Landbúnaðarráðuneyti

35/1967

Reglugerð um varnir gegn smitandi hringskyrfi á nautgripum og öðrum húsdýrum af völdum sveppa (dermatomycosis). - Brottfallin

REGLUGERÐ

um varnir gegn smitandi hringskyrfi á nautgripum og öðrum húsdýrum af völdum sveppa (dermatomycosis).

1. gr.

Ef vart verður við hringskyrfi (hringorm), dermatomycosis, eða grunur leikur á því, að slíkur sjúkdómur sé kominn upp, þá er eiganda eða umráðamanni dýranna skylt að tilkynna það þegar viðkomandi hreppstjóra, sem án tafar skal kveðja til dýralækni, svo úr því fáist skorið, hvaða sjúkdóm um er að ræða.

Ráðherra getur, eftir tillögum yfirdýralæknis, fyrirskipað skoðun dýra til að leita sjúkdómsins á einstökum bæjum eða heilum sveitum, ef ástæða þykir til.

2. gr.

Þegar smitandi húðsjúkdóms verður vart, sbr. 1. gr., er heimilt að fyrirskipa bann við samgangi allra dýra af sýktum bæjum við dýr á öðrum bæjum. Sjúk dýr og dýr, sem grunur leikur á að smituð séu, skal auðkenna og loka inni eða hafa í tvöföldum girðingum, svo tryggum að ekki sé hætta á, að þau komi i snertingu við önnur dýr. Sleppi dýr úr vörzlu, skal þeim lógað jafnskjótt og við verður komið.

3. gr.

Óheimilt er að flytja nokkur dýr burt af sýktum bæjum nema með leyfi dýralæknis. Heimilt er, ef sérstaklega stendur á, að fella sjúk dýr eða smituð í því skyni að hindra smitdreifingu. Dýralæknir skal gera ráðstafanir til þess, að smit dreifist ekki við slátrun slíkra gripa.

4. gr.

Farartæki, sem sjúk dýr hafa verið flutt á, skal sótthreinsa rækilega að fyrirsögn dýralæknis. Ekki má flytja burt af sýktum býlum nein áhöld eða tæki, skófatnað, mjólkurbrúsa eða annað, sem smithætta getur stafað af, nema farið hafi fram rækileg sótthreinsun á þeim áður.

Fólk, sem veikist af þessum sjúkdómi og fólk, sem hirðir og annast sjúk dýr, má ekki samtímis hirða dýr á bæjum, þar sem veikinnar hefur ekki orðið vart, og það skal forðast að fara höndum um heilbrigð dýr. Óviðkomandi er óheimill aðgangur f hús og girðingar, þar sem sjúk dýr eru geymd.

5. gr.

Jafnskjótt og við verður komið, skal hefjast handa um lækningu á sjúkum dýrum eftir fyrirsögn dýralæknis. Skulu eigendur aðstoða við það verk eftir því, sem þörf krefur og dýralæknir segir til um. Sama máli gegnir um vinnu við sótthreinsun húsa, einangrun, girðingar o. s. frv.

6. gr.

Nú eru allir gripir taldir læknaðir af sjúkdóminum að dómi dýralæknis. Skal þá eigi að síður halda gripum þessum frá öllum samgangi við önnur dýr allt að einu ári eftir að sjúkdómsins varð síðast vart, og skal dýralæknir fylgjast nákvæmlega með heilsufari gripanna þann tíma, einkum ungkálfa.

7. gr.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Brot gegn ákvæðum hennar varða sektum, sem renna í ríkissjóð. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála. Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum um dýralækna nr. 124, 22. desember

1942 og lögum nr. 11, 23. apríl 1928, um varnir gegn því, að gin- og klaufaveiki og aðrir alidýrasjúkdómar berist til landsins, sbr. lög nr. 16, 1952, og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.

Landbúnaðarráðuneytið, 18. febrúar 1967.

Ingólfur Jónsson.

Gunnlaugur E. Briem.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica