Iðnaðarráðuneyti

513/2003

Reglugerð um kerfisstjórnun í raforkukerfinu.

I. KAFLI
Gildissvið og skilgreiningar.
1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til kerfisstjórnunar raforkukerfisins að undanskildu dreifikerfi. Kerfisstjórnun samkvæmt reglugerð þessari nær til orkuvinnslu, flutningskerfis, raforkusölu og samskipta kerfisstjóra flutningskerfis við kerfisstjórn dreifiveitna.


2. gr.
Skilgreiningar.

Eftirfarandi skilgreiningar eru notaðar í reglugerð þessari:
Ekki afhent orka: Áætlað magn raforku sem ekki var unnt að afhenda notanda eða dreifiveitu vegna bilunar í raforkukerfinu, viðhaldsvinnu eða breytinga á því.

Flutningsmörk: Hámark leyfilegs afls sem flytja má um flutningskerfið eða hluta þess.

Jöfnunarorka: Raforka sem kerfisstjóri tryggir að sé til reiðu til að halda jafnvægi milli raforkunotkunar og tapa annars vegar og raforkuvinnslu hins vegar.

Verndarkerfi: Verndarbúnaður til að nema óeðlilegt eða hættulegt ástand í raforkukerfinu, gefa vísun um slíkt ástand og/eða gefa rofabúnaði skipun um að einangra viðkomandi kerfishluta.

Kerfisstjóri: Flutningssvið Landsvirkjunar á gildistíma bráðabirgðaákvæðis VIII með raforkulögum.

Kerfisöng (flöskuháls): Þær aðstæður þegar flutningsgeta flutningsvirkis eða hluta flutningskerfis er ófullnægjandi, þannig að takmarka þurfi orkuflutning.

Reglunargeta: Geta vinnslueiningar til að auka eða minnka raforkuvinnslu við breytingar á tíðni flutningskerfisins.

Reiðuafl: Varaafl sem er tengt raforkukerfinu og er tiltækt án fyrirvara.

Rekstrartruflun: Sjálfvirk útleysing, handvirkt rof sem ekki er áætlað eða misheppnuð innsetning eftir bilun í raforkukerfinu.


II. KAFLI
Kerfisstjórnun.
3. gr.
Hlutverk kerfisstjóra.

Kerfisstjóri ber ábyrgð á öruggri stýringu raforkukerfisins og skal tryggja öryggi og gæði raforkuafhendingar. Kerfisstjóri skal í starfi sínu leitast við að tryggja hagkvæmni og skilvirkni í rekstri raforkukerfisins. Kerfisstjóri skal gæta jafnræðis við starfrækslu sína.


4. gr.
Skyldur kerfisstjóra.

Til þess að geta sinnt hlutverki sínu skal kerfisstjóri:

1. Stilla saman raforkuvinnslu og raforkuþörf svo að hægt sé að mæta frávikum milli umsaminna kaupa og raforkunotkunar. Í þessu skyni skal kerfisstjóri gera samninga við vinnsluaðila um vinnslu jöfnunarorku. Kerfisstjóri setur gjaldskrá fyrir jöfnunarorku m.t.t. samninga við vinnsluaðila auk eðlilegs álags.
2. Tryggja nægjanlegt framboð reiðuafls fyrir rekstur kerfisins með samningum við vinnslufyrirtæki. Kerfisstjóri setur gjaldskrá fyrir reiðuafl m.t.t. samninga við vinnsluaðila auk eðlilegs álags.
3. Hafa í umfangsmiklum truflunum sem hafa áhrif á tíðni eða spennu, heimild til að skerða álag til einstakra notenda eða dreifiveitna eða takmarka raforkuvinnslu. Kerfisstjóra er heimilt að semja um slíka skerðingu við notendur og dreifiveitur. Kerfisstjóri skal setja sér reglur, sbr. 6. gr. um hvernig skömmtun skuli háttað. Við setningu reglna um skömmtun skal gæta jafnræðis og leitast við að tryggja að skömmtun valdi sem minnstri röskun á samfélagslegum hagsmunum. Skal m.a. leitast við að tryggja raforku til þeirra fyrirtækja og stofnana sem veita almenningi bráðaþjónustu og tryggja öryggi borgara og allsherjarreglu.
4. Mæla það rafmagn sem afhent er inn á og út af flutningskerfinu í samræmi við reglur kerfisstjóra, halda utan um mælingar og skila gögnum til viðkomandi aðila svo að unnt sé að gera upp viðskipti með raforku. Senda skal Orkustofnun slíkar upplýsingar mánaðarlega innan 14 daga frá lokum mánaðar. Kerfisstjóri skal setja reglur, sbr. 6. gr., um mælingu raforku í samráði við Orkustofnun. Í reglum þessum skal m.a. útfært hvernig háttað skuli ábyrgð á mæligildum, auðkennum mælipunkta, aðgangi að tímamælingum, áætlunum mælastöðu og tímagilda og tilkynningum um mælaskipti. Gjald vegna mælinga skal ákveðið í gjaldskrá.
5. Veita stjórnvöldum, viðskiptavinum og almenningi upplýsingar sem nauðsynlegar eru við mat á því hvort fyrirtækið fullnægi skyldum sínum og til að tryggja jafnræði í viðskiptum með raforku. Nánar skal kveðið á um form, tíðni og birtingarhátt upplýsinga þessara í reglum, sbr. 6. gr., sem kerfisstjóra ber að setja sér.
6. Ábyrgjast að kerfisöng, til lengri eða skemmri tíma, sé leyst á sanngjarnan hátt fyrir þá aðila sem hlut eiga að máli. Kerfisstjóri skal gera Orkustofnun grein fyrir þeim aðferðum sem hann hyggst beita við kerfisöng. Kerfisstjóri skal innan viku gera Orkustofnun skriflega grein fyrir hvernig hvert tilvik var leyst.
7. Ákveða á hverjum tíma stöður rofa við venjulegt rekstarástand flutningskerfisins. Skipulögð rof sem hafa áhrif á rekstur flutningskerfisins og dreifikerfa á að tilkynna til kerfisstjóra. Kerfisstjóri ákveður hvort af rofinu getur orðið, í samræmi við reglur, sbr. 6. gr., sem hann setur. Þar skulu koma fram þau viðmið er styðjast skal við þegar tekin er ákvörðun um hvort rof er heimilað. Einnig skal kveðið á um fyrirvara rofs. Kerfisstjóri samræmir rof í flutnings- og dreifkerfinu ef þörf er á.
8. Hafa heimild til þess að ákveða hvers konar almennt verndarkerfi skuli sett upp hjá vinnslufyrirtæki, flutningsfyrirtæki eða dreifiveitu og hverjar stillingar einstakra hluta þess skuli vera. Kerfisstjóri getur krafist að settur sé upp, til viðbótar almennu verndarkerfi, búnaður fyrir sjálfvirkar aðgerðir í raforkukerfinu til að koma í veg fyrir hrun þess eða til að auka flutningsgetu flutningskerfisins. Kerfisstjóri skal greiða kostnað af slíkum viðbótarbúnaði. Sá sem í hlut á má ekki gera slíkan búnað virkan án samráðs við kerfisstjóra.
9. Kerfisstjóri ákveður rekstrarleg flutningsmörk í flutningskerfinu. Flutningsmörkin mega ekki vera hærri en hámarksflutningsgeta einstakra virkja nema með samþykki eigenda flutningsvirkis.


5. gr.
Skyldur annarra gagnvart kerfisstjóra.

Til þess að kerfisstjóri geti sinnt hlutverki sínu:

1. Skulu eigendur flutningsvirkja hafa tiltækt yfirlit yfir hámarksflutningsgetu þeirra.
2. Getur kerfisstjóri farið fram á að hafa aðgang að vísunum um stöðu rofa hjá vinnslufyrirtækjum, flutningsfyrirtæki og dreifiveitum ásamt aðgangi að vísunum annarra tækja svo og mælinga sem kerfisstjóri telur nauðsynlegar fyrir öruggan og hagkvæman rekstur raforkukerfisins.
3. Skulu vinnslufyrirtæki, dreifiveitur og sölufyrirtæki upplýsa kerfisstjóra um áætlanir um ný virki eða breytingar á virkjum sem geta haft áhrif á rekstur og nýtingu flutningskerfisins. Ný virki eða breytt má ekki taka í notkun fyrr en skilyrði sem kerfisstjóri hefur gert til þeirra eru uppfyllt. Kerfisstjóri skal setja reglur um skilyrði og kröfur sem gerð eru til raforkuvirkja.
4. Skulu vinnslufyrirtæki og dreifiveitur tilkynna kerfisstjóra um sölu- og vinnsluáætlanir ásamt breytingum á þeim. Senda skal kerfisstjóra áætlun um orkuvinnslu og orkunotkun næsta sólarhrings fyrir klukkan 12.00 dag hvern.
5. Skulu vinnslufyrirtæki og dreifiveitur og sölufyrirtæki gera áætlanir, sem uppfylla kröfur kerfisstjóra um hvernig þeir koma raforkuvirkjum sínum í eðlilegan rekstur eftir rekstrartruflanir í flutningskerfinu eða vinnslueiningum því tengdum. Kerfisstjóri stýrir enduruppbyggingu. Kerfisstjóri getur farið fram á skömmtun í ákveðinn tíma og af ákveðnu umfangi. Kerfisstjóri samþykkir hvenær notandi tengist raforkukerfinu á ný eftir skömmtun.


6. gr.
Reglur um kerfisstjórnun.

Kerfisstjóri skal setja reglur um kerfisstjórnunina sem staðfestar skulu af ráðherra, sbr. 5. mgr. 9. gr. raforkulaga. Áður en kerfisstjóri setur reglurnar skal raforkufyrirtækjum gefinn kostur á að veita umsögn um þær. Í reglunum skal m.a. kveðið nánar á um þau atriði sem tilgreind eru í greinum 4 og 5 hér að ofan.


III. KAFLI
Almenn ákvæði.
7. gr.
Gjaldskrá vegna kerfisstjórnunar.

Kerfisstjóri skal setja sér gjaldskrá vegna kerfisstjórnunar sem skal birt opinberlega að fenginni staðfestingu Orkustofnunar.

Gjaldskráin skal standa undir kostnaði sem er í beinum og efnislegum tengslum við kerfisstjórnun, þ.m.t. kostnaði vegna jöfnunarorku og reiðuafls, viðhalds, afskrifta á nauðsynlegum eignum vegna kerfisstjórnunar, fjármagnskostnaði, og almennum rekstrarkostnaði. Þá er kerfisstjóra heimilt að áskilja sér eðlilega arðsemi af því fjármagni sem bundið er vegna kerfisstjórnunar.


8. gr.
Bókhaldslegur aðskilnaður.

Um ársreikninga kerfisstjóra fer samkvæmt lögum um ársreikninga. Kerfisstjóri skal í bókhaldi sínu halda reikningum vegna kerfisstjórnar raforkukerfisins aðskildum frá reikningum annarrar starfsemi. Gera skal Orkustofnun grein fyrir sundurliðuninni á því formi sem stofnunin ákveður.

Sameiginlegum rekstrartekjum og rekstrarkostnaði sem ekki er unnt að heimfæra beint á einstaka starfsemi skal skipt í samræmi við viðtekna reikningsskilavenju, enda hafi skiptireglurnar hlotið samþykki Orkustofnunar. Hliðstæðar reglur gilda um skiptingu sameiginlegra afskrifta og fastafjármuna.

Fallist Orkustofnun ekki á skiptireglur kerfisstjóra skv. 2. mgr. skal hún taka rökstudda ákvörðun þar um innan sex vikna frá því að óskað var eftir samþykki hennar á skiptireglum og skal Orkustofnun þá ákvarða skiptireglur á grundvelli eftirfarandi meginviðmiða:

1. Fastafjármunum sem ekki er unnt að heimfæra beint á einstaka starfsemi skal skipt á hverja starfsemi í þeim hlutföllum sem eru á milli bókfærðs verðs þeirra fastafjármuna sem heimfæranlegir eru.
2. Skipta skal afskriftum af þeim eignum sem ekki er unnt að skipta í sömu hlutföllum og þeim sem skiptanlegar eru.
3. Rekstrartekjum og rekstrarkostnaði sem ekki er unnt að heimfæra beint á einstaka starfsemi skal skipt í þeim hlutföllum sem eru milli tekna og kostnaðar sem heimfæranlegur er.


9. gr.
Aðgangur að upplýsingum og þagnarskylda starfsmanna.

Kerfisstjóri skal hafa aðgang að öllum upplýsingum hjá vinnslufyrirtækjum, dreifiveitum og raforkusölum sem nauðsynlegar eru til að fyrirtækið geti rækt hlutverk sitt. Skal flutningsfyrirtækið gæta trúnaðar um upplýsingar sem fyrirtækið fær í hendur og varða viðskiptahagsmuni og aðrar þær upplýsingar sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari.

Ber kerfisstjóra að setja sér verklagsreglur um stjórnun upplýsingaöryggis. Skal starfsmönnum kerfisstjóra gert að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að þeir muni gæta fyllsta trúnaðar um upplýsingar sem þeir fá í starfi sínu


IV. KAFLI
Eftirlit og úrræði.
10. gr.
Eftirlit Orkustofnunar.

Orkustofnun skal hafa eftirlit með því að fyrirtæki sem starfa samkvæmt reglugerð þessari fullnægi þeim skilyrðum sem um starfsemina gilda samkvæmt henni, skilyrðum leyfis eða öðrum heimildum.

Orkustofnun skal hafa samráð við Samkeppnisstofnun um eftirlit með starfsemi og gjaldskrá kerfisstjóra eftir því sem við á.


11. gr.
Heimildir Orkustofnunar.

Orkustofnun skal við framkvæmd eftirlits ekki beita viðurhlutameiri heimildum en nauðsyn krefur og byggja eftirlitið eins og kostur er á innra eftirliti hinna eftirlitsskyldu aðila.

Orkustofnun getur krafið kerfisstjóra um allar upplýsingar og gögn sem nauðsynleg eru við framkvæmd eftirlitsins. Skulu gögn og upplýsingar berast innan hæfilegs frests sem Orkustofnun setur. Orkustofnun getur einnig skyldað kerfisstjóra til að upplýsa stofnunina reglulega um atriði sem máli skipta við eftirlitið. Þá getur Orkustofnun krafist þess að kerfisstjóri komi á innra eftirliti í samræmi við kröfur sem stofnunin setur.

Orkustofnun getur í eftirlitsstörfum sínum krafist upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum óháð þagnarskyldu þeirra.

Orkustofnun getur við rannsókn mála gert nauðsynlegar athuganir á starfsstöð kerfisstjóra og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn reglugerð þessari eða öðrum heimildum. Við framkvæmd slíkra aðgerða skal fylgja ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um leit og hald á munum.


12. gr.
Heimildir kerfisstjóra.

Skirrist raforkufyrirtæki við að verða við tilmælum kerfisstjóra um afhendingu upplýsinga eða aðgerðir í raforkukerfinu sem byggðar eru á reglugerð þessari eða öðrum heimildum upplýsir kerfisstjóri Orkustofnun um það. Orkustofnun getur beitt dagsektarákvæðum sbr. ákvæði raforkulaga og reglugerðar um framkvæmd þeirra.


V. KAFLI
Ýmis lagaákvæði.
13. gr.
Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt lögum eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum. Nú er brot framið í starfsemi lögaðila og má þá gera lögaðilanum fésekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga.


14. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi sem er sett samkvæmt heimild í 9. og 44. gr. raforkulaga nr. 65/2003 og með hliðsjón af 14. tl. IV. viðauka við EES-samninginn öðlast þegar gildi.


Iðnaðarráðuneytinu, 1. júlí 2003 .

Valgerður Sverrisdóttir.
Kristín Haraldsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica