Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 20. apríl 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 1. jan. 2024

500/2020

Reglugerð um Happdrætti Háskóla Íslands.

1. gr.

Happdrætti Háskóla Íslands er sjálfstæð stofnun í eigu Háskóla Íslands. Heimili þess, aðalskrifstofa og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.

Ágóða af rekstri happdrættisins skal varið til að reisa byggingar á vegum Háskóla Íslands. Enn fremur er heimilt að verja honum til greiðslu kostnaðar af viðhaldi háskólabygginganna, til fegrunar á háskólalóðinni, til þess að koma á fót og efla rannsóknarstofur við hin ýmsu svið háskólans, svo og til að greiða andvirði rannsóknar- og kennslutækja sem háskólinn telur sér nauðsyn að eignast.

Af nettóársarði happdrættisins greiðast í ríkissjóð 20% í leyfisgjald, þó ekki hærri fjárhæð en 150.000.000 kr. Rennur féð í Innviðasjóð Rannsóknamiðstöðvar Íslands, sbr. 6. gr. a laga nr. 3/2003.

3. gr.

Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands er í höndum þriggja manna sem háskólaráð kýs í lok hvers árs fyrir næsta ár á eftir. Stjórnin kýs sjálf formann sinn og skiptir á annan hátt störfum sín á milli. Stjórnin heldur fundi eftir því sem þörf krefur og eru þeir lögmætir ef meiri hluti hennar er á fundi. Ályktanir stjórnarinnar eru lögmætar ef meiri hluti stjórnar er þeim samþykkur. Bókfæra skal gerðir funda og drög að fundargerð send stjórnarmönnum eigi síðar en 5 dögum eftir stjórnarfund. Fundargerð skal borin upp til samþykktar og undirrituð í upphafi næsta fundar. Þóknun stjórnarmanna ákveður háskólaráð.

4. gr.

Stjórn happdrættisins ræður sér til aðstoðar framkvæmdastjóra og annað starfslið eftir því sem þörf er á.

5. gr.

Til þess að skuldbinda happdrættið þarf undirskrift formanns stjórnar og framkvæmdastjóra.

6. gr.

Háskólaráð kýs árlega tvo endurskoðendur til þess að endurskoða reikninga happdrættisins. Þóknun þeirra er ákveðin af háskólaráði. Reikningsár happdrættisins er almanaksárið.

7. gr.

Dómsmálaráðherra skipar þrjá menn í happdrættisráð til þriggja ára í senn, auk eins varamanns til sama tíma. Ráðherra skipar formann happdrættisráðsins. Það heldur fundi eftir því sem þörf krefur og eru þeir lögmætir ef meiri hluti ráðsmanna er viðstaddur. Ályktanir happdrættisráðsins eru lögmætar ef meiri hluti þess er þeim samþykkur. Bókfæra skal gerðir funda og fundargerð lesin og undirrituð í lok hvers fundar. Dómsmálaráðuneytið ákveður þóknun happdrættisráðs. Þóknun og annar kostnaður vegna happdrættisráðs greiðist af happdrættinu.

8. gr.

Stjórn happdrættisins skal, þegar ársreikningar eru tilbúnir og endurskoðaðir, senda happdrættisráði þá til athugunar, og skal jafnframt gefa því skýrslu um starfsemi happdrættisins á síðastliðnu reikningsári. Happdrættisráð hefur hvenær sem er aðgang að bókum og skjölum happdrættisins og eru stjórn og starfsmenn skyldir að veita því þá vitneskju um starfsemina er þeir geta veitt og það óskar að fá. Verði happdrættisráð þess vart að ákvæði laga um happdrættið eða reglugerðar þessarar séu brotin skal það þegar í stað tilkynna það dómsmálaráðuneytinu. Happdrættisráð hefur eftirlit með og úrskurðarvald um útdrætti svo sem síðar segir.

9. gr.

Happdrættið rekur flokkahappdrætti er skiptist í 12 flokka á ári hverju. Mánaðarlega er dreginn út ákveðinn fjöldi hluta úr safni sem telur að hámarki 60.000 hluti og ræður hlutkesti valinu. Hver hlutur sem dreginn er út veitir rétt til peningavinnings að uppfylltum skilyrðum 1. mgr. 10. gr.

Sá sem hyggst taka þátt kaupir hlutamiða sem veitir vinningsvon í útdrætti þess mánaðar sem miðinn er gildur í. Hlutamiðar eru auðkenndir með númeri viðkomandi hluta en gefnir eru út fjórir flokkar af hlutamiðum, svonefndar raðir, merktar bókstöfunum E, F, G og H. Að auki er gefin út sérstök röð, merkt bókstafnum B, sem hefur fimmfalt gildi á við hinar raðirnar, bæði að því er varðar endurnýjunarverð, sbr. 11. gr., sem og fjárhæð vinninga í aðalútdrætti og vinningslíkur í öðrum útdráttum, sbr. 19. gr. Hlutamiðar í þeirri röð nefnast trompmiðar.

10. gr.

Hver hlutamiði gildir einungis í útdrætti þess mánaðar sem hann er gefinn út í og einungis ef full greiðsla fyrir hann hefur borist happdrættinu fyrir þann útdrátt og ber greiðandi einn ábyrgð á að slík greiðsla berist. Að öðrum kosti telst hlutamiðinn óseldur og veitir ekki rétt til vinnings þó að vinningur falli á númer hlutamiðans.

Heimilt er að selja einstaka hlutamiða en einnig er heimilt að gera samkomulag, hvort sem er á skrifstofum umboðsmanna eða hjá skrifstofu happdrættisins, svo sem símleiðis eða á vefsíðu þess, um reglubundin kaup á hlutamiðum gegn greiðslum svo sem með skuldfærslum af greiðslukorti eða millifærslum af bankareikningi. Slíkt samkomulag veitir rétt til sjálfvirkra kaupa á hlutamiðum, með tilteknu númeri og röð, í sérhverjum mánaðarlegum útdrætti þar sem skuldfærsla tekst fyrir útdrátt, þar til samkomulaginu hefur verið sagt upp í samræmi við 4. mgr. eða það fellur niður samkvæmt 4. málsl. 2. mgr. Sé skuldfærslu fyrir hlutamiða hafnað af fjármálafyrirtæki greiðanda fyrir útdrátt telst sá hlutamiði óseldur en samkomulagið heldur gildi sínu og verður skuldfærsla því reynd að nýju fyrir næsta útdrátt. Sé slíkri skuldfærslu hins vegar hafnað fyrir fjóra mánaðarlega útdrætti í röð telst viðkomandi samkomulagi þar með hafa verið sagt upp án frekari fyrirvara. Happdrættinu og umboðsmönnum þess er óheimilt að lána greiðendum fyrir kaupum á hlutamiðum.

Hlutamiðar eru einungis gefnir út rafrænt í afgreiðslukerfi happdrættisins en ekki á pappírsformi. Eigandi hlutamiða og þeirra vinninga sem falla á hann er sá sem skráður er eigandi hans í afgreiðslukerfinu á því tímamarki þegar fram fer útdráttur í þeim mánuði sem hlutamiðinn er gildur í, að uppfylltum skilyrðum 1. mgr.

Eigandi hefur rétt til nægilegs aðgangs að afgreiðslukerfinu, svo sem um vefsíðu happdrættisins, til að fá þar yfirsýn yfir miðaeign sína og tækifæri til að skrá þar samskiptaupplýsingar sínar og upplýsingar um greiðslufyrirkomulag, sé hann eða gerist hann greiðandi. Þá skal eigandi eiga kost á að nýta aðgang sinn að afgreiðslukerfinu til að framselja eignarrétt sinn að þeim hlutamiðum sem keyptir verða samkvæmt samkomulagi hans við happdrættið, með því að tilnefna annan eiganda en sjálfan sig. Loks skal eigandi geta gert samkomulag í afgreiðslukerfinu, eða sagt því upp, um kaup á hlutamiðum, en einnig má segja upp slíku samkomulagi á skrifstofu umboðsmanns eða happdrættisins gegn framvísun skilríkja.

Happdrættinu er heimilt að sannreyna veittar upplýsingar, svo sem í þjóðskrá, símaskrá og hjá fjármálafyrirtæki reikningseiganda, en eigandi ber allt að einu sjálfur ábyrgð á að halda skráðum upplýsingum rétt uppfærðum.

Að uppfylltum skilyrðum 1. mgr. skal happdrættið greiða út þann vinning sem fellur í útdrættinum á það númer og í þeirri röð sem hlutamiðinn var gefinn út í en vinninga sem falla á óselda miða skal ekki greiða út.

11. gr.

Verð hlutamiða er 2.000 kr. í hverjum mánaðarlegum útdrætti.

Umboðsmenn happdrættisins mega ekki selja hlutamiða þessa öðru verði en hér er sagt, né heldur taka við ágóðahluta né annarri þóknun af vinningum, sem falla á þá hlutamiða sem þeir hafa selt.

12. gr.

Enginn má selja hlutamiða happdrættisins nema happdrættið sjálft og umboðsmenn þess og er öll önnur verslun með miðana bönnuð.

13. gr.

Eigandi hlutamiða á kost á því að kaupa hlutamiða með sama númeri og í sömu röð í hverjum sem er af næstu fjórum útdráttum eftir að hlutamiðinn var keyptur. Geri hann það ekki er happdrættinu heimilt að bjóða öðrum að kaupa hlutamiða á því númeri og í þeirri röð. Segi hins vegar sá sem gert hefur samkomulag skv. 2. mgr. 10. gr. um reglubundin kaup á hlutamiðum upp slíku samkomulagi fellur réttur hans þar með niður til að kaupa hlutamiða með viðkomandi númeri og röð.

14. gr.

Vinningar í happdrættinu skulu eigi vera færri en svo, að að minnsta kosti fjórði hver miði hljóti vinning árlega að meðaltali, og skal fjárhæð vinninga nema að minnsta kosti 70% af iðgjöldum samantöldum í öllum 12 mánaðarlegum útdráttum happdrættisársins.

Stjórn happdrættisins ákveður, að fengnu samþykki happdrættisráðs, vinningatölu og verðmæti vinninga.

15. gr.

Útdrættir fara fram 10. hvers mánaðar. Ekki skal þó dregið á laugardögum, helgidögum eða öðrum almennum frídögum, né heldur fyrsta virkan dag eftir almennan frídag. Fer útdráttur þá fram næsta virkan dag þar á eftir. Happdrættisráð getur veitt undanþágu frá þessari grein ef því þykir ástæða til.

16. gr.

Útdráttur vinninga fer fram opinberlega í Reykjavík þar sem happdrættisráð samþykkir.

Útdráttur fer fram undir eftirliti happdrættisráðs og að viðstöddum fulltrúum happdrættisins.

17. gr.

Við útdrátt vinninga skal nota eftirfarandi gögn og tæki:

  1. Tölvur, ásamt jaðartækjum, sem samþykktar eru af happdrættisráði og stjórnað af starfsmönnum Happdrættis Háskóla Íslands.
  2. Útdráttarforrit, sérstaklega gert fyrir Happdrætti Háskóla Íslands, sem varðveitt er á tölvutæku formi.
  3. Stokk sem m.a. er notaður til útdráttar á lykiltölum fyrir útdráttarforrit og einnig til útdráttar á einstökum númerum. Stokkurinn skal vera með átta hólfum og í hverju hólfi skal vera reglulegur tvítugflötungur, en á hvern flöt hans skal skráð ein talnanna frá 0 til 9, þannig að sérhver tala er á tveimur flötum.

18. gr.

Útdráttarforrit skal gert samkvæmt viðurkenndum aðferðum. Útdráttarforrit skal þannig gert, að í aðalútdrætti er fyrst dreginn út hæsti (hæstu) vinningur, síðan næsthæsti (næsthæstu) o.s.frv. Happdrættisráð fær tvo sérfróða menn til að yfirfara útdráttarforritið í upphafi, svo og í hvert sinn sem breytingar eru gerðar á því, eða þegar beiðni kemur um nýja útdráttartölvu. Skulu hinir sérfróðu menn leggja skriflega greinargerð um gerð forritsins fyrir happdrættisráðið, sem síðan staðfestir það.

Tölva með útdráttarforriti, sem sérstaklega er gert fyrir Happdrætti Háskóla Íslands, skal varðveitt milli útdrátta með öruggum hætti undir innsigli happdrættisráðs.

19. gr.

Dregið er einu sinni í mánuði í happdrættinu með eftirfarandi hætti:

Í upphafi útdráttar skal taka út annars vegar skrá seldra hlutamiða úr afgreiðslukerfi Happdrættis Háskóla Íslands. Sú skrá er eingöngu notuð í mánaðarlegum útdráttum stakra milljónavinninga og í útdrætti veltupotts ("Milljónaveltu") í desember. Skráin skal innihalda auðkenni allra seldra hlutamiða í viðkomandi útdrætti (númer ásamt bókstöfunum B, E, F, G og H). Númer og röð hvers selds trompmiða skal koma fram fimm sinnum í skránni. Hins vegar skal taka út skrá allra hlutamiða úr afgreiðslukerfi happdrættisins, sem inniheldur auðkenni þeirra allra (númer ásamt bókstöfunum B, E, F, G og H). Númer og röð hvers trompmiða skal koma fram fimm sinnum í skránni. Sú skrá er eingöngu notuð í mánaðarlegum útdráttum veltupotts ("Milljónaveltu") í janúar - nóvember. Skrárnar eru færðar á minnislykil sem tengdur er við tölvu með útdráttarforriti, sbr. 2. mgr. 18. gr.

  1. Aðalútdráttur - almenni hlutinn:

    1. Útdráttur hæstu vinninga í almenna hlutanum:
      Vinningsnúmer vegna hæstu vinninga í hverjum mánaðarlegum útdrætti eru dregin út með notkun átta hólfa stokksins. Númerin skulu vera á bilinu 1-60.000. Stokkurinn skal ávallt vera staðsettur þannig að snúningshnúður sé til hægri handar þess sem snýr honum. Tölur sem koma fram í fyrstu fimm hólfum stokksins sem eru fjærst snúningshnúð mynda miðanúmerið. Lesið skal frá þeim enda stokksins sem fjær er snúningshnúð frá vinstri til hægri. Útdregið vinningsnúmer er því aðeins gilt að það sé á bilinu 1-60.000. Númerið verður hluti af vinningaskrá.
    2. Útdráttur annarra vinninga en hinna hæstu í almenna hlutanum fer fram með tvennum hætti:

      1. Með notkun tölvu:

        1. Tölvan með útdráttarforriti er tekin undan innsigli af happdrættisráði og hún tengd við prentara og ræst.
        2. Útdráttarforrit í tölvu er ræst og minnislykill tengdur við tölvu. Minnislykillinn hefur að geyma gögn sem notuð eru fyrir aðra útdrætti en aðalútdrátt.
        3. Athugað hvort réttur útdráttur sé sjálfkrafa valinn, en tölvan stillir af útdrátt miðað við dagsetningu á tölvu.
        4. Vinningsnúmer fyrir útdrátt hæstu vinninga í almenna hlutanum er slegið inn í forritið.
        5. Valin er 48 stafa lykiltala. Fer valið fram með notkun átta hólfa stokksins og er sú átta stafa tala sem fram kemur hverju sinni skráð. Aðgerðin er endurtekin sex sinnum, þar til fyrir liggur 48 stafa tala. Stokkurinn skal ávallt vera staðsettur þannig að snúningshnúður sé til hægri handar þess sem snýr honum. Lesa skal tölurnar sem upp koma á stokknum frá vinstri til hægri.
        6. Lykiltalan er slegin inn í útdráttarforrit happdrættisins fyrir aðalútdráttinn.
      2. Með notkun stokks:
        Valdar eru tvær tveggja stafa tölur - endatöluvinningar. Valið fer fram með notkun átta hólfa stokks. Stokkurinn skal ávallt vera staðsettur þannig að snúningshnúður sé til hægri handar þess sem snýr honum. Síðustu tveir stafir í talnaröðinni sem kemur fram skulu skráðir, þ.e. tölur næst snúningshnúð lesnar frá vinstri til hægri. Valið er endurtekið þar til fengist hafa tvær tveggja stafa endatölur. Tölurnar verða hluti af vinningaskrá, en þær vísa til síðustu tveggja tölustafa í hverju miðanúmeri. Þau miðanúmer sem þannig er vísað til eru vinningsnúmer.
    3. Tveggja stafa tölurnar (endatölurnar) sem dregnar voru með hjálp stokksins eru slegnar inn í útdráttarforritið. Tölvan dregur og prentar út heildarvinningaskrá sem happdrættisráð staðfestir með undirskrift sinni.
  2. Útdráttur stakra milljónavinninga:
    Með notkun tölvu einungis úr seldum hlutamiðum.

    1. Valin er 48 stafa lykiltala. Fer valið fram með notkun átta hólfa stokksins og er sú átta stafa tala sem fram kemur hverju sinni skráð. Aðgerðin er endurtekin sex sinnum, þar til fyrir liggur 48 stafa tala. Stokkurinn skal ávallt vera staðsettur þannig að snúningshnúður sé til hægri handar þess sem snýr honum. Lesa skal tölurnar sem upp koma á stokknum frá vinstri til hægri.
    2. Útdráttur "Milljón á mann" er valinn í útdráttarforriti. Útdráttarforritið skal hannað til að draga út númer og röð hlutamiða úr skrá seldra hlutamiða (númer ásamt bókstöfunum B, E, F, G eða H). Númer og röð hvers selds trompmiða (B) skal hafa verið skráð fimm sinnum í skrána þar eð trompmiði hefur sama gildi og fimm einfaldir hlutamiðar.
    3. Forritið er þannig gert að það dregur einungis úr seldum hlutamiðum og notar til þess skrá seldra hlutamiða úr afgreiðslukerfi happdrættisins, sem færð hefur verið á minnislykil sem tengdur er við tölvuna.
    4. Lykiltalan er slegin inn og útdráttur framkvæmdur.
    5. Tölvan dregur og prentar út vinningaskrá sem happdrættisráð staðfestir með undirskrift sinni. Í hvert sinn sem trompmiði er dreginn út úr skránni hlýtur eigandi hans sömu fjárhæð og eigendur útdreginna einfaldra hlutamiða. Í útdrætti er mögulegt að fleiri en einn vinningur falli á sama trompmiðann.
  3. Útdráttur 10 milljóna króna veltupotts ("Milljónaveltu") í janúar - nóvember:
    Með notkun tölvu úr öllum hlutamiðum.

    1. Valin er 48 stafa lykiltala. Fer valið fram með notkun átta hólfa stokksins og er sú átta stafa tala sem fram kemur hverju sinni skráð. Aðgerðin er endurtekin sex sinnum, þar til fyrir liggur 48 stafa tala. Stokkurinn skal ávallt vera staðsettur þannig að snúningshnúður sé til hægri handar þess sem snýr honum. Lesa skal tölurnar sem upp koma á stokknum frá vinstri til hægri.
    2. Útdráttur "Milljónaveltan" er valinn í útdráttarforriti. Útdráttarforritið skal hannað til að draga út númer og röð hlutamiða úr skrá allra hlutamiða (númer ásamt bókstöfunum B, E, F, G eða H). Númer og röð hvers trompmiða (B) skal hafa verið skráð fimm sinnum í skrána þar eð trompmiði hefur sama gildi og fimm einfaldir hlutamiðar.
    3. Forritið er þannig gert að það dregur úr öllum hlutamiðum og notar til þess skrá úr afgreiðslukerfi happdrættisins, sem færð hefur verið á minnislykil sem tengdur er við tölvuna.
    4. Lykiltalan er slegin inn og útdráttur framkvæmdur.
    5. Tölvan dregur og prentar út vinningaskrá sem happdrættisráð staðfestir með undirskrift sinni. Ef trompmiði er dreginn út úr skránni hlýtur eigandi hans sömu fjárhæð og eigendur einfaldra hlutamiða.
    6. Ef vinningur fellur á óseldan miða bætist vinningsupphæðin við vinningsupphæð veltupotts næsta mánaðar.
  4. Útdráttur 10 milljóna króna veltupotts ("Milljónaveltu") í desember:
    Með notkun tölvu einungis úr seldum hlutamiðum.

    1. Valin er 48 stafa lykiltala. Fer valið fram með notkun átta hólfa stokksins og er sú átta stafa tala sem fram kemur hverju sinni skráð. Aðgerðin er endurtekin sex sinnum þar til fyrir liggur 48 stafa tala. Stokkurinn skal ávallt vera staðsettur þannig að snúningshnúður sé til hægri handar þess sem snýr honum. Lesa skal tölurnar sem upp koma á stokknum frá vinstri til hægri.
    2. Útdráttur "Milljónaveltan" er valinn í útdráttarforriti. Útdráttarforritið skal hannað til að draga út númer og röð hlutamiða úr skrá seldra hlutamiða (númer ásamt bókstöfunum B, E, F, G eða H). Númer og röð hvers selds trompmiða (B) skal hafa verið skráð fimm sinnum í skrána þar eð trompmiði hefur sama gildi og fimm einfaldir hlutamiðar.
    3. Forritið er þannig gert að það dregur einungis úr seldum hlutamiðum og notar til þess skrá seldra hlutamiða úr afgreiðslukerfi happdrættisins, sem færð hefur verið á minnislykil sem tengdur er við tölvuna.
    4. Lykiltalan er slegin inn og útdráttur framkvæmdur.
    5. Tölvan dregur og prentar út vinningaskrá sem happdrættisráð staðfestir með undirskrift sinni. Ef trompmiði er dreginn út úr skránni hlýtur eigandi hans sömu fjárhæð og eigendur einfaldra hlutamiða.
  5. Tölva með útdráttarforriti er sett í tösku sem innsigluð er af happdrættisráðinu.

Happdrættisráð ritar skýrslu um framkvæmd útdráttar í samræmi við reglugerð þessa, þ. á m. hverjir voru viðstaddir útdrátt, dagsetningu og tímasetningu hans og hverjar lykiltölur voru valdar við framkvæmd útdráttarins.

20. gr.

Bili tölvan eða útdráttur stöðvast af öðrum óviðráðanlegum ástæðum tekur happdrættisráð öll gögn vegna útdráttarins til varðveislu. Þessi sömu gögn, þ. á m. lykiltölur, skulu notuð við endurtekningu útdráttarins.

21. gr.

Ef ágreiningur rís um lögmæti eða gildi útdráttar meðan útdráttur fer fram eða eftir að honum er lokið skal skjóta honum til happdrættisráðs, sem leggur fullnaðarúrskurð á ágreininginn.

22. gr.

Að loknum útdrætti birtir happdrættið vinningaskrána opinberlega, þar sem fram kemur hvaða hlutamiðar hafa hlotið vinninga og hve háa. Verði misræmi milli vinningaskrár staðfestri af happdrættisráði og þeirri sem happdrættið birtir gildir sú fyrrnefnda.

23. gr.

Vinning skal greiða út með millifærslu á bankareikning vinningshafa, þ.e. eiganda þess hlutamiða sem vinningurinn féll á.

Vinningur verður ekki greiddur út fyrr en eigandi hans hefur sjálfur eða með aðstoð happdrættisins eða umboðsmanns skráð inn í afgreiðslukerfið upplýsingar um bankareikning á nafni vinningshafa. Að þeirri skráningu lokinni skal vinningurinn greiddur inn á reikninginn, innan fimm virkra daga, og verður með þeirri innborgun ekki um frekari skyldu til greiðslu að ræða af hálfu happdrættisins, þó að aðrir kynnu síðar að sanna betri rétt til vinningsins.

Falli vinningur á hlutamiðasem nemur minnst þeirri fjárhæð sem ákvæði lögræðislaga áskilja, sbr. nú 4. mgr. 63. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, og eigandi hans er ekki fullra 18 ára, skal happdrættið tilkynna yfirlögráðanda, í því umdæmi þar sem eigandi á lögheimili, um vinninginn.

Ef mótmæli koma fram gegn greiðslu vinnings, áður en greiðsla vinninga hefst samkvæmt vinningaskránni, skal happdrættið leggja vinninginn inn á bankareikning og afhenda síðan með áföllnum vöxtum þeim sem með dómi eða á annan hátt sannar eignarrétt sinn á vinningnum. Ef aðilar hafa ekki, innan þriggja mánaða frá því að mótmæli komu fram, komið sér saman um greiðslu vinningsins, greiðir happdrættið þeim sem er skráður eigandi hlutamiðans í afgreiðslukerfinu vinninginn með áföllnum vöxtum, nema sannað sé fyrir stjórn happdrættisins að mál sé þingfest um eignarrétt vinningsins. Við greiðslu vinningsins verður ekki um frekari skyldu til greiðslu að ræða af hálfu happdrættisins.

24. gr.

Umboðsmönnum er óheimilt að svara fyrirspurnum, hvort heldur er frá almannastofnun eða öðrum, um eigendur vinninga í happdrættinu og skal beina öllum slíkum fyrirspurnum til stjórnar happdrættisins.

25. gr.

Ef vinnings er ekki vitjað áður en fjögur ár eru liðin frá þeim útdrætti sem vinningurinn féll í fyrnist hann og verður eign happdrættisins.

Komi í ljós að vinningur hefur verið greiddur út til annars en rétts vinningshafa á happdrættið, óháð því hvað olli, rétt til að krefja þann sem ranglega þáði vinninginn um endurgreiðslu hans.

Happdrættið ber ekki fjárhagslega ábyrgð á mistökum, villum, bilunum, tölvuárásum eða öðru sem kann að valda röskunum við framkvæmd útdráttar. Verði útdráttur felldur niður eiga eigendur einungis rétt til endurgreiðslu greidds endurgjalds fyrir hlutamiða sína.

26. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 348/1976, með síðari breytingum.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.