Samgönguráðuneyti

662/2006

Reglugerð um aksturs- og hvíldartíma ökumanna. - Brottfallin

I. KAFLI.
Skýringar og gildissvið.

1. gr.
Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að mæla fyrir um hámarks aksturstíma þeirra ökumanna sem reglugerðin gildir um hvern dag, hverja viku og hálfsmánaðarlega, um skyldu þeirra til að gera hlé á akstri og til að taka daglega og vikulega hvíld frá akstri.

2. gr.
Gildissvið.

Reglugerðin gildir um aksturs- og hvíldartíma ökumanna bifreiða sem ætlaðar eru til farþega- eða vöruflutninga í atvinnuskyni á vegum sem opnir eru almennri umferð, það er hópbifreiðar og vörubifreiðar, svo og sendibifreiðar sem dregur eftirvagn, sé heildarþyngd vagnlestar yfir 3500 kg, með þeim undantekningum sem um getur í 3. mgr. og 4. gr.

Reglugerðin gildir einnig eftir því sem við á, um þann sem er í bifreiðinni til þess að leysa ökumanninn af þegar hann tekur hvíld.

Reglugerð þessi gildir ekki um bifreið sem:

a)

notuð er til farþegaflutninga í reglubundnum ferðum, sé ökuleiðin ekki lengri en 50 km

b)

lögregla, slökkvilið eða almannavarnir nota

c)

notuð er í tengslum við störf við fráveitu, flóðavernd, vatns-, gas- og rafmagnsveitu, viðhald á vegum og eftirlit, sorphreinsun, símaþjónustu, póstflutninga, útvarps- og sjónvarpssendingar og við að miða út útvarps- eða sjónvarpssendibúnað eða móttökutæki

d)

notuð er í neyðartilvikum og við björgunarstörf

e)

ætluð er sérstaklega til að nota við læknisþjónustu

f)

notuð er til að flytja búnað fyrir fjölleikahús og tívolí

g)

ætluð eru sérstaklega til að nota við aðstoð á vegum

h)

er reynsluekið á vegum vegna tækniþróunar, viðgerðar eða viðhalds eða vegna þess að bifreiðin er ný eða endurbyggð og hefur ekki verið tekin í notkun

i)

notuð er til að flytja vörur til persónulegra þarfa en ekki í atvinnuskyni

j)

notuð er til að safna mjólk frá búum og flytja til baka mjólkurílát eða mjólkurafurðir til dýraeldis.



3. gr.
Skilgreiningar.

Flutningur á vegum: allur akstur ökutækja til vöru- eða farþegaflutninga á vegum, sem opnir eru almennri umferð, með eða án farms.

Flytjandi: skráður eigandi (umráðamaður) bifreiðar eða sá sem hefur hana að láni og notar til fólks- eða vöruflutninga á vegum í atvinnuskyni, ekur henni sjálfur eða ökumaður í hans þjónustu.

Akstursdagur: aksturstíminn milli tveggja daglegra hvíldartíma eða milli daglegs hvíldartíma og vikulegs hvíldartíma.

Vika (akstursvika): sjö dagar sem hefjast á miðnætti aðfaranótt mánudags og lýkur kl. 24.00 næsta sunnudag.

Hvíld: samfelldur tími sem ökumaður getur notað að vild og er að minnsta kosti ein klukkustund.

Reglubundnir farþegaflutningar: fastar ferðir tiltekna leið með föstum viðkomustöðum samkvæmt fyrirfram birtri áætlun þar sem farþegum er hleypt inn og út.

4. gr.
Undanþágur frá skráningu aksturs- og hvíldartíma með ökurita.

Bifreiðar, sem notaðar eru með eftirfarandi hætti, eru undanþegnar ákvæðum um að skrá aksturs- og hvíldartíma með ökurita. Undanþágan tekur til bifreiða:

a)

í farþegaflutningum fyrir 17 manns og færri að ökumanni meðtöldum

b)

sem ríki og sveitarfélög nota til að annast þjónustu við almenning og ekki er í samkeppni við aðra

c)

sem sá notar, sem stundar landbúnað, garðyrkju, skógariðnað eða fiskveiðar, til að flytja vörur í tengslum við reksturinn innan við 50 km radíus frá bækistöð sinni, að meðtöldum sveitarfélögum sem hafa bækistöðvar sínar innan þessara marka

d)

sem notaðar eru til að flytja fisk- og skepnuúrgang eða skrokka sem ekki eru ætlaðir til manneldis

e)

sem notaðar eru til að flytja lifandi dýr frá búum á heimamarkað og til baka eða frá markaði til næsta sláturhúss

f)

sem eru sérstaklega útbúnar og notaðar sem sölustaður á heimamarkaði, notaðar til að selja vörur við húsdyr, notaðar við færanleg banka- eða sparisjóðsviðskipti, guðsþjónustu, útlán á bókum og fleiru eða notaðar við menningarviðburði og sýningar

g)

sem ökumaður notar til að flytja efni eða búnað, vegna sérstakra verkefna sinna innan við 50 km radíus frá bækistöð sinni enda sé aksturinn ekki aðalstarf ökumannsins og brjóti ekki í bága við markmið reglugerðarinnar

h)

sem eingöngu eru notaðar til aksturs á eyju sem er ekki stærri en 2.300 km² og er ekki tengd meginlandinu með brú, vaði eða göngum sem opin eru fyrir umferð vélknúinna ökutækja

i)

sem eingöngu eru notaðar til dráttar við landbúnað og skógariðnað.


Ökumenn þessara bifreiða skulu þó, eftir því sem unnt er, fylgja reglum um aksturs- og hvíldartíma.

5. gr.
Jafngildi skírteina.

Ökumaður, sem fullnægir kröfum um ökunám og ökupróf í reglugerð um ökuskírteini og í námskrá, settri samkvæmt reglugerðinni, og uppfyllir þar með skilyrði þess að fá aukin ökuréttindi hér á landi samkvæmt ökuréttindaflokkum C, C1, D og D1, hefur fengið fullnægjandi þjálfun í samræmi við reglur Evrópusambandsins.

II. KAFLI.
Aksturs- og hvíldartími ökumanna.

6. gr.
Aksturstími.

Aksturstími hvern dag skal ekki vera lengri en níu klukkustundir. Heimilt er að lengja hann í tíu klukkustundir tvisvar í viku.

Heildaraksturstími á hverjum 14 dögum má ekki fara yfir 90 klukkustundir.

7. gr.
Hlé.

Ökumaður skal gera hlé á akstri í að minnsta kosti 45 mínútur eftir akstur í 4½ klukkustund nema hvíldartími hans sé að hefjast.

Ökumaður má í stað hlés skv. 1. mgr., gera hlé á akstri í a.m.k. 15 mínútur í senn á 4½ klukkustundar aksturstímanum eða strax eftir að akstri lýkur enda sé hvíldin samtals a.m.k. 45 mínútur.

Í aksturshléi má ökumaður hvorki inna af hendi önnur verkefni tengd akstri né annað starf. Biðtími og sá tími, sem ekki er notaður til aksturs á meðan dvalið er í ökutækinu á siglingu í ferju, er ekki talinn til annarra verkefna ökumanns heldur hlé.

Hlé er ekki talið með daglegum hvíldartíma.

8. gr.
Daglegur hvíldartími.

Ökumaður skal fá hvíld samfellt í a.m.k. ellefu klukkustundir á sólarhrings fresti. Stytta má hvíldartímann í samfelldar níu klukkustundir þó ekki oftar en þrisvar í viku og að því tilskildu að ökumaður fái viðbótarhvíld, sem nemur styttingunni, í lok þeirrar viku sem á eftir fer.

Heimilt er að taka hvíld í tvö eða þrjú skipti á sólarhring þá daga sem hvíldartíminn er ekki styttur samkvæmt 1. mgr. en eitt þeirra verður að vera að minnsta kosti samfelldar átta klukkustundir. Þegar svo háttar til skal lágmarks hvíldartíminn lengdur í 12 klukkustundir.

Þegar tveir eða fleiri ökumenn eru í bifreið og skiptast á um að aka, skulu þeir fá samfelldan hvíldartíma sem er minnst átta klukkustundir á hverjum þrjátíu klukkustundum.

9. gr.
Undantekningar frá daglegum vinnutíma.

Heimilt er, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. að slíta sundur daglegan hvíldartíma, fylgi ökumaður bifreið sem flutt er með ferju, þó aðeins einu sinni hvern dag og að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

a)

Unnt skal vera að taka þann hluta daglegs hvíldartíma, sem tekinn er í landi, fyrir eða eftir þann hluta hvíldar sem tekin er um borð.

b)

Tíminn milli tveggja hluta daglegs hvíldartíma skal vera eins stuttur og mögulegt er og má ekki vera lengri en klukkustund fyrir lestun eða eftir losun farms að með talinni tollmeðferð.

c)

Ökumaður skal hafa aðgang að koju eða svefnbekk þegar hann hvílist.



Daglegur hvíldartími, sem þannig er slitinn í sundur, skal lengdur um tvær klukkustundir.

Heimilt er ökumanni að taka daglega hvíld í bifreiðinni sé hún ekki í akstri og búin svefnplássi.

10. gr.
Vikulegur hvíldartími.

Ökumaður skal í hverri viku eftir mest sex akstursdaga hafa samfellda hvíld í 45 klukkustundir með því að framlengja eitt hvíldartímabilanna sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. 8. gr. Heimilt er að stytta hvíldartímann í 36 samfelldar klukkustundir, sé hann tekinn í bækistöð flytjanda og í samfelldar 24 stundir, sé hvíld tekin annars staðar.

Styttinguna, sem kveðið er á um í 1. mgr. skal bæta upp með jafnlangri óslitinni hvíld sem tekin er fyrir lok þriðju viku.

Vikulegan hvíldartíma sem byrjar í einni viku og heldur áfram í næstu viku er heimilt að binda við aðra hvora vikuna.

11. gr.
Undantekningar frá vikulegum hvíldartíma.

Heimilt er í farþegaflutningum, öðrum en reglubundnum flutningum, að fresta vikulegum hvíldartíma ökumanns fram í næstu viku og bæta hvíldartímanum við vikulegan hvíldartíma þeirrar viku enda fari heildaraksturstími á vikunum tveimur ekki yfir 90 klukkustundir, sbr. regluna í 2. mgr. 6. gr. Heimildin gildir um ferð sem tekur lengri tíma en sex daga en þó ekki lengri en tólf daga. Ökumaður skal þannig eftir mest tólf akstursdaga fá samfelldan hvíldartíma í 90 klukkustundir.

Hvíld, sem er uppbót vegna styttingar daglegs eða vikulegs hvíldartíma, skal bæta við aðra hvíld sem er að minnsta kosti átta klukkustundir í samræmi við ákvæði sbr. nánar 2. mgr. 9. gr. Ökumaður og flytjandi hafa samráð um hvar hvíldin er tekin.

III. KAFLI.
Ýmis ákvæði.

12. gr.
Skipulag vinnutíma og eftirlit flytjanda.

Flytjandi skal skipuleggja störf ökumanns þannig að honum sé kleift að fara eftir reglugerðinni. Hann skal kynna ökumanni reglur um aksturs- og hvíldartíma og hafa eftirlit með því að farið sé að ákvæðum reglugerðarinnar. Hafi brot verið framið skal flytjandi gera viðeigandi ráðstafanir, eftir því sem unnt er, til að koma í veg fyrir að það endurtaki sig.

13. gr.
Frávik.

Ökumanni er heimilt að víkja frá ákvæðum reglugerðarinnar að því tilskildu að umferðaröryggi sé ekki teflt í tvísýnu, þurfi hann að ná hentugum áfangastað, enda sé það nauðsynlegt til að tryggja öryggi fólks eða til þess að koma í veg fyrir tjón á bifreið eða farmi. Noti ökumaður þessa heimild, skal hann skrá í ökurita með hvaða hætti og hvers vegna það var gert.

14. gr.
Refsiákvæði.

Brot á reglugerð þessari varða refsingu samkvæmt XIV. kafla umferðarlaga nr. 50/1987 og reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim.

15. gr.
Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi reglugerð ráðsins nr. 3820/85/EBE, frá 20. desember 1985, um samhæfingu tiltekinnar löggjafar á sviði félagsmála er varðar flutninga á vegum, sem birt er í sérritinu EES- gerðir S40, bls. 204-206, sbr. auglýsingu nr. 31/1993 í C-deild Stjórnartíðinda og ákvörðun framkvæmdastjórnar nr. 93/173/EBE, frá 22. febrúar 1993, um útlit staðlaðs eyðublaðs sem mælt er fyrir um í 16. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 3820/85 um samhæfingu tiltekinnar löggjafar á sviði félagsmála er varðar flutninga á vegum og birt er í EES-viðbæti við stjórnartíðindi EB 17. hefti 28. júní 1994 bls. 29-31.

Ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem vísað er til í 20. tölulið XIII. viðauka við hann skulu gilda hér á landi, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af viðaukanum, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum samningsins.

16. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 44. gr. a, 60. gr. og 67. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 136/1995 um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. í innanlandsflutningum og við flutning innan Evrópska efnahagssvæðisins með síðari breytingum.

Samgönguráðuneytinu, 25. júlí 2006.

Sturla Böðvarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica