Samgönguráðuneyti

531/2002

Reglugerð um breytingar á reglugerð um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis, nr. 332/1990.

1. gr.

Eftirfarandi orðskýringar falla brott úr gr. 1.0:
Alvarleg meiðsl, flugliði, flugverji, hættulegur varningur, pökkun, rétt sendingarheiti, umbúðir, hleðsluríki.

Eftirfarandi orðskýringar bætast við í stafrófsröð í gr. 1.0:
Alvarleg meiðsl (Serious Injury): Meiðsl sem maður verður fyrir í slysi og:

i) hafa í för með sér meira en 48 klukkustunda sjúkrahúsvist er hefst innan 7 daga frá þeim degi að maðurinn slasast; eða
ii) eru fólgin í beinbroti (að frátöldu minni háttar broti á fingrum, tám eða nefi); eða
iii) eru fólgin í skurðsári sem hefur í för með sér alvarlegar blæðingar eða skemmdir á taugum, vöðvum eða sinum; eða
iv) eru fólgin í áverka á innra líffæri; eða
v) eru fólgin í annars eða þriðja stigs bruna, eða brunasárum sem þekja meira en 5% af yfirborði líkamans; eða
vi) eru fólgin í því að maður hefur orðið fyrir smiti eða skaðlegri geislun.
Flugliði

(Flight crew member): Áhafnaliði sem er handhafi fullgilds skírteinis og falið er starf sem nauðsynlegt er við starfrækslu loftfars meðan á flugvakt stendur.

Flugverji (Crew member): Starfsmaður flugrekanda sem gegnir starfi um borð í loftfari meðan á flugvakt stendur.

Flutningsskjal fyrir hættulegan varning (Dangerous Goods Transport Document): Skjal sem er tilgreint í tæknilegu fyrirmælunum. Það er fyllt út af þeim sem afhendir hættulegan varning til flutnings flugleiðis og í því eru upplýsingar um hættulega varninginn. Í skjalinu er undirrituð yfirlýsing um að varningnum sé vel og nákvæmlega lýst með réttu sendingarheiti og UN-númeri (ef til er) og að hann sé rétt flokkaður, pakkaður, merktur og með merkimiðum og í flutningshæfu ástandi.

Gátlisti við móttöku (Acceptance Check List): Skjal sem notað er við skoðun á ytra útliti pakka með hættulegum varningi, ásamt tilheyrandi skjölum, til að staðfesta að allar viðkomandi kröfur hafi verið uppfylltar.

Hleðslueiningabúnaður (Unit Load Device): Gámur eða netvörupallur, með eða án hvolfþaks, sem er sérstaklega gerður fyrir loftför. (Ath. Þessi skilgreining nær ekki til safnumbúða; sjá skilgreiningu á vörugámi að því er varðar gáma sem í eru geislavirk efni.)

Hættulegur varningur (Dangerous goods): Hlutir eða efni sem hætta getur stafað af gagnvart heilbrigði, öryggi, eignum eða umhverfi og koma fram á lista yfir hættulegan varning í tæknilegum leiðbeiningum ICAO eða þau sem eru flokkuð samkvæmt þeim leiðbeiningum.

Umbúðir (Packaging): Ílát ásamt hlutum eða efnum sem nauðsynleg eru til þess að ílátið gegni hlutverki sínu og tryggir að kröfum um pökkun sé fylgt.

Rétt sendingarheiti (Proper Shipping Name): Heiti sem nota skal um tiltekinn hlut eða efni í öllum flutningsskírteinum og tilkynningum, svo og á umbúðunum þar sem við á.

Safnumbúðir (Overpack): Umbúðir utan um einn eða fleiri pakka sem saman mynda eina afgreiðsluheild og einstakur sendandi notar til hagræðingar við afgreiðslu og geymslu. (Hugtakið "hleðslueiningabúnaður" fellur ekki undir þessa skilgreiningu.)

Tæknilegar leiðbeiningar (Technical Instructions for the Safe Transport of Dangerous Goods by Air): Nýjasta gildandi útgáfa af "Tæknilegum leiðbeiningum um öruggan flutning á hættulegum varningi flugleiðis" (skjal ICAO 9284), ásamt viðaukum og hvers kyns viðbótum, samþykkt og birt að ákvörðun ráðs Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO).

UN-númer (UN Number): Fjögurra stafa einkennistala sem sérfræðinganefnd Sameinuðu þjóðanna um flutning á hættulegum varningi hefur gefið efnum og tilteknum flokkum efna til þess að unnt sé að bera kennsl á þau.

Upprunaríki (State of Origin): Flugmálayfirvöld í ríkinu þar sem hættulegur varningur er fyrst settur um borð í loftfar.

Vörugámur (Freight Container): Vörugámur, sérstaklega búinn til flutnings á geislavirkum efnum, sem á að auðvelda flutninga á slíkum efnum, hvort heldur er innpökkuðum eða óinnpökkuðum, með einni eða fleiri flutningsaðferðum. (Sjá "hleðslueiningabúnaður" hér að framan, ef hættulegi varningurinn er ekki geislavirk efni.)

Vöruloftfar (Cargo Aircraft): Loftfar sem flytur vörur og eigur en ekki farþega. Í þessu samhengi eru eftirfarandi ekki taldir til farþega:

i) flugverjar;
ii) starfsmenn flugrekanda sem leyfilegt er að flytja í samræmi við fyrirmæli í flugrekstrarhandbókinni;
iii) samþykktir fulltrúar flugmálayfirvalda; eða
iv) menn sem hafa störfum að gegna vegna sérstakra sendinga um borð.

2. gr.

Grein 2.1 orðist svo:
Reglugerð þessi, sem er samhljóða viðauka 18 við Chicagosamninginn, tekur til innanlands- og millilandaflugs með íslenskum loftförum og erlendum loftförum sem íslenskur flugrekandi notar eða ræður yfir. Reglugerðin tekur einnig til erlendra loftfara sem hafa viðkomu á Íslandi eða fljúga um íslenska lofthelgi.

Hlutaðeigandi ríki sem koma að flutningi; upprunaríki, ríki sem er flogið yfir, ríki sem millilent er í og ríki áfangastaðar, geta veitt undanþágu frá ákvæðum reglugerðar þessarar þegar brýna nauðsyn ber til eða þegar annars konar flutningsaðferð er óheppileg eða þegar ekki er unnt vegna sjónarmiða um almannaheill að fara eftir reglugerðinni. Í slíkum tilvikum skal þess ætíð gætt að allt sé gert til að viðhalda sama öryggi og reglugerðin gerir ráð fyrir.

Undanþágur í grein 2.2. orðist svo:
2.2.1 Undanþegin reglugerð þessari eru hlutir og efni sem að öðru jöfnu teldust hættulegur varningur, en er þörf á um borð í loftförum, í samræmi við ákvæði um lofthæfi eða flugrekstur, svo og ef þeirra er þörf í þeim sérstaka tilgangi sem um getur í tæknilegu leiðbeiningunum um öruggan flutning hættulegs varnings flugleiðis.

2.2.2 Þegar hlutir eða efni, ætluð til endurnýjunar þeim sem um getur í gr. 2.2.1, eða sem hafa verið fjarlægðir vegna endurnýjunar, eru flutt í loftförum skal það gert í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar nema flutningur sé heimill til samræmis við ákvæði tæknilegra leiðbeininga.

2.2.3 Hlutir eða efni sem farþegar og flugverjar flytja, samkvæmt upptalningu í 8. hluta tæknilegra leiðbeininga, eru undanþegin ákvæðum reglugerðar þessarar.


3. gr.

Grein 3.0 orðist svo:
Hættulegum farmi skal skipt í flokka hættulegra efna eða varnings, í samræmi við tæknilegar leiðbeiningar um flutning hættulegs varnings flugleiðis, útgefið af Alþjóðaflugmálastofnuninni, og byggir á tilmælum Sameinuðu þjóðanna nr. ST/SG/AC.10/11 og reglum Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar um flutning geislavirkra efna.

Í grein 4.2 fellur brott orðið "hleðsluríki" og í stað þess kemur orðið "upprunaríki".


4. gr.

Grein 5.2.7 orðist svo:
Engar umbúðir má endurnota fyrr en gengið hefur verið úr skugga um að þær hafi ekki orðið fyrir neinni tæringu eða öðrum skaða. Þegar umbúðir eru notaðar aftur skal gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að varningur sem í þær er settur, mengist ekki.

Grein 5.2.8 orðist svo:
Ef hætta getur stafað af óhreinsuðum tómum umbúðum vegna eiginleika þeirra efna, sem þær áður geymdu, skal loka þeim vandlega og meðhöndla þær í samræmi við þá hættu sem af þeim stafar.

Í grein 6.2.1 fellur brott orðið "farmheiti" og í stað þess kemur orðið "sendingarheiti".


5. gr.

Grein 7.1 orðist svo:
Áður en flutningsbeiðandi afhendir sendingu með eða án safnumbúða, sem í er hættulegur varningur til flutnings flugleiðis ber honum að ganga úr skugga um að ekki sé bannað að flytja varninginn flugleiðis, að hann sé rétt flokkaður, pakkaður og merktur og með honum fylgi fullnægjandi skilríki um hættulegan varning svo sem kveðið er á um í þessari reglugerð og í tæknilegu leiðbeiningunum.

Grein 7.2 orðist svo:
Flutningsbeiðandi sem afhendir hættulegan varning til flutnings flugleiðis skal fylla út, undirrita og afhenda flugrekanda flutningsskjal fyrir hættulegan varning þar sem fram koma þær upplýsingar sem kveðið er á um í tæknilegu leiðbeiningunum, nema öðruvísi sé kveðið á um í þeim leiðbeiningum.

Grein 7.2.2 skal orðast svo:
Í flutningsskjali fyrir hættulegan varning skal vera yfirlýsing frá flutningsbeiðanda um að varningnum sé fullkomlega og réttilega lýst, með réttu sendingarheiti farms, að hann sé flokkaður, pakkaður og merktur og þannig gengið frá honum að hann sé hæfur til flutnings flugleiðis í samræmi við reglugerð þessa og tæknilegu leiðbeiningarnar.


6. gr.

Í a-lið gr. 8.1 kemur orðið "flutningsskjal" í stað orðsins "farmskírteini".

Í b-lið gr. 8.1 kemur orðið "safnumbúðir" í stað orðsins "hlífðarumbúðir".

Við bætist ný gr. 8.3, og hækka síðari liðir 8.3-8.8 með samsvarandi hætti.
8.3 Hleðsla og geymsla:
Pökkum og safnumbúðum sem geyma hættulegan varning og vörugámum sem geyma geislavirk efni skal hlaða og stafla um borð í loftfar samkvæmt fyrirmælum tæknilegu leiðbeininganna.

Í gr. 8.4.1 kemur orðið "safnumbúðir" í stað orðsins "hlífðarumbúðir".

Í gr. 8.4.2 kemur orðið "hleðslueiningabúnaði" í stað orðsins "hleðslueiningu". Í stað orðsins "einingarinnar" kemur orðið "búnaðarins".

Í gr. 8.4.4 kemur orðið "safnumbúðir" í stað orðsins "hlífðarumbúðir". Í stað orðsins "hleðslueiningu" kemur orðið "hleðslueiningarbúnaði". Í stað orðsins "hleðslueining" kemur orðið "hleðslueiningarbúnaður".


7. gr.

Grein 9.3 orðist svo:
Flugmálastjórn Íslands skal tryggja að upplýsingar séu birtar á þann hátt að farþegar séu varaðir við hvers konar hættulegum varningi sem þeim er bannað að hafa meðferðis um borð í loftfar eins og mælt er fyrir um í tæknilegu leiðbeiningunum.

Grein 9.5 orðist svo:
Ef neyðarástand verður um borð, skal flugstjóri eins fljótt og unnt er, upplýsa hlutaðeigandi flugumferðarþjónustudeild um allan hættulegan varning um borð í loftfarinu til þess að unnt sé að láta flugvallaryfirvöld vita í samræmi við tæknilegu leiðbeiningarnar.

Grein 9.6.1 orðist svo:
Ef flugslys verður skal flugrekandi loftfars sem flytur hættulegan varning sem farm, án tafar veita upplýsingar um hinn hættulega farm, eins og fram kemur í skriflegri skýrslu til flugstjórans, til þeirra aðila sem veita neyðaraðstoð.

Grein 9.6.2
Ef flugatvik verður skal flugrekandi loftfars sem flytur hættulegan varning sem farm, sé fyrirspurn beint til hans, án tafar veita upplýsingar um hinn hættulega farm, eins og fram kemur í skriflegri skýrslu til flugstjórans, til þeirra aðila sem veita neyðaraðstoð.


8. gr.

Grein 11.0 orðist svo:
Flugmálastjórn Íslands hefur eftirlit með því að flugrekendur fylgi ákvæðum reglugerðar þessarar.

Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með því að reglugerð þessari sé fylgt að því er varðar póstsendingar.


9. gr.

13.0 orðist svo:
Flugmálastjórn Íslands (flugöryggissvið) getur veitt tímabundnar undanþágur frá reglugerð þessari þegar sérstökum ástæðum er til að dreifa og flugöryggi verður ekki stefnt í hættu.


10. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varðar refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.


11. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 2. mgr. 78. gr. sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.


Samgönguráðuneytinu, 26. júní 2002.

Sturla Böðvarsson.
Jóhann Guðmundsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica