Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

529/2001

Reglugerð um breytingu á reglugerð um pappírslaust peningahappdrætti Happdrættis Háskóla Íslands nr. 455 15. nóvember 1993.

1. gr.

1. gr. orðist svo:
Happdrætti Háskóla Íslands rekur sérstakt peningahappdrætti undir heitunum Gullnáman og Gullregn.


2. gr.

4. gr. orðist svo:
Stjórnendur happdrættisins ákveða hvar happdrættisvélunum verður komið fyrir.

Á hverjum stað þar sem happdrættisvélar eru í notkun skal vera umsjónarmaður sem þátttakendur geta snúið sér til.


3. gr.

7. gr. orðist svo:
Á hverri happdrættisvél skal vera vinningaskrá sem með greinilegum hætti sýnir hverjir vinningar eru. Vinningar eru tvenns konar, fastar fjárhæðir og lukkupottar.

Vinningar skulu skilgreindir með samstæðum merkja, bókstafa, tölustafa og spila.

Lukkupottur er einn, Gullpottur. Fjárhæð hans skal háð þátttöku í happdrættinu og fara stöðugt hækkandi þar til einhver þátttakenda vinnur þá fjárhæð sem hverju sinni hefur safnast þar fyrir.

Í upphafi skal setja 500.000 kr. í Gullpottinn. Þegar fjárhæð Gullpotts hefur unnist og potturinn tæmst skal setja 500.000 kr. í pottinn á ný vegna frekari þátttöku.


4. gr.

10. gr. orðist svo:
Vinningshafar skulu að jafnaði fá vinninga sína greidda úr happdrættisvélinni á sjálfvirkan hátt. Þegar ekki eru nægilega margir peningar í vél til að borga út vinning skal vinningshafi snúa sér til umsjónarmanns vélarinnar sem greiðir vinningshafa það sem upp á vantar.

Þátttakandi sem vinnur lukkupott eða vinningsfjárhæð sem er 50.000 kr. eða hærri skal fá í hendur skriflega staðfestingu þess efnis frá umsjónarmanni. Aðalskrifstofa happdrættisins greiðir síðan vinningshafa vinninginn gegn framvísun staðfestingarinnar.

Allar happdrættisvélarnar skulu búnar sérstöku ljósi sem auðveldar vinningshafa að ná sambandi við umsjónarmann vélar.


5. gr.

11. gr. orðist svo:
Aðgangur að happdrættisvélunum skal takmarkaður við þá sem eru 18 ára og eldri.

Umsjónarmaður happdrættisvélanna á hverjum stað skal halda uppi fullnægjandi eftirliti með aldri þátttakenda.


6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum um happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13 13. apríl 1973 sbr. lög nr. 23 5. maí 1986 og lög nr. 77 19. maí 1994, öðlast þegar gildi.


Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 22. júní 2001.

Sólveig Pétursdóttir.
Ólafur W. Stefánsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica