Fara beint í efnið

Prentað þann 4. maí 2024

Breytingareglugerð

624/2022

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 866/2011 um öryggisstjórnun vegamannvirkja.

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. reglugerðarinnar:

  1. 2. mgr. verður svohljóðandi:
    Reglugerðin, sem sett er til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/96/EB sem hefur fullt gildi hér á landi með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka við samninginn, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans, gildir um vegi sem eru hluti af samevrópska vegakerfinu og stofnvegi, hvort sem þeir eru á hönnunarstigi, á framkvæmdastigi eða í notkun.
  2. Í stað "992/2007" í 3. mgr. kemur: 895/2021.

2. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á skilgreiningum í 2. gr. reglugerðarinnar:

  1. Skilgreining á samevrópska vegakerfinu verður svohljóðandi: Vegakerfið sem skilgreint er í 2. þætti I. viðauka við ákvörðun nr. 1692/96/EB og skýrt með kortum og/eða lýst í II. viðauka við þá ákvörðun er tilgreint í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1315/2013.
  2. Við skilgreiningu hugtaksins "Umferðaröryggismat" bætist nýr málsliður svohljóðandi: Slíkt mat skal framkvæmt af hópi sérfræðinga en a.m.k. einn þeirra skal hafa starfsleyfi skv. 7. gr.
  3. Við skilgreiningar hugtaksins "Umferðaröryggisrýni" bætist nýr málsliður svohljóðandi: Slík rýni skal framkvæmd af hópi sérfræðinga en a.m.k. einn þeirra skal hafa starfsleyfi skv. 7. gr.
  4. Í stað skilgreiningarinnar "Röðun vegarkafla þar sem slys eru mörg eða slysatíðni há" kemur eftirfarandi skilgreining: Öryggisflokkun: röðun hluta vegakerfisins sem til staðar er í flokka samkvæmt innbyggðu öryggi þeirra sem mælt er á hlutlægan hátt.
  5. Í stað skilgreiningarinnar "Umferðaröryggisúttekt" kemur eftirfarandi skilgreining: Reglubundin umferðaröryggisúttekt: Reglubundin skoðun á eiginleikum vegamannvirkja í notkun í þeim tilgangi að finna ágalla sem krefjast lagfæringa af öryggisástæðum.
  6. Eftirfarandi skilgreiningar bætast við greinina:
    Markviss umferðaröryggisúttekt: Markviss rannsókn til að auðkenna hættulegar aðstæður, ágalla og vandamál sem auka hættuna á slysum og líkamstjóni, byggð á vettvangsheimsókn á fyrirliggjandi veg eða vegarkafla.
    Óvarinn vegfarandi: Vegfarandi sem ekki er varinn af yfirbyggingu ökutækis í umferð, svo sem gangandi og hjólandi vegfarandi, þ.m.t. ökumaður og farþegi bifhjóls og torfærutækis.

3. gr.

Í stað orðsins "Vegagerðin" í 1. mgr. 3. gr. kemur: Veghaldari. Þá falla orðin "sem eru hluti af samevrópska vegakerfinu" brott.

4. gr.

Í stað orðsins "Vegagerðin" í 1. mgr. 4. gr. kemur: Veghaldari. Þá falla orðin "sem eru hluti af samevrópska vegakerfinu" brott.

5. gr.

Í stað 5. gr. reglugerðarinnar kemur ný 5. gr. með fyrirsögn, svohljóðandi:

Heildstætt umferðaröryggismat.

Veghaldari skal framkvæma heildstætt umferðaröryggismat á vegakerfinu í heild sem reglugerð þessi tekur til. Séu fleiri en einn veghaldari til staðar skulu þeir vinna matið í sameiningu.

Í heildstæðu umferðaröryggismati skal meta hættu á slysum og alvarlegum árekstrum á grundvelli:

  1. sjónrænnar skoðunar, fyrst og fremst, annaðhvort á staðnum eða með rafrænum aðferðum, á hönnunareiginleikum vegarins og
  2. greiningar á köflum vega sem hafa verið í notkun í meira en þrjú ár og þar sem mikill fjöldi alvarlegra slysa hefur orðið miðað við umferðarflæði.

Heildstætt umferðaröryggismat skv. 1. mgr. skal fyrst framkvæmt árið 2024 og á fimm ára fresti frá því. Við framkvæmd mats skal höfð hliðsjón af leiðbeinandi þáttum III. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/96/EB frá 19. nóvember 2008 um öryggisstjórnun vegamannvirkja.

Á grundvelli niðurstaðna mats skv. 1. mgr. skal veghaldari flokka alla vegarkafla samkvæmt öryggisstigi vegarkafla. Slík flokkun skal notuð við forgangsröðun aðgerða.

6. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. reglugerðarinnar:

  1. Í stað fyrirsagnar kemur ný fyrirsögn svohljóðandi: Reglubundnar umferðaröryggisúttektir.
  2. 1. mgr. verður svohljóðandi:
    Umferðaröryggisúttektir skulu framkvæmdar á vegum í þeim tilgangi að greina þætti sem tengjast umferðaröryggi og koma í veg fyrir slys. Slíkar úttektir skulu vera nægjanlega tíðar til að tryggja fullnægjandi öryggi vegarins sem um ræðir. Veghaldari skal tilkynna Samgöngustofu um niðurstöður slíkrar úttektar. Gefi eftirlit Samgöngustofu með framkvæmd umferðaröryggisstjórnunar tilefni til, getur stofnunin sjálf framkvæmt eða látið framkvæma umferðaröryggisúttekt á vettvangi.
  3. 2. mgr. verður svohljóðandi:
    Tryggja skal öryggi vegarkafla sem liggja að jarðgöngum, sem falla undir ákvæði reglugerðar nr. 895/2021, með sameiginlegum umferðaröyggisúttektum með öryggisfulltrúa jarðganga. Slíkar úttektir skulu fara fram nægilega oft til að tryggja fullnægjandi öryggi og eigi sjaldnar en á sex ára fresti.

7. gr.

Við reglugerðina bætist ný grein, 6. gr. a., svohljóðandi:

Umferðaröryggismati skv. 5. gr. skal fylgt eftir með annaðhvort markvissum umferðaröryggisúttektum eða með beinum aðgerðum til úrbóta. Við slíkar aðgerðir skal tryggt að tillit sé tekið til þarfa óvarinna vegfarenda.

Við markvissar umferðaröryggisúttektir skal hafa leiðbeinandi þætti II. viðauka a. tilskipunar 2008/96/EB til hliðsjónar. Slíkar úttektir skulu framkvæmdar af sérfræðingateymum en a.m.k. einn úr slíku teymi skal hafa starfsleyfi sem umferðaröryggisrýnir.

Niðurstöðum markvissra umferðaröryggisúttekta skal fylgt eftir með rökstuddum ákvörðunum um hvort þörf sé á aðgerðum til úrbóta. Þeir vegarkaflar þar sem nauðsynlegt er að gera öryggisúrbætur á vegamannvirkjum skulu auðkenndir og aðgerðir til að bæta öryggi þeirra skulu settar í forgang.

Aðgerðum til úrbóta skal einkum beint að vegarköflum þar sem öryggisstig er lágt og þar sem unnt er að gera ráðstafanir sem fela í sér mikla möguleika á að bæta öryggi og draga úr kostnaði vegna slysa.

Veghaldari skal semja áhættumiðaða aðgerðaráætlun sem sett er í forgang, til að fylgjast með framkvæmd auðkenndrar aðgerðar til úrbóta. Slík aðgerðaráætlun skal uppfærð með reglulegu millibili.

8. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. reglugerðarinnar:

  1. 1. mgr. verður svohljóðandi:
    Til að öðlast starfsleyfi sem umferðaröryggisrýnir skal viðkomandi hafa viðeigandi reynslu eða þjálfun í vegahönnun, tæknivinnu á sviði umferðaröryggis og slysagreiningu og ljúka námskeiði í samræmi við námskrá sem Samgöngustofa hefur samið eða látið semja að höfðu samráði við Vegagerðina og staðfest hefur verið af ráðherra.
  2. 5. mgr. verður svohljóðandi:
    Umferðaröryggisrýni skal einungis framkvæmd af rýnum sem gengist hafa undir þjálfun, sbr. 1. mgr.

9. gr.

Við reglugerðina bætist ný 8. gr. með fyrirsögn og númer eftirfarandi greina taka breytingum til samræmis. Ný 8. gr. er svohljóðandi:

Eftirlit með umferðaröryggisstjórnun vegamannvirkja og krafa um úrbætur.

Samgöngustofa hefur eftirlit með framkvæmd umferðaröryggisstjórnunar vegamannvirkja. Eftirlitið fer fram í formi stjórnsýsluúttekta á verklagi veghaldara við umferðaröryggisstjórnun. Samgöngustofa getur gefið fyrirmæli um úrbætur á verklagi við framkvæmd umferðaröryggisstjórnunar ef þörf er á.

Verði Samgöngustofa þess áskynja við eftirlit að öryggi vegamannvirkis sé svo áfátt að hætta stafi af skal stofnunin vekja athygli veghaldara á því með rökstuddum hætti og óska eftir tímasettri úrbótaáætlun. Sé öryggi verulega ábótavant getur Samgöngustofa gefið út öryggisfyrirmæli um úrbætur.

Sinni veghaldari ekki úrbótum og öryggisástand vegamannvirkis er metið alvarlegt, skal Samgöngustofa tilkynna viðkomandi lögreglustjóra um ástand vegarins. Lögreglustjóri metur í kjölfarið hvort tilefni séu til aðgerða skv. 3. mgr. 15. gr. vegalaga nr. 80/2007.

10. gr.

Við reglugerðina bætist ný 10. gr. með fyrirsögn og númer eftirfarandi greina taka breytingum til samræmis. Ný 10. gr. er svohljóðandi:

Skýrslugjöf.

Vegagerðin skal leggja skýrslu skv. 1. mgr. 11. gr. a. tilskipunar 2008/96/EB fyrir Eftirlitsstofnun EFTA eigi síðar en 31. október 2025.

11. gr.

11. gr. reglugerðarinnar sem áður var 9. gr. verður svohljóðandi:

Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi eftirtaldar ESB-gerðir:

  1. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/96/EB frá 19. nóvember 2009, sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 20 frá 7. apríl 2011, bls. 1-9.
  2. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1936 frá 23. október 2019, sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 18 frá 17. mars 2022, bls. 340-349.

12. gr. Innleiðing.

Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1936 frá 23. október 2019 um breytingu á tilskipun 2008/96/EB um öryggisstjórnun vegagrunnvirkja, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 14/2022, frá 4. febrúar 2022 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn. Tilskipunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 18 frá 17. mars 2022, bls. 340-349.

13. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 46. gr. vegalaga nr. 80/2007, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Innviðaráðuneytinu, 27. maí 2022.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.