Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

665/2011

Reglugerð um samvinnu stjórnvalda á EES-svæðinu vegna þjónustuviðskipta á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.

Gagnkvæm aðstoð - almennar skuldbindingar.

1. gr.

Lögbær stjórnvöld á Íslandi skulu eins fljótt og auðið er veita lögbærum stjórnvöldum í öðrum EES-ríkjum aðstoð til að tryggja eftirlit með veitingu þjónustu á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.

Lögbær stjórnvöld á Íslandi skulu að beiðni lögbærra stjórnvalda í öðru EES-ríki og í samræmi við lagaheimildir viðkomandi stjórnvalds veita lögbæru stjórnvaldi í öðru EES-ríki upplýsingar um þjónustuveitendur og annast eftirlit, skoðanir og rannsóknir á starfsemi þjónustuveitanda.

Viðkomandi stjórnvald ákveður í hverju tilfelli fyrir sig til hvaða ráðstafana það telur best að grípa til að uppfylla beiðni skv. 2. mgr.

Íslensk stjórnvöld skulu tryggja að þjónustuveitendur veiti lögbærum stjórnvöldum allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með starfsemi þeirra.

Eigi lögbær stjórnvöld í vandræðum með að verða við beiðni skv. 2. mgr. skal stjórnvald tilkynna það til viðeigandi stjórnvalds í öðru EES-ríki með það að markmiði að finna lausn á vandanum.

Lögbær stjórnvöld skulu tryggja að skrár þar sem finna má upplýsingar um þjónustuveitendur og eru aðgengilegar lögbærum stjórnvöldum á Íslandi séu einnig aðgengilegar sambærilegum lögbærum stjórnvöldum annarra EES-ríkja.

Eftirlit með þjónustuveitendum með staðfestu á Íslandi sem veita þjónustu án staðfestu í öðru EES-ríki.

2. gr.

Þjónustuveitendur með staðfestu á Íslandi lúta eftirliti lögbærra íslenskra stjórnvalda, jafnvel þó að þeir veiti þjónustu án staðfestu í öðru EES-ríki.

Lögbær íslensk stjórnvöld skulu ekki láta hjá líða að grípa til ráðstafana eða hafa eftirlit með þjónustuveitendum með staðfestu á Íslandi af þeim sökum að þjónustan sé veitt í öðru EES-ríki eða að fyrirsjáanlegt sé að hún valdi skaða í öðru EES-ríki.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er lögbærum íslenskum stjórnvöldum ekki skylt að stunda raunverulegar athuganir í öðru EES-ríki þar sem þjónustuveitandi veitir þjónustu án staðfestu. Lögbær íslensk stjórnvöld skulu óska eftir aðstoð lögbærra stjórnvalda í því EES-ríki þar sem þjónustan er veitt við að framkvæma skoðanir eða annað eftirlit, ef nauðsyn krefur.

Eftirlit með þjónustuveitendum sem veita þjónustu án staðfestu á Íslandi.

3. gr.

Þegar þjónustuveitandi veitir þjónustu án staðfestu á Íslandi hefur lögbært stjórnvald, í því aðildarríki sem þjónustuveitandi er með staðfestu, eftirlit með þjónustuveitanda.

Að beiðni lögbærs stjórnvalds í EES-ríki þar sem þjónustuveitandi er með staðfestu skulu íslensk stjórnvöld, í samræmi við lagaheimildir viðkomandi stjórnvalds, framkvæma nauðsynlegt eftirlit með þjónustuveitendum er veita þjónustu án staðfestu á Íslandi. Viðkomandi stjórnvald ákveður í hverju tilfelli fyrir sig til hvaða ráðstafana það telur best að grípa til að uppfylla beiðni skv. 1. málslið.

4. gr.

Í þeim tilfellum sem íslenskum stjórnvöldum er heimilt, skv. 13. gr. laga nr. 76/2011 um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins og reglum settum á grundvelli hennar, að beita íslenskum reglum gagnvart þjónustuveitendum er veita þjónustu án staðfestu á Íslandi, skulu íslensk stjórnvöld annast eftirlit með þeim aðilum.

Í samræmi við 1. mgr. skulu íslensk stjórnvöld gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þjónustuveitandi sem veitir þjónustu án staðfestu á Íslandi fari að þeim reglum sem gilda um aðgengi að og veitingu þjónustu og annast nauðsynlegt eftirlit með starfsemi hans.

Þá er íslenskum stjórnvöldum einnig heimilt að eigin frumkvæði að viðhafa eftirlit hjá þjónustuveitanda sem veitir þjónustu án staðfestu á Íslandi ef eftirlitið er án mismununar, í samræmi við meðalhóf og ekki grundvallað á þeirri staðreynd að þjónustuveitandi er með staðfestu í öðru EES-ríki.

Gagnkvæm aðstoð vegna undanþága í einstökum tilfellum.

5. gr.

Þrátt fyrir ákvæði 13. gr. laga nr. 76/2011 um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins er lögbæru yfirvaldi í undantekningartilfellum heimilt að grípa til sérstakra ráðstafana gangvart þjónustuveitanda sem hyggst veita þjónustu án staðfestu á Íslandi, sbr. 14. gr. laganna.

Áður en lögbært yfirvald á Íslandi ákveður að grípa til sérstakra ráðstafana skv. 1. mgr., skal það óska eftir að lögbært yfirvald í því EES-ríki sem þjónustuveitandi er með staðfestu grípi til nauðsynlegra aðgerða gagnvart þjónustuveitanda til að tryggja öryggi þjónustu. Lögbær yfirvöld á Íslandi skulu leggja fram allar nauðsynlegar upplýsingar um viðkomandi þjónustuveitanda og þær aðstæður sem uppi eru.

Grípi lögbært yfirvald í öðru EES-ríki ekki til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja öryggi þjónustu skulu lögbær íslensk stjórnvöld tilkynna viðkomandi stjórnvöldum í öðru EES-ríki og Eftirlitsstofnun EFTA að þau hyggist grípa til aðgerða. Í tilkynningunni skulu tilgreindar ástæður þess að lögbær íslensk stjórnvöld telja að aðgerðir lögbærra stjórnvalda í því EES-ríki sem þjónustuveitandi er með staðfestu séu ófullnægjandi og hvernig fyrirhugaðar aðgerðir samræmast 14. gr. laganna.

Óheimilt er að grípa til sérstakra ráðstafana fyrr en 15 dögum eftir að tilkynning skv. 3. mgr. hefur verið send.

Ef brýn nauðsyn krefur geta lögbær íslensk stjórnvöld vikið frá reglum 2.-4. mgr. og skulu þá án tafar tilkynna það til Eftirlitsstofnunar EFTA og viðeigandi EES-ríkis og tilkynna hvers vegna þau telja að um brýna nauðsyn sé að ræða.

6. gr.

Óski annað EES-ríki eftir því að lögbær stjórnvöld á Íslandi grípi til aðgerða gegn þjónustuveitanda með staðfestu á Íslandi er veitir þjónustu án staðfestu í öðru EES-ríki, skulu lögbær stjórnvöld á Íslandi veita lögbæru stjórnvaldi í öðru EES-ríki umbeðnar upplýsingar um það hvort að starfsemi þjónustuveitanda sé í samræmi við lög og reglur og staðfesta upplýsingar sem liggja að baki beiðninni. Jafnframt skulu lögbær íslensk stjórnvöld tilkynna því lögbæra stjórnvaldi sem óskaði eftir upplýsingum um það hvort og þá til hvaða aðgerða lögbær íslensk stjórnvöld hyggjast grípa eða hvers vegna ekki verður gripið til aðgerða.

Tilkynningar vegna öryggis þjónustu.

7. gr.

Lögbær stjórnvöld á Íslandi skulu án tafar tilkynna viðeigandi lögbærum stjórnvöldum í öðrum EES-ríkjum og Eftirlitsstofnun EFTA um háttsemi eða aðstæður í tengslum við veitingu þjónustu sem geta ógnað heilsu eða öryggi manna eða umhverfinu, hvort sem um er að ræða á Íslandi eða í öðrum EES-ríkjum. Ákvæðið gildir hvort sem um er að ræða þjónustuveitendur með staðfestu á Íslandi eða þjónustuveitendur sem veita þjónustu án staðfestu á Íslandi.

Sérstakar upplýsingar um þjónustuveitanda.

8. gr.

Lögbær íslensk stjórnvöld skulu í samræmi við íslenska löggjöf og reglur veita lögbæru stjórnvaldi í öðru EES-ríki upplýsingar um stjórnsýslu- eða refsiviðurlög sem þjónustuveitandi hefur þurft að sæta sem og upplýsingar um ógjaldfærni eða gjaldþrot í tengslum við sviksamlegt athæfi.

Lögbær stjórnvöld á Íslandi skulu eingöngu veita þær upplýsingar sem um ræðir í 1. mgr. ef þær tengjast með beinum hætti faglegri hæfni þjónustuveitanda og ákvörðun hefur verið tekin. Lögbær íslensk stjórnvöld skulu veita upplýsingar um hvort ákvörðun sé endanleg eða hvort að hægt sé að áfrýja ákvörðun.

Þá skulu lögbær íslensk stjórnvöld veita upplýsingar um þau lög og þær reglur sem þjónustuveitandi var fundin sekur um að brjóta.

Rafræn upplýsingaskipti.

9. gr.

Upplýsingar samkvæmt þessari reglugerð skulu veittar lögbæru stjórnvaldi í öðru EES-ríki með rafrænum hætti.

Lögbær stjórnvöld á Íslandi skulu nota sérstakt evrópskt upplýsingakerfi (Internal Market Information system - IMI) til að miðla upplýsingum rafrænt til lögbærra stjórnvalda í öðrum EES-ríkjum.

Upplýsingar sem lögbær yfirvöld skiptast á í tengslum við samvinnu stjórnvalda á EES-svæðinu vegna þjónustuviðskipta skal eingöngu nota vegna þess máls sem liggur til grundvallar beiðni um upplýsingar.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið er tengiliður vegna samvinnu stjórnvalda á EES-svæðinu vegna þjónustuviðskipta á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.

Tilkynningar til Eftirlitsstofnunar EFTA.

10. gr.

Eftirlitsstofnun EFTA hefur ekki aðgang að evrópska upplýsingakerfinu sem fjallað er um í 9. gr. Af þeim sökum skulu lögbær stjórnvöld senda Eftirlitsstofnun EFTA beint þær tilkynningar sem um ræðir í 3. og 5. mgr. 5. gr. og 7. gr.

Tilkynningar til Eftirlitsstofnunar EFTA skal senda án persónugreinanlegra upplýsinga.

Meðferð persónuupplýsinga.

11. gr.

Framkvæmd og beiting reglna samkvæmt þessari reglugerð skal vera í samræmi við lög og reglur sem gilda um persónuvernd og friðhelgi einkalífs.

Gildistaka.

12. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 3. mgr. 21. gr. laga nr. 76/2011 um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins og öðlast þegar gildi.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, 29. júní 2011.

F. h. r.

Helga Jónsdóttir.

Kjartan Gunnarsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.