Iðnaðarráðuneyti

7/1996

Reglugerð um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. - Brottfallin

Reglugerð um Þróunarsjóð sjávarútvegsins.

Hlutverk.

1. gr.

Hlutverk Þróunarsjóðs sjávarútvegsins er að stuðla að aukinni arðsemi í sjávarútvegi. Til að draga úr afkastagetu í sjávarútvegi veitir sjóðurinn styrki til úreldingar fiskiskipa, kaupir fiskvinnslustöðvar og framleiðslutæki þeirra. Jafnframt tekur sjóðurinn þátt í skipulagsbreytingum í samvinnu við lánastofnanir leiði endurskipulagningin til verulegrar hagræðingar. Þá er sjóðnum heimilt að veita ábyrgðir og lán til nýsköpunar í sjávarútvegi og til að greiða fyrir þátttöku sjávarútvegsfyrirtækja í verkefnum erlendis.

Stjórn.

2. gr.

Sjávarútvegsráðherra skipar sjóðnum þriggja manna stjórn til fjögurra ára í senn. Skal einn stjórnarmaður skipaður eftir tilnefningu samstarfsnefndar atvinnurekenda í sjávarútvegi, en tveir án tilnefningar. Ráðherra skipar formann sjóðsstjórnar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.

Ráðherra ákveður þóknun sjóðsstjórnar.

Stjórnarfundir.

3. gr.

Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi. Fundir stjórnar eru lögmætir ef tveir stjórnarmanna eru á fundinum. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Ákvarðanir stjórnar skulu færðar í gjörðabók.

Hlutverk stjórnar.

4. gr.

Stjórn Þróunarsjóðs hefur yfirumsjón með starfsemi sjóðsins. Hún ræður framkvæmdastjóra og annað starfsfólk til að annast daglegan rekstur hans, eða semur um það við fjármálastofnanir eftir því sem hagkvæmt þykir

Þagnarskylda.

5. gr.

Stjórnarmenn og allir starfsmenn Þróunarsjóðs sjávarútvegsins eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirboðara eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

Rekstrar- og greiðsluáætlanir.

6. gr.

Fyrir 1. september ár hvert skal stjórn sjóðsins leggja fyrir sjávarútvegsráðherra, til staðfestingar, sundurliðaða rekstrar- og greiðsluáætlun fyrir næsta starfsár.

Eignir Þróunarsjóðs.

7. gr.

Þróunarsjóður tekur við öllum eignum og skuldbindingum Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins, sbr. l. nr. 65/1992, eignum og skuldbindingum Atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar vegna sjávarútvegsfyrirtækja, sbr. l. nr. 42/1991, og öllum eignum og skuldbindingum hlutafjárdeildar Byggðastofnunar, sbr. l. nr. 42/1991. Yfirtakan miðast við stöðu eigna og skulda við gildistöku laga þessara að frádregnum endurlánum ríkissjóðs til Atvinnutryggingardeildar að fjárhæð 950 m.kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt miðað við gengi 31. desember 1992, sem ríkissjóður tekur að sér að greiða. Jafnframt ábyrgist Þróunarsjóður gagnvart ríkissjóði það sem á kann að falla vegna ríkisábyrgðar á verðbættu nafnvirði A-hlutdeildarskírteina hlutafjárdeildar. Halda skal fjárreiðum framangreindra sjóða aðskildum í bókhaldi sjóðsins.

Þróunarsjóði er heimilt að kaupa hlutdeildarskírteini hlutafjárdeildar.

Þróunarsjóðsgjald - fiskiskip.

8. gr.

Eigendur fiskiskipa, sem skráð eru á skipaskrá Siglingamálastofnunar ríkisins 1. janúar 1996 og leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni skulu greiða gjald til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins. Skal gjaldið á árinu 1996 nema 799 kr. á hvert brúttótonn en þó skal gjaldið aldrei vera hærra en 303.000 kr. fyrir hvert skip. Liggi brúttótonnamæling ekki fyrir skal miða gjaldið við brúttórúmlest. Gjalddagi þróunarsjóðsgjaldsins er 1. janúar 1996 og greiðist gjaldið án tillits til þess hvort skipi er haldið til veiða eða ekki. Sé gjaldið ekki greitt fyrir lok álagningarárs skal greiða Þróunarsjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma, sbr. III. kafla vaxtalaga, nr. 25/1987, með síðari breytingum. Lögveð er í skipunum fyrir þróunarsjóðsgjaldi.

