Fjármálaráðuneyti

480/1992

Reglugerð um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins.

1. gr.

Landinu er skipt í bústaðasvæði sem hefur hvert um sig ákveðna gildistölu. Bústaðasvæðin og gildistölur þeirra eru sem hér segir:

Gildistala

Bústaðasvæði

1,0

Reykjavík, Reykjaneskjördæmi allt, Akranes, Akureyri, Selfoss, Hveragerði, Þorlákshöfn, Eyrarbakki, Stokkseyri og Vestmannaeyjar.

0,4

Borgarnes, Stykkishólmur, Grundarfjörður, Ólafsvík, Hellissandur, Patreksfjörður, Ísafjörður, Hnífsdalur, Bolungarvík, Blönduós, Sauðárkrókur, Siglufjörður, Ólafsfjörður, Dalvík, Húsavík, Egilsstaðir, Seyðisfjörður, Neskaupstaður, Eskifjörður, Reyðarfjörður, Höfn í Hornafirði, Vík í Mýrdal, Hella og Hvolsvöllur. Sveitir í Borgarfjarðarsýslu, Mýrasýslu, Eyjafjarðarsýslu, Rangárvallasýslu, og Árnessýslu.

0,3

Aðrir bæir, þorp og sveitir.

2. gr.

Fjármálaráðherra ákveður, í samráði við hlutaðeigandi ráðherra, hvaða starfsmönnum ríkisins, sem búsettir eru á svæðum með gildistölur 0,4 og 0,3, skuli leggja til húsnæði. Ríkið leggur starfsmönnum sínum eigi til húsnæði, sem búa á bústaðasvæði með gildistöluna 1,0, öðrum en þeim er vegna sérstakra gæslustarfa þurfa að búa á vinnustað. Það fer eftir mati hlutaðeigandi ráðherra, að fengnu samþykki fjármálaráðherra, hverjir slík gæslustörf stunda.

3. gr.

Hlutaðeigandi ráðuneyti annast framkvæmd þessarar reglugerðar vegna íbúðarhúsnæðis á þess vegum. Ráðuneyti geta falið ríkisfyrirtækjum og stofnunum umsjón tiltekinna eigna, enda sé í öllu farið eftir ákvæðum þessarar reglugerðar.

4. gr.

Aðilum þeim, er afnot hafa af íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins eða sem ríkið lætur þeim í té, ber að greiða ríkissjóði leigugjald fyrir húsnæðið. Sé húsnæðið sameign ríkis og sveitarfélaga greiðist húsaleiga þeim aðila er hefur umsjón með og annast rekstur og viðhald viðkomandi húsnæðis.

5. gr.

Húsaleigugjald er 5% - (hundraðstala leigu) - af brunabótamati hins leigða húsnæðis. Húsaleiga ákvarðast og af gildistölu bústaðasvæðis og reiknast leiga því skv. svofelldri líkingu:

Brunabótamat x gildistala x 5

Mánaðarleiga = 100 x 12

Þegar starfi fylgir kvöð um búsetu í húsnæði ríkisins skal af því húsnæði greiða leigugjald svo sem væri húsnæðið staðsett á bústaðasvæði með gildistölu 0,4 sé það eigi staðsett á bústaðasvæðum með gildistölu 0,3.

Fjármálaráðherra getur heimilað lækkun eða niðurfellingu húsaleigu hjá ríkisstarfsmönnum er sinna sérstökum gæslustörfum svo sem á afskekktum og einangruðum stöðum.

Þá er fjármálaráðherra heimilt að fella tímabundið niður húsaleigu þeirra starfsmanna er nýta ekki húsnæðið um stundarsakir t.d. vegna veikinda og/eða leyfa, annarra en sumarleyfa.

6. gr.

Þegar húsnæði er selt á leigu skal gera skriflegan húsaleigusamning á þar til gerðu eyðublaði útgefnu af fjármálaráðuneyti. Í húsaleigusamningi skal tilgreina umsjónaraðila húseignarinnar. Húsaleiga greiðist mánaðarlega fyrirfram og tekur breytingum 4 sinnum á ári í samræmi við breytingar á byggingavísitölu skv. auglýsingu Hagstofu Íslands.

Um úttekt á hinu leigða húsnæði fer eftir ákvæðum gildandi húsaleigulaga.

Til íbúðarhúsnæðis leigutaka telst eigi húsnæði allt að 15 m2 sem leigusali hefur samþykkt að nota skuli sem skrifstofu- eða starfshúsnæði í þágu ríkisins.

7. gr.

Leigutaki greiðir allan kostnað við upphitun, lýsingu og ræstingu hins leigða húsnæðis. Kvöð þessi nær til íbúðarhúsnæðis ásamt skrifstofu- eða starfshúsnæði skv. ákvæði 6. gr. og telja verður óaðskiljanlegan hluta hins leigða.

8. gr.

Ríkissjóður greiðir skatta, skyldur og viðhaldskostnað íbúðarhúsnæðis, sbr. 3. gr. Húsaleigutekjum skal varið til greiðslu þess kostnaðar samkvæmt ákvörðun hlutaðeigandi umsjónaraðila hverju sinni. Kostnaði og tekjum við húsnæði sem fellur undir þessa reglugerð skal haldið aðgreindu í bókhaldi.

Ákvarðanir leigutaka um viðhald íbúðarhúsnæðis, án fyrirfram samþykkis hlutaðeigandi umsjónaraðila skuldbinda ekki ríkissjóð.

9. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 27 frá 25. apríl 1968, um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins, og öðlast gildi 1. janúar 1993. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um sama efni nr. 334 frá 10. júní 1982.

Ákvæði til bráðabirgða:

Þeir starfsmenn ríkisins, er við gildistöku þessarar reglugerðar hafa afnot af íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins sem nú fellur undir bústaðasvæði með gildistölu 1,0 skv. 1. gr. reglugerðarinnar, skulu gjalda húsaleigu, er miðuð sé við þá gildistölu sem bústaðasvæðið hafði áður en reglugerð þessi tekur gildi.

Leigumálum öðrum, er ekki samrýmast reglugerð þessari, skal sagt upp með lögbundnum fyrirvara, þannig að uppsögn komi til framkvæmda eigi síðar en 1. janúar 1994.

Fjármálaráðuneytið, 29. desember 1992.

F. h. r.

Magnús Pétursson.

Einar Sigurjónsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica