Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

556/2004

Reglugerð um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna kauptryggingar fiskvinnslufólks.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs til fyrirtækja sem starfrækja verkun og vinnslu sjávarafla, þ.e. í flakavinnslu, frystingu, söltun, skreiðarverkun, rækju- og skelvinnslu og hafa greitt starfsfólki sínu föst laun fyrir dagvinnu í tímabundinni vinnslustöðvun í samræmi við ákvæði kjarasamnings um kauptryggingu verkafólks í fiskvinnslu.

2. gr. Orðskýringar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

  1. Kauptryggingarsamningur: Samningur milli vinnuveitanda og starfsmanns um kauptryggingu í samræmi við ákvæði almennra kjarasamninga um kauptryggingu verkafólks í fiskvinnslu.
  2. Vinnslustöðvun: Eðlilegri vinnslu verður ekki haldið áfram í fiskvinnslufyrirtæki, í tiltekinni deild þess eða vinnslulínu vegna hráefnisskorts eða annarra viðlíka ástæðna, svo sem bruna, bilunar í vélum eða vegna þess að ekki er talið réttlætanlegt að vinna afla vegna ónógs magns, enda taki vinnslustöðvunin til meirihluta starfsmanna í hlutaðeigandi deild eða vinnslulínu. Ekki er átt við vinnslustöðvun á annars venjubundnum vinnslutíma fyrirtækis sem rekja má eingöngu til uppsetningar á nýjum tækjabúnaði fyrirtækis, breytinga á vinnsluhúsnæði fyrirtækis eða sumarorlofs starfsmanna.
  3. Starfsmenn: Launamenn er starfa hjá fiskvinnslufyrirtæki skv. 1. gr. og gera kauptryggingarsamning í samræmi við ákvæði almennra kjarasamninga um kauptryggingu verkafólks í fiskvinnslu. Ekki er átt við þá er starfa eingöngu við löndun afla og flutning til vinnslustöðvanna.

3. gr. Tilkynning um fyrirhugaða vinnslustöðvun.

Fyrirtæki sem hyggst sækja um greiðslu samkvæmt lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks skal tilkynna skriflega um fyrirhugaða vinnslustöðvun til Vinnumálastofnunar eigi síðar en deginum áður en henni er ætlað að hefjast. Verði breyting á fyrirhugaðri vinnslustöðvun skal tilkynna um hana að nýju með sama fyrirvara og áður.

Myndsenda skal tilkynninguna til Vinnumálastofnunar eða senda hana með rafrænum hætti.

4. gr. Staðfesting tilkynningar.

Fyrirtæki skal staðfesta tilkynningu skv. 3. gr. með umsókn um greiðslur á þar til gerðu eyðublaði innan mánaðar frá því að vinnslustöðvun hófst.

Nauðsynlegar upplýsingar um vinnslustöðvunina skulu fylgja umsókninni, þar á meðal ástæður vinnslustöðvunarinnar, skrá yfir þá starfsmenn sem lögðu niður störf vegna vinnslustöðvunarinnar ásamt kennitölum þeirra og hvaða daga vinnslustöðvunin stóð yfir. Eingöngu er átt við þá starfsmenn sem sannanlega lögðu niður störf og tóku ekki annað launað starf meðan á vinnslustöðvun stóð, hvort sem það var hjá sama fyrirtæki eða öðru fyrirtæki. Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir frekari gögnum telji hún það nauðsynlegt, svo sem afritum úr vinnslubókhaldi fyrirtækis, afritum af launaseðlum starfsmanna sem taka til þess tímabils er vinnslustöðvun stóð yfir og afritum af tímaskráningu starfsmanna, t.d. stimplun úr stimpilklukku, fyrir sama tímabil.

Hafi hvorki umsókn né tilskilin gögn borist Vinnumálastofnun innan þriggja mánaða frá því að vinnslustöðvun hófst mun réttur fyrirtækisins falla niður að því er varðar umrædda vinnslustöðvun.

5. gr. Kauptryggingarsamningar.

Með fyrstu umsókn fyrirtækis skv. 4. gr. skulu fylgja afrit af gerðum kauptryggingarsamningum, undirrituðum af samningsaðilum ásamt dagsetningu samninga og gildistíma þeirra. Enn fremur skal þar koma fram samningsbundið starfshlutfall starfsmanns.

Verði breytingar á starfsfólki eða starfshlutfalli starfsmanna fyrirtækis ber fyrirtækinu að taka það sérstaklega fram í umsókn til Vinnumálastofnunar skv. 4. gr. Með umsókninni, sbr. 1. mgr., skal fyrirtækið þá láta fylgja afrit af kauptryggingarsamningi starfsfólks sem nýlega hefur hafið störf og taka fram hafi aðrir starfsmenn látið af störfum hjá fyrirtækinu.

6. gr. Umsókn um greiðslur vegna starfsfræðslunámskeiða.

Fyrirtæki sem hyggst senda starfsfólk sitt á starfsfræðslunámskeið sem haldið er að opinberri tilhlutan á öðrum tíma en þegar vinnslustöðvun varir, sbr. 4. gr. laganna um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, skal tilkynna skriflega um fyrirhugað námskeið með minnst sólarhrings fyrirvara.

Myndsenda skal tilkynninguna til Vinnumálastofnunar eða senda hana með rafrænum hætti.

Að námskeiði loknu skal fyrirtæki sækja um greiðslur til Vinnumálastofnunar og skulu sömu upplýsingar fylgja umsókninni og kveðið er á um í 2. mgr. 4. gr., eftir því sem við getur átt. Enn fremur skal fylgja umsókninni staðfesting frá þeim aðila er stendur fyrir námskeiðinu þar sem fram koma nöfn þeirra starfsmanna er sóttu námskeiðið, lengd námskeiðsins (klst.), hvaða daga það stóð yfir og efni þess.

7. gr. Útgreiðsla úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Þegar umsókn um greiðslur ásamt tilskildum gögnum hafa borist Vinnumálastofnun skv. 4. eða 6. gr. skal stofnunin greiða úr Atvinnuleysistryggingasjóði til umsækjenda eins fljótt og unnt er.

Óheimilt er að greiða úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna starfsmanna er tóku launuð störf, hvort sem er hjá sama fyrirtæki eða öðru fyrirtæki, meðan á vinnslustöðvun stóð.

8. gr. Kæruheimild.

Heimilt er að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar um greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem tekin er á grundvelli laga um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks og reglugerðar þessarar til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Um málsmeðferð kæru skal fara eftir stjórnsýslulögum nr. 37/1993, með síðari breytingum.

9. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 5. gr. laga nr. 51/1995, um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, með síðari breytingum, og 30. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Enn fremur falla úr gildi reglugerð nr. 308/1995, um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna kauptryggingar fiskvinnslufólks og reglugerð nr. 68/1999, um breytingu á reglugerð nr. 308/1995, um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna kauptryggingar fiskvinnslufólks.

Félagsmálaráðuneytinu, 25. júní 2004.

Árni Magnússon.

Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.