Iðnaðarráðuneyti

514/1996

Reglugerð um breytingu á reglugerð fyrir Orkubú Vestfjarða, nr. 192 10. maí 1978.

1. gr.

                Á eftir 39. gr. komi ný grein 39. gr. a er orðast svo:

                Verð á orku skal ákveða í gjaldskrá. Notandi skal greiða Orkubúinu orkukaupin samkvæmt gildandi verðskrá á hverjum tíma. Við verðbreytingar á orku skal reikningsfæra notkun í beinu hlutfalli við gildistíma hverrar verðskrár á því tímabili sem reikningurinn tekur til.

                Orkubúið má grundvalla orkureikninga á áætlun um orkunotkun notanda og innheimta reglulega samkvæmt slíkri áætlun en í henni er orkunotkuninni jafnað niður á daga. Reikningar, sem byggjast á staðreyndri orkunotkun, nefnast álestrarreikningar en reikningar, sem byggjast á áætlaðri orkunotkun, nefnast áætlunarreikningar.

                Raunverulega orkunotkun skal staðreyna ekki sjaldnar en á u.þ.b. 12 mánaða fresti. Þegar orkunotkun hefur verið staðreynd skal hún reikningsfærð og gerð upp fyrir tímabilið milli álestra. Notandi getur jafnan, gegn greiðslu aukagjalds, krafist aukaálestrar og uppgjörs miðað við staðreynda notkun. Ennfremur getur hann óskað eftir breytingu á áætlun um orkunotkun vegna nýrra forsendna.

                Reikninga skal senda orkukaupanda á notkunarstað eða annan stað sem hann tiltekur. Gjalddagi er við útgáfu reiknings. Eindagi er 14 dögum síðar, og skal hann tilgreindur á reikningi. Einnig skal tilgreina greiðslustað.

                Orkubúið ákveður gjalddaga reikninga. Útgáfudag reiknings, gjalddaga og greiðslustað skal tilgreina á reikningi.

                Verði greiðslufall á reikningi, hvort sem um er að ræða áætlunarreikning eða álestrarreikning, má Orkubúið áskilja sér og innheimta allan kostnað vegna vanskilanna og dráttarvexti frá og með gjalddaga reiknings til greiðsludags.

                Vanskil á greiðslu áætlunarreikninga heimila Orkubúinu sömu aðgerðir til innheimtu og stöðvunar á orkuafhendingu og vanskil á álestrarreikningum. Orkubúið ber ekki ábyrgð á hugsanlegum afleiðingum slíkrar stöðvunar.

                Beri kaupandi ábyrgð á orkukaupum um fleiri en eina veitu (mæli) má stöðva orkuafhendingu um hverja þeirra sem er, eða allar, vegna vanskila eða vanefnda í sambandi við eina þeirra.

                Stöðvun orkuafhendingar vegna vanskila hefur engin áhrif á greiðsluskyldu notanda á skuldum við Orkubúið né heldur greiðsluskyldu á fastagjaldi, aflgjaldi og tækjaleigu á lokunartíma.

 

2. gr.

                Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum um Orkubú Vestfjarða nr. 66 31. maí 1976, vatnalögum nr. 15 20. júní 1923 og orkulögum nr. 58 29. apríl 1967 er hér með staðfest til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum sem hlut eiga að máli.

 

Iðnaðarráðuneytinu, 30. september 1996.

 

F. h. r.

Halldór J. Kristjánsson.

Steinunn Bjarman.

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica