluna.

 

7. gr.

Hlutverk umsagnaraðila.

Umsagnaraðilum er heimilt að gera athugasemdir við tillögu að matsáætlun og drög að matsskýrslu.

Umsagnaraðilar veita Skipulagsstofnun umsögn um tillögu að matsáætlun, hvort fjallað sé á fullnægjandi hátt í matsskýrslu um þau atriði sem falla undir starfssvið þeirra og hvort fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir séu fullnægjandi. Þeir skulu, ef tilefni er til, tilgreina hvað þarf að kanna frekar og benda á mögulegar mótvægisaðgerðir.

 

8. gr.

Samráð og kynning.

Framkvæmdaraðili skal hafa forgöngu um samráð við Skipulagsstofnun á öllum stigum um mat á umhverfisáhrifum og umfjöllun um það. Samráð skal hefja eins snemma og kostur er og a.m.k. vera viðhaft við gerð tillögu að matsáætlun og umfjöllun um drög að matsskýrslu.

Framkvæmdaraðili skal hafa forgöngu um að kynna umsagnaraðilum og almenningi tillögu að matsáætlun og drög að matsskýrslu í þeim tilgangi að fá fram ábendingar og athugasemdir.

 

III. KAFLI

Matsskylda framkvæmdar.

9. gr.

Matsskylda framkvæmdar o.fl.

Framkvæmdir, sem tilgreindar eru í 1. viðauka við reglugerð þessa, eru háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. V.-VIII. kafla reglugerðar þessarar.

Framkvæmdir, sem tilgreindar eru í 2. viðauka við reglugerð þessa, ber að tilkynna til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu, sbr. IV. kafla reglugerðar þessarar. Breytingar eða viðbætur við framkvæmdir sem taldar eru upp í 1. eða 2. viðauka, sem þegar hafa verið leyfðar, eru í framkvæmd eða framkvæmdar ber að tilkynna til Skipulagsstofnunar skv. þessari málsgrein.

Í þeim tilvikum þar sem fleiri en ein matsskyld framkvæmd er fyrirhuguð á sama svæði er ráðherra heimilt að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og að höfðu samráði við framkvæmdaraðila að ákveða að umhverfisáhrif þeirra verði metin sameiginlega.

 

IV. KAFLI

Tilkynningaskyldar framkvæmdir.

10. gr.

Tilkynning framkvæmdar.

Framkvæmdaraðila ber að tilkynna skriflega til Skipulagsstofnunar fyrirhugaða framkvæmd sem fellur undir 2. viðauka við reglugerð þessa. Eftirfarandi gögn um framkvæmd skulu fylgja tilkynningunni eftir því sem við á:

a.    lýsing á fyrirhugaðri framkvæmd, umfangi hennar og helstu framkvæmda- og rekstrarþáttum, sbr. 1. tl. 3. viðauka við reglugerð þessa,

b.    uppdráttur af fyrirhugaðri framkvæmd og afstöðu hennar í landi þar sem fram koma mörk framkvæmdasvæðis, mannvirki sem fyrir eru á svæðinu og upplýsingar um fyrirhugaða framkvæmd,

c.    upplýsingar um hvernig fyrirhuguð framkvæmd fellur að gildandi skipulagsáætlunum,

d.    lýsing á staðháttum, landslagi, gróðurfari og landnotkun og hvort fyrirhugað framkvæmdasvæði sé á eða nærri verndarsvæðum, sbr. 2. tl. 3. viðauka við reglugerð þessa,

e.    lýsing á hvaða þættir framkvæmdar og/eða rekstrar valda helst áhrifum á umhverfið, sbr. 3. tl. 3. viðauka reglugerðar þessarar,

f.     upplýsingar um fyrirliggjandi álit umsagnaraðila og annarra eftir eðli máls sem framkvæmdaraðili kann að hafa leitað eftir.

Öllum er heimilt að tilkynna framkvæmd eða bera fram fyrirspurn um matsskyldu framkvæmdar sem tilgreindar eru í 2. viðauka við reglugerð þessa. Í álitamálum um hvort framkvæmd falli undir 2. viðauka ber leyfisveitanda og framkvæmdaraðila að veita Skipulagsstofnun nauðsynlegar upplýsingar sem stofnunin óskar eftir.

Telji framkvæmdaraðili með hliðsjón af viðmiðunum sem fram koma í 3. viðauka að framkvæmd, sem tilgreind er í 2. viðauka, sé matsskyld og Skipulagsstofnun fellst á þá afstöðu hans er heimilt að sleppa málsmeðferð skv. 10. og 11. gr.  Afstaða framkvæmdaraðila skal rökstudd í tilkynningu skv. grein þessari.

 

11. gr.

Ákvörðun um matsskyldu.

Skipulagsstofnun ákvarðar að framkvæmdir, sem tilgreindar eru í 2. viðauka reglugerðar þessarar, skuli háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær eru taldar geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með hliðsjón af einu eða fleiri viðmiðum í 3. viðauka.

Skipulagsstofnun skal, innan 4 vikna frá því að erindi framkvæmdaraðila barst, taka ákvörðun um hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Áður skal hún leita umsagna leyfisveitenda og annarra, eftir eðli máls hverju sinni, á því hvort og þá á hvaða forsendum fyrirhuguð framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til viðmiða í 3. viðauka við reglugerð þessa. Skipulagsstofnun skal veita þeim aðilum, sem leitað er umsagna hjá, a.m.k. 10 daga til að gefa umsögn um matsskyldu framkvæmdar og framkvæmdaraðila a.m.k. 3 daga til að fara yfir fram komnar umsagnir og koma á framfæri athugasemdum sínum.

Taki framkvæmdaraðili sér lengri frest til að fara yfir fram komnar umsagnir skal hann tilkynna Skipulagsstofnun það og skal þá frestur Skipulagsstofnunar til að taka ákvörðun lengjast sem því nemur.

 

12. gr.

Kynning ákvörðunar.

Skipulagsstofnun skal gera framkvæmdaraðila, þeim sem leitað var umsagna hjá og öðrum, sem málið varðar, grein fyrir ákvörðun sinni um matsskyldu.

Skipulagsstofnun kynnir almenningi niðurstöðu sína með auglýsingu innan viku frá því að hún liggur fyrir. Niðurstaða Skipulagsstofnunar skal vera aðgengileg á heimasíðu stofnunarinnar.

 

V. KAFLI

Matsáætlun.

13. gr.

Tillaga að matsáætlun.

Framkvæmdaraðili skal, vegna framkvæmda sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum, leggja fram tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar eins snemma á undirbúningsstigi framkvæmdar og kostur er, þ.e. þegar meginþættir framkvæmdar eru orðnir það ljósir að hægt sé að fá yfirlit yfir fyrirhugaða framkvæmd, áhrifasvæði og helstu áhersluþætti matsvinnunnar.

Í tillögu að matsáætlun skal eftirfarandi koma fram eftir umfangi og eðli framkvæmdar, eftir því sem við á:

 1.        Upplýsingar um framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir:

a.   heiti framkvæmdar, möguleg staðsetning, nafn framkvæmdaraðila og dagsetning,

b.  lýsing á framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir, tilgangi, afmörkun og umfangi hennar og mögulegri áfangaskiptingu,

c.   upplýsingar um matsskyldu framkvæmdar, með vísan til viðeigandi liða í 1. og 2. viðauka,

d.  upplýsingar um hvaða leyfum framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir er háð og hvort fyrirhugað sé að vinna samtímis að matsskýrslu og starfsleyfi vegna starfsleyfisskyldra framkvæmda, sbr. 30. gr.

 2.        Upplýsingar um framkvæmdasvæði:

a.   upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir á sama svæði ef þær eru fyrir hendi,

b.  lýsing á staðháttum framkvæmdasvæðis: landslagi, gróðurfari, dýralífi og landnotkun, yfirlit um verndarsvæði og kvaðir og takmarkanir á landnotkun, s.s. vegna náttúruvár,

c.   uppdráttur af mögulegri staðsetningu framkvæmdar og áhrifasvæðis hennar,

d.  fyrirliggjandi skipulagsáætlanir og lýsing á hvernig fyrirhuguð framkvæmd samræmist þeim eða upplýsingar um stöðu við gerð skipulagsáætlana,

e.   upplýsingar um mögulega framkvæmdakosti sem til greina koma, m.a. núll-kosti, þ.e. að aðhafast ekkert, greina frá umfangi og tilhögun annarra kosta og staðsetningu þeirra.

 3.        Upplýsingar um umfang og áherslur mats á umhverfisáhrifum:

a.   greining á því hvaða þættir framkvæmdar og starfsemi, sem henni fylgir, séu líklegir til að valda umhverfisáhrifum og lýsing á þeim, s.s. stærð og gerð mannvirkja, framleiðsluferlum, magni og gerð mengunarefna og hljóðstigi frá starfsemi,

b.  greining á því hvaða þættir umhverfisins er talið líklegt að geti helst orðið fyrir áhrifum þegar tekið er tillit til allra umhverfisáhrifa framkvæmdarinnar miðað við fyrirliggjandi vitneskju,

c.   lýsing á því hvernig fyrirhugað er að standa að mati á umhverfisáhrifum, s.s. um gagnaöflun, rannsóknarsvæði, tímasetningu athugana, tíðni mælinga, úrvinnslu gagna, aðferðir við mat og framsetningu niðurstaðna.

4.    Upplýsingar um afstöðu þeirra aðila sem þegar hafa tjáð sig um framkvæmdina eða tillögu að matsáætlun.

5.    Áætlun um kynningu, álitsumleitan og samráð við vinnslu matsskýrslu.

6.    Tíma- og kostnaðaráætlanir, s.s. tímaáætlun um vinnslu matsskýrslu, athugasemda- og umsagnarfrestir, opinber umfjöllun Skipulagsstofnunar, áætlun um framkvæmda- og rekstrartíma. Framkvæmdaraðila er heimilt að greina frá kostnaðaráætlun vegna rannsókna og vinnu við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda.

 

14. gr.

Kynning og samráð við gerð tillögu að matsáætlun.

Framkvæmdaraðili leitar samráðs eins snemma og kostur er. Framkvæmdaraðila ber að kynna umsagnaraðilum og almenningi tillögu að matsáætlun. Framkvæmdaraðili skal kynna tillöguna með auglýsingu sem vísi á veraldarvefinn og gefa almenningi kost á a.m.k. tveimur vikum til að koma á framfæri athugasemdum við tillöguna. Framkvæmdaraðili getur einnig kynnt tillöguna á almennum kynningarfundi eða opnu húsi.

Framkvæmdaraðila ber að hafa samráð við Skipulagsstofnun við gerð tillögu að matsáætlun.

 

15. gr.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar.

Þegar framkvæmdaraðili hefur sent Skipulagsstofnun tillögu að matsáætlun ber stofnuninni að leita eftir umsögn leyfisveitenda og eftir atvikum annarra aðila. Í umsögn skal koma fram hvort tillagan geri nægilega grein fyrir framkvæmd og hvort upplýsingar teljist fullnægjandi um hvernig staðið verður að gagnaöflun, úrvinnslu gagna, mati á umhverfisáhrifum og framsetningu mats í matsskýrslu og, ef á skortir, hvaða atriðum þurfi að mati umsagnaraðila að gera frekari skil. Umsagnaraðilar, sem jafnframt eru leyfisveitendur, skulu gera grein fyrir þeim leyfum sem eru á starfssviði þeirra. 

Tillagan skal vera aðgengileg á heimasíðu Skipulagsstofnunar. Koma skal fram að allir hafi rétt til að senda stofnuninni skriflegar athugasemdir um matsáætlunina innan tilgreinds tímafrests.

Skipulagsstofnun ber að taka ákvörðun um fram komna tillögu að matsáætlun innan fjögurra vikna frá því að tillagan berst stofnuninni. Skipulagsstofnun skal veita umsagnaraðilum a.m.k. 10 daga til að gefa umsögn um tillögu að matsáætlun og framkvæmdaraðila a.m.k. 3 daga til að fara yfir fram komnar umsagnir og koma að áliti sínu. Taki framkvæmdaraðili sér lengri frest til að fara yfir fram komnar umsagnir skal hann tilkynna Skipulagsstofnun um það og lengist þá frestur Skipulagsstofnunar til að taka ákvörðun sem því nemur.

Skipulagsstofnun getur fallist á tillögu að matsáætlun með eða án athugasemda. Geri stofnunin athugasemdir í niðurstöðu sinni verða þær hluti af matsáætlun.

Fallist Skipulagsstofnun ekki á tillögu að matsáætlun skal stofnunin rökstyðja ákvörðun sína, gera grein fyrir því sem hún telur ábótavant og leiðbeina framkvæmdaraðila um frekari úrvinnslu.

Skipulagsstofnun skal senda niðurstöðu sína um tillögu framkvæmdaraðila til væntanlegra leyfisveitenda og annarra umsagnaraðila.

 

16. gr.

Kostnaðaráætlun Skipulagsstofnunar.

Þegar matsáætlun hefur verið samþykkt skal Skipulagsstofnun leggja fram sundurliðaða kostnaðaráætlun vegna umfjöllunar á vegum stofnunarinnar við mat á umhverfisáhrifum, s.s. um umfjöllun um matsskýrslu, kynningu og auglýsingu, sérfræðiálit, athugun og úrskurð. Kostnaðaráætlun skal byggð á gjaldskrá sem ráðherra hefur staðfest. Þá skal Skipulagsstofnun leggja fram upplýsingar um kostnað sem fallið hefur til við umfjöllun um tillögu að matsáætlun. Skipulagsstofnun skal greina framkvæmdaraðila eins fljótt og kostur er frá því ef forsendur kostnaðaráætlunar breytast.

 

VI. KAFLI

Matsskýrsla.

17. gr.

Drög að matsskýrslu.

Heimilt er framkvæmdaraðila að kynna drög að matsskýrslu, gera grein fyrir hugsanlegum breytingum frá matsáætlun og óska eftir athugasemdum við hana. Umsagnaraðilar gera athugasemdir við drög að matsskýrslu um þá þætti sem eru á starfssviði þeirra.

 

18. gr.

Efni matsskýrslu.

Matsskýrsla skal vera í samræmi við matsáætlun, og í henni skulu koma fram öll þau gögn sem nauðsynleg eru til þess að greina og meta helstu áhrif sem framkvæmd er líkleg til að hafa á umhverfið.

Í matsskýrslu skal eftirfarandi koma fram eftir því sem við á:

 1.        Upplýsingar um framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir, einkum:

a.   lýsing á framkvæmd, hönnun hennar, afmörkun og umfangi, áfangaskiptingu ef við á, fyrirhugaðri staðsetningu og landrýmisþörf á framkvæmda- og rekstrartíma,

b.  upplýsingar um tilgang framkvæmdar, hver er framkvæmdaraðili og upplýsingar um áætlaðan framkvæmdakostnað, þ.e. ef hann fellur ekki undir viðskiptaleynd,

c.   upplýsingar um matsskyldu framkvæmdar, með vísan til viðeigandi liða í 1. eða 2. viðauka,

d.  lýsing á helstu framleiðsluferlum og upplýsingar um nýtingu náttúruauðlinda, s.s. jarðefna, vatns, orku, annarra hráefna, og mannaflaþörf á framkvæmda- og rekstrartíma,

e.   áætlun um losun (mengun vatns, lofts og jarðvegs, hávaða, titring, ljós, hita, geislun o.s.frv.) og um tegund og magn úrgangs,

f.   upplýsingar um framkvæmdir á vegum annarra aðila sem eru forsenda hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar,

g.   upplýsingar um hvaða leyfum framkvæmd og starfsemi, sem henni fylgir, er háð ásamt upplýsingum um stöðu starfsleyfisundirbúnings vegna starfsleyfisskyldra framkvæmda,

h.   yfirlit yfir valkosti sem gerð er grein fyrir í matsskýrslu, s.s. aðra kosti varðandi tæknilega útfærslu framkvæmdar eða starfsemi, aðra staðarvalskosti eða núll-kost, þ.e. að aðhafast ekkert,

i.    upplýsingar um áætlaðan framkvæmda- og rekstrartíma.

 2.        Upplýsingar um framkvæmdasvæði, s.s.:

a.   uppdráttur af fyrirhugaðri staðsetningu framkvæmdar og einnig uppdráttur af öðrum staðarvalskostum,

b.  uppdráttur af líklegu áhrifasvæði framkvæmdar,

c.   lýsing á framkvæmdasvæði og áætluðu áhrifasvæði fyrirhugaðrar framkvæmdar, s.s. landslagi, gróðurfari, byggð og landnotkun; fram skal koma hvort svæðið, að hluta eða heild, nýtur verndar eða hvort um það gilda aðrar kvaðir eða takmarkanir á landnotkun, s.s. vegna náttúruvár,

d.  upplýsingar um aðrar fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu, liggi þær fyrir,

e.   upplýsingar um stöðu skipulagsmála á og nærri framkvæmdasvæði, hvort fyrirhuguð framkvæmd samræmist gildandi skipulagsáætlunum og hvernig fyrirhuguð framkvæmd tengist alþjóðasamningum og skuldbindingum.

 3.        Mat á umhverfisáhrifum. Þar komi fram:

a.   lýsing á því hvaða þættir framkvæmdar og starfsemi, sem henni fylgir, eru taldir geta valdið umhverfisáhrifum, s.s. stærð og gerð mannvirkja, framleiðsluferlar, magn og gerð mengunarefna og hljóðstig frá starfsemi,

b.  lýsing á þeim þáttum umhverfisins sem taldir eru geta orðið fyrir áhrifum af fyrirhugaðri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir,

c.   lýsing á þeirri aðferðarfræði sem beitt hefur verið til að segja fyrir um áhrif framkvæmdarinnar á umhverfið,

d.  niðurstöður mats á umhverfisáhrifum, þ.e. mat á líklegum umhverfisáhrifum framkvæmdar og áhrifum starfsemi, sem henni fylgir, á umhverfið og líffræðilega fjölbreytni vegna tilkomu hennar, nýtingar náttúruauðlinda, losunar mengunarefna, ónæðis og/eða úrgangs,

e.   samanburður á umhverfisáhrifum þeirra kosta sem kynntir eru og rökstuðningur fyrir vali framkvæmdaraðila að teknu tilliti til umhverfisáhrifa,

f.   lýsing á fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum,

g.   upplýsingar um þá erfiðleika, tæknilega annmarka eða skort á þekkingu sem framkvæmdaraðili kann að hafa staðið frammi fyrir við mat á umhverfisáhrifum,

h.   tillaga að vöktunaráætlun.

4.    Upplýsingar um kynningu, álitsumleitan og samráð sem staðið hefur verið að af hálfu framkvæmdaraðila við mat á umhverfisáhrifum og upplýsingar um afstöðu þeirra aðila sem hafa tjáð sig um framkvæmdina, matsáætlun eða matsskýrslu á vinnslustigi.

5.    Stutt og skýr samantekt á almennu máli um matsskýrslu og niðurstöður hennar.

 

19. gr.

Beiðni um frekari gögn.

Ef sérstakar ástæður mæla með getur Skipulagsstofnun farið fram á að framkvæmdaraðili leggi fram frekari gögn en gert er ráð fyrir í samþykktri matsáætlun, við gerð matsskýrslu og við athugun stofnunarinnar, sbr. 20. gr., enda rökstyðji stofnunin beiðnina sérstaklega.

 

VII. KAFLI

Athugun og úrskurður um mat á umhverfisáhrifum.

20. gr.

Athugun Skipulagsstofnunar.

Þegar framkvæmdaraðili hefur sent Skipulagsstofnun matsskýrslu skal stofnunin innan tveggja vikna meta hvort skýrslan sé í samræmi við samþykkta matsáætlun skv. 15. gr., uppfylli kröfur sem gerðar eru í 18. gr. og, ef við á, taka afstöðu til röksemda framkvæmdaraðila vegna frávika í matsskýrslu frá samþykktri matsáætlun.

Hafni Skipulagsstofnun að taka matsskýrslu til athugunar af þeim ástæðum sem greindar eru í 1. mgr. ber henni að rökstyðja sérstaklega hverju sé ábótavant og leiðbeina framkvæmdaraðila um frekari vinnslu matsskýrslu. 

 

21. gr.

Kynning á matsskýrslu.

Telji Skipulagsstofnun matsskýrslu vera í samræmi við matsáætlun og ákvæði 18. gr. auglýsir stofnunin hina fyrirhuguðu framkvæmd og matsskýrslu með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu, dagblaði sem gefið er út á landsvísu og, eftir því sem við á, í fjölmiðli sem ætla má að nái til þeirra sem búa nærri framkvæmdasvæði.

Framkvæmdaraðili skal kynna almenningi framkvæmd og matsskýrslu í samráði við Skipulagsstofnun eftir að skýrslan hefur verið auglýst. Skipulagsstofnun getur vikið frá þeirri kröfu ef sýnt þykir að framkvæmd og matsskýrsla hafi hlotið fullnægjandi kynningu.

Matsskýrslan skal liggja frammi á aðgengilegum stað nærri framkvæmdasvæði og hjá Skipulagsstofnun í sex vikur eftir að Skipulagsstofnun hefur kynnt hina fyrirhuguðu framkvæmd, sbr. 1. mgr., sem jafnframt er sá frestur sem gefst til að koma skriflegum athugasemdum á framfæri við Skipulagsstofnun. Öllum er heimilt að gera athugasemdir við fram lagða matsskýrslu.

 

22. gr.

Umsagnir og sérfræðiálit.

Skipulagsstofnun skal leita umsagnar leyfisveitenda og annarra aðila eftir því sem við á. Umsagnaraðilar skulu fjalla um hvort á fullnægjandi hátt sé fjallað um eftirtalin atriði sem eru á starfsviði þeirra, eftir því sem við á:

a.   fyrirhugaða framkvæmd,

b.   umhverfi,

c.   umhverfisáhrif,

d.   mótvægisaðgerðir,

e.   vöktun,

f.    þörf á að kanna tiltekin atriði frekar.

Skipulagsstofnun skal veita umsagnaraðilum a.m.k. þriggja vikna frest til að gefa umsögn um matsskýrslu.

Komi umsagnaraðili fram með ný atriði sem ekki hafa komið fram í umfjöllun hans á fyrri stigum ber honum að gera sérstaklega grein fyrir því og ástæðu þess að það hafi ekki komið fram fyrr.

Skipulagsstofnun er heimilt að leita álits sérfræðinga á ákveðnum þáttum matsskýrslu og fram komnum gögnum að höfðu samráði við framkvæmdaraðila, sbr. 16. gr. Leiti stofnunin sérfræðiálits skal í úrskurði tilgreina ástæður þess.

 

23. gr.

Álit framkvæmdaraðila.

Umsagnir, athugasemdir og sérfræðiálit, sem Skipulagsstofnun berast við matsskýrslu, skulu kynntar framkvæmdaraðila eftir því sem þær berast stofnuninni og honum gefinn kostur á að svara þeim eða skýra þau atriði sem þar eru tilgreind.

Framkvæmdaraðila skal gefinn a.m.k. viku frestur til að fara yfir fram komnar umsagnir, athugasemdir og sérfræðiálit. Taki framkvæmdaraðili sér lengri frest til að koma að athugasemdum sínum um fram komnar umsagnir skal hann tilkynna Skipulagsstofnun um það og skal þá sá frestur sem Skipulagsstofnun hefur til að úrskurða um mat á umhverfisáhrifum lengjast sem þeim tíma nemur.

 

24. gr.

Úrskurður Skipulagsstofnunar.

Skipulagsstofnun skal kveða upp rökstuddan úrskurð um mat á umhverfisáhrifum á grundvelli fyrirliggjandi gagna innan fjögurra vikna, sbr. þó 2. mgr. 23. gr., frá því að frestur til athugasemda, skv. 3. mgr. 21. gr., rennur út. Í úrskurði Skipulagsstofnunar skal taka ákvörðun um hvort:

a.   fallist er á viðkomandi framkvæmd, með eða án skilyrða, eða

b.   lagst er gegn viðkomandi framkvæmd vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa.

Í úrskurði Skipulagsstofnunar skal gera grein fyrir forsendum og niðurstöðum ákvörðunarinnar og hvaða skilyrðum hún er háð.

Skipulagsstofnun er heimilt í úrskurði sínum að setja skilyrði um að framkvæmdaraðili gangist fyrir frekari rannsóknum á tilteknum atriðum fyrir og eftir hina fyrirhuguðu framkvæmd í þeim tilgangi að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar á umhverfið og til að ganga úr skugga um hvaða afleiðingar framkvæmdin muni hafa í för með sér.

Skipulagsstofnun skal, setji hún skilyrði í úrskurði sínum, taka fram undir hvaða leyfisveitanda það falli að hafa eftirlit með að farið sé að settum skilyrðum.

Hafi forsendur breyst vegna nýrra upplýsinga er Skipulagsstofnun heimilt að gera minni háttar breytingar á úrskurði sínum eftir birtingu hans, að fengnu áliti leyfisveitanda og annarra ef við á, hafi þær breytingar ekki verið fyrirsjáanlegar þegar úrskurður var birtur eða þær taldar til bóta og í samræmi við tilgang laga um mat á umhverfisáhrifum. Breytingin skal kynnt á sama hátt og úrskurður skv. 25. gr.

 

25. gr.

Kynning á úrskurði.

Þegar úrskurður Skipulagsstofnunar liggur fyrir skal hann kynntur framkvæmdaraðila, leyfisveitendum, umsagnaraðilum og þeim sem gert hafa athugasemdir við matsskýrslu á kynningartíma liggi upplýsingar fyrir um heimilisfang þeirra aðila. Úrskurðurinn skal kynntur á sama hátt og matsskýrsla skv. 1. mgr. 21. gr. reglugerðarinnar innan tveggja vikna frá því að hann var kveðinn upp. Almenningur skal eiga greiðan aðgang að úrskurði Skipulagsstofnunar, m.a. á heimasíðu stofnunarinnar. Skipulagsstofnun skal í úrskurði sínum sérstaklega geta um málskotsrétt almennings, sbr. 26. gr.

 

26. gr.

Málskot.

Ágreiningi um framkvæmd reglugerðar þessarar má skjóta til úrskurðar umhverfisráðherra.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmd, sem tilgreind er í 2. viðauka, sé matsskyld má kæra til umhverfisráðherra innan fjögurra vikna frá auglýsingu um ákvörðun stofnunarinnar.

Úrskurð Skipulagsstofnunar skv. 24. gr. má kæra til umhverfisráðherra innan fjögurra vikna frá því að hann var birtur og fer um kæruna samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

Öllum er heimilt að kæra til ráðherra ákvarðanir Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. og úrskurð Skipulagsstofnunar skv. 3. mgr. Kærur skulu vera skriflegar.

 

27. gr.

Úrskurður ráðherra.

Umhverfisráðherra skal kveða upp rökstuddan úrskurð vegna kæru skv. 2. mgr. 26. gr. innan fjögurra vikna frá því að kærufrestur rann út. Áður en ráðherra kveður upp úrskurð vegna kæru skv. 2. mgr. 26. gr. skal hann leita umsagnar Skipulagsstofnunar, framkvæmdaraðila, og annarra aðila eftir því sem við á.

Umhverfisráðherra skal kveða upp rökstuddan úrskurð vegna kæru skv. 3. mgr. 26. gr. innan átta vikna frá því að kærufrestur rann út. Um niðurstöðu úrskurðar ráðherra gilda ákvæði 2.-4. mgr. 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, eftir því sem við á. Áður en ráðherra kveður upp úrskurð vegna kæru skv. 3. mgr. 26. gr. skal hann leita umsagnar Skipulagsstofnunar, framkvæmdaraðila, leyfisveitenda og annarra aðila eftir því sem við á.

Úrskurður ráðherra er fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi.

 

VIII. KAFLI

Ýmis atriði.

28. gr.

Leyfi til framkvæmda.

Óheimilt er að gefa út leyfi fyrir framkvæmdum sem falla undir 1. eða 2. viðauka við reglugerð þessa fyrr en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum skv. 24. gr. og/eða ákvörðun skv. IV. kafla liggur fyrir.

Við leyfisveitingar skal taka tillit til úrskurðar Skipulagsstofnunar.

 

29. gr.

Eftirlit.

Leyfisveitendur hafa eftirlit með því að framkvæmd sé í samræmi við leyfi og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum samkvæmt reglugerð þessari og fer með eftirlit samkvæmt hlutaðeigandi lögum, sbr. 4. mgr. 24. gr.

Berist Skipulagsstofnun vitneskja um framkvæmd sem fellur undir 1. eða 2. viðauka við reglugerð þessa og hefur ekki verið tilkynnt stofnuninni beinir hún fyrirspurn til leyfisveitanda um framkvæmdina.

 

30. gr.

Mat á umhverfisáhrifum og starfsleyfi.

Þegar um framkvæmd vegna starfsleyfisskylds atvinnureksturs er að ræða, sbr. reglugerð nr. 789/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sem jafnframt er matsskyld samkvæmt reglugerð þessari er framkvæmdaraðila heimilt, að fengnu samþykki Skipulagsstofnunar áður en matsáætlun er lögð fram, að vinna matsáætlun í samráði við starfsleyfisveitanda þannig að á sama tíma verði unnið að matsskýrslu og starfsleyfi.

 

31. gr.

Annars konar mat.

Ráðherra getur heimilað í sérstökum undantekningartilvikum, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og leyfisveitenda, að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar eða hluta hennar, sem tilgreind er í 1. eða 2. viðauka, fari fram með öðrum hætti en kveðið er á um í reglugerð þessari. Málsmeðferð slíks mats skal vera jafngild þeirri málsmeðferð sem mælt er fyrir um í reglugerð þessari.

Framkvæmdaraðili sem sækir um slíka málsmeðferð til ráðherra skal í umsókn sinni gera grein fyrir ástæðum þess að sótt er um slíka málsmeðferð og sýna fram á að málsmeðferð slíks mats sé jafngild þeirri málsmeðferð sem mælt er fyrir um í reglugerð þessari.

 

32. gr.

Gögn framkvæmdaraðila.

Almennar reglur eigna- og höfundarréttar gilda um gögn þau sem lögð eru fram samkvæmt reglugerð þessari.

 

33. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 6. og 19. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og með hliðsjón af tilskipunum Evrópusambandsins, 97/11/EB og 85/337/EBE.

Reglugerð þessi öðlast gildi við birtingu og um leið fellur úr gildi samnefnd reglugerð nr. 179/1994.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir að matsferli sé hafið samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum fyrir gildistöku reglugerðar þessarar gilda ákvæði reglugerðarinnar um matsskýrslur sem lagðar eru fram frá gildistöku reglugerðarinnar.

 

Umhverfisráðuneytinu, 22. september 2000.

 

Siv Friðleifsdóttir.

Magnús Jóhannesson.

 

 

1. VIÐAUKI

Framkvæmdir sem ávallt eru háðar mati á umhverfisáhrifum.

(Viðauki þessi er samhljóða 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum.)

 

       1.   Olíuhreinsunarstöðvar (þó ekki fyrirtæki sem framleiða eingöngu smurolíur úr hráolíu) og mannvirki fyrir kolagösun og þéttingu úr a.m.k. 500 tonnum af kolum eða jarðbiksleir á dag.

       2.   Jarðvarmavirkjanir og önnur varmaorkuver með 50 MW uppsett varmaafl eða meira og önnur orkuver með 10 MW uppsett rafafl eða meira.

       3.   Kjarnorkuver og aðrir kjarnakljúfar, einnig þegar slík orkuver eða kjarnakljúfar (kjarnorkuver og aðrir kjarnakljúfar teljast ekki lengur til slíkra stöðva þegar öll kjarnakleyf efni og önnur geislamenguð efni hafa verið endanlega fjarlægð af staðnum) eru rifin niður eða tekin úr notkun (nema rannsóknastöðvar með yfir 1 kW heildarhitaafköst þar sem fram fer umbreyting á kjarnakleyfum efnum og tímgunarefnum).

       4.   Stöðvar þar sem geisluð kjarnakleyf efni eru endurunnin. Stöðvar til framleiðslu eða auðgunar kjarnakleyfra efna, til vinnslu geislaðra kjarnakleyfra efna eða mjög geislavirks úrgangs, til endanlegrar geymslu á geisluðum kjarnakleyfum efnum, eingöngu til endanlegrar geymslu á geislavirkum úrgangi eða eingöngu til geymslu (til meira en tíu ára) á geisluðum kjarnakleyfum efnum eða geislavirkum úrgangi annars staðar en á framleiðslustað.

       5.   Verksmiðjur þar sem fram fer frumframleiðsla eða endurbræðsla á málmum.

       6.   Mannvirki fyrir asbestnám og vinnslu og úrvinnslu úr asbesti og vörum sem innihalda asbest: fyrir vörur úr asbestsementi, með ársframleiðslu sem er yfir 20.000 tonn af fullunnum vörum, fyrir núningsþolin efni, með ársframleiðslu sem er yfir 50 tonn af fullunnum vörum, og fyrir aðra notkun asbests, ef notkun er meiri en sem nemur 200 tonnum á ári.

       7.   Efnaverksmiðjur sem framleiða:

i.    lífrænt hráefni,

ii.   ólífrænt hráefni,

iii.  áburð sem inniheldur fosfór, köfnunarefni eða kalíum (einnig áburðarblöndur),

iv.  grunnvörur fyrir plöntuvarnarefni og lífeyða,

v.   grunnlyfjavörur með efnafræðilegum og líffræðilegum aðferðum,

vi.  sprengiefni.

       8.   Lagning járnbrauta um langar vegalengdir.

       9.   Flugvellir með 2.100 m langa meginflugbraut eða lengri.

       10. i.          Stofnbrautir í þéttbýli.

ii.   Nýir vegir utan þéttbýlis sem eru 10 km eða lengri. Enduruppbygging vega utan þéttbýlis þar sem nýlagning samkvæmt áætlunum er a.m.k. 10 km að lengd.

       11. Hafnir (viðskiptahafnir, skipgengar vatnaleiðir og innhafnir) sem skip stærri en 1.350 tonn geta siglt um.

       12. Förgunarstöðvar þar sem spilliefni eru brennd, meðhöndluð með efnum eða urðuð. Aðrar förgunarstöðvar úrgangs sem meðhöndla meira en 500 tonn af úrgangi á ári.

       13. Kerfi til að vinna grunnvatn ef árlegt magn vatns sem unnið er eða veitt á er 10 milljónir m3 eða meira.

       14. Veita vatnsforða milli vatnasvæða ef flutningurinn er yfir 30 milljónir m3 á ári. Flutningur á drykkjarvatni í leiðslum er undanskilinn.

       15. Skolphreinsistöðvar með afkastagetu sem svarar til 50.000 persónueininga eða meira.

       16. Vinnsla á meira en 500 tonnum á dag af jarðolíu og meira en 500.000 m3 af jarðgasi á dag.

       17. Stíflur og önnur mannvirki eða breytingar á árfarvegi til að hemja og/eða miðla vatni þar sem 3 km2 lands eða meira fara undir vatn eða rúmtak vatns er meira en 10 milljónir m3.

       18. Leiðslur sem eru 1 km eða lengri og 50 sm í þvermál eða meira til flutnings á gasi eða vökvum sem eru eldfimir eða hættulegir umhverfi.

       19. Stöðvar þar sem fram fer þauleldi alifugla og svína með:

i.    85.000 stæði fyrir kjúklinga eða 60.000 fyrir hænur,

ii.   3.000 stæði fyrir alisvín (yfir 30 kg) eða fleiri eða

iii.  900 stæði fyrir gyltur eða fleiri.

       20. Verksmiðjur:

i.    sem framleiða pappírsdeig úr timbri eða svipuðum trefjaefnum,

ii.   sem framleiða pappír og pappa og geta framleitt meira en 200 tonn á dag.

       21. Efnistaka þar sem áætluð efnistaka raskar 50.000 m2 svæði eða stærra eða er 150.000 m3 eða meiri. Efnistaka þar sem fleiri en einn efnistökustaður ná til samans yfir 50.000 m2 svæði eða stærra.

       22. Loftlínur utan þéttbýlis til flutnings á raforku með 66 kV spennu eða hærri. Sæstrengir til flutnings á raforku með 132 kV spennu eða hærri og eru 20 km eða lengri.

       23. Geymslustöðvar fyrir jarðolíu, efni unnin úr jarðolíu eða efnavörur með 50.000 m3 geymslugetu eða meira.

       24. Fiskimjöls- og lýsisverksmiðjur í þéttbýli með framleiðslugetu 1.000 tonn á sólarhring eða meiri.

 

 

2. VIÐAUKI

Framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif

og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar

hvort háðar skuli mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum þessum,

sbr. einnig 3. viðauka.

(Viðauki þessi er samhljóða 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum.)

 

 1.        Landbúnaður, skógrækt og fiskeldi:

a.   Framkvæmdir til endurskipulagningar á landareignum í dreifbýli sem taka til stærra landsvæðis en 20 ha.

b.  Framkvæmdir til að leggja óræktað land eða lítt snortið svæði undir þaulnýtinn landbúnað.

c.   Vatnsstjórnunarframkvæmdir vegna landbúnaðar, þar með taldar áveitu- og framræsluframkvæmdir, á 10 ha svæði eða stærra eða á verndarsvæðum.

d.  Nýræktun skóga á 200 ha svæði eða stærra eða á verndarsvæðum og ruðningur á náttúrulegum skógi.

e.   Uppgræðsla lands á verndarsvæðum.

f.   Stöðvar þar sem fram fer þauleldi alifugla og svína með:

i.           40.000 stæði fyrir kjúklinga eða hænur,

ii.          2.000 stæði fyrir alisvín (yfir 30 kg) eða fleiri eða

iii.         750 stæði fyrir gyltur eða fleiri.

Stöðvar þar sem fram fer þauleldi búfjár á verndarsvæðum.

g.   Þauleldi á fiski þar sem ársframleiðsla er 200 tonn eða meiri og fráveita til sjávar eða þar sem ársframleiðsla er 20 tonn eða meiri og fráveita í ferskvatn.

h.   Endurheimt lands frá hafi.

 2.        Námuiðnaður:

a.   Efnistaka þar sem áætluð efnistaka raskar 25.000 m2 svæði eða stærra eða er 50.000 m3 eða meiri. Efnistaka þar sem fleiri en einn efnistökustaður ná til samans yfir 25.000 m2 svæði eða stærra. Efnistaka á verndarsvæðum.

b.  Neðanjarðarnámur.

c.   Djúpborun, einkum:

i.   borun á vinnsluholum og rannsóknarholum á háhitasvæðum,

ii.  borun eftir jarðhita á lághitasvæðum þar sem ölkeldur, laugar eða hverir eru á yfirborði eða í næsta nágrenni,

iii.  borun fyrir geymslu kjarnorkuúrgangs,

iv. borun eftir neysluvatni miðað við 2 milljóna m3 ársnotkun eða meiri,

v.  að frátalinni borun til að kanna stöðugleika jarðvegs.

d.  Jarðvarmavirkjanir ofan jarðar til að nema kol, jarðolíu, jarðgas og málmgrýti, svo og jarðbiksleir.

 3.        Orkuiðnaður:

a.   Iðjuver til framleiðslu á rafmagni, gufu og heitu vatni, vatnsorkuver með uppsett rafafl 100 kW eða meira og varmavinnsla úr jarðhitasvæðum sem nemur 2.500 kW hráafli eða meira.

b.  Flutningskerfi gass, gufu eða heits vatns; flutningur á raforku með jarðstrengjum utan þéttbýlis sem eru 10 km eða lengri og eru grafnir niður eða lagðir í stokk; flutningur á raforku með loftlínum á verndarsvæðum; og sæstrengir.

c.   Geymsla jarðgass ofan jarðar á verndarsvæðum.

d.  Neðanjarðargeymsla á eldfimu gasi á verndarsvæðum.

e.   Geymsla jarðefnaeldsneytis ofan jarðar á verndarsvæðum.

f.   Gerð taflna úr kolum og brúnkolum.

g.   Stöðvar til vinnslu og geymslu á geislavirkum úrgangi.

h.   Stöðvar sem nýta vindafl til raforkuframleiðslu (vindbú) með 2 MW uppsett rafafl eða meira.

 4.        Framleiðsla og vinnsla málma:

a.   Stöðvar til framleiðslu á 20 tonnum á dag eða meira af steypujárni og stáli (fyrsta og önnur bræðsla) ásamt samfelldri steypingu.

b.  Stöðvar til vinnslu á járnkenndum málmum:

i.           heitvölsunarstöðvar,

ii.          smiðjur með hömrun,

iii.         varnarhúðun með bræddum málmum.

c.   Málmsteypusmiðjur fyrir járnkennda málma.

d.  Stöðvar til bræðslu, einnig málmblendis, á járnlausum málmum öðrum en góðmálmum, einnig endurheimtum vörum (hreinsun, steypa í steypusmiðjum o.s.frv.).

e.   Stöðvar til vinnslu málma og plastefna ofan jarðar með rafgreiningar- og efnaaðferð.

f.   Framleiðsla og samsetning vélknúinna ökutækja og framleiðsla á hreyflum í slík ökutæki.

g.   Stálskipasmíðastöðvar.

h.   Stöðvar sem eru 1 ha að stærð eða meira til smíða og viðgerða á loftförum.

i.    Framleiðsla á járnbrautabúnaði.

j.   Málmmótun með sprengiefnum.

k.  Stöðvar til að brenna og glæða málmgrýti.

 5.        Steinefnaiðnaður:

a.   Koxofnar (þurreiming kola).

b.  Sementsverksmiðjur.

c.   Stöðvar til framleiðslu á asbesti og asbestvörum.

d.  Stöðvar til framleiðslu á gleri og trefjaefni.

e.   Stöðvar til að bræða steinefni og framleiða steinefnatrefjar.

f.   Framleiðsla á keramikvörum með brennslu, svo sem þakflísum, múrsteinum, eldföstum múrsteinum, flísum, leirmunum eða postulíni, 75 tonn á dag eða meira eða rúmtak ofns er 4 m3 eða meira.

 6.        Efnaiðnaður:

a.   Meðferð á hálfunnum vörum og framleiðsla kemískra efna.

b.  Framleiðsla á varnarefnum og lyfjum, málningu og lakki, gúmmílíki og peroxíðum.

c.   Geymslustöðvar fyrir jarðolíu, efni unnin úr jarðolíu og önnur kemísk efni á verndarsvæðum.

 7.        Matvælaiðnaður:

a.   Vinnsla á olíu og fitu úr jurtum og dýrum.

b.  Pökkun og niðursuða á jurta- og dýraafurðum 75 tonn á dag eða meira.

c.   Framleiðsla á mjólkurvörum 200 tonn á dag eða meira.

d.  Öl- og maltgerð.

e.   Framleiðsla á sætindum og sírópi.

f.   Sláturhús.

g.   Stöðvar til sterkjuframleiðslu.

h.   Fiskimjöls- og lýsisverksmiðjur á verndarsvæðum; fiskimjöls- og lýsisverksmiðjur í þéttbýli með framleiðslugetu 500 tonn á sólarhring eða meiri.

i.    Sykurverksmiðjur.

 8.        Textíl-, leður-, timbur- og pappírsiðnaður:

a.   Iðnver til framleiðslu á pappír og pappa.

b.  Stöðvar þar sem fram fer formeðferð (t.d. þvottur, bleiking, mersivinna) eða litun trefja eða textílefna.

c.   Stöðvar þar sem fram fer sútun á húðum og skinnum.

d.  Stöðvar þar sem fram fer vinnsla og framleiðsla á sellulósa.

 9.        Gúmmíiðnaður:

Framleiðsla og meðferð á vörum úr gúmmílíki.

10.       Framkvæmdir á grunnvirkjum:

a.   Flugvellir á verndarsvæðum.

b.  Tengibrautir í þéttbýli. Allir nýir vegir utan þéttbýlis á verndarsvæðum og á svæðum sem eru á náttúruminjaskrá. Enduruppbygging vega utan þéttbýlis á verndarsvæðum. Hafnir utan þéttbýlis á verndarsvæðum.

c.   Byggingarframkvæmdir við skipgengar vatnaleiðir og gerð skipaskurða og fráveituskurða.

d.  Stíflur og önnur mannvirki eða breytingar á árfarvegi til að hemja og/eða miðla vatni á verndarsvæðum.

e.   Járnbrautir, sporvagnar, lestir í lofti og neðan jarðar, svifbrautir og ámóta brautir af sérstakri gerð sem notaðar eru eingöngu eða aðallega til fólksflutninga.

f.   Leiðslur til flutnings á olíu og gasi á verndarsvæðum.

g.   Vatnsleiðslur utan þéttbýlis á verndarsvæðum.

h.   Mannvirki til að verjast rofi á strandlengjum, t.d. með stíflugörðum, brimbrjótum, hafnargörðum og öðrum varnarmannvirkjum gegn ágangi sjávar. Landfyllingar þar sem áætluð uppfylling er 5 ha eða stærri, þó ekki viðhald og endurbygging slíkra mannvirkja.

i.    Vinnsla grunnvatns og tilflutningur grunnvatns á verndarsvæðum.

j.   Mannvirki á verndarsvæðum til að færa vatnslindir milli vatnasvæða.

11.       Aðrar framkvæmdir:

a.   Varanlegar kappaksturs- og reynsluakstursbrautir fyrir vélknúin ökutæki.

b.  Förgunarstöðvar þar sem úrgangur er brenndur, meðhöndlaður með efnum eða urðaður.

c.   Skolphreinsistöðvar á verndarsvæðum.

d.  Förgunarstöðvar fyrir seyru á verndarsvæðum.

e.   Geymsla brotajárns, þar með taldir bílar, sem er að magni 1.500 tonn á ári eða meira.

f.   Prófunaraðstaða fyrir vélar, hverfla eða hvarfrými.

g.   Stöðvar sem framleiða manngerðar steinefnatrefjar.

h.   Stöðvar til að endurvinna sprengiefni eða eyða því.

i.    Förgun sláturúrgangs.

j.   Endurvinnslustöðvar.

k.  Snjóflóðavarnargarðar til varnar þéttbýli.

12.       Ferðalög og tómstundir:

a.   Skíðasvæði, skíðalyftur og kláfar á skíðasvæðum á verndarsvæðum og jöklum.

b.  Smábátahafnir sem hafa 150 bátalægi eða fleiri.

c.   Þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn utan þéttbýlis á verndarsvæðum á láglendi.

d.  Þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn á hálendi.

e.   Varanleg tjaldsvæði og hjólhýsasvæði sem eru 10 ha eða stærri.

f.   Skemmtigarðar sem ná yfir a.m.k. 2 ha svæði.

13.       Breytingar og viðbætur við framkvæmdir, sbr. 1. og 2. viðauka.

a.   Allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir skv. 1. eða 2. viðauka sem hafa þegar verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.

b.  Framkvæmdir skv. 1. viðauka sem ráðist er í eingöngu eða aðallega til að þróa og prófa nýjar aðferðir eða vörur en eru ekki notaðar lengur en í tvö ár.

 

 

3. VIÐAUKI

Viðmiðanir við mat á framkvæmdum tilgreindum í 2. viðauka.

(Viðauki þessi er samhljóða 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum.)

 

 1.        Eðli framkvæmdar.

Athuga þarf eðli framkvæmdar, einkum með tilliti til:

i.    stærðar og umfangs framkvæmdar,

ii.   sammögnunaráhrifa með öðrum framkvæmdum,

iii.  nýtingar náttúruauðlinda,

iv.  úrgangsmyndunar,

v.   mengunar og ónæðis,

vi.  slysahættu, einkum með tilliti til efna eða aðferða sem notaðar eru.

 2.        Staðsetning framkvæmdar.

Athuga þarf hversu viðkvæm þau svæði eru sem líklegt er að framkvæmd hafi áhrif á, einkum með tilliti til:

i.    landnotkunar sem fyrir er eða er fyrirhuguð samkvæmt skipulagsáætlun,

ii.   magns, gæða og getu til endurnýjunar náttúruauðlinda,

iii.  verndarsvæða:

(a)  friðlýstra náttúruminja og svæða sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd,

(b) svæða sem njóta verndar samkvæmt sérlögum, svo sem Þingvalla, Mývatns- og Laxársvæða og Breiðafjarðar,

(c)  svæða innan 100 m fjarlægðar frá fornleifum sem njóta verndar samkvæmt þjóðminjalögum,

(d) svæða, sbr. gr. 4.21 í skipulagsreglugerð, sem njóta verndar í samræmi við reglugerð um varnir gegn mengun vatns og reglugerð um neysluvatn vegna grunnvatns- og strandmengunar og mengunar í ám og vötnum,

(e)  svæða sem njóta verndar samkvæmt samþykktum alþjóðlegra samninga sem Ísland er bundið af, svo sem Ramsarsamningsins (votlendi) og Bernarsamningsins (verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu). Válistar falla hér undir enda m.a. gefnir út til að uppfylla skyldur Íslands samkvæmt Bernarsamningnum,

(f)  hverfisverndarsvæða samkvæmt ákvæðum í skipulagsáætlunum, sbr. gr. 4.22 í skipulagsreglugerð,

iv.  álagsþols náttúrunnar, einkum með tilliti til:

(a)  votlendissvæða,

(b) strandsvæða,

(c)  sérstæðra jarðmyndana, svo sem hverasvæða, vatnsfalla, jökulminja, eldstöðva og bergmyndana,

(d) náttúruverndarsvæða, þar með talið svæða á náttúruminjaskrá,

(e)  landslagsheilda, ósnortinna víðerna, hálendissvæða og jökla,

(f)  upprunalegs gróðurlendis, svo sem skóglendis,

(g)  fuglabjarga og annarra kjörlenda dýra,

(h)  svæða sem hafa sögulegt, menningarlegt eða fornleifafræðilegt gildi,

(i)   svæða þar sem mengun er yfir viðmiðunargildum í lögum og reglugerðum.

 3.        Eiginleikar hugsanlegra áhrifa framkvæmdar.

Áhrif framkvæmdar ber að skoða í ljósi viðmiðana hér á undan, einkum með tilliti til:

i.    umfangs umhverfisáhrifa, þ.e. þess svæðis og fjölda fólks sem ætla má að verði fyrir áhrifum,

ii.   stærðar og fjölbreytileika áhrifa,

iii.  þess hverjar líkur eru á áhrifum,

iv.  tímalengdar, tíðni og óafturkræfi áhrifa,

v.   sammögnunar ólíkra umhverfisáhrifa á tilteknu svæði,

vi.  áhrifa yfir landamæri.

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica