Umhverfisráðuneyti

637/1997

Reglugerð um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.

1. gr.

                Í sveitarfélagi þar sem metin hefur verið hætta á ofanflóðum gerir sveitarstjórn að fengnu samþykki ofanflóðanefndar tillögu að varnarvirkjum fyrir hættusvæði sem byggð eru eða byggð verða samkvæmt aðalskipulagi. Tillögunum fylgi teikningar, uppdrættir og aðrar viðeigandi upplýsingar þannig að meta megi gæði og varnaráhrif varnarvirkja. Auk þess skulu fylgja uppdrættir, í mælikvarðanum 1:5000, sem sýni hverju varnarvirkin eru talin breyta um öryggi á svæðinu, og útreikningar því til stuðnings. Upplýsingar um tölu og tegund fasteigna sem á að verja skulu enn fremur fylgja.

                Varnarvirki skulu að jafnaði reist nema hagkvæmara sé talið að kaupa eða flytja húseignir, sbr. 2. gr.

 

2. gr.

                Sveitarstjórn er heimilt að gera tillögu um kaup eða flutning á húseignum í stað þess að byggja varnarvirki ef það er talið hagkvæmara til að tryggja öryggi íbúa á hættusvæðum. Tillögunum fylgi kostnaðaráætlun þar sem gerður er samanburður á kostnaði við kaup eða flutning á húsum og kostnaði við gerð varnarvirkja.

 

3. gr.

                Tillögur sveitarstjórna skv. 1. og 2. gr. skulu lagðar fyrir ofanflóðanefnd sem fer yfir framkvæmda- og kostnaðaráætlanir og sannreynir gildi þeirra. Nefndin skal hafa tekið afstöðu til tillögu innan átta vikna frá því hún berst nema mál sé sérstaklega umfangsmikið og skal nefndin í því tilviki tilkynna sveitarstjórn um það fyrirfram og hversu langan tíma vænta megi að meðferðin muni taka.

                Tillögur öðlast gildi að fengnu samþykki ofanflóðanefndar og staðfestingu umhverfisráðherra.

 

4. gr.

                Öll vinna við undirbúning og gerð varnarvirkja, sem Ofanflóðasjóður greiðir að hluta, skal unnin á grundvelli útboða þar sem því verður við komið. Ofanflóðanefnd fylgist með framkvæmdum við varnarvirki.

                Sveitarstjórnir annast framkvæmdir við gerð varnarvirkja og samninga um kaup eða flutning á húseignum í samræmi við staðfestar áætlanir. Náist ekki samkomulag um kaup á húseign er sveitarstjórn heimilt að taka eignina eignarnámi. Um framkvæmd eignarnáms fer samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973.

 

5. gr.

                Ofanflóðasjóður greiðir allan kostnað við rannsóknir sem miða að því að bæta hættumat og hönnun varnarvirkja.

                Ofanflóðasjóði er heimilt að greiða viðkomandi sveitarfélagi allt að 90% af kostnaði við hönnun, undirbúning og framkvæmdir við varnarvirki, kaup á lóðum vegna varnarvirkja og húseignum (íbúðarhúsum) og kostnaði við flutning húseigna.

                Umhverfisráðherra ákveður greiðslu úr sjóðnum að fengnum tillögum ofanflóðanefndar.

                Hvorki má byggja á óbyggðum hættusvæðum né þétta þá byggð, sem fyrir er, fyrr en tilskildum varnarvirkjum hefur verið komið upp.

 

6. gr.

                Greiðslur Ofanflóðasjóðs til sveitarfélags vegna kaupa á húsnæði skv. 5. gr. skulu miðast við staðgreiðslumarkaðsverð sambærilegra húseigna í sveitarfélaginu utan hættusvæða. Við ákvörðun þess skal ekki tekið tillit til hækkana á markaðsverði sem rekja má til ákvörðunar um kaup á húseignum á hættusvæði.

                Heimilt er að miða greiðslur sjóðsins við framreiknað kaupverð húseignar sem keypt hefur verið á síðustu árum, ásamt mati á kostnaði núverandi eiganda af endurbótum hennar, ef fyrir liggur að staðsetning húseignar á hættusvæði eða í námunda við það hefur haft áhrif til lækkunar markaðsverðs.

                Náist ekki samningar milli sveitarfélags og húseiganda þannig að til eignarnáms kemur miðast greiðslur sjóðsins við fjárhæð eignarnámsbóta.

                Greiðslur Ofanflóðasjóðs skulu inntar af hendi til sveitarfélags samkvæmt samkomulagi ofanflóðanefndar og sveitarfélags. Sveitarfélögin annast samningagerð og greiðslur til húseigenda.

 

7. gr.

                Ofanflóðasjóður greiðir ekki kostnað vegna kaupa á löndum og lóðum nema það sé nauðsynlegt vegna byggingar varnarvirkja.

 

8. gr.

                Greiðslur Ofanflóðasjóðs til sveitarfélaga vegna flutnings á húseign miðast við kostnað við flutning og kostnað við að koma húsi fyrir á nýjum stað enda hafi verið leitað hagkvæmustu leiða. Ofanflóðasjóður greiðir ekki vegna kaupa á húseign sem tæknilega er unnt að flytja nema flutningskostnaður sé metinn hærri en kaupverð sbr. 6. gr.

 

9. gr.

                Eigandi keyptra húseigna er viðkomandi sveitarsjóður. Hann ber ábyrgð á viðhaldi og rekstri húseigna og ákveður hvort hús skuli rifið.

                Ofanflóðasjóður endurgreiðir ekki kostnað sem leiða kann af 1. mgr.

 

10. gr.

                Nýting og sala þeirra húseigna sem keypt hafa verið samkvæmt reglugerð þessari er háð samþykki umhverfisráðuneytisins.

 

11. gr.

                Reglugerð þessi, er sett með heimild í 16. gr. laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum nr. 49/1997 og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 145/1996 með sama heiti.

 

Umhverfisráðuneytinu, 12. nóvember 1997.

 

Guðmundur Bjarnason.

Magnús Jóhannesson.

 

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica