Fara beint í efnið

Prentað þann 19. mars 2024

Stofnreglugerð

635/1996

Reglugerð um notkun lyfja og meðferð á sýningar- og keppnishrossum.

1. gr. Skilgreiningar.

Knapi: Reiðmaður, einstaklingur sem stjórnar hesti í keppni eða sýningu.

Keppni: Hvers kyns kappleikir, mót eða samkomur, sem haldin eru með þátttöku hrossa.

Sýning: Hvers konar skipulagðar samkomur, sem haldnar eru með þátttöku hrossa, þar sem riðið er fyrir dóm eða áhorfendur.

Mótshaldari: Einstaklingur eða samtök, sem skipuleggja, undirbúa og halda sýningar eða keppni hvers konar.

Lyfjasýni: Sýnishorn af blóði og þvagi, eða í vissum tilvikum líffærum hrossa, sem nota skal við rannsóknir á lyfjum (lyfjainnihaldi).

Trúnaðar- Dýralæknir sem kemur fram sem fulltrúi samtaka hestamanna eða dýralæknir: annarra aðila sem standa að keppni eða sýningum á hrossum sbr. 5. gr.

Ábyrgðaraðili: Knapi, eigandi eða hver sá aðili sem er ábyrgur fyrir hesti í keppni, á sýningu eða við undirbúning fyrir keppni eða sýningu.

2. gr.

Óheimilt er að láta hest taka þátt í sýningu eða keppni hafi hestinum verið gefið lyf og/eða lyf greinist í lyfjasýni sem tekið hefur verið úr hestinum.

Óheimilt er að láta hest taka þátt í sýningu eða keppni ef hesturinn er staðdeyfður. Innan þeirra tímamarka sem getið er í 3. gr. þessarar reglugerðar er óheimilt að láta hest taka þátt í keppni, og/eða sýningu hvers konar, ef gefið hefur verið lyf eða beitt hefur verið sérstakri meðferð í því skyni að hafa áhrif á afkastagetu eða skapgerð hestsins, óháð því hvort lyfið eða meðferðin hefur haft slík áhrif í viðkomandi tilviki, og óháð því hvort lyfinu eða meðferðinni hefur verið beitt til að fyrirbyggja eða lækna meiðsli eða sjúkdóm í hestinum.

Til lyfja í þessu tilliti teljast m.a.:

- Lyf sem virka á miðtaugakerfið (s.s. deyfandi lyf, hitastillandi lyf o.fl.).

- Lyf sem virka á ósjálfráða miðtaugakerfið.

- Lyf sem virka á hjarta- og æðakerfið.

- Lyf sem virka á meltingakerfið.

- Lyf sem virka á storknunargetu blóðsins.

- Lyf gegn örverum og sníklum.

- Ofnæmislyf.

- Hitastillandi og deyfandi lyf, verkjalyf og bólgueyðandi lyf.

- Þvagræsilyf.

- Staðdeyfilyf.

- Vöðvaslakandi eða örvandi lyf.

- Öndunarfæralyf.

- Kynhormónar, bolsterar (anabolsterar) og barksterar.

- Aðrir hormónar eða hliðstæð samtengd efni.

- Innspýting eða vökvagjöf vítamína, snefilefna og næringarlausna.

- Frumueyðandi lyf.

- Náttúrulækningalyf (smáskammtalækningalyf).

Til sérstakrar meðferðar telst:

- Vökvagjöf og/eða innspýting blóðs, blóðefna eða blóðvökvalíkis.

- Notkun öndunargrímu með lyfjum.

- Sjúkrameðferð sem felur í sér notkun hljóðbylgna, stuttbylgna, segulsviðsmeðferðar, leysigeisla, önnur tauga- eða

vöðvagegnumleiðni, spanstraumsmeðferð, önnur raförvun, jónageislun (m.a. röntgenmeðferð) og önnur samsvarandi meðferð.

- Kæling líkamshluta með ís, kuldameðferð, notkun varmaskiptivélar, kæliumbúðir eða þvílíkt.

- Nálastungur, hnykkingar (kírópraktík).

- Í vafatilvikum skal dýraverndarráð í samráði við yfirdýralækni skera úr um hvort lyfjanotkun eða önnur meðferð telst heimil.

3. gr.

Um meðferð þá sem getið er í 2. gr. gildir almennur fjögurra sólarhringa frestur, sem í öllum tilfellum reiknast til kl. 12.00 á viðkomandi sýningar- og/eða keppnisdegi, enda séu ekki sett önnur tímamörk. Eftirfarandi önnur tímamörk gilda:

1. 180 sólarhringar:

Ígræðsla efna þar með talin innspýting efna með forðaverkun (depot).

Yfirdýralæknir getur þó veitt heimild til undanþágu frá ofangreindum tímamörkum, í þeim tilvikum þar sem um er að ræða hryssur er hafa óeðlilegan (langan/áhrifaríkan) fengitíma eða gangmál, og gefið hefur verið hormónalyf með forðaverkun. Skrifleg umsókn skal berast yfirdýralækni a.m.k. viku fyrir keppni eða sýningu. Umsóknin skal vera rökstudd og henni skal fylgja vottorð viðkomandi dýralæknis til staðfestingar.

2. 90 sólarhringar:

Kynhormón og bolsterar.

3. 14 sólarhringar:

Staðbundin og óstaðbundin (systemísk) notkun barkstera, bólgueyðandi lyfja, sem ekki eru sterar (fenylbutason, oksyfenbutazon, flunixinmeglumin, metamizol, naproxen o.fl.) og óstaðbundin notkun benzylpenicillinprocains.

Innspýting lyfja í liði, sinaskeiðar o.þ.h. ásamt innspýtingum og liðvökvatöku í sjúkdómsgreiningarskyni auk meðferðar með mismunandi lyfjum nema lengri tímamörk gildi um notkun þeirra.

4. 2 stundir:

Kæling líkamshluta með ís, kuldameðferð, varmaskiptivél, kæliumbúðum o.þ.h.

5. Enginn frestur (leyft fram að upphafi sýningar eða keppni):

Staðbundin notkun lyfja á húð gegn örverum og notkun lyfja á húð sem hlífa, mýkja, gleypa, herpa eða verka leysandi á hornhúðina. Staðbundin notkun lyfja gegn örverum í auga. Notkun seltra (t.d. glábersalt) eða smyrjandi hægðalyfja.

Bannað er að láta hest hefja keppni ef honum hefur verið gefið blóð, blóðefni eða blóðvökvalíki í æð eða verið sprautaður með slíku nema meðferðin hafi verið veitt í tengslum við sjúkdómstilvik. Í sérstökum tilvikum getur yfirdýralæknir engu að síður leyft að hestur taki þátt í keppni enda séu minnst 60 dagar liðnir síðan vökvagjöfin eða innspýtingin átti sér stað.

4. gr.

Þegar dýralæknir er kvaddur til hests vegna sjúkdóms eða meiðsla er knapa eða ábyrgðaraðila skylt að veita dýralækninum sem meðferðina annast vitneskju um hvort og þá hvenær ætlunin sé að hesturinn taki þátt í keppni og/eða sýningu.

Dýralækni sem stundar keppnis- og/eða sýningarhest er skylt að kynna sér hvort læknismeðferð hans fellur undir 2. eða 3. gr. reglugerðar þessarar. Ef meðferðin á sér stað innan þeirra tímamarka sem getið er í 3. gr. er dýralækninum skylt að vekja athygli knapa eða ábyrgðaraðila á því að ekki er heimilt að láta hestinn taka þátt í keppni eða sýningu og afhenda dýralæknisvottorð ritað á viðurkennt eyðublað því til staðfestingar.

Leiki vafi á um hvort meðferðin fellur undir reglugerð þessa, skal leggja dýralæknisvottorð á viðurkenndu eyðublaði fyrir trúnaðardýralækni eða fulltrúa hans til úrskurðar tímanlega áður en keppnin og/eða sýningin hefst.

Þegar hestur tekur þátt í sýningu eða keppni skal knapi eða ábyrgðaraðili tilkynna trúnaðardýralækni eða fulltrúa hans, áður en keppni hefst, um notkun lyfja eða annarra efna og/eða meðferð sem kann að falla undir 2. og 3. gr. reglugerðar þessarar.

Þó að trúnaðardýralæknir eða fulltrúi hans meti það svo að 2. og 3. gr. reglugerðar þessarar hafi ekki verið brotnar og hesturinn tekur þátt í keppni eða sýningu firrir það ekki knapa eða ábyrgðaraðila, ábyrgð á að hafa notað lyf eða beitt sérstakri meðferð sem stríðir gegn þessari reglugerð.

Telji trúnaðardýralæknir eða fulltrúi hans að þátttaka brjóti í bága við 2. og 3. gr. reglugerðar þessarar skal hann gera knapa eða ábyrgðaraðila grein fyrir því og afleiðingum þess að taka þátt í kepninni eða sýningunni.

5. gr.

Á skipulegum sýningum eða mótum skal reglubundið taka lyfjasýni. Um sýnatöku skal fara að reglugerð Íþróttasambands Íslands um framkvæmd lyfjaprófs ásamt reglugerðum viðkomandi samtaka s.s. Hestaíþróttasambands Íslands, Landsambands hestamannafélaga og Bændasamtaka Íslands. Ofangreind samtök sem og aðrir aðilar sem standa að sýningum eða keppni á hrossum skulu hafa trúnaðardýralækni starfandi á sínum vegum. Yfirdýralæknir getur falið fulltrúa sínum að taka lyfjasýni á sýningum eða mótum ofangreindra aðila sem og á sýningum eða mótum sem aðrir aðilar standa að og gilda þá sömu reglur um töku lyfjasýna.

6. gr.

Reykingar eru bannaðar í þeim húsakynnum þar sem sýnataka vegna lyfjaprófs fer fram eða sýnatökubúnaður er geymdur.

7. gr.

Hafi mótshaldari, yfirdómnefnd eða dómarar á mótum eða sýningum, grun um brot á reglugerð þessari, er þeim heimilt í samráði við trúnaðardýralækni eða fulltrúa hans að láta taka lyfjasýni úr viðkomandi hesti og skal töku þess háttað eftir sömu reglum og gilda skv. 5. gr.

8. gr.

Hestaíþróttasambandi Íslands, Landsambandi hestamannafélaga, Bændasamtökum Íslands eða hverjum öðrum samtökum sem hafa á stefnuskrá sinni sýningu og/eða keppni á hrossum ber að setja reglur um bann við lyfjanotkun á sýningum eða í keppni á sínum vegum og tilkynna dýraverndarráði um þær reglur sem þau hafa sett. Dýraverndarráði og yfirdýralækni skal tilkynnt, innan 10 daga um allar breytingar, sem verða kunna á reglunum.

9. gr.

Komi í ljós við rannsókn lyfjasýna að þau innihaldi lyf sem brjóta í bága við reglugerð þessa og leiki grunur á um að ákvæði laga um dýravernd hafi verið brotin, skulu viðkomandi samtök umsvifalaust tilkynna það til lögregluyfirvalda og dýraverndarráðs.

10. gr.

Kostnað af sýnatökum samkvæmt reglugerð þessari skal mótshaldari eða samtök mótshaldara bera.

11. gr.

Um eftirlit með lögum þessum fer samkvæmt lögum um dýravernd nr. 15/1994.

12. gr.

Með brot á reglugerð þessari skal fara skv. ákvæðum 19. gr. laga nr. 15/1994.

13. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 23. gr. laga nr. 15/1994, um dýravernd, og að höfðu samráði við landbúnaðarráðuneyti hvað varðar hlutverk yfirdýralæknis, öðlast gildi þegar við birtingu.

Umhverfisráðuneytinu, 2. desember 1996.

Guðmundur Bjarnason.

Ingimar Sigurðsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.