Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

604/2009

Reglugerð um sektir og önnur viðurlög ákvörðuð af tollstjóra vegna brots á tollalögum nr. 88/2005.

1. gr.

Við ákvörðun sektar allt að 300.000 kr. vegna brota á 1. mgr. 170. gr. og 171. gr. tollalaga skal hafa hliðsjón af aðflutningsgjaldi hinnar innfluttu vöru að viðbættum 15% þeirrar fjárhæðar auk þess sem varan, að verðmæti allt að 300.000 kr., verði gerð upptæk samkvæmt 1. mgr. 181. gr. tollalaga.

Um sektir varðandi tiltekna vöruflokka gilda þó eftirfarandi sérreglur í viðauka við þessa reglugerð auk þess sem varan skal gerð upptæk. Heimilt er að víkja frá ákvæðum í viðaukanum ef veigamikil rök mæla með því.

2. gr.

Fullnaðargreiðsla sektar skal fara fram við undirritun sektargerðar og er heimilt að greiða sekt með greiðslukortum (debet- og kredit) auk greiðslu í reiðufé.

3. gr.

Tollstjóra er heimilt að fela tollvörðum að bjóða mönnum, sem uppvísir verða að brotum skv. 1. gr., að ljúka málum með greiðslu sektar á vettvangi, þ.á m. með greiðslukortum og upptöku varnings.

4. gr.

Nú stendur tollvörður mann að broti skv. 1. gr. sem hann gengst skýlaust við og tollvörður telur að hæfileg viðurlög við brotinu séu sekt sem fari ekki fram úr 100.000 kr. auk upptöku. Getur tollvörður þá ákveðið viðurlög við brotinu samkvæmt þessari reglugerð. Tollvörður gerir sakborningi ljós þau viðurlög sem við broti liggja og afleiðingar þess að sekt sé ekki greidd og afhendir honum skýrslu þar sem fram kemur stutt lýsing á broti, hvar og hvenær það var framið, þau refsiákvæði sem það varðar við og tilgreining á þeim varningi sem lagt var hald á. Sakborningur undirritar skýrsluna og skal tollvörður bjóða sakborningi að ljúka þegar málinu með greiðslu sektar á vettvangi.

5. gr.

Nú telur tollstjóri að saklaus maður hafi verið látinn gangast undir viðurlög skv. 3. gr. eða að málalok hafi verið fjarstæð að öðru leyti og getur hann þá innan mánaðar frá því að honum barst vitneskja um það fellt gerðina úr gildi, enda sé þá ekki liðið ár frá málalokum.

6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 3. mgr. 185. gr. tollalaga nr. 88/2005, öðlast gildi þegar í stað.

Fjármálaráðuneytinu, 2. júní 2009.

F. h. r.

Guðmundur Árnason.

Ögmundur H. Magnússon.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.