Gjald samkvæmt 1. mgr. vegna fiskiskipa er falla undir 5. og 7. gr. l. nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, skal innheimt gegnum greiðslumiðlunarkerfi sjávarútvegsins og skal hluti þess fjár, sem greiðist inn á vátryggingarreikning skips samkvæmt 2. tl. 7. gr. laga nr. 24/1986, ganga til greiðslu gjaldsins. Skal Landssamband íslenskra útvegsmanna mánaðarlega skila þessum hluta til Þróunarsjóðs uns fullnaðarskil vegna viðkomandi almanaksárs hafa verið gerð. Stjórn Þróunarsjóðs skal ákvarða með hvaða hætti þróunarsjóðsgjald vegna fiskiskipa sem ekki falla undir 5. og 7. gr. laga nr. 24/1986, verði innheimt.

Þróunarsjóðsgjald - fasteignir.

9. gr.

Eigendur fasteigna sem nýttar hafa verið til fiskvinnslu á árinu 1995, skulu greiða sérstakt gjald til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins.

Gjaldskylda hvílir á aðilum sem skattskyldir eru samkvæmt ákvæðum I. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, svo og opinberum aðilum sem eiga fasteignir sem nýttar eru til fiskvinnslu.

Stofn til þróunarsjóðsgjalds skal vera fasteignamatsverð í árslok á fasteign sem nýtt er til fiskvinnslu, ásamt tilheyrandi lóð, enda þótt um leigulóð sé að ræða, þó að frádregnu afgjaldskvaðarverðmæti leigulóðar. Ef fasteignamat er ekki fyrir hendi skal miða við kostnaðar- eða kaupverð eignar eða áætlað fasteignamatsverð.

Við ákvörðun á því hvaða eignir mynda stofn til þróunarsjóðsgjalds skal miða við þær fasteignir sem raunverulega voru notaðar til fiskvinnslu á árinu 1995. Í reglugerð þessari er hús sem og þrær og tankar sem metið er fasteignamati, í hverju sjávarafurðir eru tilreiddar, verkaðar, kældar, frystar, pakkaðar eða geymdar talið mynda stofn til þróunarsjóðsgjalds. Í tilreiðslu felst hvers konar meðhöndlun fisks sem felur í sér skurð á honum eða niðurhlutun hans, s.s. slægingu, hausun, flökun, hökkun o.s.frv. Í verkun felst efnameðferð á ferskum, kældum eða frystum sjávarafurðum, s.s. hitun, reyking, söltun, þurrkun eða niðurlagning í kryddlög o.s.frv., hvort sem þær hafa verið beittar einni eða fleiri fyrrgreindra verkunaraðferða. Til fasteigna fiskvinnslu teljast í þessu samhengi hús sem og þrær til geymslu hráefnis og tankar til geymslu lýsis eða annarra afurða en ekki önnur mannvirki tengd fiskvinnslu s.s. skreiðarhjallar, hafnarmannvirki, vinnsluplön o.s.frv. Fiskvinnsla telst í þessu sambandi ekki fara fram í húsi þar sem fram fer niðursuða og niðurlagning sjávarafurða, fiskeldi, umstöflun afla í gáma, rekstur fiskmarkaðar, skrifstofuhald tengt fiskvinnslu eða viðhald bifreiða eða vélaverkstæði. Sé sama eignin notuð til fiskvinnslu en einnig til annarra þarfa, skal skipta verðmæti eignarinnar hlutfallslega.

Með skattframtali skal fylgja skrá yfir eignir sem falla undir ákvæði þessarar greinar ásamt upplýsingum um heildarfasteignamatsverð þeirra eða eftir atvikum kostnaðarverð eins og það var í lok næstliðins árs. Ennfremur skal skrá þar upplýsingar um notkun þeirra, svo og upplýsingar um rúmmál eigna sem um er getið í lok 4. mgr. þessarar greinar.

Aðilar, sem gjaldskyldir eru skv. 2. mgr. þessarar greinar en undanþegnir eru tekjuskatts- og eignarskattsskyldu, skulu fyrir hvert ár skila skrám skv. 5. mgr. til skattstjóra í því umdæmi þar sem þeir eiga lögheimili.

Þróunarsjóðsgjald skal nema 0,75% af gjaldstofni skv. 3. mgr. þessarar greinar. Gjald, sem ekki nær 10.000 kr., skal fella niður við álagningu.

Um álagningu og innheimtu gjalds samkvæmt þessari grein fer eftir ákvæðum VIII.-XIV. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eftir því sem við á. Ríkisbókhald skal skila mánaðarlega til Þróunarsjóðs innheimtum gjöldum.

Gjald samkvæmt þessari grein telst rekstrarkostnaður skv. 1. tölulið 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Fækkun fiskiskipa.

10. gr.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins skal stuðla að aukinni hagkvæmni í útgerð með því að laga stærð og afkastagetu fiskiskipastólsins að afrakstursgetu nytjastofna sjávar. Í því skyni skal sjóðurinn veita styrki til úreldingar skipa enda sé tryggt að í stað hinna úreltu skipa komi ekki ný skip í fiskiskipaflotann eða að afkastageta flotans aukist ekki með öðrum hætti.

Til 1. október 1996 er stjórn Þróunarsjóðs heimilt að kaupa krókabáta sem hafa verið úreltir.

Úreldingarstyrkur.

11. gr.

Sjóðurinn veitir eingöngu styrki vegna úreldingar þeirra skipa sem gjaldskyld eru samkvæmt l. nr. 92/1994 um Þróunarsjóð sjávarútvegsins með síðari breytingum enda hafi gjald vegna viðkomandi skips verið greitt sjóðnum eða Hagræðingarsjóði sjávarútvegsins í a.m.k. þrjú ár. Ákvæði um þriggja ára greiðsluskyldu á hvorki við um þau skip er fá úthlutað tiltekinni hlutdeild af heildarafla og voru skráð á skipaskrá fyrir 1. janúar 1994 né um báta 6 brl. og minni er veiðar stunda með línu og handfærum sem skráðir voru á skipaskrá fyrir 1. maí 1995.

Úreldingarstyrkur skal vera það hlutfall er tiltekið er hér á eftir af húftryggingarverðmæti fiskiskips eins og það var við upphaf þess árs er umsókn barst. Falli skip ekki undir samræmdar reglur um húftryggingarmat (s.s. fjárhæðanefnd fiskiskipa eða Samábyrgð Íslands á fiskiskipum) eða liggi slíkt mat ekki fyrir, skal stjórn sjóðsins áætla húftryggingarverðmæti skipsins og er í þeim efnum ekki bundin af umsaminni húftryggingarfjárhæð skipsins. Um mat af þessu tagi skal stjórnin setja sérstakar starfsreglur og getur hún m.a. leitað um slíkt mat til sérfróðra eða reyndra aðila. Vegna umsókna er bárust á árinu 1995 skal úreldingarstyrkur þó aldrei nema hærri fjárhæð en 93.087.000 kr. fyrir hvert skip og 95.895.000 kr. á árinu 1996. Á árinu 1996 skulu úreldingarstyrkir vera:

1. Vegna umsókna er bárust á árinu 1995 og sjóðsstjórn hafði samþykkt fyrir gildistöku reglugerðar nr. 387/1995 skulu styrkir nema 40% af verðmæti skips eins og það er skilgreint í 2. mgr.

2. Vegna annarra umsókna er sjóðnum bárust á árinu 1995 og umsókna á árinu 1996:

a) Styrkur til að úrelda skip skal nema 20% af verðmæti skips eins og það er skilgreint í 2. mgr.

b) Þrátt fyrir ákvæði a-liðar þessa töluliðar skulu þó úreldingarstyrkir vegna báta er stundað hafa veiðar með línu og handfærum samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða (krókabátar) nema 80% af verðmæti báts eins og það er skilgreint í 2. mgr. enda berist umsókn fyrir 1. október 1996.

Skilyrði þess að stjórn sjóðsins sé heimilt að veita loforð um styrk vegna úreldingar fiskiskips er að skipið hafi fengið leyfi til veiða í atvinnuskyni samkvæmt lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða með síðari breytingum. Það eru ennfremur skilyrði að réttur eigandi eða eigendur skips lýsi því yfir að skipið verði eða hafi verið tekið varanlega af skipaskrá eða verði hvorki haldið til veiða í efnahagslögsögu Íslands né gert út sem fiskiskip frá Íslandi, að réttur til endurnýjunar þess verði ekki nýttur, að veiðileyfi falli niður (krókabátar) og að allar aflaheimildir skipsins verði varanlega sameinaðar aflaheimildum annarra fiskiskipa. Greiði sjóðurinn styrk vegna úreldingar skips, sem orðið hefur fyrir tjóni sem bætt er af vátryggingarfélagi, skal samtala tjónabóta og úreldingarstyrks aldrei nema hærri fjárhæð en húftryggingarmati skipsins.

Stjórn sjóðsins er óheimilt að greiða úreldingarstyrk fyrr en annað hvort liggur fyrir vottorð Siglingamálastofnunar um afskráningu skipsins af skipaskrá svo og að skipi hafi verið eytt ellegar það selt úr landi eða að þinglýst hefur verið kvöð á skipið þess efnis að það hafi verið tekið varanlega úr fiskiskipstól Íslendinga og að því verði ekki haldið til veiða frá Íslandi og skal þá ennfremur liggja fyrir staðfesting Siglingamálastofnunar um að skipið sé ekki lengur skráð sem fiskiskip. Form og efni þinglýstu kvaðarinnar skal vera samþykkt af stjórn Þróunarsjóðs. Sé skip afskráð skal liggja fyrir yfirlýsing eiganda skips og handhafa viðkomandi réttinda um að skipið verði ekki að þeirra tilstuðlan skráð aftur á íslenska skipaskrá. Ennfremur liggi fyrir yfirlýsing frá Fiskistofu um að allar aflaheimildir skipsins hafi varanlega verið sameinaðar aflaheimildum annarra skipa, að veiðileyfi hafi verið fellt niður (krókabátar) og að fallið hafi verið frá rétti til endurnýjunar skipsins. Áður en úreldingarstyrkur kemur til útborgunar skal stjórn Þróunarsjóðs krefjast þess að annað hvort liggi fyrir þinglýsingarvottorð sem sýnir að skip sé kvaða- og veðbandalaust að frátalinni þeirri kvöð sem málsgrein þessi segir til um eða samþykki veðhafa á úreldingu þess. Þegar skip er afskráð skal alltaf krefjast þess að fyrir liggi þinglýsingarvottorð sem sýni að skip sé kvaða- og veðbandalaust. Þá er óheimilt að veita skipi leyfi til veiða í atvinnuskyni ef Þróunarsjóður hefur greitt styrk vegna úreldingar þess. Ennfremur er óheimilt að nýta fiskiskip, er hlotið hefur úreldingarstyrk, til fiskveiða í efnahagslögsögu Íslands eða gera það út sem fiskiskip frá Íslandi.

Komi í ljós að fjárhagur Þróunarsjóðs leyfi ekki greiðslu úreldingarstyrkja samkvæmt ákvæðum greinarinnar skal sjóðsstjórn gera tillögu til ráðherra um lækkun á því hlutfalli af húftryggingarverðmæti sem styrkur miðast við. Jafnframt er sjóðsstjórn heimilt að ákveða frestun á greiðslu styrkja ef hún telur að um tímabundinn skort á ráðstöfunarfé sé að ræða.

Kaup á fiskvinnslustöðvum.

12. gr.

Í því skyni að stuðla að aukinni arðsemi fiskvinnslu í landi og minnkun afkastagetu hennar er stjórn Þróunarsjóðs sjávarútvegsins heimilt til ársloka 1996 að kaupa fiskvinnslustöðvar og framleiðslutæki sem kunna að vera í þeim fasteignum.

Þegar metið verður hvort festa skuli kaup á fasteignum fiskvinnslustöðva skal sérstaklega haft í huga að kaupin leiði til betri rekstrarskilyrða þeirra fiskvinnslustöðva sem halda áfram rekstri. Meti sjóðsstjórn að ekki sé nægjanlegt að festa kaup á fasteignum fiskvinnslustöðva til að minnka afkastagetu fiskvinnslunnar er henni einnig heimilt að kaupa framleiðslutæki viðkomandi vinnslustöðvar enda sé ella hætt við að þau verði nýtt til að auka afkastagetu í öðrum fiskvinnslustöðvum.

13. gr.

Stjórn Þróunarsjóðs er heimilt að festa kaup á fiskvinnslustöð ef viðkomandi vinnslustöð hefur fengið útgefið fullgilt vinnsluleyfi Fiskistofu sbr. l. nr. 93/1992, eða fiskvinnsla hafi verið stunduð í fasteigninni með tilskildu vinnsluleyfi á árinu 1991 eða 1992 og henni hafi ekki verið ráðstafað varanlega til annarra nota. Það er jafnframt skilyrði að þær eignir, sem sjóðurinn festir kaup á séu afhentar veðbandalausar. Þó er stjórn sjóðsins heimilt að inna kaupverð að hluta eða öllu leyti af hendi með því að taka við áhvílandi veðlánum.

Í reglugerð þessari er fiskvinnslustöð skilgreind sem hús sem og þrær og tankar sem metið er fasteignamati í hverju sjávarafurðir eru tilreiddar, verkaðar, kældar, frystar, pakkaðar eða geymdar. Tilreidd sjávarafurð telst afurð þar sem fiskurinn er ekki lengur í heilu lagi en hefur t.d. verið slægður eða hausaður, skorinn í sneiðar, flakaður, hakkaður o.s.frv. Verkuð afurð telst sjávarafurð sem hefur fengið efnameðferð s.s. hitun, reykingu, söltun, þurrkun eða verið lögð í kryddlög o.s.frv. og er unnin úr ferskum, kældum eða frystum sjávarafurðum hvort sem þær hafa verið beittar einni eða fleiri fyrrgreindra verkunaraðferða.

Hús telst í þessu sambandi ekki fiskvinnslustöð ef þar fer fram:

  • niðursuða og niðurlagning sjávarafurða,
  • fiskeldi,
  • umstöflun afla í gáma,
  • rekstur fiskmarkaðar,
  • skrifstofuhald tengt fiskvinnslu,
  • viðhald bifreiða eða vélaverkstæði.

Til fiskvinnslustöðva teljast hús sem og þrær til geymslu hráefnis og tankar til geymslu lýsis eða annarra afurða en ekki önnur mannvirki tengd fiskvinnslu s.s. skreiðarhjallar, hafnarmannvirki, vinnsluplön o.s.frv.

Sé eignin notuð til fiskvinnslu en einnig til annarra þarfa, skal skipta verðmæti eignarinnar hlutfallslega.

Kaupverð þeirra fiskvinnslustöðva og framleiðslutækja sem í þeim kunna að vera og sjóðsstjórn ákveður að festa kaup á, skal taka mið af markaðsverði sambærilegra eigna. Þó skal kaupverð aldrei nema hærri fjárhæð en sem nemur 75% af fasteignamati þess hluta eða þeirra hluta viðkomandi fasteigna sem reglugerð þessi tekur til samkvæmt mati sjóðsins og 25% af verðmæti framleiðslutækja samkvæmt mati sjóðsins.

Stjórn Þróunarsjóðs skal leitast við að selja fasteignir sem sjóðurinn eignast til óskyldrar starfsemi. Jafnframt þarf sjóðurinn að tryggja að endurráðstöfun framleiðslutækja leiði ekki til aukinnar afkastagetu fiskvinnslunnar. Það má gera t.d. með því að ráðstafa tækjum úr landi eða með því að skipta á þeim við fiskvinnslustöðvar innanlands og fá í staðinn jafn afkastamikil tæki. Þannig fengnum framleiðslutækjum yrði síðan eytt eða ráðstafað úr landi.

Halda skal fjárreiðum vegna eignakaupa, skv. þessari grein aðskildum í bókhaldi sjóðsins.

Þátttaka í þróunarverkefnum.

14. gr.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins skal stuðla að vöruþróun og markaðssetningu íslenskra sjávarafurða innanlands sem utan sem og annarri nýsköpun í sjávarútvegi auk þátttöku íslenskra aðila í sjávarútvegsverkefnum erlendis. Í þessu skyni er sjóðsstjórn heimilt að veita lán og ábyrgðir.

15. gr.

Til að greiða fyrir þátttöku íslenskra aðila og fyrirtækja í sjávarútvegsverkefnum erlendis er stjórn Þróunarsjóðs heimilt að leggja fram framleiðslutæki og báta sem sjóðurinn hefur keypt, sem hlutafé í sjávarútvegsfyrirtækjum utan Íslands eða hlutafélögum sem stofnuð eru hér á landi til að taka þátt í erlendum verkefnum á þessu sviði. Þá er sjóðnum heimilt að leggja fram hlutafé í reiðufé til slíkra fyrirtækja, veita þeim ábyrgðir eða víkjandi lán enda liggi fyrir að alþjóðleg lánastofnun hafi á grundvelli fyrirliggjandi arðsemisáætlana mælt með fjármögnun viðkomandi verkefnis.

16. gr.

Stjórn Þróunarsjóðs ákveður kjör útlána og metur í hverju tilviki tryggingar fyrir lánum og ábyrgðum veittum á grundvelli 14. og 15. gr. Umsækjandi um lán eða ábyrgð skal jafnan gera fullnægjandi grein fyrir fjármögnun þróunarverkefnis umfram það sem felst í þátttöku Þróunarsjóðs.

17. gr.

Stjórn Þróunarsjóðs sjávarútvegsins ákveður árlega framlag sjóðsins til þróunarverkefna sbr. 6. gr.

Ýmis ákvæði.

18. gr.

Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Ársreikningum skal fylgja skrá yfir ráðstafanir á fjármunum Þróunarsjóðs svo sem vegna greiðslu úreldingarstyrkja, kaupa á fasteignum og framleiðslutækjum fiskvinnsluhúsa, þátttöku í þróunarverkefnum og sölu á hlutabréfum hlutafjárdeildar. Ríkisendurskoðun annast endurskoðun reikninga Þróunarsjóðs og skal hún árlega gera sérstaka athugun á möguleikum sjóðsins til að standa undir skuldbindingum sínum miðað við stöðu efnahagsreiknings og áætlun um framtíðarútgjöld og -tekjur sjóðsins. Ráðherra staðfestir reikninga sjóðsins að lokinni endurskoðun.

19. gr.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins er undanþeginn fasteignagjöldum af fasteignum sem sjóðurinn kann að eignast. Öll skjöl viðvíkjandi lánum sem sjóðurinn tekur skulu undanþegin stimpilgjöldum.

20. gr.

Stjórn sjóðsins er heimilt að taka lán, þó ekki með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings, í því skyni að jafna misræmi milli innborgana af skuldabréfum í eigu sjóðsins og afborgana og vaxta af lánum sem sjóðurinn á að standa skil á.

21. gr.

Eignir sjóðsins skulu ávaxtaðar á hagkvæman og tryggan hátt.

Rekstrarkostnaður sjóðsins greiðist af tekjum hans.

Atvinnutryggingardeild og hlutafjárdeild.

22. gr.

Hlutverk atvinnutryggingardeildar vegna sjávarútvegsfyrirtækja er að innheimta skuldabréf sem eru í eigu deildarinnar.

Stjórn Þróunarsjóðs er óheimilt að veita ný lán úr atvinnutryggingardeild. Stjórn sjóðsins er þó heimilt að skuldbreyta lánum atvinnutryggingardeildar ef það er liður í sameiginlegum aðgerðum lánastofnana sem leiði til sameiningar sjávarútvegsfyrirtækja eða verulegrar minnkunar á afkastagetu einstakra fyrirtækja, sem sýnt þykir að muni leiða til betri rekstrarskilyrða.

Stjórn Þróunarsjóðs er því aðeins heimilt að gefa eftir hluta lána eða trygginga fyrir lánum að það sé talið nauðsynlegt vegna innheimtuhagsmuna atvinnutryggingardeildar og að það sé liður í skuldaskilasamningum sem aðrir kröfuhafar taka þátt í. Deildinni er ekki heimilt að gefa eftir stærri hluta krafna en aðrir kröfuhafar með sambærilega tryggingarstöðu samþykkja að gefa eftir. Lán með haldbærum tryggingum er ekki heimilt að gefa eftir.

Byggðastofnun skal annast reikningshald og innheimtu lána atvinnutryggingardeildar Þróunarsjóðs vegna sjávarútvegsfyrirtækja eftir nánara samkomulagi við stjórn Þróunarsjóðs.

23. gr.

Stjórn Þróunarsjóðs fer með hlutabréf í eigu hlutafjárdeildar. Stjórninni er heimilt að selja hlutafé í eigu deildarinnar og skal það boðið til sölu a.m.k. einu sinni á ári. Skal starfsfólk og aðrir eigendur þess fyrirtækis sem í hlut á hverju sinni njóta forkaupsréttar. Hlutafjárdeild er óheimilt að kaupa ný hlutabréf. Deildinni er þó heimilt við samruna félaga eða skipti á hlutabréfum að taka við nýjum hlutabréfum sem samsvara fyrri hlutabréfaeign. Hlutdeildarskírteini deildarinnar skulu skráð á nafn og geta gengið kaupum og sölum. Hlutafjárdeild skal tilkynnt um eigendaskipti á hlutdeildarskírteinum.

Gildistaka.

24. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í l. nr. 92/1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi reglugerðir nr. 644/1994 um Þróunarsjóð sjávarútvegsins og 387/1995 um breytingu á henni.

Sjávarútvegsráðuneytinu, 11. janúar 1996.
Þorsteinn Pálsson.
Árni Kolbeinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica