Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 29. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 5. júní 2007

528/2005

Reglugerð um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að náttúruvernd og tryggja að umgengni um náttúruna sé með þeim hætti að ekki hljótist af náttúruspjöll.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir á landinu öllu hvort sem er á eignarlandi, þjóðlendu eða afrétti.

Heimilt er að setja sérákvæði um takmörkun á umferð á friðlýstum svæðum umfram það sem kveðið er á um í reglugerð þessari.

3. gr. Skilgreiningar.

Merking hugtaka í reglugerð þessari er sem hér segir:
Björgunarstörf: Öll störf sem miða að því að bjarga fólki úr háska eða að tryggja almannaheill með því að bjarga mannvirkjum eða öðrum verðmætum vegna náttúruhamfara, eldsvoða eða annarrar vár.

Landgræðsla: Hvers konar aðgerðir, í umsjón Landgræðslu ríkisins, sem miða að uppgræðslu og verndun lands þ.m.t. rannsóknir, upplýsingaöflun, sáningar, áburðargjöf, viðhald og uppsetning girðinga.

Landmælingar: Söfnun og úrvinnsla nauðsynlegra staðfræðilegra og landfræðilegra upplýsinga er hafa gildi fyrir landmælingar og kortagerð.

Línulagnir, vegalagnir og lagning annarra veitukerfa: Lagning og viðhald vega, lína og lagna svo sem raflína, ljósleiðara, hitaveitulagna, vatnslagna eða annarra veitukerfa sem hafa fengið leyfi stjórnvalda samkvæmt lögum.

Náttúruminjar: Náttúruverndarsvæði, lífverur, búsvæði þeirra, vistgerðir og vistkerfi sem eru á náttúruminjaskrá.

Náttúruspjöll: Spjöll á gróðri, dýralífi, jarðvegi, jarðmyndunum og landslagi hvort sem um varanlegan eða tímabundinn skaða er að ræða. Myndun slóða og hjólfara hvort sem er á grónu landi, þar með töldu mosavöxnu landi, eða ógrónu svo sem melum.

Náttúruverndarsvæði: Friðlýst svæði, þ.e. þjóðgarðar, friðlönd, fólkvangar, og náttúruvætti, önnur svæði og náttúrumyndanir sem eru á náttúruminjaskrá. Afmörkuð svæði á landi og sjó sem njóta verndar samkvæmt öðrum lögum vegna náttúru eða landslags.

Rannsóknir: Lögbundnar rannsóknir og aðrar rannsóknir sem eru í samræmi við leyfi stjórnvalda samkvæmt lögum.

Torfærutæki:

  1. Vélknúið ökutæki sem aðallega er ætlað til fólks- eða vöruflutninga og/eða til að draga annað ökutæki og er búið beltum og eftir atvikum stýrimeiðum/stýrihjólum og er innan við 400 kg að eigin þyngd.
  2. Vélknúið ökutæki sem aðallega er ætlað til fólks- eða vöruflutninga utan vega og er á hjólum og innan við 400 kg að eigin þyngd.
  3. Vélknúið ökutæki sem aðallega er ætlað til vöruflutninga utan vega, er a.m.k. á fjórum hjólum og innan við 550 kg að eigin þyngd án rafgeyma sé það rafknúið.

Vegur:

Varanlegur vegur, gata, götuslóði, stígur, húsasund, brú, torg, bifreiðastæði eða þess háttar, sem notað er að staðaldri til umferðar.

Vélknúið ökutæki: Ökutæki búið aflvél til að knýja það áfram, á hjólum, beltum, völtum, meiðum eða öðru, sem ætlað er til aksturs á landi og eigi rennur á spori.

4. gr. Akstur utan vega.

Bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega í náttúru Íslands. Heimilt er þó að aka vélknúnum ökutækjum á jöklum svo og snævi þakinni og frosinni jörð svo fremi að ekki skapist hætta á náttúruspjöllum.

5. gr. Akstur utan vega vegna tiltekinna starfa.

Við akstur vegna starfa við landbúnað er heimilt að aka utan vega á ræktuðu landi. Einnig er heimilt að aka utan vega á landi, utan miðhálendisins, sem sérstaklega er nýtt sem landbúnaðarland ef ekki hljótast af því náttúruspjöll.

Heimilt er ef nauðsyn krefur að aka vélknúnum ökutækjum utan vega vegna starfa við landgræðslu og heftingu landbrots, línulagnir, vegalagnir og lagningu annarra veitukerfa, björgunarstörf, rannsóknir, landmælingar og landbúnað enda sé ekki unnt að framkvæma viðkomandi störf á annan hátt. Sérstök aðgát skal viðhöfð við aksturinn til að draga úr hættu á náttúruspjöllum. Hafa skal fullnægjandi útbúnað til slíks aksturs. Við framangreindar athafnir skal leita leiða til að flytja efni og annað sem til þarf á þann hátt að ekki sé þörf á akstri utan vega.

Heimilt er leiðsögumönnum með hreindýraveiðum við þau störf að sækja fellda bráð á léttum vélknúnum ökutækjum að lágmarki með sex hjólum, enda sé að mati leiðsögumanna ekki talin hætta á náttúruspjöllum. Gildir þetta þó eingöngu þar sem dýr hafa verið felld fjarri vegum enda talið nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að afurðir dýranna skemmist. Heimildin nær ekki til sjálfrar leiðsagnarinnar. Hyggist leiðsögumaður sækja fellda bráð með þessum hætti ber honum að tilkynna Umhverfisstofnun um það áður en bráð er sótt. Umhverfisstofnun gefur út leiðbeinandi reglur um framkvæmd þessa ákvæðis að höfðu samráði við Félag leiðsögumanna með hreindýraveiðum.

6. gr. Akstur á torfærutækjum.

Heimilt er að aka torfærutækjum á svæðum sem samþykkt hafa verið fyrir akstursíþróttir samkvæmt reglugerð um akstursíþróttir og aksturskeppni, nr. 257/2000.

7. gr. Umferð ríðandi manna og rekstur hrossa.

Þegar farið er ríðandi um landið skal fylgt skipulögðum reiðstígum eins og kostur er.

Á ferð um hálendi og önnur lítt gróin svæði skulu menn hafa tiltækt nægilegt aðflutt fóður fyrir hross sín.

Heimilt er, að fengnu leyfi eiganda eða rétthafa eignarlands þegar við á, að slá upp aðhöldum eða næturhólfum, enda valdi það ekki náttúruspjöllum. Á hálendi skal þeim valinn staður á ógrónu landi sé þess kostur.

Þar sem svo háttar til skal haft samráð við landverði eða umsjónaraðila á staðnum um leiðarval og áningarstaði þegar farið er um eða dvalist á náttúruverndarsvæðum.

Þegar farið er eftir gömlum þjóðleiðum þar sem þær eru markaðar í landið skal eigi teyma fleiri hross en svo að þau rúmist innan slóðar, ellegar reka hross þannig að þau lesti sig. Bannað er að reka hrossastóð yfir gróið land þannig að náttúruspjöll hljótist af eða hætta skapist á náttúruspjöllum.

8. gr. Umferð hjólandi manna.

Þegar farið er á reiðhjólum um landið skal fylgja vegum og skipulögðum reiðhjólastígum eins og kostur er svo ekki hljótist af náttúruspjöll.

9. gr. Takmörkun umferðar og lokun svæða.

Umhverfisstofnun getur í verndarskyni takmarkað umferð tímabundið eða lokað svæðum í óbyggðum enda hafi stofnunin að jafnaði gert grein fyrir fyrirhugaðri lokun í skýrslu til umhverfisráðherra um úttekt á ástandi svæða í óbyggðum. Slíkar ákvarðanir skal umhverfisráðherra staðfesta og birta í Stjórnartíðindum.

10. gr. Eftirlit.

Umhverfisstofnun hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar.

11. gr. Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

12. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 16., 17., 19. og 32. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um akstur í óbyggðum, nr. 619/1998.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.