Samgönguráðuneyti

661/2006

Reglugerð um ökurita og notkun hans. - Brottfallin

I. KAFLI.
Skýringar og gildissvið.

1. gr.
Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að mæla fyrir um að ökuriti og annar skráningarbúnaður skuli vera í bifreið, sem reglugerðin tekur til, um notkun búnaðar og um skyldur flytjanda og ökumanns þar að lútandi, þ. á m. skyldu til að skrá aksturs- og hvíldartíma ökumanns og varðveita skráningargögn.

2. gr.
Gildissvið.

Reglugerðin gildir um ökurita, ökuritakort og annan skráningarbúnað í bifreiðum sem falla undir reglugerð um aksturs- og hvíldartíma ökumanna.

3. gr.
Skilgreiningar.

Ökuriti; (skífuökuriti/rafrænn ökuriti) er tækjabúnaður í bifreið til flutninga á vegum sem sýnir, skráir og geymir upplýsingar um aksturs- og hvíldartíma ökumanns, hraða bifreiðar og fleira.

a)

Í skífuökurita er skráð á skífu upplýsingar, sbr. 11.1, sjálfvirkt eða hálf sjálfvirkt.

b)

Í rafrænum ökurita eru skráðar og geymdar upplýsingar, sbr. 12. gr., og skulu þær færðar rafrænt á ökumannskort.



Skífa; er skráningarblað sem komið er fyrir í skífuökurita og á eru skráðar upplýsingar sem ritunaroddar í ökuritanum skrá viðstöðulaust á skífuna.

Ökuritakort; er samheiti korta sem eru rafrænn lykill að rafrænum ökurita.

Ökumannskort; með ökumannskorti fær ökumaður aðgang að rafrænum ökurita. Kortið geymir jafnframt rafrænar upplýsingar um aksturs- og hvíldartíma ökumannsins og aðrar upplýsingar sem færðar eru sjálfvirkt af ökuritanum á kortið. Kortið tengir persónulegar upplýsingar um ökumanninn, nafn o.fl., upplýsingum um akstur hans og hvíld. Upplýsingarnar eru geymdar á kortinu og í ökuritanum.

Flytjandakort; með flytjandakorti fær flytjandi aðgang að upplýsingum sem skráðar eru í ökurita. Flytjandi notar kortið einnig til þess að merkja sér þau tímabil þegar akstur bifreiðarinnar er á hans vegum.

Verkstæðiskort; með verkstæðiskorti fær viðgerðar- og prófunarmaður aðgang að ökurita til þess að prófa og stilla ökuritann.

Eftirlitskort; með eftirlitskorti fær eftirlitsmaður aðgang að upplýsingum í ökurita.

Vísað er til frekari skilgreininga í reglugerð um aksturs- og hvíldartíma ökumanna.

II. KAFLI.
Ökuriti.

4. gr.

Ökuriti í skilningi þessarar reglugerðar skal, að því er smíði, uppsetningu, notkun og prófun varðar, uppfylla kröfur reglugerðar ráðsins nr. 3821/85/EBE og í I. viðauka (skífuökuriti) eða I. viðauka B og II. viðauka hennar (rafrænn ökuriti).

Bifreið, sem reglugerð þessi gildir um, skal frá gildistöku reglugerðarinnar búin ökurita. Bifreið, skráð frá og með 1. september 2006, skal búin rafrænum ökurita en bifreið, skráð fyrir 1. september 2006, má vera búin skífuökurita. Frá gildistöku reglugerðar þessarar má bifreið vera búin rafrænum ökurita.

III. KAFLI.
Ökuritakort.

5. gr.
Útgáfa ökuritakorta.

Umferðarstofa gefur út ökuritakort og heldur skrá yfir þau, þar með talin stolin, týnd og gölluð kort. Gerð ökuritakorta, tæknilegir eiginleikar og áletrun þeirra, skal vera í samræmi við I. viðauka B reglugerðar ráðsins nr. 3821/85/EBE.

Ekki má nota ökuritakort sem er fallið úr gildi eða er gallað.

Umsókn um ökuritakort skal fylgja ljósmynd, 35x45 mm að stærð (andlitsmynd án höfuðfats) sem líkist umsækjanda vel. Á ökuritakort skal rita nafn, fæðingardag og ár og heimilisfang korthafa, svo og útgáfunúmer.

6. gr.
Útgáfa ökumannskorts.

Ökumaður, sem hefur fasta búsetu hér á landi, gilt ökuskírteini og réttindi til þess að aka bifreið sem reglugerð þessi tekur til, getur fengið ökumannskort sem gefið skal út til 5 ára.

Hver ökumaður má einungis hafa eitt ökumannskort.

Ökumannskort, gefin út í öðru ríki sem samstarf er við um útgáfu ökuritakorta, gilda hér á landi. Umferðarstofu er heimilt að gefa út ökumannskort í stað slíks korts, hafi umsækjandi fasta búsetu hér á landi. Sannreyna skal, þyki þess þörf, hvort erlenda ökumannskortið sé enn í gildi. Umferðarstofa skal sjá um að erlenda kortinu verði skilað til viðkomandi yfirvalda í útgáfuríkinu með tilkynningu um hvers vegna kortinu er skilað.

7. gr.
Útgáfa flytjandakorts.

Flytjandakort má gefa út á nafn flytjanda og nafn starfsmanns flytjanda sem flytjandi veitir umboð sitt. Umsækjandi um flytjandakort skal hafa fast aðsetur hér á landi. Flytjandakort skal gefið út til eins árs.

Heimilt er að gefa út fleiri en eitt flytjandakort fyrir hvern umsækjanda.

8. gr.
Útgáfa verkstæðiskorts.

Verkstæðiskort má gefa út til verkstæða og annarra sem hafa B-faggildingu til að setja upp, prófa, stilla og gera við rafræna ökurita, sbr. reglugerð um prófun á ökuritum. Kortið má gefa út á nafn starfsmanns sem vinnuveitandinn veitir umboð sitt. Umsækjandi um verkstæðiskort skal hafa fast aðsetur hér á landi. Verkstæðiskort skal gefið út til eins árs.

Heimilt er að gefa út fleiri en eitt verkstæðiskort fyrir hvern umsækjanda.

9. gr.
Útgáfa eftirlitskorts.

Eftirlitskort má gefa út til lögreglu og Vegagerðarinnar sem annast eftirlit með ökuritum og aksturs- og hvíldartíma ökumanna. Eftirlitskort skal gefið út til fimm ára.

Heimilt er að gefa út fleiri en eitt eftirlitskort fyrir hverja eftirlitsstofnun.

10. gr.
Gjaldtaka fyrir útgáfu ökuritakorta.

Um gjaldtöku fyrir útgáfu og endurnýjun ökuritakorta fer samkvæmt ákvæðum í gjaldskrá Umferðarstofu.

11. gr.
Skráning og upplýsingaskipti.

Umferðarstofa skal halda skrá yfir faggild verkstæði og senda skrána til skráningarmiðstöðvar þeirra ríkja sem samvinna er höfð við um útgáfu ökuritakorta, notkun ökurita og eftirlit með þeim. Umferðarstofa skal einnig halda skrá yfir verkstæðiskort sem eru gefin út og senda skráningarmiðstöðinni afrit af þeim rafrænu táknum sem notuð eru.

IV. KAFLI.
Notkun ökurita og ökuritakorta.

12. gr.
Skyldur flytjanda og ökumanns.

Flytjandi og ökumaður bera ábyrgð á að ökuriti vinni rétt og skrái hverju sinni réttar upplýsingar um aksturs- og hvíldartíma ökumanns og upplýsingar, sem sýni hraða bifreiðarinnar og fleira, á skífu í skífuökurita eða í rafrænan ökurita og á rafrænt ökumannskort.

Við almenna skoðun bifreiðar skal skoðunarmaður kanna hvort ökuriti starfi eðlilega, hvort uppsetningarplatan sé vel fest, hvort innsigli séu órofin og hvort á ökuritanum sé merki með staðfestingu um gerðarviðurkenningu. Skoðunarmaður skal mæla ummál hjólbarða.

Flytjandi skal varðveita í a.m.k. ár starfsskýrslur, ökuritaskífur og rafrænar upplýsingar sem tilgreindar eru í 1. mgr.

Flytjandi skal sjá til þess að allar tengingar milli aflrásar bifreiðar og ökurita séu innsiglaðar. Hann skal fela verkstæði, sem hefur faggildingu til prófunar á ökuritum, að prófa og innsigla ökurita samkvæmt reglugerð um prófun ökurita.

Flytjandi og ökumaður bera ábyrgð á að ökumaður hafi hverju sinni nægilega margar ökuritaskífur til nota í bifreið búinni skífuökurita.

Flytjandi og ökumaður bera ábyrgð á því að ökumaður hafi ökumannskort þegar hann ekur bifreið sem búin er rafrænum ökurita.

Flytjandi og ökumaður skulu, þegar þess er óskað, veita eftirlitsmanni aðgang að skráðum upplýsingum, geymdum á skífu í skífuökurita, á ökumannskorti, í rafrænum ökurita eða með öðrum hætti.

Ökumaður skal gæta þess að ökumannskort, skífur og önnur gögn, sem þeir nota og varða skráningu og geymslu upplýsinga um aksturs- og hvíldartíma, séu vel læsileg, hrein og óskemmd.

Verkstæðismanni, sem hefur kunnáttu, verkfæri og aðstöðu til að gera við ökurita og starfar á verkstæði sem er faggilt til slíkrar starfsemi, er heimilt að rjúfa innsigli ökurita þegar gera þarf við hann. Að lokinni viðgerð skal innsigla ökuritann á ný.

Verkstæðismanni, sem hefur kunnáttu, verkfæri og aðstöðu til að innsigla tengingar milli aflrásar ökutækis og ökurita og starfar á verkstæði sem hefur starfsleyfi til slíkrar starfsemi, er heimilt, þegar nauðsynlegt er vegna viðgerðar á ökutækinu, að rjúfa innsigli ökurita og skal síðan innsigla ökuritann á ný.

Eftirlitsmaður skal eiga aðgang að skífuökurita með þeim hætti að hann geti opnað ökuritann og skoðað upplýsingar sem skráðar hafa verið á ökuritaskífu næst liðnar 9 klukkustundir fyrir skoðun, án þess að eyðileggja eða óhreinka skífuna.

Ökumaður skal, þegar þess er óskað, veita eftirlitsmanni aðgang að ökuritaskífum fyrir þá viku sem er að líða og auk þess, að minnsta kosti, fyrir síðasta akstursdag næstliðinnar viku.

Flytjandi og ökumaður skulu, þegar þess er óskað, afhenda lögreglu og eftirlitsmanni útprentað blað úr rafrænum ökurita með upplýsingum sem varða þau tímabil sem eru tilgreind í 4. mgr. 13. gr., enda hafi bifreiðinni verið ekið á einhverju því tímabili.

13. gr.
Skráning aksturs- og hvíldartíma.

Ökumaður skal nota, eftir því sem við á, skífu eða ökumannskort við akstur. Hver ökumaður skal nota eina skífu fyrir hvern akstursdag í ökurita og nota sömu skífuna í þeim bifreiðum sem hann ekur þann akstursdag. Heimilt er þó að nota aðra skífu ef skífan, sem notuð hefur verið, er ekki gerð fyrir ökuritann.

Í rafrænum ökurita skal vera búnaður til þess að færa rafræn gögn milli ökurita og ökuritakorts og búnaður til að birta á skjá upplýsingar eða prenta þær út.

Ökumaður skal færa eftirfarandi upplýsingar inn á skífu:

a)

fullt nafn ökumanns, dagsetningu og staðinn þar sem skífan er tekin í notkun og dagsetningu og staðinn þar sem notkun lýkur

b)

skráningarnúmer hverrar bifreiðar, sem skífa er notuð í hvern akstursdag, við upphaf fyrstu ferðar bifreiðarinnar

c)

klukkan hvað skipt er um bifreið

d)

stöðu vegmælis hverrar bifreiðar, sem tiltekin skífa er notuð í, við upphaf fyrstu ferðar og lok síðustu ferðar.


Ökumaður skal stjórna skiptirofa til að unnt sé að skrá sérhvert eftirfarandi tímabil sérstaklega og greinilega undir merkinu:

a.

[] : aksturstími

b.

[] : tíminn þegar ökumaður sinnir öðrum verkefnum sem eru tengd akstri

c.

[] : allur annar tími sem ökumaður er tiltækur, þ.e.:

c.1

biðtími, sem er sá tími sem ökumaður þarf eingöngu að vera í eða við bifreið til að sinna kalli um að hefja vinnu eða halda áfram akstri eða inna af hendi aðra vinnu

c.2

tími sem ökumaður hvílist frá akstri sem farþegi meðan annar ekur

c.3

tími í svefnrými meðan ökutæki er á ferð


d.

undir merkinu []: vinnuhlé og daglegur hvíldartími

e.

Skrá má öll tímabilin í b) og c) í 2. mgr. undir merkinu [].

VI. KAFLI.
Ýmis ákvæði.

14. gr.

Brot á reglugerð þessari varða refsingu samkvæmt XIV. kafla umferðarlaga nr. 50/1987 og reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim.

15. gr.
Innleiðing.

Ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem vísað er til í 21. tölulið XIII. viðauka við hann, skulu gilda hér á landi með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af viðaukanum, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum samningsins.

Með reglugerð þessari eru innleiddar eftirtaldar reglugerðir:

Reglugerð nr. 3821/85/EBE frá 20. desember 1985 um að taka upp skráningarbúnað í ökutækjum í flutningum á vegum, sem vísað er til í 21. tölulið XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, og birt er í sérritinu EES-gerðir S40, bls. 179-199, sbr. auglýsingu nr. 31/1993 í C-deild Stjórnartíðinda.

Breytingar á reglugerð 3821/85/EBE:

Reglugerð nr. 3314/90/EBE frá 16. nóvember 1990, sem vísað er til í EES viðbæti við Stjórnartíðindi EB, sérstakri útgáfu, bók 4, bls. 338-343.

Reglugerð nr. 3572/90/EBE frá 4. desember 1990 sem vísað er til í sérritinu EES gerðir S40, bls. 312-315.

Reglugerð ráðsins nr. 3688/92 EBE frá 21. desember 1992, sem vísað er til í EES viðbæti við Stjórnartíðindi EB, 17. hefti 28.06.1994, bls. 68-69.

Reglugerð ráðsins nr. 2479/95/EBE frá 25. október 1995 sem vísað er til í EES viðbæti við Stjórnartíðindi EB, 18. hefti, 25.04.1996, bls. 24.

Reglugerð ráðsins nr. 1056/97/EB frá 11. júní 1997, sem vísað er til í EES viðbæti við Stjórnartíðindi EB, 42. hefti, 08.10.1998, bls. 10.

Reglugerð ráðsins nr. 2135/98/EB frá 24. september 1998, sem vísað er til í EES viðbæti við Stjórnartíðindi EB, 50. hefti, 09.11.2000, bls. 50.

Reglugerð ráðsins nr. 1360/2002/EB frá 13. júní 2002, sem vísað er til í EES viðbæti við Stjórnartíðindi EB, 29. hefti, 01.08.2003, bls. 23.

Reglugerð ráðsins nr. 432/2004/EB frá 5. apríl 2004, sem vísað er til í EES viðbæti við Stjórnartíðindi EB, 20. hefti, 21.04.2005, bls. 16.

V. KAFLI.
Gildistaka.

16. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt. 44. gr. a, 60. gr. , 67. og 68. gr. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987, sbr. lög nr. 44. 7. maí 1993 og lög nr. 66 14. júní 2006.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 25. júlí 2006.

Sturla Böðvarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica