Menntamálaráðuneyti

6/2001

Reglugerð um starfstíma framhaldsskóla og leyfisdaga. - Brottfallin

1. gr.

Árlegur starfstími nemenda í framhaldsskólum skal eigi vera skemmri en níu mánuðir og kennslu- og prófdagar eigi færri en 175, þar af eigi færri en 145 kennsludagar. Hann skiptist í tvær sem næst jafnlangar annir.


2. gr.

Skólameistari ákveður, að höfðu samráði við skólaráð og almennan kennarafund, upphaf og lok skólastarfs ár hvert á bilinu 22. ágúst – 31. maí. Hann skal tilkynna kennurum og nemendum þá ákvörðun fyrir lok næsta skólaárs á undan.


3. gr.

Leyfisdagar nemenda skulu vera sem hér greinir: Jólaleyfi frá og með 21. desember til og með 3. janúar, páskaleyfi frá pálmasunnudegi til og með þriðjudegi eftir páska. Aðrir leyfisdagar eru eingöngu þeir sem lögboðnir eru.


4. gr.

Vilji skóli starfrækja sumarönn skal hann leita heimildar menntamálaráðherra. Um starfsemi framhaldsskóla á sumarönn fer samkvæmt námskrá handa framhaldsskólum og gildandi lögum og reglugerðum um starfsemi þeirra.


5. gr.

Við mat á hlut kennslu í árlegum starfstíma skóla er miðað við þá daga sem nemendur sækja skóla skv. stundaskrá undir skipulegri leiðsögn kennara. Sé kennsla, sem nemur heilli kennslustund eða meira, felld niður hjá meira en helmingi nemenda á sama tíma skal kennsla talin skert hlutfallslega af reglulegum kennslutíma skóla skv. stundaskrá. Niðurfelling kennslu í tvær kennslustundir af átta sem yfir helmingur nemenda ætti að sækja tiltekinn kennsludag myndi skerða kennslu um 25%. Slíkar hlutfallstölur yrðu lagðar saman til þess að telja skerta kennslu annar eða skólaárs. Skólasetningardagur telst ekki kennsludagur nema kennsla fari að öðru leyti fram skv. stundaskrá. Skólaslitadagur og/eða afhendingardagur einkunna telst reglulegur kennsludagur.

Vinnudagar kennara á árlegum starfstíma skóla eru: reglulegir kennsludagar, skertir kennsludagar, próf- og námsmatsdagar og aðrir vinnudagar á árlegum starfstíma.


6. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 3. gr. laga nr. 80/1996, sem og með vísan til 2. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 9. gr. sömu laga, og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 552/1997 um starfstíma framhaldsskóla og leyfisdaga.

Menntamálaráðuneytinu, 8. janúar 2001.

Björn Bjarnason.
Þórunn J. Hafstein.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica