Viðskiptaráðuneyti

563/1987

Reglugerð um gengisbundin inn- og útlán - Brottfallin

 REGLUGERÐ

um gengisbundin inn- og útlán í bönkum og sparisjóðum.

 

1. gr.

       Bönkum skv. lögum nr. 86/1985 og sparisjóðum skv. lögum nr. 87/1985 er heimilt að stofna til innlána með ákvæðum þess efnis, að innstæður og vextir af þeim skuli vera gengisbundnar, eins og nánar er lýst í 2. gr.

 

2. gr.

       Gengisbinding skal miðuð við reikningsgengi, sem breytist hinn 1. hvers mánaðar og verður hið sama og skráð kaupgengi Seðlabankans 21. dag undanfarandi mánaðar á reikningseiningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (SDR) eða Evrópureikningseiningu (ECU). Falli gengisskráning niður á hinum ofangreinda viðmiðunardegi, skal síðasta skráða kaupgengi SDR eða ECU lagt til grundvallar.

       Gengisbinding verði þannig, að innborganir miðist við hlutaðeigandi reikningsgengi eins og það er ákveðið skv. 1. mgr. 1. dag næsta mánaðar, en beri sérstakar verðbætur hlutaðeigandi banka eða sparisjóðs innan mánaðar. Útborganir af reikningum þessum innan mánaðar bera einnig sérstakar verðbætur frá 1. degi útborgunarmánaðar til útborgunardags.

 

3. gr.

       Nú eru aðstæður sérstakar að mati banka eða sparisjóðs, og getur hann þá hafnað móttöku fjár á slíkan innlánsreikning. Innstæður skulu aðeins vera lausar til útborgunar tiltekna tvo mánuði á tólf mánaða tímabili.

 

4. gr.

       Bönkum og sparisjóðum er jafnframt heimilt að lána út fé, sem samsvarar innstæðum á gengisbundnum innlánsreikningum með ákvæðum þess efnis, að fjárhæðir og vextir af þeim skuli breytast hlutfallslega frá gildandi reikningsgengi SDR eða ECU í þeim mánuði, sem útborgun láns á sér stað, til og með gildandi reikningsgengi SDR eða ECU í þeim mánuði, sem gjalddagi er, sbr. 2. gr. um gengistengingu.

 

5. gr.

       Seðlabankinn skal auglýsa í Lögbirtingablaðinu nánari reglur um gengisbundin inn- og útlán, sbr. 36. gr. laga nr. 13/1979 svo og reikningsgengi það sem gildir í hverjum mánuði.

 

6. gr.

       Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 3. mgr. 65. gr., sbr. b-lið 4. tl. 1. mgr. 39. gr. laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl., og tekur gildi frá og með 1. janúar 1988.

 

Viðskiptaráðuneytið, 18. desember 1987.

 

Jón Sigurðsson.

Tryggvi Axelsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica