Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

49/2002

Reglugerð um starfsstig innan lögreglunnar. - Brottfallin

1. gr.
Gildissvið og markmið.

Reglugerð þessi gildir um störf þeirra starfsmanna lögreglu sem fara með lögregluvald hjá lögregluembættum landsins.

Markmið reglugerðarinnar er að skilgreina verksvið og ábyrgð innan lögreglunnar út frá mismunandi starfsstigum og samræma skipulag lögregluliða.


2. gr.
Starfsstig innan lögreglunnar.

Innan lögreglu eru 9 starfsstig og eru þau eftirfarandi:

1. Ríkislögreglustjóri.
2. Vararíkislögreglustjóri, lögreglustjórar og skólastjóri Lögregluskóla ríkisins.
3. Varalögreglustjóri í Reykjavík og staðgenglar lögreglustjóra.
4. Yfirlögregluþjónar.
5. Aðstoðaryfirlögregluþjónar.
6. Aðalvarðstjórar/lögreglufulltrúar.
7. Varðstjórar/rannsóknarlögreglumenn.
8. Lögreglumenn.
9. Lögreglunemar, afleysingamenn í lögreglu og héraðslögreglumenn.

Í skipunarbréfi til lögreglumanns í starfsstigi 6 og 7 skal geta starfsstigs hans. Lögreglumaður skal nota starfsheitið aðalvarðstjóri eða lögreglufulltrúi og starfsheitið varðstjóri eða rannsóknarlögreglumaður, í samræmi við þá stöðu og þau verkefni sem honum eru falin hverju sinni, samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra.

Um verkefni og ábyrgð, sem hverju starfsstigi fylgja, fer samkvæmt lögreglulögum, reglum þessum og nánari fyrirmælum lögreglustjóra.


3. gr.
Ríkislögreglustjóri.

Ríkislögreglustjóri fer með málefni lögreglunnar í landinu í umboði dómsmálaráðherra samkvæmt ákvæðum lögreglulaga þar sem hlutverki hans er nánar lýst.


4. gr.
Vararíkislögreglustjóri, lögreglustjórar
og skólastjóri Lögregluskóla ríkisins.

Vararíkislögreglustjóri er ríkislögreglustjóra til aðstoðar og er staðgengill hans samkvæmt ákvæðum lögreglulaga.

Verksvið og ábyrgð lögreglustjóra er eftirfarandi:

1. Stjórn lögregluliðs viðkomandi umdæmis og ábyrgð á framkvæmd lögreglustarfa innan þess samkvæmt ákvæðum lögreglulaga.
2. Fagleg og fjárhagsleg ábyrgð á lögregluliðinu. Í fjárhagslegri ábyrgð felst að embætti sé rekið innan fjárheimilda, ábyrgð á áætlanagerð og ábyrgð á öllum ákvörðunum, sem fela í sér ráðstafanir á fjárheimildum embættis.
3. Ábyrgð á markmiðssetningu embættisins.
4. Samskipti við ráðuneyti, stofnanir og fyrirtæki og kemur lögreglustjóri fram fyrir hönd síns embættis, nema hann feli öðrum þessi samskipti.
5. Ákæruvald í umboði ríkissaksóknara, yfirstjórn lögreglurannsókna við embættin og flutningur opinberra mála fyrir héraðsdómi samkvæmt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála.
6. Eftirlit með útlendingum.
7. Yfirstjórn leitar- og björgunaraðgerða á landi samkvæmt ákvæðum lögreglulaga.
8. Yfirstjórn almannavarna í umdæminu samkvæmt ákvæðum laga um almannavarnir.
9. Önnur verkefni sem honum eru falin lögum samkvæmt.

Skólastjóri Lögregluskóla ríkisins fer með yfirstjórn skólans. Verksvið hans og ábyrgð skal vera samkvæmt því sem kveðið er á um í lögreglulögum og reglugerð um Lögregluskóla ríkisins, þ.m.t. uppbygging og framkvæmd grunnmenntunar lögreglumanna og framhaldsmenntunar í skólanum. Að öðru leyti er verksvið hans og ábyrgð hin sama og lögreglustjóra eftir því sem við getur átt.


5. gr.
Varalögreglustjóri í Reykjavík og staðgenglar annarra lögreglustjóra.

Varalögreglustjóri í Reykjavík er lögreglustjóra til aðstoðar og er staðgengill hans.

Við embætti þar sem fleiri en einn löglærður fulltrúi starfa skal lögreglustjóri ákveða hver er staðgengill hans.


6. gr.
Yfirlögregluþjónar.

Verksvið og ábyrgð yfirlögregluþjóns er eftirfarandi:

1. Dagleg stjórn lögregluliðs í umboði lögreglustjóra.
2. Þátttaka í áætlanagerð, skipulagningu og markmiðssetningu embættisins.
3. Eftirlit með því að reglum og fyrirmælum sé framfylgt og að fjárhagslegur rekstur lögregluliðs, deilda eða eininga sé innan fjárheimilda.
4. Eftirlit með því að vinna lögreglumanna uppfylli að öllu leyti kröfur um fagleg vinnubrögð.
5. Eftirlit með því að þeir sem undir hann heyra færi málaskrá og dagbók lögreglu samkvæmt reglum og fyrirmælum.
6. Stjórn og ábyrgð á tilteknum verkefnum sem honum eru falin og krefjast sérstakrar þekkingar, þjálfunar og/eða menntunar, þ.m.t. rannsókn mála og aðstoð við saksókn.

7. gr.
Aðstoðaryfirlögregluþjónar.

Verksvið og ábyrgð aðstoðaryfirlögregluþjóns er eftirfarandi:

1. Hann er yfirlögregluþjóni til aðstoðar og er jafnframt staðgengill hans. Þegar fleiri en einn aðstoðaryfirlögregluþjónn eru við embætti skal lögreglustjóri ákveða hver þeirra skuli vera staðgengill yfirlögregluþjóns hverju sinni.
2. Stjórn og ábyrgð á deildum svo og tilteknum verkefnum sem honum eru falin og krefjast sérstakrar þekkingar, þjálfunar og/eða menntunar, þ.m.t. rannsókn mála og aðstoð við saksókn.
3. Eftirlit með að reglum og fyrirmælum sé framfylgt og að fjárhagslegur rekstur deilda eða eininga sé innan fjárheimilda.

8. gr.
Aðalvarðstjórar/lögreglufulltrúar.
1. Verksvið og ábyrgð aðalvarðstjóra er í meginatriðum eftirfarandi:
a. Löggæslustörf, þ.m.t. rannsóknir mála þar sem það á við.
b. Dagleg stjórn lögregluliðs við embætti þar sem ekki er yfirlögregluþjónn.
c. Vaktstjórn samkvæmt varðskrá almennrar deildar í lögregluliði með fleiri en 35 lögreglumenn.
d. Eftirlit með því að reglum og fyrirmælum sé fylgt og að fjárhagslegur rekstur lögregluliðs eða vaktar undir hans stjórn, eða einstakra verkefna, sé innan fjárheimilda.
2. Verksvið og ábyrgð lögreglufulltrúa er í meginatriðum eftirfarandi:
a. Stjórn rannsóknardeildar þar sem ekki er aðstoðaryfirlögregluþjónn og stjórn einstakra undirdeilda eða verkefna í lögregluliðum með fleiri en 35 lögreglumenn.
b. Rannsókn opinberra mála, þ.m.t. tæknirannsóknir.
c. Aðstoð við undirbúning saksóknar.
d. Eftirlit með því að reglum og fyrirmælum sé fylgt og að fjárhagslegur rekstur deildar eða hóps undir hans stjórn, eða einstakra verkefna, sé innan fjárheimilda.

Aðalvarðstjóri lögreglufulltrúi er staðgengill aðstoðaryfirlögregluþjóns eða yfirlögregluþjóns þar sem ekki er aðstoðaryfirlögregluþjónn, þar sem talin er þörf á slíku. Þegar fleiri en einn aðalvarðstjóri eða lögreglufulltrúi starfa við embætti skal lögreglustjóri ákveða hver þeirra skuli vera staðgengill.


9. gr.
Varðstjórar/rannsóknarlögreglumenn.
1. Verksvið og ábyrgð varðstjóra er í meginatriðum eftirfarandi:
a. Löggæslustörf, þ.m.t. rannsókn mála þar sem það á við.
b. Vaktstjórn samkvæmt varðskrá, útivarðstjórn í lögregluliðum með 35 lögreglumenn eða fleiri, og stjórn einstakra verkefna eða hóps lögreglumanna við almenn löggæslustörf.
c. Hópstjórn í sérsveit ríkislögreglustjórans.
d. Eftirlit með því að reglum og fyrirmælum sé fylgt.
e. Staðgengill aðalvarðstjóra. Þegar fleiri en einn varðstjóri starfar við embætti á sömu vakt, eða deild, skal lögreglustjóri ákveða hver þeirra skuli vera staðgengill lögreglufulltrúa.
2. Verksvið og ábyrgð rannsóknarlögreglumanns er í meginatriðum eftirfarandi:
a. Rannsókn opinberra mála, þ.m.t. tæknirannsóknir.
b. Verkstjórn hóps lögreglumanna við rannsókn mála.
c. Aðstoð við undirbúning saksóknar.
d. Staðgengill lögreglufulltrúa. Þegar fleiri en einn rannsóknarlögreglumaður starfa við embætti í sömu deild, skal lögreglustjóri ákveða hver þeirra skuli vera staðgengill lögreglufulltrúa.

10. gr.
Lögreglumenn.

Verksvið og ábyrgð lögreglumanns er eftirfarandi:

1. Löggæslustörf, þ.m.t. rannsókn mála.
2. Að halda uppi lögum og reglu í samræmi við lög, reglur og fyrirmæli sem honum eru gefin.
3. Að tryggja réttaröryggi borgaranna með störfum sínum og framkomu, greiða götu þeirra eftir því sem við á og aðstoða þegar hætta steðjar að eða slys ber að höndum.
4. Tiltekin verkefni sem lögreglustjóri felur honum, t.d. forvarnar- og fræðsluverkefni, þjálfun og umsjón leitarhunda og umsjón tækjabúnaðar.
5. Staðgengill varðstjóra. Lögreglustjóri skal ákveða hver lögreglumanna í liði hans skuli vera staðgengill varðstjóra hverju sinni.

11. gr.
Lögreglunemar, héraðslögreglumenn og afleysingamenn í lögreglu.

Lögreglunemar gegna almennum löggæslustörfum undir stjórn og leiðsögn lögreglumanna.

Héraðslögreglumenn eru ráðnir samkvæmt heimild í lögreglulögum til aukastarfa við löggæslu þegar á þarf að halda, þar á meðal að halda uppi lögum og reglu á mannfundum og skemmtunum undir stjórn lögreglumanna.

Afleysingamenn í lögreglu eru ráðnir samkvæmt heimild í lögreglulögum vegna orlofstöku, veikinda- eða slysaforfalla eða leyfa lögreglumanna.


12. gr.
Nánari fyrirmæli um verksvið og ábyrgð starfsstiga.

Auk stöðueinkenna samkvæmt reglugerð um einkennisbúninga, merki og búnað lögreglunnar bera lögreglumenn í öllum starfsstigum fjögurra stafa lögreglunúmer. Þegar fleiri en einn lögreglumaður með sama starfsstig eru á vettvangi, skal sá fara fyrir þeim sem lægst númer ber nema lögreglustjóri hafi ákveðið annað.

Lögreglustjóri setur nánari fyrirmæli um verksvið og ábyrgð starfsstiga samkvæmt 5. – 9. gr. í samræmi við stærð og hlutverk embættis síns.


13. gr.
Framgangur á milli starfsstiga.

Við ákvörðun um veitingu stöðu á hærra starfsstigi skal höfð hliðsjón af hæfni lögreglumanns, starfsaldri, þekkingu, menntun, starfsreynslu og kyni.

Til þess að hljóta skipun í starf yfirlögregluþjóns, aðstoðaryfirlögregluþjóns, aðalvarðstjóra/lögreglufulltrúa eða varðstjóra/rannsóknarlögreglumanns, skal umsækjandi hafa lokið tilskildum námskeiðum hjá Lögregluskóla ríkisins og hafa starfað sem lögreglumaður í a.m.k. 2 ár frá því hann lauk prófi frá Lögregluskóla ríkisins, samkvæmt nánari reglum sem ríkislögreglustjóri setur að fengnum tillögum frá Lögregluskólanum.


14. gr.
Skipulag og röðun starfsstiga eftir stærð lögregluliðs.

Dómsmálaráðherra ákveður fjölda yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna að fengnum tillögum ríkislögreglustjóra.

Ríkislögreglustjóri ákveður fjölda aðalvarðstjóra/lögreglufulltrúa og varðstjóra/rannsóknarlögreglumanna að fengnum tillögum viðkomandi lögreglustjóra og skólastjóra Lögregluskóla ríkisins hvað skólann varðar.

Dómsmálaráðherra staðfestir skipurit um starfsemi embættis ríkislögreglustjóra. Skipurit um starfsemi lögreglustjórans í Reykjavík og Lögregluskóla ríkisins skal staðfest af dómsmálaráðherra að fenginni umsögn ríkislögreglustjóra.

Dómsmálaráðherra staðfestir skipurit um starfsemi lögregluembætta utan Reykjavíkur að fenginni umsögn ríkislögreglustjóra. Stefnt skal að samræmingu á skipulagi lögregluliða af sambærilegri stærð utan Reykjavíkur sem verði í meginatriðum með eftirfarandi hætti:

1. Lögreglulið með 35 lögreglumenn og fleiri:
a. 1 yfirlögregluþjónn.
b. 2 aðstoðaryfirlögregluþjónar.
c. 1 aðalvarðstjóri yfir hverri vakt og 1 lögreglufulltrúi í rannsóknardeild.
d. 1 varðstjóri á hverri vakt og 2 – 4 rannsóknarlögreglumenn í rannsóknardeild.
2. Lögreglulið með 20 – 34 lögreglumenn:
a. 1 yfirlögregluþjónn.
b. 1 aðstoðaryfirlögregluþjónn.
c. 1 lögreglufulltrúi í rannsóknardeild.
d. 1 varðstjóri á hverri vakt og 2 – 4 rannsóknarlögreglumenn í rannsóknardeild.
3. Lögreglulið með 10 – 19 lögreglumenn:
a. 1 yfirlögregluþjónn.
b. 1 lögreglufulltrúi í rannsóknardeild.
c. 1 varðstjóri á hverri vakt og 1 – 2 rannsóknarlögreglumenn í rannsóknardeild.
4. Lögreglulið með 7 – 9 lögreglumenn:
a. 1 yfirlögregluþjónn
b. 1 lögreglufulltrúi þar sem rannsóknardeildir eru.
d. 1 varðstjóri á hverri vakt.
5. Lögreglulið með 1 – 6 lögreglumenn.
a. Í lögregluliði með 3 - 6 lögreglumenn skal vera aðalvarðstjóri fyrir annarri vaktinni og varðstjóri fyrir hinni.
b. Í lögregluliði þar sem 2 lögreglumenn starfa skal annar vera aðalvarðstjóri og hinn varðstjóri.
c. Í lögregluliði þar sem 1 lögreglumaður starfar skal hann vera aðalvarðstjóri.

15. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 3. mgr. 28. gr. lögreglulaga, nr. 90 13. júní 1996, öðlast þegar gildi.

Ákvæði 2. mgr. 13. gr. tekur gildi í áföngum en þó eigi síðar en 1. janúar 2004 að loknum undirbúningi námskeiða sem þar er getið.

Ákvæði til bráðabirgða.

Við gildistöku reglugerðarinnar verða eftirfarandi breytingar á starfsheitum sem notuð hafa verið innan lögreglunnar:

1. "Aðalvarðstjóri" fær starfsheitið: aðalvarðstjóri/lögreglufulltrúi.
2. "Lögreglufulltrúi" fær starfsheitið: aðalvarðstjóri/lögreglufulltrúi.
3. "Varðstjóri" fær starfsheitið: varðstjóri/rannsóknarlögreglumaður.
4. "Rannsóknarlögreglumaður 1 og 2" fá starfsheitið: varðstjóri/rannsóknarlögreglumaður.
5. "Aðstoðarvarðstjóri, lögreglumaður í sérhæfðu starfi, flokksstjóri 1, 2 og 3 og lögreglumaður 1 og 2" fá starfsheitið: lögreglumaður.
6. "Lögreglumaður 3" fær starfsheitið: lögreglunemi.
7. "Lögreglumaður 4" fær starfsheitið: afleysingamaður.
8. "Héraðslögreglumaður" kemur í staðinn fyrir: héraðslögreglumaður án lögreglunáms.

Sá sem skipaður hefur verið aðstoðarvarðstjóri skal halda því starfsheiti óbreyttu út skipunartímann. Ef staða hans er ekki auglýst á ný eða viðkomandi óskar þess ekki að láta af störfum við lok fimm ára skipunartíma skal gefa út nýtt skipunarbréf til hans með heitinu "lögreglumaður".


Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 14. janúar 2002.

Sólveig Pétursdóttir.
Björn Friðfinnsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica