Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

536/2015

Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð nr. 1160/2013 um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. - Brottfallin

1. gr.

IV. kafli reglugerðarinnar verður svohljóðandi og breytist greinatala samkvæmt því:

13. gr.

Meginreglur um landnýtingu.

Landnýting framleiðanda skal vera sjálfbær á öllu því landi sem hann tilgreinir í umsókn sinni og skal það land jafnframt standast viðmið um ástand samkvæmt þeim kröfum sem settar eru í viðauka I. Framleiðandi skal eingöngu nýta land sem tilgreint er í umsókn. Landbótaáætlun skv. 15. gr. skal gera fyrir beitiland sem uppfyllir ekki kröfur samkvæmt viðauka I.

14. gr.

Mat á landnýtingu.

Eftirlitsaðili skv. 2. gr. skal leggja mat á land framleiðenda sem óska eftir að taka upp gæða­stýrða sauðfjárframleiðslu og tilkynna Matvælastofnun um niðurstöður sínar.

Matvælastofnun skal tilkynna framleiðendum ef þeir uppfylla ekki skilyrði 13. gr. og gefa þeim allt að þriggja mánaða frest til að setja sér landbótaáætlun skv. 15. gr.

15. gr.

Landbótaáætlun fyrir heimalönd, upprekstrarheimalönd og afrétti.

Framleiðandi gerir landbótaáætlun fyrir heimalönd sín, upprekstrarheimalönd og afrétti til allt að 10 ára. Landbótaáætlanir skulu gerðar í samræmi við viðauka II.

Við gerð landbótaáætlunar fyrir upprekstrarheimalönd og afrétti skulu framleiðendur, eftir því sem við á, hafa samráð við landeigendur og sveitarfélög. Framleiðendur skulu við gerð landbótaáætlunar fyrir afrétti einnig leita umsagna Landgræðslu ríkisins skv. 16. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. Einnig skal líta til 12. gr. sömu laga sé talin þörf sambærilegra ráðstafana fyrir upprekstrarheimalönd.

Framleiðanda er heimilt að leita leiðbeininga Landgræðslu ríkisins við gerð landbóta­áætl­unar. Landgræðsla ríkisins áritar á landbótaáætlun að hún hafi verið unnin í samráði við stofnunina og sé henni samþykk.

Matvælastofnun skal leita umsagnar Landgræðslu ríkisins um landbótaáætlanir sem ekki eru áritaðar af Landgræðslu ríkisins. Í umsögn Landgræðslu ríkisins skal koma fram hvort áætl­unin sé í samræmi við meginreglur skv. 13. gr., viðauka I og II og tilgreina tillögur að úrbótum á áætlun sem séu í samræmi við skilyrði reglugerðarinnar.

Matvælastofnun skal staðfesta að landbótaáætlun sé í samræmi við ákvæði þessarar reglu­gerðar.

Telji Matvælastofnun að landbótaáætlun standist ekki ofangreindar kröfur skal stofnunin greina framleiðanda frá ástæðum þess og veita honum tveggja vikna frest til úrbóta.

Matvælastofnun er heimilt að staðfesta landbótaáætlun til allt að 10 ára, þótt ljóst sé að í lok gildistíma áætlunarinnar náist ekki að uppfylla viðmið um ástand lands í viðauka I. Í slíkri landbótaáætlun skulu settar fram ítarlegar tillögur um hvernig verði dregið úr beitar­álagi, svo sem, með fækkun fjár, aðgangi að öðru beitarlandi og styttri beitartíma og hvernig komið er í veg fyrir beit á landi í ástandsflokki 5.

16. gr.

Landbótaáætlun.

Landbótaáætlun skal fela í sér ákvæði um fyrirhugaðan fjölda búfjár og eftir atvikum áætlun um landbætur s.s. uppgræðslu. Í landbótaáætlun skal skilgreina og afmarka á loftmynd beitarsvæði og beitarfriðuð svæði sem framleiðendur hætta að nýta til beitar í samræmi við viðauka I. Aukist beitarálag á gildistíma landbótáætlunar skal áætlunin endurskoðuð í samvinnu við Landgræðslu ríkisins og hljóta staðfestingu Matvælastofnunar skv. 15. gr.

Í landbótaáætlun skal tilgreina hvernig fara skuli með sauðfé sem finnst á beitarfriðuðum svæðum. Framleiðanda er óheimilt að beita fé vísvitandi á beitarfriðuð svæði.

Í landbótaáætlun þar sem fjallað er um uppgræðslu eða aðrar landbætur skal kveða á um markmið, umfang, staðsetningu og hver er ábyrgur fyrir framkvæmd. Við mat á nauð­syn­legu umfangi landbóta skal mið tekið af því hversu langt frá viðmiðunarmörkum í viðauka I landið er.

Í landbótaáætlun þar sem fjallað er um landbætur skv. 15. gr. skal tilgreina með hvaða hætti árangursmat á landbótum skuli fara fram. Við árangursmat skal metin gróðurhæð, gróðurþekja, hlutdeild einstakra tegundahópa í gróðurþekju eða aðrir þeir þættir sem geta talist mælikvarðar á árangur landbóta á hverjum tíma. Árangur landbóta skal metinn eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Eftirlitsaðili skv. 3. mgr. 2. gr. skal upplýsa Matvælastofnun um þau tilvik þar sem árangur er ekki metinn fullnægjandi.

Uppfylli framleiðandi ekki meginreglur 13. gr. skal Matvælastofnun tilkynna framleiðanda um ástæður þess og veita honum að hámarki þrjá mánuði til að uppfylla skilyrði reglu­gerðar­innar.

Framleiðandi sem ekki uppfyllir skilyrði í landbótaáætlun uppfyllir ekki skilyrði um gæða­stýrða sauðfjárframleiðslu.

2. gr.

4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða verður svohljóðandi:

Landbótaáætlanir sem gerðar voru samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 10/2008 um gæða­stýrða sauðfjárframleiðslu skulu uppfærðar í samræmi við efni reglugerðar þessarar. Land­bóta­áætlanir sem féllu úr gildi 31. desember 2014 og koma til með að falla úr gildi 31. desember 2015 skulu halda gildi sínu til 1. mars 2016, landbótum samkvæmt þeim áætl­unum skal framhaldið með sama hætti og mælt var fyrir um á gildistíma áætlunar. Vinnu við gerð og uppfærslu landbótaáætlana í samræmi við kröfur reglugerðarinnar skal lokið fyrir 1. mars 2016.

3. gr.

3. ml. 4. mgr. viðauka I verður svohljóðandi:

Til að nýting beitilands fái staðfestingu þarf það að standast þau viðmið sem sett eru í töflu 2 fyrir heimalönd og upprekstrarheimalönd og töflu 3 fyrir afrétti. Standist land ekki þau viðmið þarf framleiðandi að setja sér landbótaáætlun skv. 15. gr.

4. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, 29. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og 46. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 18. júní 2015.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Ólafur Friðriksson.

Rebekka Hilmarsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica