Leita
Hreinsa Um leit

Umhverfisráðuneyti

636/2009

Reglugerð um hættumat vegna snjóflóða á skíðasvæðum.

I. KAFLI

Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um gerð og notkun hættumats fyrir skíðasvæði.

2. gr.

Skilgreiningar.

Áhætta (e. risk): Mælikvarði sem tekur til þess hve líklegt er að atburður eigi sér stað og þess hversu víðtækar og afdrifaríkar afleiðingar eru.

Ástreymisþrýstingur: Þrýstingur frá ofanflóði á flöt sem er hornréttur á flóðstefnu.

Barna- og byrjendasvæði: Hluti af skipulögðu skíðasvæði ætluðu börnum og byrjendum.

Endastöð skíðalyftu: Efsti hluti skíðalyftu.

Endurkomutími: Tími sem að meðaltali líður á milli hliðstæðra atburða.

Gönguskíðasvæði: Svæði innan skipulagðs skíðasvæðis fyrir iðkendur gönguskíða.

Hætta (e. hazard): Hugsanlegur atburður sem leiðir til tjóns á mönnum eða eignum.

Hættusvæði: Hættusvæði samkvæmt skilgreiningu í 17. gr. reglugerðar nr. 505/2000. Skiptast þau í þrjá flokka A, B og C.

Lyftuleið: Fjögurra metra breitt svæði undir lyftuvír frá upphafsstöð að endastöð skíða­lyftu.

Merktar skíðaleiðir: Skíðaleiðir innan skipulagðra skíðasvæða merktar á kort aðgengilegt skíða­gestum utandyra eða í upplýsingabæklingum sem gefnir eru út af rekstraraðila.

Raðasvæði: Svæði innan skipulagðs skíðasvæðis þar sem gert er ráð fyrir að raðir skíða­fólks geti myndast t.d. við upphafsstöð skíðalyftu og miðasölu.

Safnsvæði: Svæði innan skipulagðs skíðasvæðis þar sem gera má ráð fyrir að fólk safnist saman, s.s. við skíðaskála, bílastæði og lyftur. Raðasvæði teljast til safnsvæða.

Skíðasvæði: Svæði skipulagt til skíðaiðkunar.

Skíðabrekkur: Brekkur innan skíðasvæðis.

Skíðalyftur: Togbrautarbúnaður ætlaður til að flytja skíðamenn innan skíðasvæða.

Skíðamaður: Einstaklingur á skíðum, snjóbretti eða búnaði með sambærilega eiginleika.

Stærð skíðasvæða:

Lítil skíðasvæði: Skíðasvæði með eina skíðalyftu þar sem fjöldi skíðamanna er undir 200 manns á dag og heildarfjöldi gesta á vetri er minni en 2000.
Meðalstór skíðasvæði: Skíðasvæði með allt að fjórar skíðalyftur. Fjöldi iðkenda er undir 2000 manns á dag og heildarfjöldi gesta á vetri er minni en 25.000.
Stór skíðasvæði: Önnur skíðasvæði.

Svigskíðasvæði: Svæði innan skipulagðs skíðasvæðis ætlað fyrir iðkendur svigskíða eða snjó­bretta.

Tímabundnar öryggisaðgerðir: Aðgerðir sem miða að því að draga úr áhættu fólks vegna snjóflóðahættu t.d. með lokun lyftu, lokun skíðaleiða, koma af stað snjóflóðum undir eftirliti eða auka stöðugleika snævar.

Togbrautarbúnaður til fólksflutninga: Sjá 1. og 3. gr. reglugerðar nr. 668/2002. Í þessari reglugerð er orðið "lyfta" einnig notað yfir togbrautarbúnað.

Upphafsstöð (startstöð) skíðalyftu: Neðsti endi skíðalyftu.

Upptakasvæði: Afmarkað svæði þar sem talið er að snjóflóð geti átt upptök.

Varanlegar varnaraðgerðir: Mannvirki sem reist eru í þeim tilgangi að auka öryggi fólks gagnvart snjóflóðum, landmótun, breyting á skíðaleiðum, flutningur, styrking skíðalyftu eða aðrar jafngildar aðgerðir.

II. KAFLI

Hættumat.

3. gr.

Veðurstofa Íslands.

Veðurstofa Íslands annast gerð hættumats á skíðasvæðum á grundvelli sérfræðilegrar þekkingar á eðli og afleiðingum ofanflóða samkvæmt beiðni hlutaðeigandi sveitarfélags.

4. gr.

Kynning og staðfesting hættumats.

Viðkomandi sveitarstjórn ber ábyrgð á og annast kynningu á hættumati. Sveitarstjórn auglýsir hættumat og skal það liggja frammi á skrifstofu sveitarfélagsins til kynningar í fjórar vikur. Hættumat skíðasvæða skal staðfest af umhverfisráðherra og tekur gildi við birtingu í Stjórnartíðindum.

5. gr.

Kostnaður við gerð hættumats.

Kostnaður við gerð hættumats á skíðasvæðum er greiddur af Ofanflóðasjóði skv. fyrir­fram gerðri áætlun þar um sem samþykkt skal af sjóðnum.

III. KAFLI

Gerð og notkun hættumats.

6. gr.

Gerð og framsetning hættumats.

Á skipulögðum skíðasvæðum skal gera hættumat og skal það ná til bygginga þar sem gera má ráð fyrir að fólk geti dvalið um lengri eða skemmri tíma, svo og safnsvæða og barna- og byrjendasvæða. Jafnframt skal leggja mat á möguleg upptakasvæði snjóflóða sem ógnað geta skipulögðum skíðasvæðum, og endurkomutíma snjóflóða innan merktra skíðaleiða. Hættumat skal sett fram á korti, í mælikvarða 1:5000 eða stærri.

7. gr.

Gagnaöflun.

Gagna skal aflað samkvæmt 9. gr. reglugerðar nr. 505/2000 um hættumat vegna ofan­flóða og flokkun og nýtingu hættusvæða, eftir því sem við getur átt.

8. gr.

Áhættumat.

Hættumati skal hagað í samræmi við fyrirmæli 10. gr. reglugerðar nr. 505/2002 um hættu­mat vegna ofanflóða og flokkun og nýtingu hættusvæða.

Nota skal þær aðferðir sem eru taldar henta best hverju sinni við að meta möguleg upptaka­svæði, tíðni, skriðlengd, skriðstefnu og útbreiðslu snjóflóða.

9. gr.

Hættumatskort.

Á hættumatskorti skal sýnd áhætta við mannvirki og safnsvæði skv. 12. gr. Áhætta við byggingar skal sýnd sem punktáhætta. Á safnsvæðum og barna- og byrjendasvæðum skal sýna áhættu með jafnáhættulínum, sbr. 12. og 18. gr. reglugerðar nr. 505/2000 um hættumat vegna ofanflóða og flokkun og nýtingu hættusvæða.

Á hættumatskorti skal jafnframt sýna upptakasvæði snjóflóða sem ógnað geta skíða­svæðum og skíðalyftum.

Á hættumatskorti skal afmarka þau svæði þar sem endurkomutími snjóflóða innan merktra skíðaleiða er annars vegar minni en 10 ár og hins vegar minni en 100 ár.

10. gr.

Greinargerð með hættumatskorti.

Með hættumatskorti skal fylgja greinargerð og skal hún innihalda:

 1. Upplýsingar um landfræðilegar aðstæður og mat á snjósöfnunaraðstæðum hvers upptakasvæðis.
 2. Skrá yfir öll þekkt snjóflóð úr viðkomandi upptakasvæði og upplýsingar um þau. Útlínur skulu settar fram á korti.
 3. Mat á skriðlengd, stefnu og tíðni snjóflóða úr viðkomandi upptakasvæði
 4. Greinargerð um forsendur útreikninga.

IV. KAFLI

Viðmið og aðgerðir.

11. gr.

Viðmið.

Við skipulagningu skíðasvæða skal leita til aðila sem hafa sérfræðiþekkingu á snjó­flóða­hættu. Jafnframt skal leitast við að hafa skíðasvæði utan snjóflóðahættusvæða og forðast skal að leggja lyftuleiðir, svig- og gönguskíðaleiðir undir upptakasvæði. Sér­stak­lega ber að forðast að skipuleggja skíðasvæði undir upptakasvæðum sem ógnað geta stórum hluta skíðasvæðis.

Lyftumöstur og togvír stólalyftna og kláfa skulu þola ástreymisþrýsting hönnunarflóðs, sbr. leiðbeiningar Veðurstofunnar.

12. gr

Nýting hættusvæða.

Eftirfarandi takmarkanir gilda á nýtingu hættusvæða á skíðasvæðum:

Á hættusvæði C er óheimilt að hafa:

 1. Byggingar þar sem gera má ráð fyrir viðveru fólks að næturlagi.
 2. Upphafsstöð skíðalyftu.
 3. Safnsvæði.
 4. Barna- og byrjendasvæði.

Á hættusvæði B er óheimilt að hafa:

 1. Skíðaskála með næturgistingu.
 2. Upphafsstöð skíðalyftu á barna- og byrjendasvæði.
 3. Raðasvæði á barna- og byrjendasvæði.

13. gr.

Eftirlit og tímabundnar öryggisaðgerðir.

Sé talin hætta á snjóflóðum innan skipulagðra skíðasvæða skal rekstraraðili gera áætlun um daglegt eftirlit og tímabundnar öryggisaðgerðir, sbr. 14. gr. og 15. gr.

14. gr.

Áætlanir rekstraraðila.

Rekstraraðila er skylt að vinna áætlun um eftirlit, viðbúnað og aðgerðir vegna snjó­flóða­hættu og skal hún samþykkt af viðkomandi sveitarstjórn að fengnu áliti Veður­stofu Íslands. Endurskoða skal áætlanir á fimm ára fresti eða oftar að gefnu tilefni.

15. gr.

Eftirlit, viðbúnaður og aðgerðir.

Fyrir stór og meðalstór skíðasvæði sem ekki uppfylla ákvæði 12. gr. við gildistöku þessarar reglugerðar skal rekstraraðili gera áætlun um viðbúnað eða aðgerðir til að tryggja ásættanlegt öryggi fólks vegna ofanflóða. Veðurstofa Íslands skal endurskoða hættu­mat á skíðasvæðum ef varanlegar varnaraðgerðir hafa komið til framkvæmda.

Fyrir lítil skíðasvæði sem ekki uppfylla ákvæði 12. gr. við gildistöku þessarar reglugerðar skal ávallt gera áætlun um daglegt eftirlit og viðbúnað.

Ný skíðasvæði með tilheyrandi mannvirkjum skulu í öllum tilfellum standast ákvæði 12. gr.

16. gr.

Tímamörk rekstraraðila.

Hættumati og gerð áætlana vegna skíðasvæða skal lokið fyrir árslok 2014.

17. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með vísan til 4. gr. laga nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 7. júlí 2009.

Svandís Svavarsdóttir.

Magnús Jóhannesson.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica