Umhverfisráðuneyti

621/1997

Reglugerð um úrskurðarnefnd samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

1. gr.

Umhverfisráðherra skipar úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála til fjögurra ára í senn.

Úrskurðarnefnd kveður upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál skv. skipulags- og byggingarlögum. Í nefndinni eiga sæti þrír menn, einn án tilnefningar og tveir tilnefndir af Hæstarétti Íslands. Skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar og skal hann fullnægja skilyrðum þess að vera héraðsdómari. Varamenn skulu tilnefndir á sama hátt.

 

2. gr.

Hverjum þeim sem telur rétti sínum hallað með samþykkt byggingarnefndar og/eða sveitarstjórnar er heimilt að skjóta máli sínu til úrskurðarnefndar með kæru. Kærufrestur er einn mánuður frá því að kæranda var kunnugt um þá samþykkt sem hann kærir.

Sé um að ræða önnur kæruatriði en varða samþykkt byggingarnefndar og/eða sveitarstjórnar er þeim sem telur rétti sínum hallað heimilt að skjóta máli sínu til úrskurðarnefndar með kæru. Kærufrestur er þrír mánuðir frá því að aðila var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun.

 

3. gr.

Kæra til úrskurðarnefndar skal vera skrifleg og í henni skal skilmerkilega greina hvert úrskurðarefnið er, hver sé krafa aðila og rökstuðningur fyrir henni.

 

4. gr.

Úrskurðarnefnd skal kveða upp úrskurð svo fljótt sem kostur er og jafnan innan tveggja mánaða frá því að kæra berst henni í hendur. Sé mál viðamikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðsla taki lengri tíma skal nefndin tilkynna hlutaðeigandi það og tiltaka afgreiðslufrest sem aldrei skal þó vera lengri en þrír mánuðir.

 

5. gr.

Komi fram í ágreiningsmáli krafa um stöðvun framkvæmda skal úrskurðarnefndin þegar í stað kveða upp úrskurð um það atriði. Úrskurð um stöðvun ber sveitarstjórn að framfylgja þegar í stað, með aðstoð lögreglu ef með þarf.

 

6. gr.

Úrskurðarnefnd er heimilt að kalla eftir upplýsingum og gögnum og óska umsagnar frá öðrum sem málið snertir og viðkemur og kveðja sér til fulltingis sérfróða aðila við úrskurð einstakra mála.

 

7. gr.

Úrskurðir nefndarinnar eru fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til umhverfisráðherra.

 

8. gr.

Um málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd fer að öðru leyti samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

9. gr.

Kostnaður vegna úrskurðarnefndar greiðist úr ríkissjóði. Sérstakur starfsmaður skal ráðinn til þess að vera framkvæmdastjóri nefndarinnar. Skal hann uppfylla skilyrði til þess að vera héraðsdómari.

 

10. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 2. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og öðlast gildi 1. janúar 1998.

 

Umhverfisráðuneytinu, 30. október 1997.

 

Guðmundur Bjarnason.

Magnús Jóhannesson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica