Landbúnaðarráðuneyti

60/2000

Reglugerð um eftirlit með aðbúnaði og heilbrigði sauðfjár og geitfjár og eftirlit með framleiðslu kjöts og annarra afurða þeirra. - Brottfallin

1. gr.

Tilgangur og gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um allt sauðfé og geitfé. Um framleiðslu vistvænna og lífrænna sauðfjár- og geitfjárafurða vísast til ákvæða í reglugerð nr. 504/1998 um vistvæna landbúnaðarframleiðslu og ákvæða í reglugerð nr. 219/1995 um lífræna landbúnaðarframleiðslu með síðari breytingum.

Tryggja skal góða meðferð og aðbúnað sauðfjár og geitfjár svo að þörfum þess sé fullnægt, hvort sem það er á húsi eða á beit.

Til framleiðslu afurða sauðfjár og geitfjár skal eingöngu nota gripi, sem eru heilbrigðir og lausir við sjúkdómsvalda hættulega mönnum.

2. gr.

Yfirstjórn og eftirlit.

Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem reglugerð þessi tekur til.

Yfirdýralæknir skal vera ráðherra til aðstoðar og hafa undir sinni stjórn dýralækni sauðfjársjúkdóma, sem starfar samkvæmt erindisbréfi. Á meðan ekki er ráðinn sérstakur dýralæknir sauðfjársjúkdóma skal yfirdýralæknir eða aðstoðarmaður hans annast skyldur hans, sbr. reglugerð þessa.

Dýralæknir sauðfjársjúkdóma skal stuðla að góðri meðferð og heilbrigði sauðfjár og geitfjár. Hann skal stuðla að vörnum og greiningu sjúkdóma þeirra í samvinnu við dýralækna, bændur, ráðunauta og búfjáreftirlitsmenn. Með almennri fræðslu og leiðbeiningastarfi skal hann leitast við að auka skilning manna á sjúkdómum sauðfjár og geitfjár og því tjóni sem þeir geta valdið. Hann skal gera tillögur að reglum um innra eftirlit, skráningu sjúkdóma og lyfjanotkun við framleiðslu afurða sauðfjár og geitfjár.

Búfjáreftirlitsmenn og héraðsdýralæknar skulu, hver í sínu umdæmi, hafa eftirlit með því að ákvæðum reglugerðar þessarar sé framfylgt. Landbúnaðarráðherra getur þó falið öðrum dýralæknum þetta eftirlit á tilteknum svæðum, ef henta þykir, að fengnum tillögum yfirdýralæknis eða viðkomandi héraðsdýralæknis.

3. gr.

Umhverfi fjárhúss.

Umhverfi og næsta nágrenni fjárhúss skal vera þrifalegt til varnar óhreinindum og smitefnum.

Taðgeymslur skulu vera þéttar og stuðla að hreinu umhverfi. Flutningur og dreifing á taði má ekki valda óþrifnaði eða hættu fyrir skepnur, menn og umhverfi og að öðru leyti vera í samræmi við ákvæði mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994.

Frárennsli frá salerni skal leiða í rotþró, en hreinsi- og sótthreinsiefni og baðlyf skal leiða í sérstaka aðstöðu til að koma í veg fyrir mengun.

4. gr.

Aðbúnaður og innréttingar.

Öllu sauðfé og geitfé skal tryggt húsaskjól á vetrum. Heimilt er að láta það liggja við opið þar sem aðstæður leyfa.

Svæði fyrir framan dyr skal vera malarborið eða með varanlegu slitlagi til þess að fé óhreinkist ekki. Gott aðgengi skal vera fyrir flutningatæki að fjárhúsum.

Í húsum þar sem sauðfé eða geitfé er hýst skal þannig gengið frá dyrum, stíum, króm og göngum að fljótlegt sé að rýma húsin í neyðartilvikum. Um rýmisþörf í húsi fer samkvæmt reglum í viðauka I A.

Loftræsting í húsum skal vera góð og komið skal í veg fyrir dragsúg, sbr. viðauka I D. Magn varhugaverðra lofttegunda skal vera innan viðurkenndra hættumarka, sbr. viðauka I D. Ryki og annarri loftmengun skal haldið í lágmarki.

Hita- og rakastigi skal haldið jöfnu og innan þeirra marka sem tilgreind eru í viðauka I D.

Á öllum húsum skulu vera gluggar sem tryggi að þar gæti dagsbirtu. Önnur lýsing skal vera til staðar svo ávallt sé hægt að fylgjast með öllu fé í húsinu. Ljós skulu þannig staðsett að þau valdi fénu ekki óþægindum eða hættu.

Óheimilt er að hafa féð í sífelldum hávaða og varast ber að það verði fyrir miklum óvæntum hávaða. Hávaði skal að jafnaði vera innan þeirra marka sem tilgreind eru í viðauka I D.

Gólf og veggir skulu vera úr traustu efni og með yfirborði, sem auðvelt er að þrífa og sótthreinsa. Óheimilt er að nota hættuleg efni, svo sem fúavarnar- og sótthreinsiefni, sem eru heilsuspillandi eða efni sem lita út frá sér. Þar sem tað er á gólfi skal því haldið þurru og auðvelt skal vera að hreinsa það út.

Gólf skulu vera þannig gerð að tryggt sé að fé festi ekki fætur eða skaði sig að öðru leyti.

Í stíum fyrir geitfé skulu vera upphækkaðir pallar í mismunandi hæð þar sem það getur farið upp á og lagst.

Innréttingar skulu vera þannig úr garði gerðar að þær hefti ekki eðlilegar hreyfingar gripanna, að þeir sjái hverjir aðra og ekki sé hætta á að þeir skaði sig.

Í húsum skulu vera garðar, jötur eða gjafagrindur til fóðrunar.

Drykkjarker skulu staðsett þannig að drykkjarvatn mengist ekki af þvagi eða saur, vatn í þeim frjósi ekki né þau yfirfyllist. Hreinsa skal drykkjarker a.m.k. daglega og þess gætt að vatnsrennsli sé í lagi. A.m.k. eitt drykkjarker skal vera í hverri kró eða stíu og þau þannig staðsett og varin að þau valdi dýrunum ekki meiðslum. Einnig skal þess gætt að unglömb alin á húsi hafi aðgang að drykkjarvatni eftir þörfum.

Í fjárhúsum skal vera aðstaða til að halda sjúku fé og öðru fé sem þarfnast aðhlynningar sér í stíu.

Í fjárhúsi er æskilegt að sé til staðar aðstaða til handþvotta og hreinsunar á skófatnaði ásamt hengi fyrir hlífðarföt.

5. gr.

Fóðrun og umhirða.

Fóður skal að magni, gæðum og efnainnihaldi fullnægja þörfum fjárins til eðlilegs vaxtar, viðhalds og framleiðslu. Tryggja skal að fé á beit hafi ávallt nægan aðgang að hreinu, ómenguðu drykkjarvatni. Á húsi skal skilja gemlinga og vanmetafé frá fullorðnu fé til að það afétist ekki. Óheimilt er að fóðra vanmetafé með heilbrigðum lömbum.

Gæta skal að vexti horna svo að þau valdi ekki meiðslum og klaufir skulu vera vel hirtar.

Fénu skal haldið hreinu og það rúið a.m.k. einu sinni á ári. Þegar fé er rúið að vetri til skal það hýst í skjólgóðri byggingu, þess gætt að það ofkælist ekki og skal einnig tryggt að fóðrun þess sé góð.

Rúningstækjum skal haldið í góðu ástandi, þau sótthreinsuð eftir þörfum og ávallt ef farið er með þau á milli fjárbúa.

Fé í tveimur reifum skal rýja sem fyrst að hausti og eigi síðar en í byrjun húsvistar.

6. gr.

Beit og landvernd.

Við beit sauðfjár og geitfjár skal þess ætíð gætt að næringarþörf þess sé fullnægt í hvívetna og ekki sé of þröngt í högum. Sérstaklega skal þess gætt að lambær og ungviði hafi ávallt aðgang að nægu beitilandi.

Allir sem nýta land til beitar skulu gæta þess að beit rýri ekki landgæði og leitast skal við að beita ekki á land sem illa er farið vegna jarðvegsrofs eða því hætt við rofi. Við mat á beitarþoli lands og aðgerðum til úrbóta skal taka mið af ástandsflokkun landsins samkvæmt mati Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landgræðslu ríkisins, sbr. viðauka II með reglugerð þessari.

Búfjáreftirlitsmenn sveitarfélaga skulu fylgjast með ástandi lands í byggð sem nýtt er til beitar.

7. gr.

Skráning sauðfjár og geitfjár, sjúkdóma þeirra og lyfjameðferðar.

Eigandi eða umráðamaður skal sjá um að allt ásetningsfé búsins sé einstaklingsmerkt í eyra með viðurkenndum merkjum og raðnúmeri eða á annan viðurkenndan hátt. Sláturfé sem flutt er beint frá viðkomandi býli í sláturhús skal merkt þannig að ávallt sé hægt að rekja uppruna þess. Eigandi eða umráðamaður fjárins skal halda sérstaka skrá um þessa þætti. Jafnframt skal hann halda nákvæma skýrslu á þar til gerðum eyðublöðum, sem héraðsdýralæknir lætur í té, um heilsufar einstakra gripa, aðgerðir og lyfjameðferð þeirra. Skýrslur þessar skulu ávallt vera aðgengilegar fyrir héraðsdýralækna.

Dýralækni er skylt í lok hverrar vitjunar að skrá á staðnum upplýsingar um sjúkdómsgreiningu, meðhöndlun og lyfjanotkun. Einnig skal hann skrá leiðbeiningar um framhaldsmeðferð og nýtingu afurða. Þessar upplýsingar skulu afhentar umráðamanni fjárins en afrit varðveitt af viðkomandi dýralækni. Upplýsingar þessar skulu ávallt vera aðgengilegar fyrir yfirdýralækni eða fulltrúa hans.

Jafnan skal stefnt að því að koma í veg fyrir sjúkdóma með fyrirbyggjandi aðgerðum svo sem góðum aðbúnaði, alhliða fóðrun og bólusetningum í stað lyfjameðferðar. Bólusetningar og ormalyfsgjafir skal framkvæma reglulega og öll dýr meðhöndluð samtímis sem þess þurfa. Lyf skulu geymd í lokuðum hirslum og við viðeigandi skilyrði. Tómum lyfjaumbúðum og lyfjaafgöngum skal fargað á tryggilegan hátt.

Komi upp alvarlegur smitsjúkdómur á fjárbúi eða grunur um slíkan sjúkdóm skal umráðamaður fjárins eða dýralæknir búsins þegar í stað tilkynna það viðkomandi héraðsdýralækni eða yfirdýralækni.

Umráðamaður búsins skal halda skrá um alla aðfengna gripi, gripi sem afhentir eru til lífs eða slátrað heima og þá sem misfarast, ásamt líklegri dauðaorsök.

Öllum gripum sem drepast á býli eða finnast dauðir á víðavangi skal eytt eða komið fyrir á þann hátt að tryggt sé að smit eða mengun hljótist ekki af.

8. gr.

Rekstur og flutningar.

Ávallt skal gæta fyllstu nærgætni við smölun og rekstur sauðfjár og geitfjár og forðast að þreyta það umfram nauðsyn. Sýni einstakir gripir merki um sjúkdóm skal haft samband við dýralækni varðandi meðferð og meðhöndlun eða frekari rannsókn ef þörf krefur.

Flutningatæki sem ætluð eru til sauðfjárflutninga skal útbúa sérstaklega til þeirra nota. Hliðargrindur skulu vera sléttar og eigi undir 100 cm á hæð og tryggja skal að gripir geti ekki stokkið yfir þær. Flutningspall skal hólfa sundur með traustum grindum í stíur sem rúma allt að 12 kindur, sbr. viðauka I C. Dyraumbúnaður skal vera traustur og öruggur. Við flutning umfram 50 km skal flutningspallur hólfaður sundur í miðju að endilöngu svo að engin stía nái um þveran flutningspall. Á flutningspalli skal leitast við að nota grindur eða ristar en að öðrum kosti skal strá hæfilega miklum sandi, heyi eða öðrum undirburði til að draga úr hálku, sbr. þó 4. mgr. 9. gr. reglugerðar þessarar um flutning sláturfjár.

Njóti dagsbirtu ekki við meðan á flutningi stendur skal hafa ljós á flutningspalli svo að vel sjáist um allan pallinn.

Til þess að forðast mar og meiðsli skal búa svo um að unnt sé að reka fé á flutningspall og af honum aftur. Forðast skal að lyfta fé upp á hornunum eða með því að taka eingöngu í ullina.

9. gr.

Aðbúnaður og meðferð sláturfjár.

Réttum skal haldið þurrum og hreinum og þess gætt að vatn safnist ekki fyrir í þeim. Þar sem þörf krefur skal leggja þurrklögn undir almenning og innrekstrargang og þeir malarbornir til að koma í veg fyrir að sandur og skítur safnist í ullina. Réttir, þó einkum almenningur og innrekstrargangur, skulu hreinsaðar reglulega og malarlag endurnýjað eftir þörfum. Safngirðingar skulu vera á þurrlendi.

Sláturfé sem gengur á grænfóðurbeit skal einnig hafa aðgang að úthaga eða túni. Féð skal tekið af grænfóðurbeitinni eigi síðar en sólarhring fyrir flutning í sláturhús. Sjáist skita eða önnur óhreinindi á sláturfé er óheimilt að senda það í sláturhús fyrr en féð hefur hreinsað sig.

Draga skal úr fóðrun sláturfjár síðasta sólarhring fyrir flutning. Óheimilt er að hafa fé án fóðurs, fyrir slátrun lengur en tvo sólarhringa.

Allt fé skal vera hreint þegar það er sett á flutningatæki og flutt í sláturhús.

Þegar sauðfé er flutt til slátrunar skal nota grindur á flutningspalli til að draga úr óhreinindum og hálku. Óheimilt er að nota sag, spæni eða sand á flutningspall þegar sláturfé er flutt í sláturhús. Jafnan skal hreinsa flutningspall milli ferða og hann sótthreinsaður áður en sláturfé er sótt af öðrum varnarsvæðum. Grindur og milligerðir skulu vera þannig útbúnar að engin hætta sé á að fé festi fætur í þeim.

Óheimilt er að vera með sláturfé á flutningatæki lengur en 8 klst. án hvíldar.

10. gr.

Refsiákvæði og gildistaka.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt 13. gr. laga nr. 46/1991 um búfjárhald, forðagæslu o.fl., með síðari breytingum. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

Reglugerð þessi er sett skv. heimild í lögum nr. 46/1991, um búfjárhald, forðagæslu o.fl., með síðari breytingum, lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum, lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, með síðari breytingum og lögum nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl., með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Landbúnaðarráðuneytinu, 21. janúar 2000.

Guðni Ágústsson.

Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir.

 

VIÐAUKI I

A. Rými í húsum (lágmarksmál):

Gólfrými skal vera nægilegt til að allt féð geti legið samtímis:

fyrir allt fullorðið fé og fengna gemlinga

0,7 m2

fyrir gemlinga 12 mánaða og yngri

0,6 m2

fyrir unglömb eftir þyngd allt að 30 kg

0,2 - 0,4 m2

Burðarstía (viðmiðun 1 m x 1 m)

1,0 m2

Jöturými skal vera fyrir fullorðið fé og fengna gemlinga

40 cm

og fyrir gemlinga.

36 cm

Við gjafagrindur til sjálffóðrunar skal vera rými í einu fyrir a.m.k. þriðjung

þess fjár sem hefur aðgang að þeim.

 

 

B. Gólfgerð:

Rimlagólf:

Rimlabreidd, lágmark 50 mm,

rifubreidd að hámarki 22 mm fyrir fullorðið fé, en

20 mm fyrir ær með lömb, gemlinga og huðnur með ungviði.

Ristargólf:

Gólfristar skulu hafa slétt yfirborð. Óheimilt er að nota gólfefni með skörpum köntum eða bryggjum sem skaðað getur klaufir eða fótleggi dýranna.

Hámarksbreidd gata skal vera 20 mm.

C. Stíurými í flutningum á landi (lágmarksmál):

Rúið fullorðið sauðfé og lömb að 55 kg, 0,20 - 0,30 m2/dýr

Órúið fullorðið sauðfé að 55 kg, 0,30 - 0,40 m2/dýr

og fé yfir 55 kg, meira en 0,40 m2/dýr

D. Loftræsting o.fl.:

Magn eftirtalinna lofttegunda skal að jafnaði ekki vera meira en hér segir:

Ammóníak (NH3)

10 ppm

Koltvísýringur (CO2)

3000 ppm

Brennisteinsvetni (H2S)

0,5 ppm

Við hönnun loftræstikerfis skal leitast við að lofthraði umhverfis gripi fari ekki yfir 0,2 m/sek.

Lágmarksloftræstingu skal miða við að halda hlutfallslegum raka í fjárhúsinu innan við 80 %.

Umhverfishiti í húsi skal ekki vera hærri en 10°C hjá fé í ullu og 20°C hjá nýrúnu fé.

Lágmarkshiti hjá nýrúnu fé á húsi skal vera 5°C.

Hljóðstyrkur skal ekki að jafnaði fara yfir 65 dB (A).

E. Hvíldartími sláturfjár:

Hvíld eftir smölun umfram 48 klst. skal vera minnst tveir sólarhringar.

Hvíld eftir smölun í 12 - 48 klst. skal vera einn sólarhringur hið skemmsta.

VIÐAUKI II

Ástandsflokkun.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica