Umhverfisráðuneyti

538/1995

Reglugerð um eignaskiptayfirlýsingar, útreikning hlutfallstalna o.fl. í fjöleignarhúsum. - Brottfallin

Reglugerð um eignaskiptayfirlýsingar, útreikning hlutfallstalna o.fl. í fjöleignarhúsum.

1. gr.

Við gerð eignaskiptayfirlýsingar og útreikning hlutfallstalna skulu samþykktar aðalteikningar húss lagðar til grundvallar.

Stærðarútreikningar skulu gerðir eftir íslenskum staðli um flatarmál og rúmmál bygginga, ÍST 50.

Öll stærðarskráning, merking og færslur í skráningartöflu skal vera samkvæmt skráningarreglum Fasteignamats ríkisins og byggingarfulltrúa um mannvirki, sbr. fylgiskjal með reglugerð þessari. Breytingar á skráningarreglunum öðlast ekki gildi gagnvart reglugerð þessari nema með staðfestingu ráðuneytisins.

2. gr.

Í eignaskiptayfirlýsingu skal skipting húss koma glöggt fram og tilgreint hvað tilheyrir hverjum eignarhluta, hvort um sé að ræða séreign, sameign allra eða sameign sumra og hvaða eignarhlutum slík sameign tilheyrir.

Með eignaskiptayfirlýsingu skulu fylgja grunnmyndir og sniðmyndir af hverri hæð húss, þar sem hvert rými er merkt í samræmi við skráningarreglur, sbr. 3. mgr. 1. gr.

Skráningartafla skal fylgja eignaskiptayfirlýsingu.

Í eignaskiptayfirlýsingu skal greint frá forsendum hennar og þeim gögnum sem hún er byggð á og fylgja með henni.

3. gr.

Sérhver eign sem eignaskiptayfirlýsing tekur til skal jafnan uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar um skiptingu lóða og húsa. Ef eignaskiptayfirlýsing tilgreinir rými í húsi eða á lóð eða notkun húss er með öðrum hætti en á samþykktri aðalteikningu verður hún ekki staðfest fyrr en breyting hefur hlotið samþykki byggingarnefndar.

Komi í ljós verulegar breytingar á notkun og grunnmynd innan eignarhluta getur byggingarfulltrúi krafist þess að ný aðalteikning verði lögð fyrir byggingarnefnd til samþykktar áður en eignaskiptayfirlýsing er staðfest.

Í eignaskiptayfirlýsingu skal getið um minni háttar frávik frá samþykktri aðalteikningu innan eignarhluta.

4. gr.

Rúmmál samkvæmt 4., 5. og 6. gr. reglugerðar þessarar er nettóflatarmál x salarhæð.

Við ákvörðun hlutfallstalna í fjöleignarhúsi skal byggt á rúmmáli sbr. 1. mgr. að viðbættu flatarmáli svala og sams konar séreignarflata x 1 m.

5. gr.

Hlutfallstölur í sameign sumra skal reikna sem hlutfall rúmmáls viðkomandi séreignarhluta af heildarrúmmáli séreigna sem eiga hlutdeild í slíkri sameign.

6. gr.

Hlutfallstölur fyrir sameign allra skal reikna sem hlutfall rúmmáls viðkomandi séreignarhluta af heildarrúmmáli séreigna.

Ef í fjöleignarhúsi er sameign sumra, skal fyrst reikna hlutdeild viðkomandi séreignarhluta í rúmmáli sameignar sumra. Það rúmmál skal leggja við rúmmál viðkomandi séreignarhluta og síðan reikna hlutfallstölur fyrir sameign allra samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar.

7. gr.

Þar sem ekki eru sérstakir mælar til að mæla hita og rafmagn í sameign skal við skiptingu á slíkum kostnaði leggja til grundvallar hlutfall brúttórúmmáls sameignar og brúttórúmmáls húss.

Skal hita og/eða rafmagnskostnaði fyrst skipt eftir þeirri hlutfallstölu sameignar og þeirri kostnaðartölu sem þá kemur út skipt að jöfnu og afgangi skipt út frá hlutfallstölu séreignarhluta.

8. gr.

Í eignaskiptayfirlýsingu skulu allar hlutfallstölur sérgreindar.

Hlutfallstölur skulu skráðar með tveim aukastöfum.

9. gr.

Ef húshlutar eru fleiri en einn á lóð er heimilt að gera eignaskiptayfirlýsingu fyrir hvern húshluta að því tilskildu að hún taki til sameignar allra.

10. gr.

Sé um að ræða hús sem ekki telst fjöleignarhús en fleiri en einn á eða nýtir, skal ef þurfa þykir gera um húsið eignaskiptayfirlýsingu til að skapa grundvöll að skiptingu réttinda og skyldna afnotahafa þess.

Skal slík skiptayfirlýsing gerð samkvæmt þeim fyrirmælum sem sett eru í reglugerð þessari og lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994.

11. gr.

Í eignaskiptayfirlýsingu skal geta um allar kvaðir á séreign, sameign og lóð. Sama gildir ef einstökum eigendum er veittur sérstakur réttur yfir sameign.

12. gr.

Í eignaskiptayfirlýsingu skal koma fram nafn og kennitala þess eða þeirra sem skjalið gera og útreikning annast. Með áritun sinni ábyrgjast þeir að eignaskiptayfirlýsingin, forsendur hennar og upplýsingar sem hún greinir sé í samræmi við ákvæði laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, reglugerðar þessarar, skráningarreglur og samþykktar aðalteikningar.

13. gr.

Byggingarfulltrúi viðkomandi umdæmis skal staðfesta allar eignaskiptayfirlýsingar. Getur hann krafist frekari skýringa og útreikninga ef nauðsyn krefur.

Í áritun byggingarfulltrúa felst staðfesting á því að yfirlýsingin sé í samræmi við samþykktar aðalteikningar, lög um fjöleignarhús nr. 26/1994, reglugerð þessa og ákvæði byggingarlöggjafar sem við geta átt.

Eignaskiptayfirlýsing skal afhent byggingarfulltrúa í tvíriti, annað eintakið varðveitir hann en hitt eintakið skal hann senda Fasteignamati ríkisins.

14. gr.

Ef þinglýst eignarheimild er ekki í samræmi við samþykktar aðalteikningar skal sækja um leyfi byggingarnefndar til afmörkunar eignarhlutans áður en eignaskiptayfirlýsing fæst staðfest.

15. gr.

Reglugerð þessi sem sett er með heimild í lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994, öðlast gildi þegar í stað.

Félagsmálaráðuneytið, 9. október 1995.
Páll Pétursson.
Elín Sigrún Jónsdóttir.

Fylgiskjal:

Sjá B-deild Stjórnartíðinda.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica