Viðskiptaráðuneyti

541/1996

Reglugerð um vínmál og löggildingu þeirra. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um vínmál og löggildingu þeirra.

 

I. KAFLI

Gildissvið.

1. gr.

                Reglugerð þessi fjallar um vínmál. Vínmál eru áfengisskammtarar og ölmál sem notuð eru til að mæla skammta víns eða áfengs öls sem ætlað er til sölu. Í samræmi við 10. gr. laga um vog, mál og faggildingu, nr. 100/1992, bera eigendur slíkra áfengisskammtara ábyrgð á að þeir hafi gilda löggildingu.

 

II. KAFLI

Skilgreiningar.

2. gr.

                Brúnarmerki. Brúnarmerki eru tvö merki sem slegin eru í veltivínmál, til staðfestingar málrúmtaks þess. Þau eru slegin í veltivínmál þétt við efstu brún þess. Merkin skulu þannig mótuð að unnt sé að sjá hvort sorfið hafi verið af brúninni eftir að vínmálið hefur verið löggilt. Brúnarmerkin skulu vera gegnt hvoru öðru.

                Löggildingarhnappur. Löggildingarhnappur er sérstakur hnappur eða flipi úr plasti eða mjúkum málmi, sem notaður er til að læsa saman innsiglisvír eða -þráð, þetta er gert með því að klemma hnappinn utan um vírinn eða þráðinn. Þegar hnappurinn er klemmdur saman er jafnframt þrykkt í hann löggildingartákni sem sýnir að mælitæki sem hann ber hefur verið löggilt.

                Löggildingarmiði. Löggildingarmiði er sérstakur límmiði sem sýnir að mælitæki sem hann ber hefur verið löggilt. Miðinn er gefin er út af Löggildingarstofunni.

                Löggildingartákn. Löggildingartákn er tákn sem sýnir að mælitæki hefur verið löggilt í samræmi við lög um vog, mál og faggildingu nr. 100/1992. Með tákninu skal standa ártal þess árs sem löggilt er á og faggildingarnúmer prófunarstofunnar sem framkvæmir löggildinguna. Form og útlit táknsins er skilgreint í reglugerð.

                Löggildingargjald. Löggildingargjald er gjald sem greitt er til prófunarstofu fyrir löggildingu vínmála.

                Vínmál. Vínmál er samheiti yfir hverskyns mælitæki sem notuð eru til að mæla skammta áfengs öls eða víns, hvort heldur er um að ræða sterkt eða létt vín, sem ætlað er til sölu.

                Þjónustugjald. Þjónustugjald er gjald sem prófunarstofa sem annast löggildingar á vínmálum greiðir Löggildingarstofunni. Greitt er fyrir hverja löggildingu sem prófunarstofan hefur framkvæmt.

 

III. KAFLI

Starfsleyfi.

3. gr.

                Prófunarstofur sem starfa við löggildingar vínmála skulu hafa gilt starfsleyfi frá Löggildingarstofunni. Prófunarstofur skulu sækja um slíkt leyfi til Löggildingarstofunnar. Til að öðlast starfsleyfi þarf prófunarstofan að uppfylla öll eftirfarandi skilyrði:

                A.            Prófunarstofan skal vera faggilt samkvæmt reglugerð um starfsemi faggiltra prófunarstofa nr. 351/93 Sé prófunarstofan hinsvegar með gilda faggildingu fyrir löggildingu rennslismæla má fella faggildingarsvið þetta undir þá faggildingu, enda sé löggilding vínmála innan gæðakerfis prófunarstofunnar. Ekki er gert ráð fyrir að sérstök faggildingarúttekt fari fram þegar prófanir á vínmálum hjá prófunarstofu hefjast en að gerð verði úttekt jafnhliða næstu árlegu úttekt faggildingaraðila á löggildingu rennslismæla. Ekki er gert ráð fyrir sérstöku faggildingagjaldi þegar löggildingar á vínmálum eru innan gæðakerfis fyrir löggildingar rennslismæla.

                B.            Prófunarstofan skal hafa í föstu starfi, tæknilegan stjórnanda. Tæknilegur stjórnandi ber tæknilega ábyrgð á framkvæmd löggildinga. Tæknilegur stjórnandi skal vera verkfræðingur eða tæknifræðingur og hafa þekkingu á rennslis- og rúmmálsmælingum og reynslu af löggildingum rennslismæla. Undanþágu má gera frá framangreindum skilyrðum um þekkingu og reynslu ef viðkomandi hefur menntun eða starfsreynslu og þjálfun sem faggildingardeild Löggildingarstofunnar telur fullnægjandi. Tæknilegur stjórnandi er ábyrgur fyrir öllum löggildingum sem prófunarstofan vinnur.

                C.            Prófunarstofan skal hafa í föstu starfi nægilegan fjölda fastra prófunarmanna með fullnægjandi þekkingu og reynslu til að annast löggildingar vínmála. Prófunarmaður skal hafa nægilega tæknikunnáttu til að annast löggildingar vínmála og meta ástand þeirra út frá prófunum eða skoðunum. Hann skal hafa reynslu af vinnu við vél- og rafeindabúnað. Tryggt skal að kunnáttu hans sé viðhaldið með endurmenntun. Hann skal kunna skil á þeim reglum sem viðskiptaráðherra setur varðandi vínmál.

                D.            Prófunarstofan skal hafa yfir að ráða þeim mælitækjum og búnaði sem nauðsynlegur er til að löggilda vínmál.

                E.             Prófunarstofan skal senda Löggildingarstofunni upplýsingar um allar löggildingar sem hún framkvæmir, sbr. 24. gr.

                F.             Prófunarstofan skal greiða þjónustugjald til Löggildingarstofunnar fyrir hverja löggildingu sem hún framkvæmir í samræmi við 25. gr.

                G.            Viðmiðunarmæligrunnar sem prófunarstofan notar í tengslum við löggildingu vínmála skulu hafa kvarðanir sem rekjanlegar eru til landsmæligrunna á Íslandi.

                H.            Prófunarstofan skal taka þátt í þeim samanburðarskoðunum og samvinnuverkefnum sem Löggildingarstofan ákveður og ber eigin kostnað vegna þess.

 

Leyfissvipting.

4. gr.

                Löggildingarstofan getur svipt prófunarstofu starfsleyfi, ef skilyrðum 3. gr. er ekki fullnægt eða fyrirmælum Löggildingarstofunnar ekki framfylgt.

                Starfsleyfi fellur samstundis niður ef prófunarstofan er svipt faggildingu sem löggilding vínmála fellur undir.

                Vanræki prófunarstofan hlutverk sitt og skyldur eða sýni af sér ítrekaða óvarkárni í starfi missir hún starfsleyfi sitt.

 

Bráðabirgðastarfsleyfi.

5. gr.

                Löggildingarstofan getur veitt prófunarstofu bráðabirgðastarfsleyfi. Prófunarstofa sem sækir um starfsleyfi í fyrsta sinn getur fengið bráðabirgðastarfsleyfi án þess að vera faggilt til að annast löggildingar vínmála, enda hafi hún komið upp nauðsynlegu gæðakerfi og verklagsreglum og staðist forúttekt faggildingardeildar Löggildingarstofunnar. Bráðabirgðastarfsleyfi getur aldrei gilt lengur en í eitt ár. Prófunarstofa sem æskir bráðabirgðastarfsleyfis skal sækja um það til Löggildingarstofunnar og gera grein fyrir á hvern hátt hún hyggst nota aðlögunartímann til að byggja upp starfsemi sína til að uppfylla öll þau ákvæði sem liggja til grundvallar fullu starfsleyfi.

 

IV. KAFLI

Veltivínmál.

6. gr.

                Veltivínmál er opið mæliker með 3 eða 6 cl málrúmtaki, sem velt er við til að tæma það.

Veltivínmál skal vera gert úr ryðfríu stáli, eða öðrum þeim málmi sem uppfyllir kröfur reglugerðar um efni og hluti sem ætlað er að snerta matvæli. Efnisstyrkur málsins skal nægjanlegur til að það aflagist ekki við meðhöndlun, né langvarandi notkun. Á því skal greinilega tilgreint rúmtak þess í cl. Gert skal ráð fyrir að hægt sé að slá í það löggildingartákn og ártal án þess að það aflagist.

                Veltivínmál skal vera með hringlaga botn með víkkandi þversniði upp að brún.

                Brúnir veltivínmáls skulu vera jafnar að ofan og án allra kanta þannig að hægt sé að slá í þær brúnarmerki, sbr. 2. gr.

                Veltivínmál með 3 cl rúmtaki skal hafa tvo mótlæga arma til þess ætlaða að halda málinu uppi þegar það er lagt ofan á glas sem verið er að skammta í. Armarnir skulu þannig gerðir að málið sitji stöðugt á glasi, hvort heldur sem málið er tómt eða fullt.

 

7. gr.

                Málrúmtak veltivínmáls miðast við að það sé fyllt að efstu brún.

 

8. gr.

                Leyfilegt hámarksfrávik við löggildingu er hið sama og leyfileg notkunarfrávik +/- 1 ml.

                Kerfisbundin misnotkun vikmarka er óheimil.

 

9. gr.

                Við löggildingu skal fara eftir verklagslýsingum sem Löggildingarstofa hefur samþykkt.

 

10. gr.

                Veltivínmál sem uppfylla framangreind ákvæði er heimilt að löggilda án undangenginnar tegundarviðurkenningar. Löggilding veltivínmáls fellur úr gildi ef frávik við notkun er meira en leyfilegt hámarksfrávik. Veltivínmál verða ekki endurlöggilt.

 

11. gr.

                Hafi löggildingahæfi veltivínmáls verið staðfest með prófun, sbr. ákvæði 10. gr., má löggilda það með því að löggildingartákn, sbr. 2. gr., ásamt faggildingarnúmeri prófunarstofu og ártali þess árs sem löggilt er á, er slegið í arm eða belg veltivínmáls. Einnig skal slá tvö brúnarmerki í málið, hvort gegnt öðru, til staðfestingar málrúmtaks, sbr. 7. gr. Merkið skal vera þannig lagað að glögglega megi sjá ef af því er sorfið.

 

V. KAFLI

Hálfsjálfvirkir vínskammtarar.

12. gr.

                Hálfsjálfvirkur vínskammtari er vínmál sem sett er á flöskustút og fyllist sjálfkrafa en tæmist handvirkt. Meginhlutar skammtarans eru stútur sem flaskan er sett við, mælihólf, lokar og armar sem notaðir eru við tæmingu hans. Við skömmtun áfengis úr flösku með vínskammtara er flaskan höfð á hvolfi og örmum sem eru neðan á honum þrýst upp.

                Hálfsjálfvirkur vínskammtari hefur loka sem stjórnar rennsli í og úr honum. Lokinn sem opnar fyrir rennsli í mælihólf skammtarans skal að jafnaði standa opinn og má aðeins loka fyrir rennsli úr flöskunni á meðan tæmt er úr mælihólfinu.

                Mælihólfið skal vera þannig gert að hægt sé að sjá hvort það er fullt eða ekki. Ekki má vera hægt að fylla mælihólfið nema armarnir séu í neðstu stöðu.

                Mælihólf hálfsjálfvirkra vínskammtara skulu hafa 3 eða 6 cl rúmtak. Á því skal rúmtak greinilega tilgreint í cl. Skammtarinn skal þannig gerður bæði hvað varðar efni og útlit, að hann breytist ekki, né aflagist í tímans rás né við notkun.

                Skammtarinn skal svo útbúin, að hægt sé að innsigla hann með sérstökum þræði eða vír og löggildingarhnapp eða löggildingarmiða. Eftir að skammtarinn hefur verið innsiglaður má ekki vera hægt að breyta neinu því sem haft getur áhrif á mælt magn eða mælinákvæmni, nema með því að rjúfa innsiglið.

                Skammtarinn skal vera vel þéttur og ekki má leka eða smita.

                Hálfsjálfvirkir vínskammtarar mega vera með teljara sem telur hversu oft er skammtað.

 

13. gr.

                Hálfsjálfvirka vínskammtara má aðeins nota við að skammta þunnfljótandi áfengistegundir með þurrefnisinnihald 5% eða minna, svo sem vodka, viskí, gin, romm, koníak og ákavíti.

 

14. gr.

                Leyfilegt hámarksfrávik við löggildingu er hið sama og leyfileg notkunarfrávik +/- 2 ml.

                Kerfisbundin misnotkun vikmarka er óheimil.

 

15. gr.

                Hálfsjálfvirkir vínskammtarar verða að hafa gilda tegundarviðurkenningu, frá aðila á þessu svið með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu, til þess að unnt sé að löggilda þá.

 

16. gr.

                Við löggildingu skal fara eftir verklagslýsingum sem Löggildingarstofan samþykkir.

 

17. gr.

                Hálfsjálfvirka vínskammtara skal endurlöggilda árlega. Löggilding skammtara fellur úr gildi ef frávik við notkun eru meiri en leyfilegt hámarksfrávik eða ef innsigli hefur verið rofið.

 

18. gr.

                Löggildingarhnappur sem nefndur er í 13. gr. skal merktur með löggildingartákni, faggildingarnúmeri prófunarstofu og ártali, samkvæmt fyrirmælum Löggildingarstofunnar.

 

19. gr.

                Hálfsjálfvirkur vínskammtari telst löggildingarhæfur sé hann með gilda tegundarviðurkenningu sbr. 16. gr. og hafi verið sýnt fram á með prófunum að frávik séu innan leyfilegra hámarksfrávika, má þá löggilda hann með því að innsigla hann og festa á hann löggildingarmiða eða löggildingarhnapp með þeim táknum sem upp eru talin í 2. gr.

 

VI. KAFLI

Aðrir áfengisskammtarar.

20. gr.

                Vínmál og vínskammtarar aðrir en þeir sem taldir eru upp í IV. og V. kafla hér að ofan, verða að hafa tegundarviðurkenningu frá viðurkenndum aðila á því sviði, aðilinn skal hafa staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu.

                Glös, könnur og þess háttar ílát sem notuð eru til að mæla og selja vín eða áfengt öl, án þess að skammtað sé í þau úr löggiltu vínmáli, skulu vera merkt með málrúmtaki og áfyllingarstriki sem sýnir hvar málrúmtaki þess er náð. Þau skulu auðkennd þeim sem er ábyrgur fyrir merkingunum. Ábyrgðaraðilinn skal hafa staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu og hafa tilskilin leyfi til merkinga á málrúmtaki glasa frá viðkomandi landi og sæta reglubundnu eftirliti.

                Froða skal ekki talin með í málrúmtaki.

                Hámarks leyfilegt frávik fyrir áfyllingarstrik er sem hér segir:

A.            Fyrir glös með málrúmtaki 5 cl eða minna         +/- 5%

B.            Fyrir málrúmtak yfir 5 cl       +/- 3%

                Áfyllingarstrik skulu ekki vera styttri en 10 mm.

 

VII. KAFLI

Mælióvissa.

21. gr.

                Prófunarstofan skal sýna fram á með útreikningum hver heildaróvissa við löggildingar vínmála er.

                Í verklagsreglum skal m.a. tekið fram hve mikið frávik má vera til þess að unnt sé að löggilda vínmálið.

                Prófunarstofan skal sýna fram á með 95% vissu (k = 2), að öryggisbil mælinga sé innan heimilaðra hámarksfrávika.

 

Afturköllun löggildingar.

22. gr.

                Löggilding vínmáls fellur úr gildi ef frávik við notkun er meira en heimilað hámarksfrávik.

 

VIII. KAFLI

Skýrslugerð.

23. gr.

                Prófunarstofa skal hafa aðgengileg fyrir Löggildingarstofuna frumrit prófunarskýrslna og löggildingavottorða. Frumritin skulu undirrituð af eiganda vínmáls eða fulltrúa hans svo og prófunarmanni sem ábyrgur er fyrir verkinu.

                Samantekt um niðurstöður löggildinga skal skila til Löggildingarstofunnar á 6 mánaða fresti. Upplýsingunum skal skila á því formi sem Löggildingarstofan segir til um. Eftirfarandi skal í það minnsta koma fram á samantektinni.

                Fjöldi löggiltra vínmála og gerð þeirra.

Hve marga vínskammtara þurfti að stilla og hve mikið frávik var að meðaltali frá heimiluðu hámarksfráviki.

                Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram í prófunarskýrslum sem lagðar eru til grundvallar löggildingu:

Nafn, kennitala og heimilisfang verkbeiðanda.

Fjöldi vínmála sem löggilt hafa verið fyrir hvern verkbeiðanda.

Frávik vínmála.

                Þessar upplýsingar skulu vera aðgengilegar Löggildingarstofunni.

                Árlega skal leggja fram skýrslu þar sem tölfræðilegar upplýsingar um löggildingar liðins árs eru lagðar fram. Tölfræðilegar upplýsingar og framsetning þeirra skulu vera samkvæmt fyrirmælum Löggildingarstofunnar.

 

IX. KAFLI

Þjónustugjald.

24. gr.

                Ráðherra er, í samræmi við 18. gr. laga nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, heimilt að ákveða í gjaldskrá Löggildingarstofunnar þjónustugjald fyrir löggildingu veltivínmála og vínskammtara er falla undir reglugerð þessa.

 

X. KAFLI

Gildistaka.

25. gr.

                Reglugerð þessi um vínmál er sett skv. 5. gr. laga nr. 100/1992 um vog, mál og faggildingu frá 16. desember 1992 til að taka gildi við birtingu hennar og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

 

Viðskiptaráðuneytinu, 30. september 1996.

 

Finnur Ingólfsson.

Halldór J. Kristjánsson.

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica