Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 29. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 29. nóv. 2018

510/2018

Reglugerð um sprengiefni og forefni til sprengiefnagerðar.

Birta efnisyfirlit

I. KAFLI Skilgreiningar og gildissvið.

1. gr. Skilgreiningar.

Almennur borgari: Sérhver einstaklingur sem á í viðskiptum í öðru skyni en vegna atvinnugreinar sinnar, viðskipta eða starfsgreinar.

Aðgengi: Hvers konar afhending hvort sem er gegn greiðslu eða án endurgjalds.

Forefni: Forefni til sprengiefnagerðar sem talin eru upp í VIII. og IX. viðauka.

Forefni sem sætir takmörkunum: Forefni til sprengiefnagerðar sem talin eru upp í VIII. viðauka og í meiri styrkleika en samkvæmt þartilgreindum viðmiðunarmörkum, þ.m.t. blanda eða annað efni, sem inniheldur efni í skránni í styrkleika yfir viðmiðunarmörkum.

Grunsamleg viðskipti: Hvers konar viðskipti, þ.m.t. viðskipti atvinnunotenda, með forefni ef gild ástæða er til að ætla að fyrirhugað sé að nota efnið eða blönduna til ólöglegrar framleiðslu á sprengiefnum.

Markaðssetning: Fyrsta afhending sprengiefnis eða forefnis gegn greiðslu eða án endurgjalds, í því skyni að dreifa því og/eða nota það hér á landi eða í öðru ríki sem aðild á að Evrópska efnahagssvæðinu.

Rekstraraðili: Einstaklingur eða lögaðili sem hefur leyfi eða heimild til að framleiða, geyma, nota, stunda viðskipti með eða færa til sprengiefni eða forefni.

Sprengiefnageymsla: Lokað rými til geymslu á sprengiefni.

Sprengiefni: Fast eða fljótandi efni eða efnablanda, sem hefur þann eiginleika að geta sprungið við högg, þrýsting eða hita, svo og kveikiefni, svo sem hvellhettur og kveikiþræðir.

Sprengistjóri: Sá er fengið hefur réttindi til að fara með sprengiefni og annast sprengivinnu.

Tilflutningur: Öll tilfærsla á sprengiefni eða forefni innan yfirráðasvæðis þeirra ríkja sem aðild eiga að Evrópska efnahagssvæðinu, að undanskildum tilflutningi innan sömu lóðar.

Þær vörur sem getið er um í viðauka VII við reglugerðina teljast annaðhvort vera skoteldar eða sprengiefni. Leiki vafi á undir hvorn flokkinn vörur falla sker ríkislögreglustjóri úr að fenginni umsögn Vinnueftirlitsins.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerðin gildir um framleiðslu, geymslu og flutning sprengiefnis, þ. á m. lestun og losun, svo og um kaup, notkun, förgun, verslun og inn- og útflutning sprengiefnis og forefna. Reglugerðin gildir einnig um tæki og efni sem notuð eru við hverskyns meðferð sprengiefnis.

Undanþegin ákvæðum reglugerðarinnar eru:

  1. sprengiefni og forefni í eigu landhelgisgæslu og lögreglu,
  2. framleiðsla og geymsla flugelda og,
  3. flutningur sprengiefnis í skipum og flugvélum.

Geymsla og notkun sprengiefnis um borð í skipum fellur undir ákvæði reglugerðarinnar, svo og notkun sprengiefnis við köfun frá skipum og landi.

Ríkislögreglustjóri úrskurðar ef vafi leikur á hvort sprengiefni eða tæki og búnaður falli undir gildissvið reglugerðarinnar.

II. KAFLI Markaðssetning.

3. gr. Gerðarviðurkenning.

Óheimilt er að markaðssetja eða hafa undir höndum sprengiefni sem ekki hafa hlotið gerðarviðurkenningu og bera CE-samræmismerki samkvæmt 4. gr. Viðurkennd sprengiefni skulu standast grunnkröfur þær sem tilgreindar eru í viðauka I.

Vinnueftirlit ríkisins viðurkennir sprengiefni hér á landi. Umsókn um viðurkenningu skulu fylgja nauðsynleg gögn frá framleiðanda og viðurkenndum prófunarstofnunum um eiginleika efnanna. Við viðurkenningu skal farið eftir þeirri aðferð sem tilgreind er í viðauka II við tilskipun ráðsins 2014/28/ESB.

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. má viðurkenna sprengiefni til tiltekinna takmarkaðra nota hér á landi samkvæmt ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins.

Sprengiefni sem hlotið hafa viðurkenningu í öðru ríki til notkunar á Evrópska efnahagssvæðinu eru sjálfkrafa viðurkennd til notkunar hér á landi. Sprengiefni sem framleidd eru eftir samræmdum evrópskum staðli skulu enn fremur hljóta viðurkenningu, enda teljist slíkir staðlar standast grunnkröfur viðauka I.

Hráefni, sem ekki eru ein sér flokkuð sem sprengiefni, en ætluð eru til framleiðslu sprengiefnis á vegum þeirra sem annast sprengingar, eru viðurkenningarskyld á sama hátt og sprengiefni, t.d. ammóníumnítrat.

4. gr. CE-samræmismerkið og hættuflokkun.

Viðurkennd sprengiefni skulu bera CE-samræmismerkið, sbr. viðauka II. CE-merkingin skal, á sýnilegan, auðlæsilegan og óafmáanlegan hátt, fest á sprengiefnin sjálf eða, verði ekki hjá því komist, á merkiplötu sem fest er við þau. Verði merkingin ekki fest með framangreindum hætti er heimilt að festa hana á umbúðirnar. Merkiplatan skal vera þannig gerð að hún verði ekki notuð á ný.

Sprengiefni skal flokkað í hættuflokka og aðskilnaðarflokka í samræmi við leiðbeiningar sérfræðinganefndar Sameinuðu þjóðanna um flutning hættulegra efna.

5. gr. Afturköllun gerðarviðurkenningar.

Vinnueftirlit ríkisins getur afturkallað viðurkenningu sprengiefnis ef í ljós kemur að upplýsingar sem lagðar voru til grundvallar viðurkenningunni hafa ekki verið fullnægjandi eða meiri hætta fylgir notkun efnisins en fyrirsjáanlegt var.

III. KAFLI Umbúðir og merking.

6. gr. Umbúðir sprengiefna.

Umbúðir um sprengiefni skulu hafa nægan styrk til að þola hnjask sem varan kann að verða fyrir við eðlilega meðferð, flutning og geymslu.

Umbúðir skulu þannig gerðar og vera úr þannig efnum að ekki sé hætta á að snerting innihaldsins við yfirborð umbúðanna að innanverðu leiði til hættu á sprengingu eða bruna. Umbúðir skulu enn fremur þannig gerðar að ekki sé hætta á að innihaldið hreyfist við flutning og meðferð svo að hætta stafi af.

7. gr. Merking umbúða sprengiefna.

Varnaðarmerki og varnaðarorð á íslensku skulu vera hlið við hlið á ystu umbúðum, greinilega aðskilin frá annarri merkingu.

Ystu umbúðir skulu greinilega merktar með tækniheiti efnisins, eða vöruheiti ef um þekkt vörumerki er að ræða. Enn fremur skal varan merkt með skráningarnúmeri (SÞ-númeri) því sem sérfræðinefnd Sameinuðu þjóðanna, sem fjallar um flutning á hættulegum efnum, hefur ákveðið.

Á ystu umbúðum skal vera ferhyrnt varúðarmerki a.m.k. 10 sm á hverja hlið, rauðgult að lit með svörtu letri, sbr. viðauka III. Á varúðarmerki skal tiltaka hættuflokk og aðskilnaðarflokk efnisins auk upplýsinga um flutningstakmarkanir ef við á.

Á ystu umbúðum skal tilgreind eigin þyngd vörunnar, heildarþyngd að umbúðum meðtöldum og framleiðsludagur.

Merkingar, sem fjallað er um í 1.-4. mgr., skulu einnig vera á innri umbúðum ef slíkt er nauðsynlegt til að tryggja örugga meðferð efnisins.

Sprengiefni, þ.m.t. smæstu einingar þess, skal auðkennt sérstaklega í samræmi við tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2008/43/EB, sbr. tilskipun 2012/4/ESB svo rekja megi feril sprengiefnisins. Þetta gildir ekki um:

  1. sprengiefni sem flutt er og afhent óinnpakkað eða í dælubílum til beinnar losunar í sprengjuholu,
  2. sprengiefni sem framleitt er á sprengistaðnum og sem hlaðið er um leið og það hefur verið framleitt,
  3. skotfæri,
  4. kveikiþræði, sem svipar til þráða, sem eru ekki sprengifimir,
  5. púðurkveikiþræði, sem samanstanda af kjarna úr fínkornóttu svörtu púðri sem er umlukinn sveigjanlegu ofnu efni með eina eða fleiri ytri hlífðarkápur og sem brennur á gefnum hraða án þess að valda ytri áhrifum með sprengingu og
  6. hvellhettur sem samanstanda af hylki úr plasti eða málmi, sem inniheldur lítið magn sprengiefnablöndu sem auðvelt er að tendra með höggi, og sem þjónar hlutverki kveikibúnaðar í skothylkjum fyrir handvopn eða í hvellhettum fyrir drifhleðslur.

8. gr. Merking umbúða forefna.

Rekstraraðili skal sjá til þess að á umbúðum hverrar sölueiningar forefna sem sæta takmörkunum komi fram að viðskipti með tiltekin efni séu sérstaklega leyfisskyld, annaðhvort með því að festa sjálfur viðeigandi merkimiða eða með því að staðfesta að viðeigandi merkiðmiði hafi verið festur á.

9. gr. Öryggisleiðbeiningar.

Þegar sprengiefni er afhent skulu fylgja því öryggisblöð á íslensku í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 888/2015 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni (REACH).

IV. KAFLI Framleiðsla, innflutningur og verslun með sprengiefni.

10. gr. Framleiðsla.

Með framleiðslu er átt við hverskyns aðgerðir sem leiða til myndunar sprengiefnis, svo og pökkun efnisins og annan frágang. Blöndun ammóníumnítrats og olíu telst framleiðsla sprengiefnis.

Framleiðsla sprengiefnis er óheimil nema með leyfi lögreglustjóra, sbr. þó 3. mgr. Framleiðslustaður skal auk þess háður samþykki Mannvirkjastofnunar og búnaður og framleiðsluaðferðir skulu háðar samþykki Vinnueftirlits ríkisins.

Vinnueftirlit ríkisins getur veitt einstaklingum, sem öðlast hafa leyfi til að fara með sprengiefni, heimild til að framleiða sprengifima blöndu ammóníumnítrats og olíu á sprengistað, enda geri þeir nauðsynlegar öryggisráðstafanir. Óheimilt er að flytja slíkt sprengiefni til annarra staða nema með sérstöku leyfi viðkomandi lögreglustjóra.

Blöndun ammóníumnítrats skal fara fram í a.m.k. 60 m fjarlægð frá sprengiefnageymslu. Vinnueftirlit ríkisins getur þó heimilað minni fjarlægð í einstökum tilvikum ef aðstæður krefjast þess.

11. gr. Innflutningur, sala og heildsala.

Innflutningur, sala og heildsala sprengiefnis er óheimill nema með leyfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Slíkt leyfi má aðeins veita þeim sem fullnægir ákvæðum a. og b. liða 31. gr. um kunnáttu í meðferð sprengiefna og hefur yfir að ráða fullnægjandi geymslu fyrir sprengiefni samkvæmt VI. kafla, enda uppfylli hann ákvæði annarra laga og reglna sem varða reksturinn. Leyfin skulu gilda til allt að 5 ára í senn.

Leyfi samkvæmt 1. mgr. skal jafnframt gilda sem tilflutningsleyfi samkvæmt 11. gr. tilskipunar 2014/25/ESB. Skal leyfið þá staðfest á þar til gerðum eyðublöðum sem innflytjandi skal senda lögbærum yfirvöldum í þeim löndum Evrópska efnahagssvæðisins sem efnið fer um.

Þeir sem hyggjast flytja til Íslands sprengiefni til eigin nota og hafa ekki leyfi samkvæmt 1. mgr. skulu afla til þess sérstaks tilflutningsleyfis, enda uppfylli þeir ákvæði a-, b- og c-liða 31. gr. Vinnueftirlit ríkisins gefur út tilflutningsleyfi og tilkynnir lögreglustjórum þeirra umdæma sem efnið fer um. Þeir sem hyggjast flytja sprengiefni frá Íslandi til áfangastaðar í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skulu á sama hátt afla sér tilflutningsleyfis hjá þarlendu lögbæru yfirvaldi.

Heildsalar skulu ársfjórðungslega senda Vinnueftirlitinu upplýsingar um tegund og magn selds sprengiefnis, hvellhettna og kveikjuþráðar.

12. gr. Sala til notenda.

Sprengiefni má aðeins selja þeim, sem fengið hefur leyfi lögreglustjóra til að kaupa það og hafa í sinni vörslu. Óheimilt er að afhenda sprengiefni nema gegn framvísun leyfisins.

Ef kaupandi er lögaðili skal hann tilnefna einn starfsmann sinn sem sérstakan ábyrgðarmann til að hafa umsjón með vörslu efnisins og skal ábyrgðarmaður fullnægja skilyrðum a-liðar 31. gr. Umsókn um leyfi til kaupa á sprengiefni skal fylgja yfirlýsing viðkomandi einstaklings um að hann taki að sér hlutverk ábyrgðarmanns ásamt staðfestingu forráðamanns fyrirtækisins.

Láti ábyrgðarmaður af störfum eða geti hann ekki sinnt starfi sínu lengur, skal þegar í stað tilnefna annan ábyrgðarmann. Að öðrum kosti telst leyfi skv. 1. mgr. fallið úr gildi.

Ábyrgðarmaður skal tryggja að flutningur og geymsla sprengiefnis, sem og birgðaskráning í fyrirtæki hans, sé í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.

Sá sem hefur leyfi til kaupa á sprengiefni skal hafa yfir að ráða fullnægjandi geymslu samkvæmt ákvæðum VI. kafla.

Sá sem hefur leyfi til kaupa á sprengiefni öðlast jafnframt rétt til tilflutnings sprengiefnis í samræmi við 11. gr. tilskipunar 2014/28/ESB, enda sé magn efnis í hverjum flutningi ekki yfir 50 kg og leyfishafi annist hann sjálfur.

V. KAFLI Búnaður við framleiðslu, geymslu, sölu eða notkun sprengiefnis.

13. gr. Búnaður.

Við framleiðslu og notkun sprengiefnis er einungis heimilt að nota vélar, áhöld og annan búnað sem viðurkenndur er af Vinnueftirliti ríkisins samkvæmt nánari reglum er það setur.

Búnaður sem hlotið hefur viðurkenningu til notkunar samkvæmt ákvæðum EES-samningsins telst viðurkenndur á Íslandi.

VI. KAFLI Geymsla sprengiefnis.

14. gr. Flokkun, samþykki og tilkynningarskylda.

Sprengiefnageymslur skiptast í þrjá flokka:

1. flokkur: Færanlegar sprengiefnakistur fyrir minni forða, allt að 50 kg sprengiefnis, 100 hvellhettur og 100 m af sprengiþræði.
2. flokkur: Færanlegar sprengiefnageymslur, t.d. gámar.
3. flokkur: Staðbundnar sprengiefnageymslur, t.d. geymslur heildsala, skipafélaga, hafna eða bæjarfélaga.

Geymslur í 1. og 2. flokki skulu viðurkenndar af Vinnueftirliti ríkisins samkvæmt nánari reglum sem stofnunin setur.

Óheimilt er að koma fyrir færanlegri sprengiefnageymslu án leyfis lögreglustjóra í umdæminu, sem tilkynnir það hlutaðeigandi slökkviliðsstjóra og Vinnueftirliti ríkisins. Í umsókn skal tilgreina áætlað magn sem fyrirhugað er að geyma.

Hönnun og staðsetning geymslna í 3. flokki skal samþykkt af Mannvirkjastofnun.

15. gr. Almenn ákvæði.

Sprengiefnageymsla skal þannig gerð, innréttuð og staðsett, að ekki skapist sérstök hætta á bruna eða sprengingu og að tryggt sé að sprengiefni komist ekki í hendur óviðkomandi.

Sprengiefni skal ávallt geymt í viðurkenndri sprengiefnageymslu. Laust sprengiefni skal tafarlaust flutt í viðurkennda geymslu, t.d. ef hlé verður á framkvæmdum á vinnusvæði. Sprengiefnakistur skal geyma í sprengiefnageymslu eða innanhúss í rammlega læstu rými sem óviðkomandi hafa ekki aðgang að.

Sprengiefnageymslur skulu ávallt rammlega læstar þegar ekki er verið að ganga um þær.

16. gr. Umgengnisreglur í og við sprengiefnageymslur.

Reykingar, meðferð opins elds og radíósenda í sprengiefnageymslum og í grennd við þær er bönnuð.

Við geymslu eða aðra meðhöndlun skal sprengiefni vera í upprunalegum umbúðum frá framleiðanda eða búið um það á annan jafntryggan hátt í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda.

Önnur vinna en sú sem varðar meðhöndlun og umbúnað sprengiefnis má ekki fara fram í sprengiefnageymslu. Óheimilt er að geyma þar önnur tæki og búnað sem tilheyra sprengivinnunni, t.d. mælitæki, hnalla og þess háttar.

17. gr. Merkingar geymslna og aðskilnaður sprengiefna.

Sprengiefnageymslur í flokki 3 skulu rammlega girtar af. Hlið með traustri læsingu skal vera á girðingu. Sama gildir um sprengiefnageymslur í flokki 2 sem settar eru niður á sama stað í 12 mánuði eða lengur, t.d. í tengslum við verklegar framkvæmdir.

Á girðingum og geymslum skulu vera greinilegar merkingar og viðvaranir um hættu af völdum sprengiefna.

Við geymslu sprengiefna skal gæta þess að reglum um aðskilnað sprengiefna sé framfylgt. Einungis má geyma þau efni saman sem eru í sama aðskilnaðarflokki, sbr. 2. mgr. 4. gr.

18. gr. Öryggisfjarlægðir.

Sprengiefni skal geyma í öruggri fjarlægð frá híbýlum manna og frá stöðum þar sem gera má ráð fyrir að fólk dveljist eða komi saman og frá mannvirkjum, umferðargötum og þjóðvegum. Til viðmiðunar eru þær fjarlægðir sem settar eru fram í viðauka IV.

Um öryggisfjarlægðir milli sprengistaðar og háspennulína og radíósendibúnaðar gilda ákvæði viðauka IV.

Lögreglustjóri getur í samráði við slökkviliðsstjóra heimilað frávik frá þessum viðmiðum þegar sérstaklega stendur á.

19. gr. Birgðabókhald.

Sá sem hefur með höndum sprengiefni skal, í þar til gerðri rekstrardagbók, halda nákvæmt birgðabókhald, þar sem fram kemur magn móttekins sprengiefnis, tilflutningur efnis milli geymslna, notað efni og magn sem tiltækt er í hverri sprengiefnageymslu.

Ábyrgðarmaður samkvæmt 2. mgr. 12. gr. skal tryggja að farið sé að ákvæðum 1. mgr.

Rekstrardagbók skal sýnd lögreglu eða Vinnueftirliti ríkisins þegar þess er óskað.

VII. KAFLI Flutningur sprengiefnis á landi.

20. gr. Tilhögun flutnings.

Auk ákvæða reglugerðarinnar gildir um flutning sprengiefnis á landi reglugerð um flutning á hættulegum farmi.

Um vörslu sprengiefnis á flutningsmiðstöðvum gilda ákvæði VI. kafla.

Hvellhettur skulu ávallt fluttar í traustum umbúðum til að koma í veg fyrir ótímabæra sprengingu.

Ekki er heimilt að flytja sprengiefni með öðrum hættulegum efnum í sama ökutæki eða með annarri vöru ef slíkt eykur hættu á bruna eða sprengingu.

Einungis er heimilt að flytja í sama ökutæki sprengiefni sem fullnægja skilyrðum um aðskilnaðarflokkun samkvæmt viðauka V.

Þá skulu leyfi sem nauðsynleg eru, sbr. 2. og 3. mgr. 11. gr. og 1. mgr. 22. gr., vera fyrir hendi, auk fyrirmæla lögreglustjóra ef við á, sbr. 24. gr.

21. gr. Ökutæki.

Ökutæki sem notað er til flutnings á sprengiefnum skal vera í góðu ástandi og fullnægja öllum ákvæðum umferðarlaga og reglna um gerð og búnað ökutækja. Ef flutt er meira en 50 kg af sprengiefni, að umbúðum undanskildum, skal ökutæki vera viðurkennt fyrir slíkan flutning í samræmi við reglugerð um flutning á hættulegum farmi. Eigandi, notandi og ökumaður ökutækis sem flytur sprengiefni eru, hver um sig, ábyrgir fyrir því að ökutækið standist þær kröfur sem gerðar eru.

22. gr. Flutningsleyfi, takmarkanir o.fl.

Óheimilt er að flytja milli staða innanlands meira en 50 kg sprengiefnis með sama ökutæki nema til komi leyfi lögreglustjóra á áfangastað. Þegar um er að ræða flutning á landi skal lögreglustjóri tilkynna um flutninginn og hafa samráð við lögreglustjóra þeirra umdæma sem ingurinn fer um, varðandi kröfur eða fyrirmæli sem flutningsaðila eru settar, sbr. 24. gr. Skal slíks getið í leyfisbréfi.

Heimilt er að flytja með ökutæki allt að 50 kg af sprengiefni með Sameinuðu þjóða númer 0081, 0082, 0084, 0241, 0331, 0332 og 0482, samkvæmt flokkun Sameinuðu þjóðanna, án þess að uppfylla öll skilyrði reglugerðar um flutning á hættulegum farmi. Við slíkan flutning skal fylgja farmbréf, vottorð sendanda og a. m. k. eitt 2 kg slökkvitæki. Umbúðir skulu vera viðurkenndar og merktar og fara skal eftir samlestunarákvæðum í viðauka V.

Innan athafnasvæðis þar sem önnur umferð fer ekki fram er heimilt að flytja samtímis í ökutæki milli sprengiefnageymslu og sprengistaðar 500 kg af sprengiefni með efnisnúmer 4 og allt að 1000 hvellhettur með efnisnúmer 1. Sprengiefni og hvellhettum skal haldið aðskildu með öryggiskistu eða lokuðu rými þannig að tryggt sé að fjarlægðin á milli þeirra verði aldrei minni en 1 m.

Óheimilt er að flytja sprengiefni með hópbifreiðum og öðrum samgöngutækjum sem samtímis eru notuð til fólksflutninga á landi.

23. gr. Merking ökutækis.

Ökutæki sem flytur meira en 50 kg af sprengiefni skal merkt að framan og aftan með appelsínugulu hættuskilti 300 x 400 mm að stærð. Á skiltinu skal vera 15 mm breið svört rönd á jaðri. Þar að auki skal merkja ökutæki á báðum hliðum og að aftan með varúðarmerki samkvæmt gildandi reglum um flutning hættulegs farms á vegum.

24. gr. Flutningsleiðir.

Til að draga úr hættu á óhöppum við flutning sprengiefnis geta lögreglustjórar gefið fyrirmæli um flutningsleiðir, flutningstíma, hámarksmagn sprengiefnis, lögreglufylgd og önnur þau atriði sem þeir telja nauðsynleg til að tryggja nægjanlegt öryggi við flutninginn.

Sá sem annast flutning sprengiefnis skal gera lögreglustjóra viðvart með hæfilegum fyrirvara ef fyrirhugað er að flytja óvenjumikið magn sprengiefnis eða sprengiefni sem sjaldan er flutt með ökutækjum og sérstök hætta fylgir.

25. gr. Stjórnandi ökutækis.

Stjórnandi ökutækis sem flytur sprengiefni skal hafa næga þekkingu á eiginleikum efnisins, meðhöndlun þess og þeim ráðstöfunum sem gera skal ef óhapp verður eða eldur kemur upp. Ef flutt er meira en 50 kg af sprengiefni skal ökumaður hafa gilt vottorð um starfsþjálfun samkvæmt reglugerð um starfsþjálfun stjórnenda ökutækja sem flytja hættulegan farm.

26. gr. Lestun og losun.

Við lestun og losun sprengiefnis skal gætt ýtrustu varúðar. Tæki og áhöld sem notuð eru skulu vera þannig gerð að umbúðir vörunnar skemmist ekki og að ekki sé hætta á að varan falli af eða úr tækjunum.

Óheimilt er að taka við sprengiefni til flutnings nema það sé í umbúðum sem þola eðlilegt álag. Hafi umbúðir vörunnar skemmst þannig að hætta sé á að þær þoli ekki flutninginn skal vörunni komið fyrir á öruggum stað og sendanda eða móttakanda gert viðvart.

Skorða skal sprengiefni sem flutt er með ökutæki þannig að það hreyfist ekki við flutning. Sprengiefni skal varið fyrir höggum og núningi og skal því þannig fyrir komið að ekki sé hætta á að umbúðir láti undan.

27. gr. Flutningur í gámum.

Um flutning sprengiefnis í gámum fer samkvæmt reglugerð um flutning á hættulegum farmi.

28. gr. Flutningur í ökutæki.

Ökutæki sem flytur sprengiefni skal vera undir stöðugu eftirliti meðan á flutningi stendur.

Meðferð opins elds og reykingar eru óheimilar í eða nærri ökutæki sem flytur sprengiefni.

29. gr. Viðbrögð við óhöppum.

Verði óhapp við flutning sprengiefnis þannig að stöðva verði flutninginn skal óhappið þegar í stað tilkynnt næstu lögreglu- og slökkvistöð. Stafi umferð hætta af óhappinu skal hún stöðvuð.

Nú er ekki unnt að halda flutningi áfram með sama ökutæki og skal þá sprengiefnið fjarlægt af staðnum með ýtrustu varúð og því komið fyrir með öruggum hætti.

VIII. KAFLI Notkun sprengiefnis.

30. gr. Réttindi til að annast sprengivinnu - sprengistjóri.

Enginn má fara með sprengiefni og annast sprengivinnu nema hann hafi til þess leyfi lögreglustjóra samkvæmt 1. mgr. 27. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

Lögreglustjóri veitir réttindi skv. 1. mgr. og gefur út skírteini til handa leyfishafa því til staðfestingar til 5 ára í senn. Þeim einum má veita slík réttindi sem framvísar vottorði Vinnueftirlits ríkisins um að hann hafi lokið tilskildu námi og staðist próf samkvæmt 31. gr.

Réttindi til að fara með sprengiefni og annast sprengivinnu eru tvenns konar:

A-réttindi: Gildir fyrir alla sprengivinnu.
B-réttindi: Gildir fyrir þá sérhæfðu og takmörkuðu notkun sprengiefnis sem tiltekin er í leyfinu, svo sem sprengingar í málmbræðsluofnum, sprengingar í rannsóknaskyni (jarðskorpumælingar) o.fl.

Lögreglustjóri tilkynnir Vinnueftirliti ríkisins um útgefin sprengiefnaréttindi.

Við endurnýjun réttinda skal umsækjandi leggja fram vottorð Vinnueftirlits ríkisins um hæfi umsækjanda og staðfestingu þess að hann hafi stundað sprengivinnu á síðastliðnum fimm árum. Fullnægi umsækjandi því ekki skal hann gangast undir próf samkvæmt b- og c-liðum 31. gr.

Sprengistjóri skal ávallt bera á sér skírteini við sprengivinnu og skal hann framvísa því þegar lögregla eða starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins óska þess.

31. gr. Námskeið og próf.

Til að fá vottorð Vinnueftirlits ríkisins um næga kunnáttu til að annast sprengivinnu þarf að fullnægja þessum skilyrðum:

  1. vera orðinn 20 ára að aldri,
  2. hafa sótt námskeið sem Vinnueftirlit ríkisins viðurkennir og staðist bóklegt próf,
  3. hafa staðist verklegt próf, sem prófdómari á vegum Vinnueftirlits ríkisins hefur lagt fyrir.

32. gr. Skyldur og ábyrgð sprengistjóra.

Sprengivinna skal ávallt vera undir stjórn og á ábyrgð sprengistjóra.

Sprengistjóri ber ábyrgð á að sprengivinna sé framkvæmd á öruggan hátt. Hann ber einnig ábyrgð á að meðferð og notkun sprengiefnis og búnaðar, sem notaður er við sprengingar, sé í samræmi við gildandi reglur, svo og að farið sé eftir leiðbeiningum framleiðanda og fyrirmælum eftirlitsmanns.

Sprengistjóra er heimilt að fela manni, sem ekki hefur réttindi til að fara með sprengiefni, einstök verkefni við undirbúning sprengingar, enda hafi hann hlotið nauðsynlega tilsögn. Eftir að hleðsla hefst og þar til skot hefur riðið af og gengið hefur verið úr skugga um að allar hleðslur hafi sprungið, skal sprengistjóri ávallt vera á sprengistað og tryggja að fyllsta öryggis sé gætt.

33. gr. Meðferð sprengiefnis á sprengistað.

Sprengiefni og hvellhettur sem teknar hafa verið úr geymslu til notkunar skulu ávallt vera undir eftirliti og þannig fyrir komið að óviðkomandi hafi ekki aðgang að þeim.

Sprengiefni og hvellhettur má ekki taka með sér inn í íbúðarhúsnæði, starfsmannarými eða vinnustað sem óviðkomandi er sprengivinnunni.

34. gr. Rafkveikibúnaður og straumleiðslur.

Einungis skal nota viðurkenndan kveiki- og mælibúnað, sbr. 1. mgr. 3. gr. Við notkun skal þess gætt að allur búnaður henti þeirri gerð og þeim fjölda hvellhettna sem notaðar eru.

Í hverri hleðslu skulu allar hvellhettur vera af sömu gerð (frá sama framleiðanda) og í sama flokki.

Koma skal í veg fyrir að leiðslur verði fyrir togkrafti svo að hætta sé á að þær dragist út úr hvellhettum.

Þegar ætla má að hætta geti verið á ótímabærri sprengingu vegna straummyndunar í leiðslum skulu notaðar hvellhettur sem þurfa aukinn straumstyrk eða kveikibúnaður sem er ekki háður rafstraumi.

Til að koma í veg fyrir ótímabæra sprengingu þegar sprengt er nálægt háspennulínum skal fylgja fjarlægðartakmörkunum í viðauka IV eða nota öryggishvellhettur sem tryggja að ekki verði ótímabær sprenging. Þess skal vandlega gætt að leiðslur og tengingar myndi hvergi samband við jörð og skulu tengingar og vírendar vandlega einangraðir í þessu skyni.

Við sprengivinnu og meðferð sprengiefnis og kveikibúnaðar skal gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir hættu af völdum radíósenda. Minnsta fjarlægð milli sprengistaðar og sendibúnaðar skal vera samkvæmt viðauka IV, en auk þess skulu gerðar eftirfarandi varúðarráðstafanir:

  1. Þess skal vandlega gætt að leiðslur og tengingar myndi hvergi leiðandi samband við jörð og skulu tengingar og leiðsluendar vandlega einangraðir í þessu skyni.
  2. Leiðslunetið skal leggja sem næst lárétt, þ.e. í jafnri hæð, á jörðu eða yfir, og eins nálægt jörðu og kostur er.
  3. Einungis má nota hvellhettur með upphaflegri og óskertri leiðslulengd. Þó er heimilt að lengja leiðslur ef nauðsyn krefur. Séu leiðslur of langar skal brjóta þær varlega saman og stinga laust niður í borholu.
  4. Við sprengivinnu nær þjóðvegi eða umferðargötu en 10 m skal ávallt nota tregar hvellhettur í 2. eða 3. flokki.

Skot- og millileiðslur má ekki leggja á veggi sem í eru rafleiðslur. Fjarlægð frá vatnsrörum, þrýstiloftsleiðslum og þvíumlíku skal vera minnst 1 m. Endar skotleiðslu skulu einangraðir þar til þeir eru tengdir hleðslutæki.

Við sprengivinnu nærri háspennulínum skal festa skot- og millileiðslur við jörð, svo að ekki sé hætta á að þær kastist yfir háspennulínuna við sprengingu.

Áður en skotleiðsla er tengd hleðslutæki skal mæla viðnám í leiðslunetinu með viðurkenndum viðnámsmæli. Við sprengivinnu þar sem vatn er í borholum eða berggrunnur leiðandi skal einnig mælt hvort leiðslunetið leiði í jörð áður en sprengt er.

Við alla tengivinnu skal þess sérstaklega gætt að óeinangraðir leiðsluendar komist ekki í snertingu við óviðkomandi hluti.

Óheimilt er að hlaða borholur og tengja hleðslur í þrumuveðri eða þegar slíku veðri er spáð.

35. gr. Kveikibúnaður sem ekki flytur rafstraum.

Við notkun púðurkveikiþráða, sundrunarþráða eða annarra kveikiþráða sem ræsa hvellhettur og ekki eru rafknúnir, skal farið eftir leiðbeiningum framleiðanda og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins.

36. gr. Borun.

Borun má einungis framkvæma af sprengistjóra eða aðstoðarmanni undir eftirliti hans. Ef borun og hleðsla fer fram samtímis skal þess gætt að hafa örugga fjarlægð á milli borunar og hleðslu, aldrei minni en 5 metra. Aldrei má bora nær hlaðinni holu en 2 metra.

Áður en sprengivinna hefst skal sprengistjóri gera áætlun um það hvernig staðið skuli að borun og hleðslu. Eftirfarandi upplýsingar skulu að jafnaði koma fram í áætluninni:

  1. Þvermál hola.
  2. Bormynstur, forsetning og holubil.
  3. Dýpt borholu og undirborun miðað við jarðvegshæð eftir sprengingu.
  4. Halli og stefna borhola.
  5. Tegund og númer hvellhettna og fjöldi í hverri holu.
  6. Tilhögun tengingar.
  7. Gerð sprengiefnis og stærð túpa.
  8. Efni í forhlaði og lengd þess.
  9. Sprengiefnanotkun á rúmmetra bergs.
  10. Byrging.
  11. Grenndarkynning.
  12. Hættumat, sbr. 38. og 39. gr.
  13. Mælingar á bylgjuhraða ef við á, sbr. 3. mgr. 38. gr.
  14. Öryggisgæsla og viðvörunarmerki.

Sprengistjóri skal ávallt hafa sprengiáætlun tiltæka á sprengistað og sýna hana eftirlitsmanni Vinnueftirlits ríkisins eða lögreglu þegar eftir því er leitað.

Sprengistjóra er heimilt að víkja frá ákvæðum 2. mgr. við námavinnslu, enda sé tryggt að hætta geti ekki stafað af sprengivinnunni.

37 gr. Byrging.

Sprengistjóri skal sjá til þess að skotsvæði sé byrgt með sprengimottum eða öðru efni á fullnægjandi hátt, þannig að grjót kastist ekki frá sprengistað.

Heimilt er að víkja frá ákvæði 1. mgr. þegar sprengt er á víðavangi og fullvíst er, að mati sprengistjóra, að grjótflug geti ekki valdið tjóni.

38. gr. Umhverfi, tjónvarnir og tjónaeftirlit.

Áður en sprengivinna hefst skal gerð úttekt á því svæði þar sem ætla má að tjón geti orðið vegna framkvæmdanna. Skoða skal byggingar og mannvirki í samráði við eigendur þeirra þannig að hægt verði að fá úr því skorið hvort tjón hafi orðið vegna sprengiframkvæmdanna eða ekki.

Þegar sprengt er nærri mannvirkjum skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir skemmdir, t.d. nota hvellhettur með tímaseinkun. Við það skal miðað að bylgjuhraði fari ekki yfir þau mörk sem tilgreind eru í viðauka VI.

Ef hætta er talin á að mannvirki geti orðið fyrir skemmdum skal sá er ábyrgð ber á sprengivinnu setja upp titringsmæla af viðurkenndri gerð í eða við þau mannvirki sem í hættu kunna að vera, í samráði við eigendur þeirra.

39. gr. Öryggisgæsla, viðvaranir og grenndarkynning.

Sprengistjóri skal fyrir skot gera ráðstafanir sem tryggja að enginn dveljist á eða ferðist um það svæði umhverfis sprengistað, þar sem ætla má að hætta skapist. Setja skal upp merkingar sem vara við hættu sé slíkt nauðsynlegt til að koma boðum til óviðkomandi. Skömmu fyrir skot skal gefið hljóðmerki til merkis um að skot sé yfirvofandi.

Þegar ætla má að sprengivinna geti valdið íbúum í nálægri byggð ónæði skal þeim gert viðvart.

40. gr. Skot.

Skot skal framkvæma strax að lokinni hleðslu, þegar nauðsynlegar öryggisráðstafanir hafa verið gerðar. Aftengja skal skothleðslu frá skothnalli strax að skoti loknu. Sprengistjóri skal ganga úr skugga um að skot hafi tekist vel og að öruggt sé að hefja vinnu á sprengistað að nýju.

Ef ætla má að hluti hleðslna hafi ekki sprungið við skot skal sprengistjóri sjá til þess að allir séu varaðir við, sem í hættu kunna að vera. Ef rafkveikjur eða nonelkveikjur springa ekki skal bíða í 10 mínútur áður en athugun á sprengisvæðinu fer fram. Hafi púðurþráður verið notaður skal biðtími vera 30 mínútur. Vakta skal sprengisvæðið þar til ósprungnum hleðslum hefur verið eytt.

41. gr. Óvenjuleg sprengivinna.

Ef um er að ræða óvenjulega sprengivinnu, svo sem sprengingar neðansjávar, sprengiformun málma, sprengingar í málmbræðsluofnum, sprengingar vegna vísindarannsókna, snjóflóðavarna, ísstíflulosunar o.s.frv., skal unnið eftir skriflegri verklýsingu þar sem meðal annars komi fram nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi starfsmanna og annarra.

IX. KAFLI Forefni til sprengiefnagerðar.

42. gr. Aðgengi, innflutningur, varsla og notkun.

Almennum borgurum er óheimilt að flytja inn, hafa í vörslum sínum, nota eða fá aðgengi að forefni sem sætir takmörkunum.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu veitt almennum borgurum leyfi til að flytja inn, hafa í vörslum sínum, nota eða fá aðgengi að forefni sem sætir takmörkunum. Skilyrði fyrir leyfisveitingu er að umsækjandi sýni fram á lögmæti fyrirhugaðrar notkunar. Óheimilt er með öllu að afhenda slík efni, nema gegn framvísun leyfisins. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu skal upplýsa lögreglustjóra og slökkviliðsstjóra, í því umdæmi sem leyfið tekur til, um útgáfu leyfisins.

Leyfi samkvæmt 2. mgr. skal vera tímabundið og að hámarki til þriggja ára. Í leyfinu skal koma fram fyrir hvaða forefni það gildir.

Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu er heimilt að fella leyfið tímabundið úr gildi eða afturkalla það þegar gildar ástæður eru til að ætla að skilyrði fyrir útgáfu leyfisins séu ekki lengur fyrir hendi.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu skal senda ríkislögreglustjóra og tollstjóra yfirlit yfir útgefin leyfi einu sinni á ári eða oftar sé þess óskað.

43. gr. Tilkynningar um grunsamleg viðskipti, hvarf og þjófnað.

Sá sem framleiðir, flytur inn, flytur út eða verslar með forefni getur áskilið sér rétt til að hafna grunsamlegum viðskiptum. Skylt er að tilkynna viðskiptin, eða tilraun til slíkra viðskipta, þar á meðal grunsamlegar fyrirspurnir, án óþarfa tafa, þ.m.t., ef mögulegt er, upplýsingar um deili á viðskiptamanninum, til ríkislögreglustjóra. Aðeins er skylt að tilkynna ef gildar ástæður eru til að ætla að fyrirhuguð viðskipti með eitt eða fleiri forefni séu grunsamleg viðskipti með hliðsjón af öllum aðstæðum og einkum þegar tilvonandi viðskiptamaður:

  1. virðist óskýr varðandi fyrirhugaða notkun efnisins eða blöndunnar,
  2. virðist ekki vita hver fyrirhuguð notkun efnisins eða blöndunnar er eða getur ekki útskýrt það þannig að trúanlegt sé,
  3. hyggst kaupa efni í magni, að samsetningu eða styrkleika sem er ekki algengt til einkanota,
  4. er ekki viljugur til að sýna fram á hver hann er eða hvar hann býr eða
  5. fer fram á að greiða með óvenjulegum hætti, þ.m.t. háar fjárhæðir í reiðufé.

Skylt er að tilkynna um hvarf eða þjófnað á sprengiefni eða forefnum til lögreglu.

44. gr. Ný forefni.

Nú telur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, að höfðu samráði við ríkislögreglustjóra, rökstuddan grun um að mögulegt sé að nota tiltekið forefni sem sætir takmörkunum, í styrkleika sem er sá sami eða undir viðmiðunarmörkum, við ólöglega framleiðslu sprengiefna, og er þá lögreglustjóra heimilt að ákveða tímabundið að það efni flokkist sem forefni sem sætir takmörkunum. Ráðuneytið tekur í kjölfarið ákvörðun um hvort uppfæra skuli efnalista í viðauka VIII eða IX.

45. gr. Ný styrkleikaviðmið efna.

Nú telur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, að höfðu samráði við ríkislögreglustjóra, rökstuddan grun um að mögulegt sé að nota tiltekið forefni sem sætir takmörkunum í styrkleika sem er sá sami eða undir viðmiðunarmörkum við ólöglega framleiðslu sprengiefna og er þá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu heimilt að ákveða tímbundið að það efni flokkist sem forefni sem sætir takmörkunum. Ráðuneytið tekur í kjölfarið ákvörðun um hvort uppfæra skuli styrkleikaviðmið í viðauka VIII.

46. gr. Geymsla.

Geyma skal forefni sem sæta takmörkunum með þeim hætti að óviðkomandi komist ekki í þau. Vörsluaðili skal sjá til þess að slík efni séu ávallt geymd í læstu rými.

X. KAFLI Ýmis ákvæði.

47. gr. Refsingar.

Brot á reglum þessum varða sektum eða fangelsi allt að fjórum árum nema þyngri refsing liggi við lögum samkvæmt.

48. gr. Eignaupptaka.

Gera má upptækt til ríkissjóðs sprengiefni sem flutt hefur verið til landsins eða framleitt hér á landi án heimildar. Með sama hætti er heimilt að gera upptækt sprengiefni sem finnst vörslulaust eða í vörslu manns án heimildar samkvæmt lögum eða reglugerð þessari.

Að öðru leyti skal fara um eignaupptöku samkvæmt ákvæðum 69. gr. almennra hegningarlaga.

49. gr. Afturköllun leyfa.

Leyfi samkvæmt reglugerð þessari getur leyfisveitandi afturkallað ef eigi teljast lengur vera fyrir hendi nauðsynleg skilyrði fyrir leyfinu, ef leyfishafi hefur eigi farið eftir settum fyrirmælum eða ætla má að leyfishafi muni fara óforsvaranlega með efni eða tæki sem leyfið tekur til.

Þegar um er að ræða leyfi til notkunar og meðferðar á sprengiefni skal lögreglustjóri í því umdæmi þar sem leyfishafi á lögheimili taka ákvörðun um leyfissviptingu, án tillits til þess hvar leyfið var upphaflega gefið út. Tilkynna skal tollstjóra um afturköllun leyfis.

Leyfisveitanda er heimilt að afturkalla leyfi til bráðabirgða án þess að með mál sé farið samkvæmt reglum stjórnsýslulaga enda sé hætta á tjóni fyrir menn eða muni. Eftir að afturköllun til bráðabirgða hefur farið fram skal leyfisveitandi við endanlega ákvörðun fara eftir reglum stjórnsýslulaga.

50. gr. Innleiðing.

Með reglugerð þessari eru innleiddar og öðlast gildi hér á landi eftirtalin gerð, ákvörðun og reglugerð:

  1. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/28/ESB frá 26. febrúar 2014 um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða sprengiefni til almennra nota fram á markaði og um eftirlit með þeim (endurútgefin). Vísað er til tilskipunarinnar í II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 187/2016, þann 23. september 2016. Tilskipunin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 57, 13. október 2016, bls. 17-61.
  2. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2010/347/ESB frá 19. júní 2010 um breytingu á ákvörðun 2004/388/EB varðandi skjal um flutning á sprengiefnum innan Bandalagsins, sem birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 56, 10. október 2013, bls. 667.
  3. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 98/2013 frá 15. janúar 2013 um markaðssetningu og notkun forefna sprengiefna. Vísað er til reglugerðarinnar í II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2014, þann 12. desember 2014. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 8, 5. febrúar 2015, bls. 536-546.

51. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 27. gr. d., 2. mgr. 28. gr. og 40. gr. vopnalaga nr. 16/1998, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um sprengiefni nr. 684/1999 með síðari breytingum.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.