Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

620/2014

Reglugerð um skilyrði sem heilbrigðisstarfsmaður þarf að uppfylla til að fá undanþágu til að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu eftir að 75 ára aldri er náð.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um heilbrigðisstarfsmenn sem eru 75 ára og eldri og sækja um undanþágu til að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu.

2. gr. Undanþága til að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu.

Landlækni er heimilt að veita heilbrigðisstarfsmanni undanþágu til að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu eftir að hann hefur náð 75 ára aldri að uppfylltum skilyrðum skv. 3. gr. Landlækni er heimilt að veita undanþágu í fyrsta skipti í allt að þrjú ár, en eftir það í eitt ár í senn.

3. gr. Skilyrði.

Umsækjandi um undanþágu til að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu eftir að hann hefur náð 75 ára aldri skal uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  1. Vera andlega og líkamlega fær um að starfrækja þá starfsemi sem sótt er um undanþágu til.
  2. Hafa viðhaldið þekkingu sinni, faglegri færni og tileinkað sér nýjungar.

4. gr. Umsókn um undanþágu.

Umsókn um undanþágu til að veita heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstofu eftir að 75 ára aldri er náð, skal skilað til embættis landlæknis á þar til gerðu eyðublaði sem landlæknir ákveður.

Með umsókn skulu fylgja upplýsingar um tegund og umfang starfsemi umsækjanda síðastliðin fimm ár. Þá skal fylgja umsókn læknisvottorð, sem vottar að umsækjandi sé andlega og líkamlega fær um að stunda þá starfsemi sem sótt er um undanþágu til.

Umsækjandi skal leggja fram yfirlit og gögn um endurmenntun, námskeið eða annað til staðfestingar á því með hvaða hætti hann hefur viðhaldið þekkingu sinni, faglegri færni og tileinkað sér nýjungar síðastliðin fimm ár.

5. gr. Mat landlæknis.

Við mat á því hvort umsækjandi uppfylli skilyrði 3. gr. skal höfð hliðsjón af þeirri heilbrigðisþjónustu sem hann hyggst veita með hagsmuni og öryggi sjúklinga og þeirra sem hann veitir þjónustu að leiðarljósi.

Landlækni er heimilt að kalla umsækjanda til viðtals.

Mat landlæknis á umsókn skal vera málefnalegt og heildstætt og byggja á umsóknargögnum sem og fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum um umsækjanda eftir því sem við á. Að öðru leyti gilda stjórnsýslulög, nr. 37/1993, eftir því sem við á.

6. gr. Almenn ákvæði.

Um heilbrigðisstarfsmenn gilda að öðru leyti ákvæði laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, svo og önnur lög og stjórnvaldsfyrirmæli eftir því sem við getur átt.

7. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 26. og 30. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, og öðlast þegar gildi.

Velferðarráðuneytinu, 11. júní 2014.

Kristján Þór Júlíusson
heilbrigðisráðherra.

Margrét Björnsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.