Fara beint í efnið

Prentað þann 23. apríl 2024

Breytingareglugerð

547/2018

Reglugerð um (3.) breytingu á reglugerð nr. 960/2016 um gæði eldsneytis.

1. gr.

Við 3. gr. reglugerðarinnar bætast fimm nýjar skilgreiningar á hugtökum, svohljóðandi:

Hefðbundin jarðolía: Allt hráefni í hreinsunarstöð sem sýnir API-efnisþyngd sem er yfir 10 stigum þar sem það er tekið á upprunastað, eins og það er mælt með prófunaraðferð ASTM D287, og fellur ekki undir skilgreininguna undir SN-númeri 2714 eins og fram kemur í reglugerð (EBE) nr. 2658/87.

Lágmarksstaðall fyrir eldsneyti: Lágmarksstaðall fyrir eldsneyti sem byggist á losun gróðurhúsalofttegunda á vistferli fyrir hverja orkueiningu úr jarðefnaeldsneyti á árinu 2010.

Losun á fyrri stigum: Öll losun gróðurhúsalofttegunda sem á sér stað áður en hráefnið fer inn í hreinsunarstöð eða vinnslustöð þar sem eldsneytið, eins og um getur í V. viðauka, var framleitt.

Náttúrulegt jarðbik: Allar uppsprettur hráefnis í hreinsunarstöð sem:

  1. eru með API-efnisþyngd (e. American Petroleum Institute) sem nemur 10 stigum eða minna þegar hún er mæld á staðnum þar sem hún er tekin, eins og skilgreint er samkvæmt prófunaraðferð American Society for Testing and Materials (ASTM) (1) D287,
  2. eru með árlegt seigjumeðaltal sem er hærra við hitastigið þar sem hún er tekin en fæst með útreikningi með jöfnunni: Seigja (Centipoise) = 518,98e-0,038T, þar sem T er hitastig á celsíus,
  3. falla innan skilgreiningar fyrir tjörusand undir sameinuðu nafnaskránni (SN), kóða 2714, eins og sett er fram í reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2658/87 (2) og
  4. þar sem útleysing hráefnisins úr uppsprettu þess fæst með námuvinnslu eða hitaörvaðri námuræslu með aðstoð þyngdaraflsins (e. thermally enhanced gravity drainage) þar sem varmaorkan kemur aðallega frá öðrum uppsprettum en hráefnisuppsprettunni sjálfri.

Olíuleirsteinn: Hvers kyns uppspretta hráefnis í hreinsunarstöð, staðsett í bergmyndun sem inniheldur kerógen í föstu formi og fellur undir skilgreiningu á olíuleirsteini undir SN-númeri 2714 eins og sett er fram í reglugerð (EBE) nr. 2658/87. Útleysing hráefnisins úr uppsprettu þess fæst með námuvinnslu eða hitaörvaðri námuræslu með aðstoð þyngdaraflsins.

2. gr.

Á eftir 11. gr. reglugerðarinnar koma tvær nýjar greinar, 11. gr. a og 11. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

11. gr. a

Aðferð til útreiknings á styrk gróðurhúsalofttegunda úr afhentu eldsneyti,
öðru en lífeldsneyti, og orku og skýrslugjöf birgja.

Birgjar skulu nota reikniaðferðina sem sett er fram í V. viðauka til að ákvarða styrk gróðurhúsalofttegunda úr eldsneytinu sem þeir afhenda.

Birgjar skulu við skýrslugjöf skv. 7. gr. nota skilgreiningarnar og reikniaðferðina sem sett er fram í V. viðauka. Gefa skal skýrslu um gögnin á hverju ári með því að nota sniðmátið sem sett er fram í VIII. viðauka.

Að því er varðar birgja sem eru lítil og meðalstór fyrirtæki skal við skýrslugjöf beita einfölduðu aðferðinni sem sett er fram í V. viðauka.

11. gr. b

Útreikningur á lágmarksstaðli fyrir eldsneyti og
minnkun á styrk gróðurhúsalofttegunda.

Birgjar skulu bera þá minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda úr eldsneyti og úr rafmagni sem náðst hefur á vistferlinum saman við lágmarksstaðal fyrir eldsneyti sem kemur fram í VII. viðauka.

3. gr.

Við 15. gr. reglugerðarinnar bætast fjórir nýir töluliðir, svohljóðandi:

  1. Framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/1361 frá 9. ágúst 2016 um viðurkenningu á International Sustainability and Carbon Certification system til að sýna fram á að viðmiðunum um sjálfbærni samkvæmt tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 98/70/EB og 2009/28/EB hafi verið fylgt, sem vísað er til í tl. 6at, XVII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 31/2017 frá 3. febrúar 2017. Ákvörðunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 24 frá 20. apríl 2017, bls. 646-647.
  2. Framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/1362 frá 9. ágúst 2016 um viðurkenningu á Roundtable on Sustainable Biomaterials EU RED til að sýna fram á að viðmiðunum um sjálfbærni samkvæmt tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 98/70/EB og 2009/28/EB hafi verið fylgt, sem vísað er til í tl. 6au, XVII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 31/2017 frá 3. febrúar 2017. Ákvörðunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 24 frá 20. apríl 2017, bls. 648-649.
  3. Framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/1433 frá 26. ágúst 2016 um viðurkenningu á Biomass Biofuels Sustainability voluntary scheme til að sýna fram á að viðmiðunum um sjálfbærni samkvæmt tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 98/70/EB og 2009/28/EB hafi verið fylgt, sem vísað er til í tl. 6av, XVII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 32/2017 frá 3. febrúar 2017. Ákvörðunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 24 frá 20. apríl 2017, bls. 650-651.
  4. Framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/500 frá 21. mars 2017 um viðurkenningu á Bonsucro EU voluntary scheme til að sýna fram á að viðmiðunum um sjálfbærni samkvæmt tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 98/70/EB og 2009/28/EB hafi verið fylgt, sem vísað er til í tl. 6ae, XVII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 136/2017 frá 7. júlí 2017. Ákvörðunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 67 frá 19. október 2017, bls. 33-34.

4. gr.

Við reglugerðina bætast fjórir nýir viðaukar, V.-VIII. viðauki, sem birtir er með reglugerð þessari.

5. gr.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á eftirfarandi EES-gerðum:

  1. Tilskipun ráðsins (ESB) 2015/652 frá 20. apríl 2015 um reikniaðferðir og skýrslugjafarkröfur samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/70/EB um gæði bensíns og dísileldsneytis.
  2. Framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/1361 frá 9. ágúst 2016 um viðurkenningu á International Sustainability and Carbon Certification system til að sýna fram á að viðmiðunum um sjálfbærni samkvæmt tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 98/70/EB og 2009/28/EB hafi verið fylgt.
  3. Framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/1362 frá 9. ágúst 2016 um viðurkenningu á Roundtable on Sustainable Biomaterials EU RED til að sýna fram á að viðmiðunum um sjálfbærni samkvæmt tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 98/70/EB og 2009/28/EB hafi verið fylgt.
  4. Framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/1433 frá 26. ágúst 2017 um viðurkenningu á Biomass Biofuels Sustainability voluntary scheme til að sýna fram á að viðmiðunum um sjálfbærni samkvæmt tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 98/70/EB og 2009/28/EB hafi verið fylgt.
  5. Framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/500 frá 21. mars 2017 um viðurkenningu á Bonsucro EU voluntary scheme til að sýna fram á að viðmiðunum um sjálfbærni samkvæmt tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 98/70/EB og 2009/28/EB hafi verið fylgt.

6. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 13. tölul. 1. mgr. 11. gr. efnalaga nr. 61/2013.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 16. maí 2018.

F. h. r.

Steinunn Fjóla Sigurðardóttir.

Kjartan Ingvarsson.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.