Umhverfisráðuneyti

537/1998

Reglugerð um hald háhyrninga í sjávarkvíum.

1. Almennt.

            Reglugerð þessi gildir um umsjón, vörslu, ræktun, þjálfun, sýningar og meðferð háhyrninga sem haldið er í sjávarkví í atvinnuskyni. Að öðru leyti gildir reglugerð nr. 499/1997 um dýrahald í atvinnuskyni um veitingu leyfis til dýrahalds í atvinnuskyni.

            Vistunarkví fyrir háhyrninga skal ekki vera í sjó sem kann að hafa skaðleg áhrif á heilsu dýrs sem þar er vistað. Kvíin skal vera traustlega byggð, vel við haldið og þannig úr garði gerð að dýrið komist ekki út og önnur spendýr komist ekki inn.

            Óviðkomandi umferð er bönnuð umhverfis vistunarkví. Forráðamenn skulu senda dýraverndarráði áætlun um hvernig umferð umhverfis vistunarkví verði háttað og tilkynna um breytingar á henni.

2. Rými.

            Vistunarkví skal að lágmarki vera 7 metrar að dýpt þar sem hún er grynnst, 58 metrar að lengd þar sem hún er lengst og að minnsta kosti 29 metrar á breidd þar sem hún er breiðust. Tímabundin vistunaraðstaða sbr. 7. gr. má þó vera grynnri en 7 metrar. Rúmmál vistunarkvíar skal þó að lágmarki vera 6.000 rúmmetrar.

3. Lýsing.

            Nægileg lýsing skal vera til staðar til að gefa birtu sem dreifist jafnt og hentar til að sinna almennu eftirliti, athugunum og hreinsun á vistunarkví og öðrum mannvirkjum tengdum vistunarkvínni. Gæta skal þess að lýsingin trufli ekki háhyrninginn og gæði hennar, dreifing og tímalengd sé sem líkast því sem gerist við náttúrulegar aðstæður dýrsins.

4. Umsjón mannvirkja.

            Sýna skal þrifnað í umgengni um mannvirki, lóð og umsjónarsvæði og gæta þess að þar sé hreint og þrifalegt. Viðhald girðinga/neta og annarra mannvirkja skal vera traust. Í vistunarkví fyrir háhyrning má ekki hafa neina lausa hluti, og á henni mega ekki vera skörp útskot eða brúnir sem gætu valdið slysi eða skaða á dýri sem vistað er þar.

5. Vatnsgæði.

            Kólígerlar í vistunarkví skulu ekki vera fleiri en 1.000 í 100 ml af sjó, greint með MPN-aðferð, nema strangari kröfur séu gerðar samkvæmt ákvæðum í mengunarvarnareglugerð. Fari magnið fram úr því má taka tvö sýni með tveggja sólarhringa millibili og reikna síðan meðaltal af gerlamagninu í þeim. Séu gerlarnir þá fleiri en 1.000 í 100 ml telst sjórinn í kvínni óhæfur og skal þá gera úrbætur þegar í stað.

            Sé sjórinn meðhöndlaður með kemískum efnum skal gæta þess að gera það þannig að dýr skaðist ekki.

            Sjávarsýni skal taka og rannsaka með tilliti til fjölda kólígerla að minnsta kosti vikulega. Halda skal skrá yfir hvenær slík sýni eru tekin og niðurstöður sýnatöku. Slíkar skrár skal varðveita og skulu þær vera tiltækar ef þess er krafist vegna eftirlits.

            Umsjónaraðili skal gera áætlun um sýnatöku vegna annarrar mengunar sem kann að vera skaðleg fyrir háhyrninga og senda dýraverndarráði.

6. Hitastig.

            Ekki skal vista háhyrninga í kví ef loft- og sjávarhiti þar hefur skaðleg áhrif á heilsu hans og vellíðan.

            Háhyrningi skal ekki koma fyrir í kví fyrr en hann hefur aðlagast því hitastigi sjávar sem hann mun búa við.

            Yfirborði sjávar skal halda íslausu.

7. Dýralæknisþjónusta.

            Vistunarkví háhyrnings sem haldinn er sýkingu eða ber smitandi sjúkdóm ber að þrífa og sótthreinsa í samræmi við leiðbeiningar umsjónardýralæknis.

            Tímabundin vistunaraðstaða skal vera til staðar til að vista dýr til lyfjagjafar, læknismeðferðar og í öðrum tilgangi, svo sem vegna þjálfunar.          Aðstaða þessi má vera minni að umfangi og dýpt en kveðið er á um vegna vistunarkvíarinnar, sé hún notuð í sérstökum tilfellum um tímabundið skeið þegar mælt er svo fyrir af umsjónardýralækni eða sérhæfðu starfsfólki.

            Drepist háhyrningur í haldi skal dýralæknir kryfja hann. Í krufningaskýrslu skal geta allra meinafræðilegra skemmda sem komið hafa fram og einnig tilgreina dánarorsök eða líklega dánarorsök. Tilgreina skal allar rannsóknir sem gerðar eru á krufningarsýnum vegna sjúkdómsgreiningar ásamt niðurstöðum þeirra. Krufningsskýrsla skal send dýraverndarráði.

            Umsjónardýralæknir skal gera áætlun um heilbrigðiseftirlit með háhyrningum, s.s. reglubundnar blóðsýnatökur, sýnatökur úr blástursholu vegna gerlagróðurs og fyrirbyggjandi meðferð hvers konar. Áætlunin skal lögð fyrir dýraverndarráð til samþykktar.

            Árlega skal dýraverndarráði send skýrsla um heilbrigðisástand háhyrninga sem eru í haldi.

8. Starfsfólk og gæslumenn.

            Fjöldi starfsfólks og eftirlitsmanna skal vera nægur til þess að tryggja fullnægjandi umsjón, eftirlit og aðbúnað fyrir dýrið.

            Yfirmaður skal hafa eftirlit með starfsfólki og skal hann hafa reynslu af dýrahaldi og umsjón sjávarspendýra.

            Þjálfun háhyrninga skal vera undir beinu eftirliti reyndra þjálfara, og án þess að þeir séu beittir harðræði.

9. Hreinlætisaðstaða.

            Hreinlætisaðstaða, svo sem salerni, baðkör, sturtur og vaskar, skal vera til staðar til að stuðla að hreinlæti starfsliðs og gæslumanna.

10. Fóður og fóðrun.

            Fóður skal vera heilnæmt og lystugt. Það skal vera nægilega mikið og næringargildi þess fullnægjandi til að halda dýrinu við góða heilsu. Fóðrið skal tilreitt með hliðsjón af aldri, stærð og kyni háhyrningsins. Fóðra skal að minnsta kosti einu sinni á dag, sé annað ekki tilgreint af dýralækni eða tíðkað almennt af kunnáttumönnum. Sá starfsmaður sem fóðrar dýrið skal hafa þekkingu og reynslu til þess að meta hversu mikið dýrið þarf í hvert skipti og geta greint ef lyst háhyrnings er óeðlileg. Fóðurleifar skulu fjarlægðar minnst einu sinni á dag og oftar ef þurfa þykir.

            Fóður skal meðhöndla þannig að komið sé í veg fyrir gerla- og efnamengun og að hollustu- og næringargildi fæðunar viðhaldist. Frosinn fisk og annað frosið fóður skal geyma undir -18°C. Þítt fóður skal kælt með ís eða geyma í kæli þar til það er notað. Allt fóður skal notað innan sólarhrings eftir að það er tekið úr frysti.

            Daglega skal þrífa og sótthreinsa ílát (svo sem fötur, kör og tanka), áhöld (svo sem hnífa og skurðarbretti) og hvern þann útbúnað annan sem notaður hefur verið til að geyma, þíða eða tilreiða fóður. Eldhús og aðra staði þar sem fóður er tilreitt skal þrífa minnst einu sinni á dag og sótthreinsa vikulega. Sótthreinsun felst í því að þvo útbúnaðinn í uppþvottavél með heitu vatni (82°C) og sápu eða þvottalegi, eða þvo alla óhreina fleti með vatni og þvottalegi og síðan með öruggu og virku sótthreinsiefni, eða hreinsa alla óhreina fleti með heitri gufu. Öll efni, svo sem hreinsi- og sótthreinsiefni, meindýraeitur og önnur hættuleg efni skal geyma í vel merktum ílátum fjarri þeim stöðum þar sem fóður er tilreitt.

            Fóður skal geyma þannig að það sé nægilega varið fyrir rýrnun, myglu eða ágangi meindýra. Kæli- og frystigeymslur skal nota fyrir fóður sem hætt er við skemmdum. Í geymslum fyrir fóður háhyrnings má ekki geyma eða hafa um hönd efni sem eru eða kunna að vera hættuleg sjávarspendýrum.

11. Losun úrgangs.

            Gera þarf ráðstafanir til að fjarlægja úrgang frá dýrunum og eyða fóðurleifum, sorpi og rusli. Öll meðferð úrgangs skal vera í samræmi við ákvæði í mengunarvarnareglugerð, nr. 481/1994, með síðari breytingum.

12. Neyðaráætlun.

            Gera skal skriflega áætlun um neyðarráðstafanir sem dýraverndarráð þarf að samþykkja, t.d. vegna olíumengunar, rafmagnsleysis eða annars sem ætla má að stofni heilsu og vellíðan dýra í hættu.

13. Slepping.

            Óheimilt er að sleppa háhyrningi sem er í haldi út í náttúruna án samþykkis dýraverndarráðs.

14. Viðurlög.

            Brot gegn reglugerð þessari varðar sektum eða varðhaldi. Ef brot er stórfellt eða ítrekað getur það varðað fangelsi allt að tveimur árum. Með mál vegna brota á reglugerð þessari skal farið samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.

15. Gildistaka.

            Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 15/1994 um dýravernd að fengnum tillögum frá dýraverndarráði og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 473/1998 um breytingu á reglugerð nr. 499/1997 um dýrahald í atvinnuskyni.

Umhverfisráðuneytinu, 8. september 1998.

F. h. r.

Magnús Jóhannesson.

Ingimar Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica