Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

57/1994

Reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um reiðhjól sem notuð eru í almennri umferð á akbraut, gangstétt, gangstíg eða hjólreiðastíg.

 

2. gr.

Almennar reglur.

Reiðhjól skal þannig gert, sett saman, búið og haldið við að það þoli það álag sem hlýst of venjulegri notkun þess og nota má án þess að valda óþarfa hættu eða óþægindum.

Reiðhjól skal á augljósan og varanlegan hátt merkt framleiðanda hjólsins og framleiðslu­númeri. Því skulu fylgja leiðbeiningar á íslensku um réttar stillingar og viðhald á öryggisbún­aði. Yfirlýsing skal fylgja frá framleiðanda hjólsins um aflfræðilega eiginleika þess og skal hún studd tilvitnun í viðurkennda staðla og/eða vottorðum um prófanir.

 

3. gr.

Hemlar.

Reiðhjól skal hafa a.m.k. tvo sjálfstæða hemla sem hafa þannig yfirfærslu að hægt sé að stöðva hjólið á öruggan, virkan og skjótan hátt. Annar hemillinn skal virka á framhjól en hinn á afturhjól.

Yfirfærslubúnaður (handfang eða fótstig) skal verka óháð hvor öðrum. Búnaðinn skal vera hægt að nota þótt hjólreiðamaður hafi báðar hendur á stýri.

 

4. gr.

Ljós og glitmerki.

          Reiðhjól skal búið rauðu þríhliða glitmerki að aftan og hvítu að framan. Á báðum hliðum   fótstigs skulu vera hvít eða gul glitmerki. Gul eða hvít glitmerki skulu vera í teinum hjólsins. Reiðhjól sem notað er í myrkri eða skertu skyggni skal búið ljóskeri að framan sem lýsir hvítu eða gulu ljósi og ljóskeri að aftan sem lýsir rauðu ljósi. Ljóskerin skulu vera fest við hjólið.

Ljóskerið að framan skal lýsa nægilega vel án þess að valda glýju.

 

5. gr.

Þjófnaðarvörn.

Á reiðhjóli skal vera búnaður sem gerir kleift að læsa því örugglega.

 

6. gr.

Keðjuhlíf.

Yfir keðju og/eða drifbúnaði sem hætta er á að fatnaður hjólreiðamanns festist í skal vera örugg hlíf.

 

7. gr.

Hljóðmerki.

Reiðhjól skal hafa bjöllu. Óheimilt er að nota annan hljóðmerkjabúnað.

 

8. gr.

Búnaður til að reiða barn.

Ef reiðhjól er ætlað til að reiða barn sem farþega skal búnaður til þeirra nota vera traustur, öruggur og of viðurkenndri gerð. Stóll sem ætlaður er til að flytja í barn skal vera með beltum og örugg hlíf skal vera fyrir fætur barnsins.

 

9. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 60. gr. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987, öðlast gildi 1. mars 1994. Jafnframt fellur úr gildi VIII. kafli reglugerð um gerð og búnað ökutækja, nr. 51 15. maí 1964.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

Reiðhjól sem tekin hafa verið í notkun fyrir gildistöku reglugerðarinnar skulu frá 1. maí 1994 búin samkvæmt reglugerð þessari.

Nægilegt er þó að reiðhjól sem tekin hafa verið eða tekin verða í notkun fram til 1. janúar 1995 séu búin einum traustum hemli sem virkar á afturhjól.

Ákvæði 2. mgr. 2. gr., 3. gr. og 6. gr. gilda einungis um ný reiðhjól sem afhent eru nýjum eiganda eftir 1. janúar 1995.

 

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 31. janúar 1994.

 

Þorsteinn Pálsson.

Ólafur W. Stefánsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica