Samgönguráðuneyti

532/2001

Reglugerð um notkun staðla um merkjasendingar fyrir sjónvarp.

1. gr.
Gildissvið og skilgreiningar.

Reglugerð þessi kveður á um staðla fyrir breiðskjár- og háskerpusjónvarp og sjónvarpssendingar sem eru að öllu leyti stafrænar.

Breiðskjárþjónusta sjónvarps: Þjónusta þar sem dagskrárliðir eru framleiddir og klipptir svo að myndina megi sýna á breiðskjá. Stærðarhlutfallið 16:9 er viðmiðun fyrir breiðskjársjónvarp.

D2-MAC sendingakerfi: Sjónvarpssendingakerfi með sérstakri myndkóðun og tímaskiptri fléttun hliðrænna myndupplýsingaþátta ásamt fléttun hljóðs og gagna saman með mynd með pakkaaðferðum. Möguleiki er að senda fleiri en eina hljóðrás með myndinni.

HD-MAC sendingakerfi: Sendingakerfi fyrir háskerpusjónvarp með sérstakri myndkóðun og tímaskiptri fléttun hliðrænna myndupplýsingaþátta ásamt fléttun hljóðs og gagna með pakkaaðferðum.

PAL: Staðall fyrir hliðrænt litasjónvarp sem gefinn er út af Alþjóðafjarskiptasambandinu.

SECAM: Staðall fyrir hliðrænt litasjónvarp sem gefinn er út af Alþjóðafjarskiptasambandinu.

Útsendingarkerfi: Kerfi sem samanstendur af eftirfarandi þáttum: myndun sjónvarpsmerkja (frumkóðun hljóðmerkja, frumkóðun myndmerkja, fléttun merkja) og aðlögun að sendimiðli (rásakóðun, mótun og, ef við á, orkutvístrun).

2. gr.
Staðlar fyrir sjónvarpssendingar.

Í sjónvarpsþjónustu fyrir almenning hvort sem það er um kapalkerfi, gervitungl eða sendistöðvar á jörðu skal:
a. þegar sendingar eru fyrir breiðskjái og með 625 línum og ekki að fullu stafrænar nota 16:9 D2-MAC sendingarkerfið eða 16:9 kerfi sem er að öllu leyti samrýmanlegt við PAL eða SECAM staðlana,

b. ef um háskerpumyndir er að ræða en ekki að fullu stafrænar nota HD-MAC sendingakerfið,

c. ef sendingar eru að fullu stafrænar nota sendingakerfi sem hefur verið staðlað af viðurkenndri evrópskri staðlastofnun,
Alstafræn sendinet fyrir dreifingu sjónvarpsþjónustu sem stendur almenningi til boða verða að geta dreift breiðskjárþjónustu.


3. gr.
Sjónvarpsmerki í kapalkerfum.

Sjónvarpsþjónusta fyrir 16:9 breiðskjái sem fellur undir ákvæði 2. gr. sem tekið er á móti og dreift á ný í kapalkerfum skal dreifa sem 16:9 breiðskjármerki hið minnsta.


4. gr.
Staðlaðar tengingar.

Sjónvarpstæki með innbyggðum skjá, sem er markaðssett með sölu eða leigu í huga, og er með skjá sem er stærri en 42 cm, mælt á ská horna á milli, skal búið a.m.k. einu tengi fyrir opinn skilflöt, samkvæmt stöðlum viðurkenndrar evrópskrar staðlastofnunar, þannig að ekki sé erfiðleikum bundið að tengja jaðarbúnað, einkum viðbótarafbrenglara og stafræn viðtæki.


5. gr.
Stafrænar sjónvarpssendingar til almennings.

Að því er varðar skilyrtan aðgang að stafrænum sjónvarpssendingum til almennings gilda eftirfarandi ákvæði, óháð sendingaraðferðum:
a) Allur neytendabúnaður, sem er seldur, leigður út eða á annan hátt hafður á boðstólum og er notaður til að afbrengla stafræn sjónvarpsmerki, skal vera þannig að hann geti:

- afbrenglað merki er byggjast á sameiginlegu evrópsku brenglunar algrími sem er í vörslu viðurkenndrar evrópskrar staðlastofnunar,
- birt á skjánum myndir sem eru sendar óbrenglaðar, að því tilskildu að leigutaki virði leigusamninginn ef um leigðan búnað er að ræða.

b) Skilyrt aðgangskerfi skulu tæknilega þannig búin að hægt sé að stjórna, á hagkvæman hátt hvað kostnað varðar skilyrtum aðgangi við upphafsstöð kapalkerfisins, þannig svo að kapalsjónvarpsrekendur geti staðbundið eða á heilum svæðum, haft fulla stjórn á þjónustu sem veitt er á skilyrtum aðgangskerfum af þessu tagi.

c) Póst- og fjarskiptastofnun skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að rekstraraðilar skilyrtrar aðgangsþjónustu, sem búa til og markaðssetja aðgang að stafrænum sjónvarpssendingum, án tillits til þess hvaða sendingaraðferðir eru notaðar:

- bjóði öllum útvarpsstöðvum án mismununar og með sanngjörnum skilyrðum tækniþjónustu sem gerir áhorfendum, sem til þess er veitt heimild með afbrenglunarbúnaði á forræði rekstraraðila skilyrtrar aðgangsþjónustu mögulegt að taka á móti stafrænum sendingum sjónvarpsstöðvar, einkum ef þeir hafa umtalsverða markaðshlutdeild,
- færi sérstakt reikningsbókhald yfir starfsemi þeirra sem rekstraraðilar skilyrts aðgangs.

Sjónvarpsstöðvarnar skulu birta gjaldskrá fyrir áskrifendur þar sem tekið skal fram hvort búnaður sem tengist sjónvarpstækinu er afhentur eða ekki. Stafræn sjónvarpsþjónusta fellur einungis undir þessi ákvæði ef umrædd þjónusta er í samræmi við gildandi löggjöf á Evrópska efnahagssvæðinu.

d) Þegar rétthafar hugverka- og einkaréttinda á skilyrtum aðgangskerfum og búnaði veita framleiðendum neytendabúnaðar framleiðsluleyfi, skulu þeir sjá til þess að það sé gert án mismununar og á jafnræðisgrundvelli. Að teknu tilliti til tæknilegra og viðskiptalegra þátta er rétthöfum óheimilt að setja skilyrði fyrir veitingu leyfa sem banna, hindra eða hvetja gegn því að búnaðurinn sé útbúin með:
- stöðluðum skilfleti sem gefur möguleika á tengingum við ýmis önnur aðgangskerfi, eða,

- möguleikum á aðgangi sem felast í öðru aðgangskerfi svo framarlega sem móttakandi slíks leyfis uppfyllir viðeigandi og réttmæt skilyrði sem tryggja að því er hann varðar öryggi viðskipta rekstraraðila hins skilyrta aðgangsbúnaðar.

Sjónvarpstæki með innbyggðan stafrænan afbrenglara verða að vera þannig útbúin að unnt sé að setja í þau að minnsta kosti einn staðlaðan tengil sem gerir kleift að tengja aðgangsbúnað og aðrar einingar stafrænna sjónvarpskerfa við stafræna afbrenglarann.


6. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 36. og 59. gr. laga um fjarskipti nr. 107/1999 og með hliðsjón af tilskipun Evrópuþingsins og Ráðsins 95/47/EB frá 24. október 1995 um notkun staðla um merkjasendingar fyrir sjónvarp, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtast til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 747/1999 um notkun staðla um merkjasendingar fyrir sjónvarp.


Samgönguráðuneytinu, 11. júní 2001.

Sturla Böðvarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica